• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jun

Sumar 2009

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni hefur aðsókn félagmanna í orlofshús og íbúðir félagsins verið með eindæmum góð þetta árið. Svo góð að nú er svo komið að ekki er hægt að komast í orlofshús eða íbúð fyrr en 21. ágúst. Þá er laust bæði í íbúðunum á Akureyri svo og í Hraunborgum.

Verði forföll verða þær vikur auglýstar hér á síðunni.

Hægt er að skoða lausar vikur með því að smella hér.  

Þeir sem þegar hafa fengið úthlutað viku og gengið frá greiðslu eru minntir á að nálgast leigusamning sinn á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13. Lyklar að bústöðunum í Svínadal og Húsafelli eru afhentir á skrifstofu félagsins á föstudögum. Lyklar að íbúðunum á Akureyri og bústöðunum í Hraunborgum, Ölfusborgum, Stóru Skógum, Flókalundi og að Eiðum eru afhentir leigutökum á hverjum stað fyrir sig gegn framvísun leigusamnings.

12
Jun

Bónuskerfi Elkem Ísland að svínvirka

Í desember á síðasta ári gekk Verkalýðsfélag Akraness frá afar góðum samningi fyrir starfsmenn Elkem Ísland. Í þeim samningi var verið að breyta bónuskerfi starfsmanna, en bónuskerfið í gamla samningnum hafði ekki verið að skila starfsmönnum því sem ætlast var til.

Þetta nýja bónuskerfi getur gefið starfsmönnum allt að 10% ofan á heildarlaun þeirra og áætluðu samningsaðilar að meðaltalið yrði í kringum 70% af því sem hann gæti gefið en á þessum mánuðum sem nýja bónuskerfið hefur verið við lýði þá hefur hann ætíð verið yfir þessu meðaltali og nú síðast gaf bónusinn starfsmönnum 8,17% sem er afar ánægjulegt enda eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þá starfsmenn sem taka laun eftir áðurnefndum kjarasamningi.

12
Jun

Formannafundur ASÍ haldinn í gær

Í gær var haldinn formannafundur aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands þar sem farið var yfir þá vinnu sem lýtur að stöðugleikasáttmála og kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambandsins fór yfir horfur í íslensku efnahagslífi á næstu árum og er óhætt að segja að útlitið sé ekki beint bjart framundan ef spá hagdeildar Alþýðusambandsins gengur eftir.

Formaður félagsins gerði grein fyrir afstöðu félagsins til kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kom fram í máli hans að stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness telur að verkalýðshreyfingin í heild sinni eigi að standa fast á þeirri kröfu að atvinnurekendur standi við þann hóflega samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008.

Einnig kom fram í máli formanns að ef það er vilji meirihluta aðildarfélaga ASÍ að taka tilboði sem Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram, þá mun Verkalýðsfélag Akraness hlíta þeirri lýðræðislegu niðurstöðu meirihluta verkalýðshreyfingarinnar. Í umræddu tilboði SA felst að þær launahækkanir sem taka áttu gildi núna 1. júlí frestast eins og aðrar hækkanir sem kveðið er á um í samningnum.

Það er gríðarlega mikilvægt að þær breytingar sem á að gera á því samkomulagi sem gert var 25. febrúar sl. verði lagðar í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem starfa eftir umræddum kjarasamningum. Slíkt var ekki hægt síðast, þrátt fyrir ósk Verkalýðsfélags Akraness og sex annarra stéttarfélaga. Nú virðist hins vegar vera nokkuð þétt samstaða um að slíkt verði gert, enda er allt annað ólýðræðisleg vinnubrögð.

10
Jun

7 milljónir innheimtar vegna vangoldinna launa

Þeir eru glaðir félagsmennirnir sem skrifstofa félagsins hefur verið að hafa samband við að undanförnu. En lögmaður félagsins hefur verið að vinna í innheimtumálum vegna vangoldinna launa í gjaldþroti nokkurra fyrirtækja.

Heildarupphæðin sem félagið hefur innheimt að undanförnu í gegnum Ábyrgðarsjóð launa nemur rétt tæpum 7 milljónum króna, en þau fyrirtæki sem um ræðir eru: Handafl - byggingafélag, Íslandsfrakt, Öryggismiðstöð Vesturlands, Byggingafélagið Baula, Nýbygg og P.M.T.

Öll þessi fyrirtæki hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta og í einu tilfellinu þurfti félagið að leita til dómsstóla til að gera kröfu á Ábyrgðasjóð launa mögulega. Einnig eru nokkur innheimtumál til viðbótar enn til meðferðar.

Þetta sýnir hversu mikilvæg stéttarfélög geta verið fyrir hinn almenna félagsmann, en öll þessi þjónusta er félagsmanninum að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.

Það er hins vegar áhyggjuefni hversu langan tíma það getur tekið að ná greiðslum út úr Ábyrgðasjóði launa en það getur tekið allt frá 3-4 mánuðum upp í 12 mánuði og því er mikilvægt að félagsmenn sýni því eins mikinn skilning og kostur er.

09
Jun

Áskorun til olíufélaganna

Nú hafa öll olíufélögin tekið ákvörðun um að endurgreiða öllum þeim sem tóku bensín á bensínstöðvum fyrirtækisins þá daga sem ný eldsneytisgjöld ríkisstjórnarinnar voru rukkuð inn án þess að þau væru komin á birgðirnar. 

N1 lét reikna út fyrir sig að ofteknu gjöldin á áðurnefndu tímabilin námu um 9 milljónum króna. Þeir tilkynntu á sama tíma að þeir muni gefa ofteknu gjöldin til góðgerðarmála.

Verkalýðsfélag Akraness vill hins vegar minna öll olíufélögin á að bensínafgreiðslufólk og annað starfsfólk olíufélaganna sem starfar eftir lágmarkstöxtum á hinum almenna vinnumarkaði var þvingað til að afsala sér hækkun sem átti að taka gildi 1. mars sl., hækkun upp á 13.500 kr. á launataxta. Með öðrum orðum þá hefur afgreiðslufólk á bensínstöðvum orðið af 40.500 krónum á síðustu þremur mánuðum.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á N1 sem og öll hin olíufélögin að greiða starfsfólki sínu sem vinnur eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði þá hækkun sem að fólkið var þvingað til að afsala sér 1. mars sl. Sem dæmi þá duga þær 9 milljónir sem N1 oftók til að greiða 222 starfsmönnum 40.500 krónur, eins og kjarasamningur þeirra var búinn að gera ráð fyrir að þeir sem starfa eftir taxtakerfi fengju.

En eins og frægt er þá gengu Samtök atvinnulífsins og samninganefnd ASÍ frá samkomulagi 25. febrúar sl. um frestun á hækkunum til 1. júlí nk. Nú liggur hins vegar fyrir að atvinnurekendur ætla ekki heldur að standa við það samkomulag sem gert var 25 febrúar sl, hugsanlega að hluta til.

Það er skoðun Verkalýðsfélags Akraness að olíufélögin hafi fulla burði til að standa við þann kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008. Þúsundir starfsmanna starfa hjá olíufélögunum vítt og breitt um landið og vinnur stór hluti þessa fólks á lágmarkstöxtum.

Olíufélögin hafa verið dugleg við að varpa sínum vanda beint út í verðlagið og á þeirri forsendu er algerlega ástæðulaust að veita olíufélögunum afslátt á kjarasamningum.

08
Jun

Þrír sjómenn heiðraðir í tilefni sjómannadags

Í hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju í gær voru heiðraðir merkismenn í tilefni sjómannadagsins. Þeir sem heiðraðir voru eru þeir Kristján Pétursson fyrrv. skipstjóri á Höfrungi, Þorvaldur Guðmundsson fyrrv. skipstjóri á Akraborginni og yfirhafnarvörður hjá Faxaflóahöfnum og Stefán Lárus Pálsson fyrrv. skipstjóri og útgerðarmaður.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi þar sem Eiríkur Jónsson formaður Sjómannadagsráðs lagði blómsveig að því eftir stutta athöfn.

Eftir athöfnina stóð Akraneskaupstaður fyrir hófi í safnaskálanum til heiðurs sjómönnunum þremur sem hlutu heiðursmerki sjómannadags.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnisvarða um látna sjómenn.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image