• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hin árlega ferð eldri félagsmanna farin í gær Hópurinn hlýðir á kynningu í Hellisheiðarvirkjun
31
Aug

Hin árlega ferð eldri félagsmanna farin í gær

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var farið um Suðurland.

Það voru 96 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað frá Akranesi í rigningarúða. Ekið var sem leið lá um Hvalfjarðargöng og út á Kjalarnesið. Þaðan var ekið inn Mosfellsdal yfir á Þingvelli þar sem stoppað var stundarkorn. Þar tíndu sumir ber en aðrir nutu útsýnisins.

Frá Þingvöllum var ekið um Lyngdalsheiði að Laugarvatni þar sem snæddur var hádegisverður á veitingahúsinu Lindinni. Boðið var upp á nýjan silung og fleira góðgæti úr nágrenni staðarins.

Frá Laugarvatni var ekið sem leið lá að Gullfossi og þaðan í sólina við Geysi. Áð var á báðum stöðum. Frá Geysi var ekið að Skálholti þar sem Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup tók á móti hópnum inni í kirkjunni og ræddi aðeins um sögu staðarins.

Næsti viðkomustaður var Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á hressingu. Þaðan var farið yfir Hellisheiði og hin nýlega Hellisheiðarvirkjun skoðuð með leiðsögn áður en haldið var heim á leið í sól og blíðu.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

Myndir úr ferðinni eru komnar inn á síðuna og má skoða þær með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image