• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Oct

Verkafólk á landsbyggðinni nýtur ekki sama launaskriðs og gerist á höfuðborgarsvæðinu

Á morgun verður haldinn formannafundur Starfsgreinasambands Íslands.  Á fundinum verða línurnar í komandi kjarasamningum væntanlega lagðar.

Stéttarfélögin á landsbyggðinni hafa verið að skila til SGS hugmyndum að kröfum fyrir komandi kjarasamninga.  Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar mótað sínar kröfur og eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá leggur félagið mesta áherslu á að lágmarkslaun stórhækki í næstu samningum.

Einnig leggur félagið mikla áherslu á að fyrirhugaðar skattalækkanir ríkistjórnarinnar beinist fyrst og fremst að þeim tekjulægstu.  Þær skattalækkanir sem ríkisvaldið hefur staðið fyrir á liðnum árum hafa fyrst og fremst beinst að þeim tekjuhæstu.  Nægir að nefna afnám hátekjuskattsins í þeim efnum.

Það virðist vera sem flóabandalagsfélögin séu komin mun lengra í undirbúningi fyrir komandi kjarasamninga heldur en landsbyggðarfélögin.  Alla vega eru flóabandalagsfélögin búin að funda mun meira að undaförnu heldur en landsbyggðarfélögin.

Formaður félagsins fer ekki dult með þá skoðun sína að hagkvæmast og árangursríkast væri að Starfsgreinasambandið færi óslitið í komandi kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Slagorð SGS er jú sameinuð til sóknar.

Það vita það flestir að megnið af þeirri þenslu og launaskriði sem verið hefur hér á landi á undaförnum árum er á höfuðborgarsvæðinu.  Verkafólk á landsbyggðinni hefur alls ekki notið þess launaskriðs í sama mæli sem og verið hefur á höfuðborgarsvæðinu.  Þess vegna munu landsbyggðarfélögin væntanlega leggja mikla áherslu á að fá leiðréttingu á sínum launakjörum í samræmi við það launaskrið sem verið hefur á stór Reykjavíkursvæðinu í komandi kjarasamningum.

Forseti ASÍ sagði á kjaramálaráðstefnu ekki alls fyrir löngu að himinn og haf væri á milli launa á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðisins.  Þetta er hárrétt hjá forsetanum og á þessu verða landsbyggðarfélögin að taka í komandi kjarasamningum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image