• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Nov

Er frjáls för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES farin að hafa áhrif á íslenska launþega?

Öllum nema tveimur starfsmönnum byggingarfyrirtækisins Sveinbjarnar Sigurðssonar sem starfa hér á Akranesi hefur verið sagt upp störfum.  Í heildina eru þetta alveg um 20 íslenskir starfsmenn sem eru flestir ef ekki allir með búsetu á Akranesi. Þessar uppsagnir koma þrátt fyrir að verkefnastaða fyrirtækisins sé mjög góð hér á Akranesi um þessar mundir. 

Eftir þeim upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér þá eru næg verkefni hjá umræddu fyrirtæki alla vega næstu tvö árin.  Formaður félagsins fór og hitti nokkra þeirra starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf um mánaðarmótin og voru þeir afar hissa yfir þessum uppsögnum sé tekið tillit til þeirra verkefnastöðu sem nú þegar liggur fyrir.  

Þeir starfsmenn sem formaður ræddi við í morgun óttast að nú eigi að fá utanaðkomandi verktaka sem hafa óheftan aðgang að ódýru vinnuafli frá hinum fátæku ríkjum Austur - Evrópu  til að vinna við þær framkvæmdir sem nú þegar liggja fyrir hér á Akranesi.  Starfsmennirnir sögðu einnig að það væri gott að starfa hjá fyrirtækinu og verkefnastaða væri góð.  Á þeirri forsendu harma þeir að fyrirtækið skuli grípa til þessara uppsagna og óttast eins og áður sagði að ódýrt erlent vinnuafl verði fengið til að vinna þau störf sem þeir hafa unnið við.

Formaður félagsins sagði í vor þegar takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá hinum nýju ríkjum ESS var aflétt að það væri svartur dagur fyrir íslenskt launafólk.  Einnig að það væri köld vatnsgusa sem íslenskt verkafólk fengi framan í sig og það á sjálfan baráttudag verkalýðsins 1. maí, en þá tóku lögin gildi.

Umrætt fyrirtæki hefur alla tíð verið vel virt hér á Akranesi og ætíð komið vel fram við sína starfsmenn.   Vissulega óttast formaður VLFA að fyrirtæki sem greitt hafa sínum íslenskum starfsmönnum eftir þeim markaðslaunum sem í gildi eru séu einfaldlega ekki samkeppnisfær við þau fyrirtæki sem eingöngu eru með ódýrt vinnuafl í sinni þjónustu. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness óttast stórlega að 20 íslenskir verkamenn og iðnaðarmenn séu að missa vinnuna einfaldlega vegna þess að aðgengi fyrirtækja að ódýru vinnuafli er óheftur. 

Það er alveg á hreinu að sú þróun sem á sér nú stað á íslenskum vinnumarkaði er skelfileg fyrir íslenska launþega.   Inn í landið flæðir afar ódýrt vinnuafl frá bláfátækum ríkjum Austur - Evrópu sem gerir ekkert annað en að gjaldfella launakjör íslensks launafólks.  Formaður félagsins spyr hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera þegar Rúmenía og Búlgaría ganga inní Evrópusambandið um næstu áramót? Eiga þessi tvö bláfátækustu ríki Evrópu að hafa óheftan aðgang að íslenskum vinnumarkaði ?

Að sjálfsögðu vilja Samtök atvinnulífsins frjálst flæði frá Rúmeníu og Búlgaríu, alveg eins og þau börðust með hæl og hnakka fyrir frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkjum EES.  Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórn Íslands nota frjálst flæði launafólks sem hagstjórnunartæki.  SA til að halda aftur af launaskriði og ríkisstjórnin til að reyna að hemja verðbólguna og er það gert á kostnað íslenskra launþega.

Það er rétt að vekja athygli á því að ef Alþingi Íslendinga hefði samþykkt að fresta frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES eins og Verkalýðsfélag Akraness mælti með, þá væri fyrirtækum ekki heimilt að segja íslensku verkafólki upp störfum til þess eins að ráða ódýrt erlent vinnuafl.   Alþingi samþykkti hins vegar að aflétta takmörkunum þó svo að Alþingi hafi haft heimild til fresta frjálsri för launafólks frá ríkjum EES allt til ársins 2011.  Verkalýðsfélag Akraness varaði við því í umsögn til félagmálanefndar Alþingis að takmörkunum yrði aflétt, á það var því miður ekki hlustað.

Reyndar spyr formaður Verkalýðsfélags Akraness sig að því hvernig það geti staðist að verið sé að segja íslenskum verkamönnum upp störfum á sama tíma og það komu um 1000 erlendir starfsmenn til landsins og það bara í  september einum saman.  Það komu einnig um 700 erlendir starfsmenn í október samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. 

Samtals hafa komið yfir 7000 þúsund erlendir starfsmenn á þessu ári og eru þessar tölur byggðar á upplýsingum frá Vinnumálastofnun.  Einnig segir Vinnumálastofnun að 2000 þúsund erlendir starfsmenn sem starfa á íslensum vinnumarkaði hafi ekki verið tilkynntir til Vinnumálastofnunar eins og lögin kveða á um. 

Með öðrum orðum er ekkert vitað á hvaða launakjörum 2000 þúsund erlendir starfsmenn er á eða hvort verið sé að borga þeim eftir íslenskum kjarasamningum eða ekki.  Það er alveg ljóst eins og Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að íslenskur vinnumarkaður og íslenskt samfélag er og var á engan hátt tilbúið til að taka við þeim gríðarlega fjölda erlends vinnuafls.  Dæmin sýna það svo sannarlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image