• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jun

Ríkisstjórnin hafnar nýju láglaunaskattþrepi, hins vegar vafðist ekki fyrir ríkisstjórninni á sínum tíma að afnema eignar-og hátekjuskatt

Á mbl.is í dag er haft eftir Hannesi G. Sigurðssyni hjá Samtökum atvinnulífsins að líkur séu á að samkomulag náist um hærri greiðslu en sem nemur 12 þúsund krónum í svo kölluðum taxtaviðauka.  Hversu mikið sú hækkun mun nema kom ekki fram í fréttinni.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur látið hafa það eftir sér að 15 þúsund króna hækkun á taxtaviðauka sé algert lágmark hvað varðar þann þátt samkomulagsins. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þarf að tryggja þeim sem starfa í tímamældri ákvæðisvinnu sambærilega hækkun og boðið er í taxtaviðaukanum.  Einnig þarf að tryggja að umsamdar viðbótargreiðslur, t.d afkasta- eða frammistöðutengdir bónusar skerðist ekki, þó svo að ekki sé getið um þær viðbótagreiðslur í kjarasamningum.  Þetta er lykilatriði til að hægt verði að ganga að tilboði Samtaka atvinnulífsins. 

Reyndar er formaður félagsins ekki ýkja svartsýnn á að það náist að lagfæra það tilboð sem SA hefur lagt fram þannig að verkalýðshreyfingin verið nokkuð sátt.  Hins vegar hræðist formaður félagsins mun meira að aðkoma ríkisstjórnarinnar verði ekki með þeim hætti sem verkalýðshreyfingin geti sætt sig við.  Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur hafnað nýju láglaunaskattþrepi og einnig hafa þeir hafnað því alfarið að endurskoða eftirlaunafrumvarpið sem samþykkt var 2003 við litla hrifningu hjá meginþorra þessa þjóðar.  Enda eru eftirlaun æðstu ráðamanna þessarar þjóðar ekki í neinum takti við það sem gerist hjá hinum almenna launamanni.  Ekki vafðist það fyrir núverandi ríkisstjórn að afnema hátekjuskattinn og eignarskattinn.  Hins vegar tók það  ekki langan tíma hjá ríkisstjórninni að hafna verkalýðshreyfingunni um nýtt skattþrep fyrir lægstu launin.  Það er rétt að minna á að það er einungis tæpt ár í alþingiskosningar og íslenskt verkafólk verður ekki búið að gleyma þeirri höfnun og einnig verður íslenskt verkafólk ekki búið að gleyma því hvernig núverandi ríkisstjórn lagfærði skattkerfið fyrir eigna- og hátekjufólk. 

13
Jun

Aðkoma ríkisstjórnarinnar er nauðsynleg eigi samkomulag að nást við Samtök atvinnulífsins

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir það með forseta ASÍ að það séu vonbrigði að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um nýtt skattþrep fyrir lægri tekjur.  Einnig eru það gríðarleg vonbrigði að ekki skuli vera vilji hjá ríkisstjórninni til að endurskoða eftirlaun ráðherra, þingmanna og æðstu ráðamanna, en eftirlaun þessara aðila eru ekki í neinum takt við það sem almennt gerist í þessu þjóðfélagi.

Einnig er rétt að minna enn og aftur á að þingfarakaup þingmanna hafi hækkað frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 2006 um 114%, en lágmarkslaun verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði hækkuðu um 70% á sama tímabili.  Þingfarakaupið var árið 1998 220.168 en er í dag 471.427 og hefur því hækkað um 251.259 krónur eða um 114% frá árinu 1998.  Lágmarkslaun voru árið 1998 63.399 en eru í dag 108.000 og hafa því hækkað um 44.601 krónur eða sem nemur 70% frá árinu 1998.

Með öðrum orðum þá hefur þingfarakaup alþingismanna hækkað tæplega sexfalt umfram lágmarkslaun hjá verkafólki frá árinu 1998.  Því stenst það alls ekki eins og einstaka þingmenn hafa haldið fram að lágmarkslaun hafi hækkað umtalsvert umfram önnur laun á síðustu árum.  Einnig sést á þessum samburði að það eru ekki verkamenn á hinum almenna vinnumarkaði sem bera ábyrgð á stigvaxandi verðbólgu hér á landi.

Aðkoma ríkisstjórnar að því samkomulagi sem verkalýðshreyfingin er hugsanlega tilbúin til að gera við Samtök atvinnulífsins er bráðnauðsynleg og sú aðkoma þarf að vera í þeim anda sem verkalýðhreyfingin hefur nú þegar kynnt fyrir talsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Það er einnig alveg ljóst að mati formanns félagsins að það tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram nægir ekki til að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust.  Til dæmis verður að koma hærri hækkun á launatöxtum en 12 þúsund krónur á mánuði.  Einnig hafa Samtök atvinnulífsins boðið 6% hækkun handa því fólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum, en 6% hækkun handa starfsfólki sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu er lægri en 12 þúsund krónurnar sem SA hefur boðið að komi ofan á launataxtana.  Það verður að vera skýlaus krafa að starfsfólk sem starfar við tímamælda ákvæðisvinnu fái sambærilega hækkun og verið er að bjóða í taxtaviðaukanum.

Það er engum vafa undirorpið að það verður erfitt að ná þessu samkomulagi saman ef ríkisvaldið verður ekki tilbúið að koma mjög myndarlega að þessu samkomulagi.  Eins er það mat formanns félagsins að það verði að gera þó nokkrar lagfæringar á því tilboði sem SA hefur lagt fram til að verkalýðshreyfingin geti gengið að þessu samkomulagi.

Með því að smella hér er hægt að sjá minnisblaðið sem verkalýðshreyfingin hefur afhent fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

12
Jun

Tvö sumarhús laus til leigu vikuna 16. júní til 23. júní

Félagsmenn athugið það eru tvö laus sumarhús sem félagið er með til útleigu fyrir félagsmenn. Um er að ræða vikuna 16. júní til 23. júní (næsta föstudag).  Það er annars vegar raðhús að Laufásvegi 31 í Stykkishólmi og hins vegar orlofshús nr. 1 að Eiðum.  Nú gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær.  Hægt er að skoða myndir frá þessum stöðum með því að smella á orlofshús.

11
Jun

Sjómenn innilega til hamingju með daginn!

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness óskar öllum sjómönnum vítt og breytt um landið og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.  Til fróðleiks má geta þess að það eru 116 sjómenn í sjómannadeild félagsins.  Formaður deildarinnar er Hjörtur Júlíusson. 

09
Jun

Átt þú rétt á orlofsuppbót ?

Starfsfólk sem áunnið hefur sér fullan orlofsrétt og er í starfi síðustu vikuna í apríl eða fyrstu vikuna í maí á rétt á orlofsuppbót. Fullt starf á orlofsárinu er 45 unnar vikur eða 1800 vinnustundir. Fyrir hlutastarf eða starfstíma skal greiða hutfallslega. Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu þá er meginreglan sú að hann þarf að hafa náð 12 vikna samfeldu starfi til að eiga rétt á hlutfallsuppbót. Þetta er
þó breytilegt eftir kjarasamningum

Orlofsuppbót skal greiða þegar starfsmaður fer í sumarleyfi, en í síðasta lagi 15. ágúst.  Samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga skal þó greiða uppbótina 1. maí og samkvæmt samningum ríkisins 1. júní. Margir aðrir launagreiðendur greiða uppbótina 1. júní.

Hægt er að sjá hver orlofsuppbótin er eftir kjarasamningum með því að smella á meira.

Samningur SA og Starfsgreinasambandsins  22.400 kr.

 

Akraneskaupstaður og Ríkissamningur          22.400 kr.

Íj, Klafi, Fang og Norðurál                               99.605 kr.

 

Kjarasamningur Samiðnar (trésmiðir)           22.400 kr.

07
Jun

12 þúsund króna hækkun er einfaldlega of lítið

Starfsgreinasamband Íslands hélt formannafund í gær.  Einungis eitt mál var til umræðu á fundinum en það var tilboð sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram til hækkunar á launatöxtum. Mun tilboðið taka gildi 1. júlí ef samkomlag næst.  Með þessu tilboði vilja SA reyna að forða því að kjarasamningum verði sagt upp í haust. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er hlynntur því að reyna eftir fremsta megni að ná samkomulagi við Samtök atvinnulífsins.  En til að það geti orðið að veruleika þarf að þroska þessar hugmyndir sem SA hefur lagt fram. 

Það er mat formanns félagsins að 12 þúsund króna hækkun á launatöxtum handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði sé einfaldlega of lág.  Rétt er að minna á að kjarasamningur sem gerður var við Starfsgreinasambandið 7. mars 2004 og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf langt um minna en aðrir samningar sem síðar voru gerðir. 

Hvað var sagt við verkafólk þegar kjarasamningurinn var gerður 7. mars 2004?  Jú, því var sagt að með því að gera kjarasamning til fjögurra ára og hafa kauphækkanir á samningstímanum hóflegar þá myndi það leiða af sér lága verðbólgu. Það myndi tryggja verkafólki kaupmáttaraukningu en ekki kaupmáttarskerðingu.

Raunin varð hins vegar sú að flest allir hópar sem sömdu á eftir Starfsgreinasambandinu sömdu um langtum meira heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fékk út úr sínum kjarasamningi.  Þessu til viðbótar hefur verðbólgan verðið langt fyrir ofan viðmið Seðlabankans sem er 2.5%. Nú er verðbólgan 7.6%.  Það liggur fyrir að stór hluti þess fólks sem tekur laun eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins hefur orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá 7. mars 2004.   Það er einnig alveg morgunljóst að verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði verður ekki kennt um þann óstöðugleika sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Ef það er einhver hópur í þessu samfélagi sem þarf að fá leiðréttingu á sínum launakjörum þá er það verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.  Það verður ekki lengur liðið að það eitt og sér sé látið viðhalda stöðugleikanum í þessu landi og sér í lagi þegar hvorki íslensk stjórnvöld né aðrir, eru tilbúnir að axla þá ábyrð.

Eins og áður sagði þá er formaður félagsins hlynntur því að reynt verði til þrautar að ná samkomlagi við Samtök atvinnulífsins.  Til að samkomulag náist verða Samtök atvinnlífsins þó að koma með hærri taxtahækkanir.  Einnig verður ríkisvaldið að koma að þessu samkomulagi.  T.d. á að gera þá skýlausu kröfu á ríkisvaldið að það hækki viðmið vaxtabóta til samræmis við hækkun á fasteignamati.  Hækkun á fasteignamati mun leiða til þess að vaxtabætur til fólks mun stórskerðast.

Rétt er að minna á að forsendur kjarasamnings SGS eru kolbrostnar á það bæði við verðbólguþáttinn og einnig þáttinn er lúta að kostnaðarhækkunum annarra kjarasamninga.  En það liggur ljóst fyrir að kostnaðarhækkanir annarra kjarasamninga eru langt yfir því sem kjarasamningur SGS gaf.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image