• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Nov

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar umræðunni um frjálst flæði launafólks frá ríkjum EES

Í vor ritaði formaður Verkalýðsfélags Akraness hér á heimasíðu félagsins að það væri svartur dagur hjá íslenskum launþegum þegar Alþingi Íslendinga samþykkti að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum EES.  Einnig ritaði formaður félagsins að það væri köld vatnsgusa sem íslenskir launþegar fengu frá Alþingi Íslendinga og það á sjálfan baráttudag launafólks 1. maí, en þá tóku lögin gildi.

Verkalýðsfélag Akraness varaði stórlega við því að takmörkunum yrði aflétt og gerði það m.a. í umsögn til félagmálanefndar Alþingis. Á það var því miður ekki hlustað.   Einnig bárust varnaðarorð frá stéttarfélögum vítt og breitt um landið um að aflétta ekki takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES. Halda alþingismenn að stéttarfélögin hafa verið að vara við frjálsri för launafólks frá ríkjum EES að ástæðulausu?  Nei, aldeilis ekki. Stéttarfélögin sáu einfaldlega í hvað stefndi og áhyggjur stéttarfélagana hafa því miður ræst að langstærstum hluta.

Hvað var það sem Verkalýðsfélag Akraness hræddist við að takmörkunum yrði aflétt?  Jú, það var fyrst og fremst það að því markaðslaunakerfi sem við höfum haft hér við lýði undanfarin ár yrði stórlega ógnað með óheftum innflutningi á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu.  Einnig óttaðist félagið að atvinnurekendur myndu í stórauknum mæli sækjast eftir ódýru erlendu vinnuafli á kostnað íslenskra launþega.  Því til viðbótar taldi félagið að íslensk stjórnvöld væru á engan hátt tilbúin til þess að taka við því gegndarlausa innstreymi á erlendu vinnuafli sem klárlega myndi fylgja í kjölfarið ef takmörkunum yrði aflétt.  Að lokum gagnrýndi félagið það að í nýju lögunum væri verið að takmarka eftirlit stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli og færa það nánast alfarið til Vinnumálastofnunar.  Félagið sá að Vinnumálastofnun hafði ekki þann mannskap sem þarf til að sinna þessu eftirliti og ekki heldur þá sérþekkingu á íslenskum kjarasamningum sem þarf til. Sú þekking liggur að sjálfsögðu hjá stéttarfélögunum.

Margt af því sem Verkalýðsfélag Akraness varaði félagsmálanefnd Alþingis við hefur ræst eftir að lög um frjálsa för launafólks frá ríkjum EES voru sett þann 1. maí sl.

Það liggur fyrir að hart er sótt að þeim markaðslaunum sem nú eru greidd hér á landi.  Það bendir margt til þess að íslenskt verkafólk sé byrjað að missa vinnuna vegna þeirrar gríðarlegu sprengingar sem orðið hefur á innflutningi á erlendu vinnuafli til landsins eftir 1. maí, eins dæmin sýna hér á Akranesi.  Inní landið streymir ódýrt vinnuafl frá bláfátækustu ríkjum Evrópu og afar erfitt fyrir stéttarfélögin að sinna því eftirlitshlutverki sem þeim er í raun skylt að gera.  Allt eru þetta blákaldar staðreyndir sem ekki er hægt að þræta fyrir.  Það er mat formanns félagsins að þetta sé einfaldlega rétt að byrja.  Félagsleg undirboð eiga eftir að aukast enn frekar þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði.  Formaður félagsins óttast það einfaldlega að íslenskt verkafólk verði undir í baráttunni við þau félagslegu undirboð sem fylgja óheftum innflutningi á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu.

Nú um áramótin munu Rúmenía og Búlgaría ganga inní Evrópusambandið og ætla íslensk stjórnvöld virkilega að heimila þessum bláfátækustu ríkjum Evrópu óheftan aðgang að íslenskum vinnumarkaði? Alþingi þarf að vera búið að taka afstöðu til þess í desember.  Ef það gerist þá yrði það algert stórslys.  Við ráðum nú þegar ekki við þá sprengingu sem orðið hefur á innflutningi erlends vinnuafls frá aðildarríkjum EES á síðustu mánuðum, hvað þá að hleypa launafólki frá þessum tveimur fátækustu ríkjum Evrópu inn á íslenskan vinnumarkað.

Það er alveg klárt að það kraumar í mörgum íslenskum launþegum vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað eftir að frjáls för launafólks var heimiluð 1. maí.  Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki mælt með því að landinu verði lokað fyrir erlendu vinnuafli, síður en svo, við þurfum á erlendu vinnuafli að halda til að geta haldið tannhjólum atvinnulífsins gangandi.  Hins vegar vill Formaður Verkalýðsfélags Akraness að við Íslendingar getum stjórnað flæði erlends vinnuafls sjálfir eftir ástandi á atvinnumarkaði hverju sinni.  Þannig var það fyrir 1. maí en á óskiljanlegan hátt ákvað Alþingi Íslendinga að aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES þvert á vilja stéttarfélagana.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image