• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Nov

Alþýðusamband Íslands studdi að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt þvert á vilja fjölda stéttarfélaga

Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnsyni, að ASÍ og SA  hafi sameiginlega stutt það að takmarkanir á frjálsri för launafólks frá EES yrðu afnumdar frá 1. maí sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir undrun sinni á því að ASÍ skuli hafa stutt það að takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt.  Sú undrun byggist á því að fjöldi stéttarfélaga varaði stórlega við því að takmörkunum yrði afétt.  Reyndar áttar formaður VLFA sig ekki alveg á því hver afstaða ASÍ var í þessu máli.  Í fréttum 20. apríl 2006 er haft orðrétt eftir Halldóri Grönvold:  

"Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir það hreint og skýrt að stjórnvöld hefðu átt að nýta heimild til að fresta gildistöku þessara laga svo að það mætti undirbúa þetta mál betur"

Ef fréttin er rétt er greinilegt að aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og framkvæmdastjórinn eru ekki að tala sama máli.

En skoðum hvaða stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt. Þau voru eftirfarandi: Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, AFL – Starfsgreinafélag Austurlands, Félag járniðnaðarmanna, Efling - Stéttarfélag, Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Iðnnemasamband Íslands og Landssamband Samiðnar. 

Í ljósi þess að öll þessi stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt þá spyr formaður Verkalýðsfélag Akraness hvernig í ósköpunum hægt sé að segja að sátt hafi verið á milli aðila vinnumarkaðarins um að aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum EES eins og haldið hefur verið fram. Það verður að segjast alveg eins og er að vinnubrögð ASÍ eru stórfurðuleg í ljósi þess að fjöldi aðildarfélaga ASÍ varaði stórlega við því að takmörkunum yrði aflétt og spurning er hvaða heimild ASÍ hafði til að styðja þennan gjörning þvert á vilja fjölda aðildarfélaga sinna.

En skoðum vegna hvers stéttarfélögin voru á móti því að takmörkunum yrði aflétt og eru hér að neðan bútar úr ályktum frá hinum ýmsu félögum.

Ályktun frá aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness 

"Aðalfundurinn telur að því markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

 

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta"

Fjölmennur félagsfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti eftirfarandi ályktun 27. maí sl.

"Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með að eftir óvandaðan undirbúning af hálfu stjórnvalda á nú að keyra þetta stórmál í gegnum þingið á örfáum dögum.  Efling-stéttarfélag hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að stéttarfélögunum sé áfram gert kleyft að fylgjast með beinum hætti með ráðningarkjörum útlendinga hjá fyrirtækjum hér á landi. Nýleg dæmi sýna að til eru atvinnurekendur sem þverbrjóta hér lög og kjarasamninga á vinnumarkaði. Frjálst flæði vinnuafls við þessar aðstæður mun hafa þau áhrif að þrýsta kjörum og réttindum launafólks á vinnumarkaði niður á við."

Ályktun frá Verkalýðsfélagi Borgarness

"Fundurinn bendir á að íslensk stjórnvöld eru illa í stakk búin til að taka á vandamálum sem án vafa mun fylgja þessari opnun nú. Aukið flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur-Evrópu kemur einnig til með að lækka markaðslaun í landinu og grafa undan íslensku velferðarkerfi."

 

Ályktun frá Verkalýðfélagi Húsavíkur

"Verkalýðsfélag Húsavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við að innlendur vinnumarkaður verði opnaður 1. maí fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu. Verkalýðsfélag Húsavíkur telur íslenskan vinnumarkað ekki tilbúinn til að taka við auknu flæði launafólks 1. maí. Þess vegna telur félagið eðlilegt að fresta gildistöku reglnanna um nokkur ár og tíminn notaður til að setja skýrar reglur sem kveði á um ábyrgð."

 
Ályktun AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands

Ársfundur trúnaðarmanna AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands skorar á stjórnvöld að fresta gildistöku reglna um frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkjum EB um allt að 3 ár. Fundurinn bendir á að reynslan hefur sýnt að íslensk löggjöf er ekki tilbúin til að taka á málum sem upp hafa komið og í ljósi mikillar þenslu er hætt við að aukið, eftirlitslaust, flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur Evrópu, myndi grafa undan grundvallaratriðum velferðarkerfisins.

1.maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands.

Opnun vinnumarkaðar

Verkalýðssamtökin og atvinnurekendur hafa deilt hart um hvort við erum að keyra hjól atvinnulífsins of hratt með erlendu vinnuafli með ófyrirséðum afleiðingum. Mörg rök hníga að því að ekki hafi verið farið nógu varlega. Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að nýta ekki aukinn aðlögunarfrest gagnvart nýjum löndum Evrópusambandsins orkar mjög tvímælis. Hún ein og sér getur þýtt það að mun erfiðara verði að fylgjast með launakjörum útlendinga hér á landi. Að stjórnvöld skuli ekki hafa fyrirvara gagnvart eftirliti með notendafyrirtækjum og þjónustusamningum býður hættunni heim. Opinn vinnumarkaður veldur því að erfiðara er að standa vörð um réttindi og kjör launafólks. Það er staðreynd að nokkur hópur atvinnurekenda notar tækifærið til að brjóta á réttindum launafólks. Í skjóli leyndar þrífast mannréttindabrotin. Áhrifin eru þegar farin

að segja til sín með lækkandi launum í vissum atvinnugreinum. Gegn því verður barist með oddi og egg.

Ályktun um opnun vinnumarkaðar 12.4 2006

 

"Fundur í Félagi járniðnaðarmanna haldinn þriðjudaginn 11. apríl varar eindregið við því að innlendur vinnumarkaður verði galopnaður fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu þann 1. maí nk.

Með því að falla frá skilyrði um atvinnuleyfi má búast við að fjöldi erlendra starfsmanna streymi á innlendan vinnumarkað. Sumir atvinnurekendur munu eflaust nýta sér þessa aðstöðu til að koma sér upp ódýru vinnuafli og pressa á lækkun þeirra launa sem hafa verið á vinnumarkaðnum. Hætta er á að hömlulaust framboð á starfsfólki frá þessum löndum ýti undir gerviverktöku, lækkun markaðslauna og atvinnuleysi.

Fundurinn telur að forsendur fyrir opnun vinnumarkaðar séu að lögfest verði ábyrgð fyrirtækja sem nota erlent starfsfólk varðandi kjör og skattskil og að settar verði skorður við gerviverktöku".

 

 Frétt sem birtist í fréttablaði Félags iðn- og tæknigreina í apríl 2006

" Eins og fram hefur komið í fréttum mun félagsmálaráðherra opna á frjálsa för launafólks sem kemur frá nýjustu aðildarríkjum Evrópusambandsins þann 1. maí n.k. Ljóst er að ekki náðist fram nema hluti þeirra krafna sem verkalýðshreyfingin setti fram og því líklegt að erfiðir tímar sér framundan. Mjög erfitt verður að hafa eftirlit með innflutningi á vinnuafli og sérstaklega bagalegt að verkkaupendum sé ekki gert skylt að ganga úr skugga um að verktakar fari að íslenskum lögum og reglum á vinnumarkaði. Hætt er við mikilli óánægju og jafnvel árekstrum ef þrengir að á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að erfitt verður að verja þau launakjör sem menn hafa náð umfram kjarasamninga.

Félag iðn- og tæknigreina lagði mikla áherslu á að ASÍ legðist gegn frumvarpinu ef ekki næðist að tryggja að áherslur verkalýðshreyfingarinnar næðu fram að ganga."

Þessu til viðbótar sendu nokkur stéttarfélög umsagnir til félagsmálanefndar Alþingis Þar sem þau vöruðu eindregið við því að takmörkunum yrði aflétt.  Eins og hefur komið fram er óskiljanlegt að ASÍ skuli hafa studd það að takmörkunum yrði aflétt í ljósi þeirra staðreynda að fjöldi stéttarfélaga varaði við því að takmörkunum yrði aflétt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image