• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jun

Fundað með sjávarútvegsráðherra

Einar K GuðfinnssonFormenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur munu funda með Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra í dag.  Þeir félagar Vilhjálmur og Aðalsteinn gegna formennsku í Matvælasviði Starfsgreinasambands Íslands.

Tilefni fundarins er væntanlegur niðurskurður á aflaheimildum á þorski en eins og fram hefur komið í fréttum þá leggur Hafró til að niðurskurður verði 30%.

Ljóst er að ef tillögur Hafró verða að veruleika þá munu þær hafa mjög víðtæk áhrif á laun bæði hjá fiskvinnslufólki og ekki síður hjá sjómönnum.

Heyrst hefur að íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Fréttavefurinn Fishupdate.com greinir frá því í gær að mikil gleði sé nú meðal þeirra sem starfa í sjávarútvegi í Hull og Grimsby vegna þessa samnings við íslensk stjórnvöld. Menn sjá fram á betri tíma vegna bættra möguleika á að keppa um íslenskan fisk. Fram kemur að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.

Þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks svo mikið er víst því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.  Þessi atriði verða klárlega til umræðu á fundinum sem og tillögur Hafró almennt, en formaður VLFA telur að menn verði að horfast í augu við það að tilgangurinn með kvótakerfinu sem var að byggja upp þorskstofninn hefur gersamlega mistekist.  

22
Jun

Starfsmenn Efnalaugarinnar hafa fengið laun sín greidd

Eins og áður hefur komið fram hér á heimsíðunni þá varð fyrirtækið Efnalaugin Lísa gjaldþrota nú í vor.

Sjö starfsmenn áttu vangreidd laun inni hjá fyrirtækinu og námu þau tæpri einni milljón króna þegar fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur unnið að því ásamt lögmanni félagsins að ná vangreiddum launum til baka úr þrotabúinu en það tókst ekki þar sem ekki voru neinar eignir í búinu.  Á þeirri forsendu gerði VLFA kröfu á hendur Ábyrgðarsjóði launa og var sú krafa samþykkt af hálfu sjóðsins. 

Ábyrgðarsjóðurinn varð í gær við kröfu félagsins og hefur starfsfólkið nú fengið þau vangreiddu laun sem það átti inni hjá Efnalauginni.

Starfsfólkið er afar ánægt með þá þjónustu sem VLFA veitti þeim í þessu máli og mál sem þetta sýnir hversu mikilvægt það getur verið að vera félagsmaður í öflugu stéttarfélagi.    

21
Jun

Formaco með 28 erlenda starfsmenn án kennitalna og dvalarleyfis

Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá kærði Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækið Formaco til lögreglunnar á Akranesi fyrir nokkrum vikum síðan.

Kæran var lögð fram vegna sterkra grunsemda um að Litháar sem starfa hjá fyrirtækinu væru ekki skráðir eins og lög og reglugerðir kveða skýrt á um. 

Lögreglan á Akranesi sem fer með rannsókn þessa máls hefur t.d. fundað með Vinnumálastofnun og einnig hefur hún leitað upplýsinga hjá Útlendingastofnun varðandi skráningu Litháanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Akrnaesi þá hefur hún fengið hin ýmsu gögn frá Vinnumálastofnun sem hafa verið til skoðunar að undaförnu.  Formaður félagsins veit fyrir víst að þau gögn sem lögreglan hefur undir höndum staðfestir þær grunsemdir sem VLFA hefur haft í þessu máli.  Lögreglan á Akranesi hefur hins vegar tekið ákvörðun um að vísa málinu til lögreglunnar í Reykjavík þar sem fyrirtækið Formaco hefur lögheimili þar. 

Það liggur fyrir samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem VLFA hefur aflað sér að undanförnu að sterkar líkur eru á að lög hafi verið brotin hvað varðar skráningar og skattaskil á Litháísku starfsmönnunum.

Formaco hefur haft 28 erlenda starfsmenn að störfum á síðastliðnum 12 mánuðum, flesta frá Litháen.  Samkvæmt upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja í málinu þá er enginn þeirra með kennitölu, lögheimili eða dvalarleyfi hér á landi.

Að auki hafa ekki verið borguð opinber gjöld af Liháunum, eftir þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér, hvorki skattar, félagsgjöld né lífeyrissjóðsgjöld.

Formaður VLFA skorar á ríkisskattstjóra að taka mál eins og þetta af festu og einurð einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir að Formaco bar að greiða opinber gjöld af Litháunum alla vega þeim sem starfað hafa hér í meira en 181 dag. 

Formaco var einungis búið að tilkynna til Vinnumálastofnunar 6 af þeim 28 sem starfa hjá fyrirtækinu en skýrt er kveðið á um í lögum að skrá skuli erlenda starfsmenn innan 10 daga frá ráðningu þeirra.  Ráðningarsamningar sem Formaco lét fylgja með þessum 6 starfsmönnum voru því miður meingallaðir og til dæmis var ekki getið um yfirvinnukaup í ráðningarsamningum, einungis dagvinnukaup sem hljóðaði uppá aðeins 726 kr. á tímann.

Formaður vill einnig minna á stjórnarsáttmálann sem Ingibjörg Sólrún og Geir undirrituðu en þar kemur m.a. fram að ríkistjórnin ætli að koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði. 

Það mat formanns að hér sé um klárt undirboð á íslenskum vinnumarkaði að ræða þar sem Formaco reynir að komast hjá því að greiða opinber gjöld og klárlega skekkir það samkeppnistöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum og einnig hefur VLFA enga hugmynd hvort verið sé að greiða Litháunum laun eftir íslenskum kjarasamningum, enda fá þeir laun sín ekki greidd hér á landi.  Félagsleg undirboð eins og þetta verður að stöðva og það með öllum tiltækum ráðum.

Formaður félagsins hefur ákveðið að óska eftir fundi með félagsmálaráðherra þar sem mál tengd félagslegum undirboðum verða til umræðu. 

19
Jun

Fundað um öryggismál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Í gær var haldinn fundur um öryggismál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  Þeir sem sátu fundinn voru ásamt formanni, trúnaðartengiliðir starfsmanna, Ingimundur Birnir forstjóri, Anna Dóra starfsmannastjóri, Þórður Magnússon framkvæmdastjóri framleiðslusviðs og einnig var fulltrúi frá Vinnueftirlitinu.

Aðalumræðuefni fundarins var nýr öryggisfatnaður sem tekinn var í notkun í apríl.  Starfsmenn hafa ítrekað gert athugasemdir við þennan nýja fatnað þar sem þeim er nánast fyrirmunað að vinna í honum sökum mikils hita en hitinn getur á vissum stöðum í verksmiðjunni farið í allt að 60°C.  

Forsvarsmenn fyrirtækisins voru að vissu marki tilbúnir að hlusta á gagnrýnisraddir starfsmanna en voru hins vegar ekki tilbúnir að leggja þennan nýja öryggisfatnað til hliðar á meðan aðilar reyndu að finna annan fatnað sem hentaði starfsmönnum betur.

Það sem forsvarsmenn Íj voru tilbúnir að gera var að auka kælingu í kringum ofnana og hefur það þegar verið gert í kringum ofn 3. Það sama verður gert við ofn 1 og 2.  Einnig ætla þeir að bæta aðgengi starfsmanna að drykkjarföngum og einnig upplýstu þeir að nýjar öryggisbuxur komi til prófunar í júlí og  binda menn vonir um að þær verði hentugri en þessar sem fyrir eru.

Það er alveg ljóst að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða fyrir starfsmenn því það getur ekki verið hollt að vinna kappklæddur í hita sem getur farið uppí 60 gráður.  Fram kom á fundinum í gær að einn starfsmaður hefur fallið í yfirlið við vinnu sína og er talið að það megi rekja til of mikils hita. 

15
Jun

Formaður VLFA fundar með forsvarsmönnum Norðuráls

Formaður félagsins óskaði eftir fundi með forsvarsmönnum Norðuráls vegna hina ýmsu hagsmunamála er lúta að félagsmönnum VLFA sem starfa hjá Norðuráli.

Fundurinn var haldinn seinni partinn í dag, þeir sem sátu fundinn fyrir hönd Norðuráls voru þeir Skúli Skúlason starfsmannastjóri og Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri. 

Formaður fór yfir nokkur mál sem VLFA telur að þurfi að skoðast betur og tengjast hagsmunum félagsmanna VLFA sem starfa hjá Norðuráli.

Þetta var nokkuð góður fundur sem vonandi skilar sér þegar  til lengri tíma er litið.  Ákveðið var að funda aftur þegar aðilar hafa náð að skoða þau atriði sem voru til umfjöllunar á þessum fundi betur.  

15
Jun

Fundur um öryggismál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Fundað verður um öryggismál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins á mánudaginn kemur. 

Þessi fundur er m.a. einn liður í því að fara yfir öryggismál starfsmanna með það að markmiði að auka öryggi starfsmanna enn frekar.  

Á fundinn munu mæta fyrir hönd starfsmanna formaður VLFA ásamt trúnaðartengiliðum.

Af hálfu fyrirtækisins munu mæta Ingimundur Birnir forstjóri og Þórður Magnússon framkvæmdastjóri framleiðslusviðs.  Einnig munu fulltrúar frá Vinnueftirlitinu sitja fundinn.

Eitt af þeim málum sem verða til umræðu á þessum fundi er nýr öryggisfatnaður sem tekinn var í nokkun ekki alls fyrir löngu.  Starfsmenn eru almennt mjög ósáttir við þennan nýja öryggisfatnað.  Telja þeir jafnvel að nýi hlífðarfatnaðurinn ógni öryggi þeirra vegna þess hversu slæptir starfsmennn verða við að vinna í honum, og það í hita sem getur farið upp í allt 60 gráður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image