• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Atvinnurekendur halda áfram að níðast á erlendu vinnuafli! Smellið á launaseðilinn sem umrædd frétt fjallar um
02
Nov

Atvinnurekendur halda áfram að níðast á erlendu vinnuafli!

Eftirlit með atvinnurekendum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu heldur áfram að skila árangri fyrir hina varnarlausu erlendu starfsmenn sem hingað koma til að starfa.  Félagið hefur verið að vinna að máli fyrir pólskan verkamann sem hingað kom til starfa í maí sl.  

Pólski verkamaðurinn hafði frétt af því að Verkalýðsfélag Akraness væri afar virkt í því að gæta hagsmuna fyrir erlent verkafólk.  Hann sagðist ekki hafa þorað að koma fyrr en hann var búinn að láta af störfum hjá fyrirtækinu af ótta við að missa starfið.  Hann sagði einnig að samlandar sínir væru afar tregir til að leita réttar síns til stéttarfélagsins af ótta við að verða vísað úr vinnu og jafnvel úr landi. Óskaði Pólverjinn eftir því að farið yrði yfir launaseðla hans frá því hann hóf störf hjá fyrirtækinu.  Í þeirri skoðun kom í ljós að það vantaði 174.126 kr. uppá að laun hans næðu þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar kveða á um og var hér einungis um þriggja mánaða tímabil að ræða.

Til dæmis vann Pólverjinn 360 tíma í júní og var einungis með jafnaðarkaup uppá 800 kr. á tímann. Hann vann sem sagt 187 yfirvinnutíma í þeim mánuði.  Í þessum mánuði er verið að kolbrjóta á réttindum mannsins.  Verkalýðsfélag Akraness hefur haft samband við atvinnurekandann og hefur hann fallist á að greiða umræddum Pólverja mismuninn.  Hann taldi sig hins vegar vera að gera vel við starfsmanninn og nefndi jafnframt að hann hefði heyrt að mjög algengt væri að atvinnurekendur væru að greiða erlendum verkamönnum jafnaðarkaup frá 700 og uppí rétt rúmar 1000 kr.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er sannfærður um að þetta er rétt hjá umræddum atvinnurekanda. Það er verið að þverbrjóta á réttindum erlendra starfsmanna út um allt.  Formaður félagsins hefur einnig vitneskju um að einstaka atvinnurekendur sendi Vinnumálastofnun ráðningarsamninga þar sem lágmarks kjarasamningar eru uppfylltir, en gera upp við erlendu starfsmennina á allt öðrum kjörum en ráðningasamningar sem sendir eru til Vinnumálastofnunar segja til um.  Það er gríðarlega erfitt að hafa eftirlit með því hvort atvinnurekendur séu að brjóta á erlendum starfsmönnum eða ekki og sér í lagi eftir að lögin um frjálst flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES tóku gildi 1. maí sl.

Það er engin spurning að sú sprenging sem orðið hefur á innflutningi á erlendu vinnuafli frá hinum fátæku ríkum Austur - Evrópu hefur nú þegar stórskaðað það markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði áratugum saman.  Það er ekki bara það að erlent vinnuafl er oftar en ekki sett á lágmarkskjör, heldur er líka verið að greiða þessu fólki langt undir gildandi samningum eins mýmörg dæmi sanna.  Framferði þeirra atvinnurekenda sem brjóta á réttindum erlends vinnuafls getur hæglega gert það að verkum að áratuga löng barátta íslenskrar verkalýðshreyfingar fyrir bættum kjörum verði að engu.   

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun beita sér af alefli fyrir því að á þessum málum verði tekið í næstu kjarasamningum af fullri hörku þannig að það verði ekki ávinningur fyrir atvinnurekendur að ráða hér ódýrt vinnuafl á smánarlaunum.  Krafan verður einfaldlega að vera sú að lágmarkslaun verði hækkuð til að ná þeim markaðslaunum sem verið er að greiða vítt og breitt í samfélaginu og þar af leiðandi verður mun minni ávinningur fyrir óprúttna atvinnurekendur að ná sér í ódýrt erlent vinnuafl. 

Það skal þó tekið fram að það eru alls ekki allir atvinnurekendur sem níðast á erlendu vinnuafli.  En því miður sýna dæmin það að þeir eru alltof margir sem það gera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image