• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
May

Endurúthlutun orlofshúsa sumarið 2006

Upplýsingar varðandi endurúthlutun má finna með því að smella hér.

04
May

Formaður félagsins fundaði með starfsmönnum þvottahúss Sjúkrahússins

Forsvarsmenn Sjúkrahúss Akraness hafa tekið ákvörðun um að leggja niður þvottahús sjúkrahússins í þeirri mynd sem það hefur verið starfrækt á liðnum árum og áratugum. Fram hefur farið útboð á rekstri þvottahússins og hafa forsvarsmenn sjúkrahússins gengið frá samkomulagi við fyrirtæki hér í bæ sem mun sjá um allan þvott spítalans og mun rekstur þvottahússins í núverandi mynd hætta alfarið þann 1. september næstkomandi.

Formaður fundaði með starfsmönnum þvottahússins í morgun þar sem farið var yfir þau réttindamál sem lúta að starfsmönnunum. Það jákvæða í þessu máli er að stofnuninni hefur tekist að skaffa flestum þeim starfsmönnum sem starfa í þvottahúsinu vinnu annars staðar í stofnuninni.

Reyndar er mat formanns félagsins að í hvert sinn sem fyrirtæki leita hagræðingar hjá sér þá er eins og ekkert annað komi til greina en að hagræða í ræstingu, þvottahúsi eða mötuneyti. Alltaf verður starfsfólk í þessum störfum fyrir einhvers konar skerðingu eða skakkaföllum þegar um hagræðingar í rekstri er að ræða.

02
May

Met þátttaka í 1. maí hátíðarhöldunum á Akranesi

Met þátttaka var í hátíðarhöldum á 1. maí á Akranesi, en um 220 manns komu og tóku þátt í hátíðarhöldum sem stéttarfélögin buðu uppá.  Í fyrra voru um 150 manns sem tóku þátt í hátíðarhöldunum þannig að hér er um mjög ánægjulega fjölgun um að ræða.

Aðalræðumaður dagsins var Gunnar Páll Pálsson formaður VR.  Einnig var boðið uppá tónlistaratriði, upplestur og kór Íslenska járnblendifélagsins flutti nokkur lög.  Eins og áður sagði var um met þátttöku að ræða og um tíma leit út að ekki væri sæti fyrir alla fundargesti en með því að fjölga borðum og stólum þá bjargaðist það farsællega. 

Stéttarfélögin buðu hátíðargestum uppá kaffiveitingar sem 4. flokkur kvenna sá um með glæsibrag.

01
May

Velferð fyrir alla !

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum til hamingju með daginn.  Félagið hvetur félagsmenn sína til að taka þátt í hátíðardagskránni.  Dagskráin er eftirfarandi:

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40 kl. 14:00 og genginn hringur á Neðri-Skagann.  Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

Ræðumaður dagsins er Gunnar Páll Pálsson formaður VR

Einnig verður boðið uppá hljóðfæraleik, upplestur og söng

Kaffiveitingar

28
Apr

Svartur dagur íslenskra launþega staðfestur með lögum frá Alþingi í dag.

Í dag afgreiddi Alþingi Íslendinga frumvarp til laga sem félagsmálaráðherra lagði fram um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins. Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór og fylgdist með annarri og þriðju umræðu umræddra laga og þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fór í kjölfarið. Fram kom í máli þingmanna sem tóku til máls að umrædd lög hefðu verið gerð í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að myndast hafi gríðarleg gjá á milli Alþýðusambands Íslands og aðildarfélaga þess sé tekið mið af þeim umsögnum sem fjöldi stéttarfélaga skilaði inn til félagsmálanefndar Alþingis.  Það er orðið með öllu óþolandi hvernig ASÍ afgreiðir stór mál nánast einhliða og án þess kanna hver sé afstaða stéttarfélaganna vítt og breitt um landið.  Nægir þar að nefna mál eins endurskoðun á kjarasamningum sem fram fór í desember 2005, starfsmannaleigufrumvarpið og nú síðast málefni um frjálst flæði launafólks frá aðildarríkum  ESS .  Eitt er víst að ekki var haft samband við Verkalýðsfélag Akraness hvað varðar þessi veiga miklu mál, hvorki af ASÍ eða Starfsgreinasambandi Íslands.   

Þingmenn bentu á að forsenda fyrir því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram með þessum hætti hafi verið umrætt samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Einnig kom fram í máli þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Péturs Blöndal, að ekki aðeins hafi ASÍ verið sammála fyrirliggjandi frumvarpi heldur sagði hann að ASÍ og Samtök atvinnulífsins hefðu hreinlega búið þetta frumvarp til. Ef satt reynist, verður það að teljast afar óeðlilegt í ljósi andstöðu fjölda stéttarfélaga við þetta frumvarp.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að sá gríðarlegi áhugi einstakra forustumanna ASÍ á inngöngu í Evrópusambandið hafi valdið því að ASÍ var fylgjandi þessu frumvarpi, því frjálst flæði launafólks er í samræmi við inngöngu í Evrópusambandið.  Það er ótrúlegt að ASÍ hafi ekki beitt sér að fullu afli gegn þessu frumvarpi í ljósi þess að stéttarfélög telja frumvarpið ganga á hagsmuni íslenskra launþega.  Það er einnig mat formanns félagsins að ef ASÍ hefði beitt sér að fullu afli í því að fá stjórnvöld til framlengja takmörkunum á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum ESS þá er allt eins líklegt að íslensk stjórnvöld hefðu gert það.  

Fjöldi þingmanna vitnaði í umsagnir stéttarfélaga vítt og breitt um landið og voru þær umsagnir í algjöru ósamræmi við forystu Alþýðusambands Íslands. Í umsögnum sem félagsmálanefnd Alþingis barst frá stéttarfélögum kom fram að þau legðust gegn því að takmörkunum yrði aflétt og hér er um töluverðan fjölda stéttarfélaga að ræða eins og t.d. Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Afl - Starfsgreinafélag Austurlands og Samiðn. Einnig vitnuðu þingmenn í andstöðu við fyrirliggjandi frumvarp frá Eflingu og einnig hinar ýmsu ályktanir frá stéttarfélögum. Þess vegna er það formanni Verkalýðsfélags Akraness með öllu óskiljanlegt þegar talað er um að sátt ríki á meðal aðila vinnumarkaðarins.

 Það sem aðallega kom fram í þessum umsögnum var að stéttarfélögin telja íslenskan vinnumarkað og íslensk stjórnvöld ekki tilbúin til að taka við því aukna flæði erlends vinnuafls frá hinum nýju aðildarríkjum EES. Það kom líka fram í umsögnunum að því markaðslaunakerfi sem væri búið að vera við lýði á undanförnum árum og áratugum væri ógnað með opnun íslensks vinnumarkaðar á þennan hátt. Til dæmis kom fram í umsögn Verkalýðsfélags Húsavíkur að félagið hefði heimildir fyrir því að pólskir verkamenn væru tilbúnir að koma og vinna í ferðaþjónustu fyrir einungis 300 kr. á tímann. Skemmst er að minnast þess þegar Verkalýðsfélag Akraness leiðrétti launakjör pólskra verkamanna sem störfuðu hjá Spútnik bátum. Voru þeir einungis með 350 kr. á tímann og unnu allt upp í 270 tíma á mánuði. Þetta er meðal þeirra atriða sem stéttarfélögin hafa verið að benda á. Með frumvarpi sem samþykkt var frá Alþingi í dag er einnig verið að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaga stórlega. Fram hefur komið í máli varaformanns Eflingar, Guðmundar Þ. Jónsson að tímakaup byggingarverkamanna hefur lækkað á síðasta ári um allt að 20% vegna aðkomu erlends vinnuafls inn á íslenskan vinnumarkað. Með öðrum orðum þá er það nákvæmlega þetta sem Verkalýðsfélag Akraness hræðist stórlega, þ.e. að íslenskir launþegar muni verða fyrir skerðingu á sínum launum vegna undirboða sem munu fylgja stórauknu framboði erlends vinnuafls frá láglaunasvæðum eins og Póllandi, Litháen, Slóvakíu og hinum aðildarríkjum EES. Stéttarfélögin sem veittu umsögn til félagsmálanefndar vildu að íslensk stjórnvöld nýttu sér þær heimildir sem þau höfðu til að framlengja takmarkanir á frjálsu flæði, sum til eins árs og önnur allt til ársins 2011 eins og heimilt var að gera. Vildu félögin að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins myndu nýta þann tíma til að búa til það regluverk sem til þarf vegna aðkomu erlends vinnuafls að íslenskum vinnumarkaði.

Það er íslenskum stjórnvöldum til vansa að hafa ekki nýtt þann tíma sem þau hafa haft á síðastliðnum tveimur árum til að búa sig undir aðkomu erlends vinnuafls að íslenskum vinnumarkaði en engar rannsóknir um afleiðingar gildistöku laga þessara eru til. Það er líka íslenskum stjórnvöldum til vansa að leggja frumvarpið fram nánast örfáum mínútum áður en þau eiga að taka gildi. Einnig er þeim aðilum sem bera ábyrgð á frumvarpi þessu og á ég þar við heildarsamtök íslenskra launþega, Alþýðusambands Íslands, til vansa að hafa gert samkomulag við Samtök atvinnulífsins og íslensk stjórnvöld staðið að því með þessum hætti án samráðs við fjöldann allan af stéttarfélögum vítt og breitt um landið.

26
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness samþykkti ályktun um frjálsa för launafólks frá EES

Aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness var að ljúka rétt í þessu.  Fundur gekk mjög vel og var mæting alveg þolanleg.  Endurskoðandi félagsins fór yfir reikninga félagsins og kom fram í máli endurskoðanda að afkoma félagsins væri mjög góð.

Ný reglugerð sjúkrassjóðs var samþykkt og mun hún klárlega veita félagsmönnum mun betri og víðtækari réttindi í veikinda og slysatilfellum heldur en áður hafa þekkst hjá félaginu.

Aðalfundur félagsins samþykkti  ályktun um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkum EES.  En landið mun galopnast fyrir launafólki frá nýju aðildarríkjum EES ef frumvarp félagsmálaráðherra verður að veruleika.

Ályktunina er hægt að lesa með því að smella á meira

Ályktun um frjálst flæði launafólks 1. maí

Akranesi 26.apríl 2006

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga að afnema alls ekki takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES eins og fyrirhugað er að gera samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra.

Aðalfundurinn telur  það ámælisvert að íslensk stjórnvöld hafi ekki látið gera úttekt eða rannsókn á því hvaða áhrif erlent vinnuafl hefur haft á íslenskan vinnumarkað áður en tekin er ákvörðun um það að galopna landið fyrir launafólki frá nýjum aðildarríkjum EES. 

Aðalfundurinn telur að því markaðlaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi fumvarpi félagsmálaráðherra.  Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og  hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta.

Það verða kaldar kveðjur sem Alþingi Íslendinga sendir íslenskum launþegum á sjálfan baráttudag launafólks 1. maí nk. ef frumvarp félagsmálaráðherra verður samþykkt óbreytt.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslenska launþega að fylgjast með því hvernig þingmenn greiða fyrirliggjandi frumvarpi um frjálsa för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES atkvæði sitt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image