• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Aug

Nýtt tölvusneiðmyndatæki að gagnast vel á SHA

Nú hefur tíminn leitt í ljós að nýtt sneiðmyndatæki sem félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar á Akranesi gáfu sjúkrahúsi Akraness 31. janúar 2007 hefur gjörbylt allri myndgreiningu á SHA og stórbætt alla þjónustu henni tengdri.

Það var fimm manna vinnuhópur sem formaður félagsins var aðili í sem safnaði fyrir umræddu tæki og gekk sú söfnun framar öllum vonum á sínum tíma.

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness gaf til að mynda eina milljón til kaupa á þessu nýja CT tæki með það að markmiði að tækið myndi tryggja öryggi okkar félagsmanna enn frekar.

 

Eins og fram kemur á heimasíðu  SHA þá hefur nýtingin á hinu nýja CT tæki SHA verið mjög góð og bætir þjónustu við sjúklinga til muna, gerir rannsókn og meðferð markvissari, unnt er í mörgum tilvikum að leiða í ljós mein og bregðast við fyrr en ella.  Auk þess eru óþægilegir og íþyngjandi sjúkraflutningar til Reykjavíkur þessarra erinda nánast úr sögunni.

Það kemur einnig fram á heimasíðu SHA að allar tölvusneiðmyndarannsóknir sem gerðar eru utan spítala í Reykjavík eru að stærstum hluta greiddar af Tryggingastofnun ríkisins.  Þessar sömu rannsóknir sem nú eru gerðar á SHA njóta hinsvegar ekki fyrirgreiðslu TR.  Þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á aukin gæði í þjónustu, hagræði og hagkvæmni hafa enn ekki tekist samningar um greiðslur til SHA fyrir þessar rannsóknir með sambærilegum hætti og til þjónustuaðila í einkarekstri í Reykjavík.

Það að SHA skuli ekki fá greidd frá Tryggingastofnun ríkisins með sambærilegum hætti og þjónustuaðilar í einkarekstri í Reykjavík er með öllu ólíðandi og ber heilbrigðisráðherra að kippa því í liðinn án tafar. 

Hægt er að lesa fréttina frá SHA með því að smella á meira.

Frá áramótum hafa verið gerðar ríflega 400 tölvusneiðmyndarannsóknir á SHA.  Helmingur sjúklinga kemur frá Akranesi og nágrenni en um 20% sjúklinga eru með lögheimili utan Vesturlands, þar af 10% af Reykjavíkursvæðinu. Nýtingin jafngildir því að um 3 sneiðmyndarannsóknir séu gerðar á myndgreiningadeild SHA hvern virkan dag í þágu skjólstæðinga sem ella hefðu þurft að leita til Reykjavíkur í þessu skyni.

 

Þetta eru talsvert fleiri rannsóknir en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.  Undanfarin þrjú ár hafa Vestlendingar sem fengið hafa tilvísun til einkarekinna myndgreiningastofa í Reykjavík verið á bilinu 450 - 500 á ársgrundvelli.  Þessi góða nýting á tækjabúnaði SHA bætir þjónustu við sjúklinga til muna, gerir rannsókn og meðferð markvissari, unnt er í mörgum tilvikum að leiða í ljós mein og bregðast við fyrr en ella.  Auk þess eru óþægilegir og íþyngjandi sjúkraflutningar til Reykjavíkur þessarra erinda nánast úr sögunni.
Eins og kunnugt er, þá gáfu félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar stofnuninni þennan dýrmæta búnað í upphafi árs.  Tækjabúnaðurinn hefur reynst mjög vel og starfsfólk er orðið vel þjálfað til hagnýtingar á þessari nýju tækni. 
Allar tölvusneiðmyndarannsóknir sem gerðar eru utan spítala í Reykjavík eru að stærstum hluta greiddar af Tryggingastofnun ríkisins.  Þessar sömu rannsóknir sem nú eru gerðar á SHA njóta hinsvegar ekki fyrirgreiðslu TR.  Þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á aukin gæði í þjónustu, hagræði og hagkvæmni hafa enn ekki tekist samningar um greiðslur til SHA fyrir þessar rannsóknir með sambærilegum hætti og til þjónustuaðila í einkarekstri í Reykjavík.

15
Aug

Hin árlega ferð eldri félagsmanna farin í lok þessa mánaðar

Hinn árlega ferð með eldri félagsmenn verður farin í lok þessa mánaðar.  Í ár verður suðurlandið skoðað enda margar náttúruperlur á því svæði.  Leiðsögumaður í ár verður hinn geðþekki Björn Finsen.

Starfsmenn félagsins ásamt Birni Finsen eru að leggja lokahönd á dagskrána og verður eldri félagsmönnum sent bréf í kringum 20 þessa mánaðar þar sem óskað verður eftir að félagsmenn skrái sig fyrir tilsettan tíma.

Í fyrra var farið á Reykjanesið og heppnaðist sú ferð afskaplega vel og var til að mynda metþátttaka í þeirri ferð en um 130 eldri félagsmenn fóru í þá ferð.

13
Aug

Törn hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar

Töluverð törn er búin að vera hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar að undanförnu og nú hafa starfsmenn bræðslunnar gengið vaktir  sleitulaust í heilan mánuð. 

Formaður félagsins fór og tók púlsinn á starfsmönnum í morgun og var nokkuð gott hljóð í starfsmönnum eftir þessa miklu törn.  En tekjur starfsmanna byggjast töluvert uppá vaktartörnum eins og þeirra sem nú er að ljúka.

Færeyska skipið Fannaberg landaði fyrir helgi um 1000 tonnum af kolmunna og í gær landaði Ingunn rúmum 600 tonnum og núna er Faxinn að landa rúmum 700 tonnum einnig af  Kolmunna.

Ekki verður landað meira af kolmunna til bræðslu hér á Akranesi á næstunni þar sem Ingunn Faxinn og Lundey hafa öll hætt kolmunnaveiðum, en þau eru nú öll að hefja síldveiðar við Jan Mayen.

Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að Síldar-og fiskimjölsverksmiðja HB Granda hér á Akranesi er ein sú allra fullkomnasta á landinu og getur til að mynda framleitt hágæðamjöl.

10
Aug

Akranes verður aftur sá mikli fiskvinnslubær

Oft hefur formaður félagsins fengið jákvæð símtöl á skrifstofu félagsins en sjaldan eins og þau sem hann fékk í morgun þegar Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri HB Granda hafði samband til að tilkynna honum að öll landvinnsla fyrirtækisins yrði flutt hingað á Akranes og sameinuð í einu nýju fiskiðjuveri sem áformað er að reisa á Akranesi síðla árs 2009.

Formaður félagsins tjáði forstjóranum að stjórn VLFA fagnaði þessar ákvörðun innilega og ljóst að framtíð fiskvinnslufólks hér á Akranesi verður mjög trygg eftir þessa ákvörðun.  Með þessari ákvörðun HB Granda hefur allri óvissu fiskvinnslufólks hér á Akranesi verið endanlega eytt.

Það þarf ekki að tíunda að þessi ákvörðun HB Granda er afar ánægjuleg fyrir bæjarbúa svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er einnig óhætt að fullyrða að með þessari ákvörðun stjórnar HB Granda verði Akranes aftur sá mikli fiskvinnslubær sem hann var hér á árum áður.

Vissulega mun tíminn einn skera úr um það hversu mörg störf munu skapast við þessa ákvörðun HB Granda.  Í dag starfa um 120 manns við fiskvinnsluna hjá HB Granda í Reykjavík og um 70 starfa hér á Akranesi.

Formaður félagsins er því ekki í neinum vafa um að tugir nýrra starfa munu skapast við þessa ákvörðun stjórnenda HB Granda þegar nýtt fiskiðjuver verður tilbúið síðla árs 2009 og starfsemin komin í fullan gang.  Verður sérstaklega ánægjulegt að væntanlega munu störf fyrir kvenfólk stóraukast.

Ekki má síðan gleyma því að mörg afleidd störf munu einnig skapast við þennan flutning.

Nú er bara að vona að stjórn Faxaflóahafna geti orðið við þeirri ósk stjórnar HB Granda um að flýta framkvæmdum við landfyllingu og nýjan hafnargarð, og er formaður fullviss um að stjórn Faxaflóahafna mun verða við þeirri ósk.

10
Aug

Fundað með ræstitæknum hjá Norðuráli

Formaður félagsins átti fund í gær með ræstingafólki sem starfar hjá Norðuráli.

Það voru nokkur kjaraatriði sem starfsmenn vildu fara yfir með formanni.  Þau atriði eru nú til skoðunar bæði hjá félaginu og einnig hjá starfsmannastjóra Norðuráls.

Nú fer stækkun Norðuráls að ljúka en í kjölfar stækkunar hefur starfsmönnum fjölgað gríðarleg og eru starfsmenn NA nú komnir í kringum 440.    

09
Aug

Viðtal við formann félagsins í Skessuhorni

Blaðið Skessuhorn tók ítarlegt viðtal við formann félagsins sem birtist í blaðinu í gær.  Hér að neðan er hægt að lesa viðtalið í heild sinni:

Vilhjálmur Birgisson tók við sem formaður Verkalýðsfélags Akraness á átakafundi í nóvember árið 2003. Síðan þá hefur hann verið áberandi í fjölmiðlum enda liggur hann ekki á skoðunum sínum. Í samtali við Skessuhorn sem kemur út í dag, segir Vilhjálmur að verkalýðsfélög séu enn gríðarlega mikilvægt afl í samfélaginu og skipti síst minna máli en fyrr á tíðum. Hann segir samstöðu vera hornsteininn að árangri í réttindabaráttu. 

Óhræddur við að segja mínar skoðanir

Vilhjálmur Birgisson tók við sem formaður Verkalýðsfélags Akraness á átakafundi í nóvember árið 2003. Síðan þá hefur hann verið áberandi í fjölmiðlum enda liggur hann ekki á skoðunum sínum. Í samtali við Skessuhorn segir Vilhjálmur að verkalýðsfélög séu enn gríðarlega mikilvægt afl í samfélaginu og skipti síst minna máli en fyrr á tíðum. Hann segir samstöðu vera hornsteininn að árangri í réttindabaráttu.

Nýliði í baráttunni

Það var nóg um að vera á skrifstofu Verkalýðsfélagsins þegar blaðamann bar að garði. Formaðurinn hafði þurft að víkja sér frá örsnöggra erinda, gestir spjölluðu yfir kaffibolla og síminn hringdi stöðugt. Ljóst var á öllu að starfsemin liggur ekki niðri í verkalýðsmálum yfir sumartímann líkt og gerist hjá ýmsum stofnunum. Vilhjálmur var fyrst spurður að því hver væri uppruni hans í verkalýðsmálum. „Ég hef alla tíð haft sterkar skoðanir á hlutunum, bæði pólitík og verkalýðsmálum, enda tel ég mig búa yfir ríkri réttlætiskennd. Mín fyrstu formlegu afskipti af verkalýðsmálum urðu hins vegar ekki fyrr en árið 1999 þegar ég hóf störf í gjaldskýlinu hjá Speli. Okkur hásetunum á Akraborginni var boðin vinna þar á samningi sem við höfðum aldrei haft neitt um að segja og okkur fannst vægast sagt lélegur. Við fórum að vafstra í þeim málum og stóðum þétt saman. Sú barátta bar árangur og við fengum leiðréttingu kjara okkar. Það hve vel það gekk vegna samstöðu okkar sýndi mér að ýmislegt væri hægt að gera betur í verkalýðsmálum á svæðinu en gert var, en okkur blöskraði sá samningur sem félagið hafði gert fyrir okkar hönd að okkur forspurðum.“

Átök við stjórn

Í kjölfar þessara samninga var Vilhjálmur kjörinn í stjórn og trúnaðarráð félagsins og fljótlega eftir það var hann kjörinn í aðalstjórn. Hann segir að fljótlega hafi hann orðið þess áskynja að pottur væri brotinn í fjárhagslegum rekstri félagsins. „Ég skynjaði að það var ekki allt eins og það átti að vera og óskaði eftir að fá aðgang að bókhaldinu en var neitað um það. Málið fór fyrir Hérðasdóm Vesturlands sem úrskurðaði mér í hag, en allt kom fyrir ekki, stjórnin neitaði að sýna mér bókhaldið. Þá var haldinn fundur í stjórn og trúnaðarráði sem samþykkti að veita mér aðgang að bókhaldinu en þrátt fyrir það varð ekkert úr því. Það var ekki fyrr en Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms að ég fékk aðgang að bókhaldinu og sá að grunur minn reyndist réttur.“

Vilhjálmur segir að allar hans ásakanir um óreiðu og ósamþykkta reikninga hafi verið staðfestar í úttekt fyrirtækisins Price Water House Cooper, en það var fengið til að fara yfir bókhald og fjármál.

Viðsnúningur reksturs

Í nóvember árið 2003 var Vilhjálmur kjörinn formaður VLFA og ný stjórn tók við. Hann segir það að mörgu leyti hafa verið erfitt. „Ég kom bara af gólfinu, ef svo má segja. Hef unnið sem trillusjómaður, í frystihúsi, á Akraborginni og hjá Speli og þurfti því töluverðan tíma bara til að setja mig inn í málin. Við einsettum okkur að snúa rekstri félagsins við og það hefur tekist. Þegar við tókum við var félagssjóður rekinn á tæplega þriggja milljóna króna yfirdrætti, en í dag eigum við tugi milljóna króna inneign í þeim sjóði. Félagið átti vel á þriðja tug milljóna útistandandi hjá atvinnurekendum sem ekki höfðu staðið skil á félagsgjöldum þegar við tókum við. Við fórum á fullu í að innheimta þær upphæðir. Þá tókum við til í ávöxtunarmálum hjá okkur en þau mátti laga. Til dæmis átti félagið tugi milljóna króna inni á reikningum með 0,27% ávöxtun, en við færðum til fjármuni og fengum betri ávöxtun.“

Ánægja með félagið

Vilhjálmur segir að fyrsta kastið hafi stjórnin einbeitt sér að því að snúa rekstrinum við og mikill tími farið í það. Það sé nú hins vegar að baki og óþarfi að velta sér upp úr fortíðinni. „Þetta er allt saman að baki, nú þurfum við að horfa til framtíðar og stefna samhent fram á við. Það er mikill einhugur í félagsmönnum eins og sást kannski best í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Starfsgreinasambandið um ánægju með verkalýðsfélög. Þar lentum við í öðru sæti og voru tæp 86% sem tóku þátt í könnuninni ánægð með félagið. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið.“

Frá því að ný stjórn tók við árið 2003 hefur félagsmönnum fjölgað mikið, úr 1.678 í tæplega 2.400. Vilhjálmur segir að það megi fyrst og fremst skýra með tveimur ástæðum. „Í fyrsta lagi er gott atvinnuástand á svæðinu og við njótum góðs af því. Ég er hins vegar ekki í neinum vafa um að hluti ástæðunnar er ánægja með starfsemi félagsins. Æ fleiri vilja tilheyra VLFA og er það vel. Ég tel að hluti af ánægju með félagið sé sá að ég þekki það hvernig það er að lifa á lágmarkslaunum á eigin raun. Ég veit því um hvað ég er að tala þegar þessi mál ber á góma.“

Stéttarfélög mikilvæg

Reglulega heyrist sú umræða að stéttarfélög séu úrelt og engin ástæða til að halda þeim til streitu. Þeir nútímalegustu agnúast út í kröfugöngur á 1. maí og finnst slagorð verkalýðsfélaga ósköp hallærisleg. Vilhjálmur segir að hann sé algjörlega ósammála því að vægi stéttarfélaga hafi minnkað. „Hafi ég einhvern tímann efast um tilvist stéttarfélaga þá fuku þær efasemdir út í veður og vind eftir að ég hóf störf hér. Það eru óþrjótandi verkefni við að tryggja félagsmönnum þau laun og þau réttindi sem samið hefur verið um. Ég get nefnt mýmörg dæmi þar um. Til dæmis voru til samningar við Járnblendifélag Íslands um að starfsmenn ættu að fá hlutdeild í hagnaði félagsins. Þegar til kom neituðu eigendur að greiða þá upphæð og starfsmenn leituðu til okkar. Við fórum í málið af festu með okkar lögfræðingum og niðurstaðan varð samkomulag um að félagið greiddi 7,9 milljónir sem deildust á milli starfsmanna. Ég fullyrði að ef félagið hefði ekki komið að málinu hefðu starfsmenn ekki fengið krónu. Þarna skiptir samstaðan öllu, það er ójafn leikur þegar einn verkamaður deilir við fyrirtæki, en staðan jafnast þegar félagið er komið í málið.“

Erlendir verkamenn

Fjöldi erlendra verkamanna á Íslandi hefur margfaldast undanfarin ár og eru nú um 20 þúsund þeirra staddir hér á landi. Vilhjálmur segir að verkalýðshreyfingin þurfi að vera vel á verði í þessum efnum, sí og æ komi upp dæmi þar sem atvinnurekendur brjóti á rétti þessa fólks. Samkvæmt könnun sem Starfsgreinasambandið lét gera eru markaðslaun 176 þúsund. Lágmarkslaun eru hins vegar 125 þúsund, ríflega 50 þúsund krónum lægri. Vilhjálmur segir að þegar atvinnurekendur ráði erlenda verkamenn borgi þeir í langflestum tilvikum lágmarkslaun, ekki markaðslaun. „Þessi þróun getur orðið til þess að markaðslaun færist nær lágmarkslaunum. Það hefur ekki tíðkast að greiða eftir lágmarkstöxtum, en atvinnurekendur ráða frekar erlenda verkamenn sem sætta sig við þau laun en Íslendinga. Þetta getur gjaldfellt íslenskan vinnumarkað ef þetta er látið átölulaust og við höfum séð það gerast síðustu tvö, þrjú árin.“

Skammarleg lágmarkslaun

En getur verkalýðshreyfingin ekki að nokkru leyti sjálfri sér kennt um þessa stöðu? Er ekki óeðlilegt að hafa lágmarkstaxta í landinu sem samstaða er um að fara ekki eftir? Vilhjálmur segist vel geta tekið undir það. „Lágmarkslaun á Íslandi eru til skammar og við í verkalýðshreyfingunni getum ekki skotið okkur undan þeirri ábyrgð. Það verður forgangsatriði í næstu kjarasamningum að hækka lágmarkslaun. Ég hef sent áskorun til Samfylkingarfólks, en sá flokkur lagði ítrekað fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna. Meðal flutningsmanna voru Gísli S. Einarsson, nú bæjarstjóri á Akranesi, og Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Ég hef uppreiknað síðustu tillögu þeirra frá árinu 2004 þar sem þau fóru fram á 138.500 króna lágmarkslaun. Miðað við hækkanir í kjarasamningum væru þetta tæplega 160.000 í dag. Nú er flokkurinn í aðstöðu til að koma þessu á og ætti að nýta tækifærið. Ég hef hins vegar engin viðbrögð fengið.“

Þingfarakaup hækkað meira

Vilhjálmur segist ekki vera í neinum vafa með það að íslenskt verkafólk hafi setið eftir í launaþróun undanfarinna ára. Hann segist lítið gefa fyrir þann söng sumra stjórnmálamanna að lægstu laun hafi hækkað sérstaklega undanfarin ár. „Þrátt fyrir að Pétur Blöndal og fleiri þingmenn vilji meina að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur þá er það bara ekki rétt. Ég tók mig til og bar saman þróun launa þessara þingmanna og þróun lægstu launa. Þá kemur í ljós að þingfarakaupið hefur hækkað úr 212 þús. árið 1997 í 518 þús. árið 2007, eða um 145%. Á sama tíma hafa lægstu laun hækkað úr 67 þús. árið 1997 í 125 þús. árið 2007, eða um 105%. Hækkun þingfarakaupsins nemur þannig 40% meira en hækkun lægstu launa. Ef lægstu laun hefðu fengið sömu prósentuhækkun og þingfarakaup væru þau 149 þús. í dag. Ég blæs því á allt sem heitir að lágmarkslaun hafi fengið sérstaka hækkun í gegnum árin.“

Samstaða nauðsynleg

Nokkur umræða hefur verið um það síðustu daga að félög í Flóabandalaginu svokallaða muni segja skilið við Starfsgreinasambandið. Vilhjálmur telur mjög miður ef af því verður. „Það er einfaldlega þannig að af menn ætla sér að ná víðtækum árangri í að laga kjör íslensks verkafókls er samstaðan lykilatriði. Eitt eða tvö félög gera ekkert upp á eigin spýtur. Ætlum við okkur að ná upp skammarlega lágum töxtum þurfa félögin að standa saman. Í þeim efnum er Starfsgreinasambandið ótrúlega mikilvægt og ber að efla frekar en hitt.“

En hvað þá með sameiningu félaga á Vesturlandi, mundi ekki nást meiri árangur með einu sameiginlegu félagi? „Þetta hefur komið til tals og á sínum tíma við sameiningu Verkalýðsfélags Borgarness, Verkalýðsfélagsins Harðar og Verkalýðsfélagsins Vals var okkur boðið að vera með í því. Þá vorum við á kafi í innri uppbyggingu félagsins og viðsnúningi á rekstri þess og töldum betra að standa fyrir utan það. Nú er verið að ræða um sameiningu allra félaga á Vesturlandi í eitt. Staðan er hins vegar einfaldlega þannig að í Verkalýðsfélagi Akraness eru 52% félagsmanna verkalýðsfélaga á Vesturlandi. Við sjáum ekki ávinning af því að sameinast félögum á Snæfellsnesi svo dæmi sé tekið.“

Ekki flokkapólitík

Verkalýðsbarátta var samofin pólitískri baráttu á síðustu öld, þó formleg tengsl þar á milli hafi rofnað. Vilhjálmur segir að verkalýðsmál séu í eðli sínu pólitík. „Skattamál, barnabætur, vaxtabætur, lágmarkslaun, allt þetta sem við berjumst fyrir er stór hluti af stjórnmálum. Verkalýðshreyfingin þarf sífellt að semja við pólitíkusa og mikilvægt er að gera samkomulag við ríkisstjórn hverju sinni samhliða kjarasamningum. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að mér finnst óeðlilegt að formenn og forystumenn stéttafélaga séu virkir í pólitísku flokksstarfi. Við slíkar aðstæður geta komið upp ólíkir hagsmunir sem viðkomandi á í erfiðleikum með að greina á milli. Gefum okkur það t.d. að formaður verkalýðsfélags sé líka meirihlutafulltrúi í bæjarstjórn. Síðan kemur upp sú staða að verkalýðsfélagið þarf að sækja rétt umbjóðanda síns á bæjarfélagið, jafnvel fyrir dómstólum. Það hljóta allir að sjá að þarna hafa myndast óeðlilegir hagsmunir og viðkomandi forystumaður yrði tvíklofinn og mundi á hvorugum staðnum gagnast.“

Mikilvæg verkefni framundan

Það er enginn hörgull á verkefnum í verkalýðsbaráttunni og Vilhjálmur segir að þau séu í raun óþrjótandi. Hann segir mikilvægast að lagfæra lágmarkslaun og það eigi að vera forgangsatriði í komandi kjarasamningum. „Þá mun VLFA beita sér að því að lagfæra kjarasamninga við Norðurál, en þeir eru talsvert lakari en það sem tíðkast hjá ÍSAL. Að mínu mati er það vegna lélegra samninga sem gerðir voru árið 1998. Okkur tókst að lagfæra þetta að hluta til í síðustu samningum en ekki nógu vel. Eitt mikilvægt verkefni má nefna til en það er það sem snýr að erlendu vinnuafli. Við verðum að tryggja það að atvinnurekendur haldi ekki áfram að misbjóða fólki sem kemur hingað í leit að betra lífi og gjaldfelli íslenska samninga.“

Hvergi kvikað

Vilhjálmur hefur verið ansi áberandi í fjölmiðlum og þykir yfirlýsingaglaður. Hann segir að menn verði að tala skýrt út og hann sé óhræddur við að segja sína skoðun hvar og hvenær sem er. Þá segir hann mikilvægt að félagið standi fast á rétti félagsmanna. „Það er stefna félagsins að ef við teljum að verið sé að brjóta á félögum þá göngum við í málið og reynum að ná samningum. Gagni það ekki förum við alla leið, fyrir dómstóla ef með þarf. Það verður hvergi kvikað í réttindabáráttu verkafólks,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness að lokum.

kóp

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image