• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Skýlaus krafa að launahækkanir 1. júlí standi

Í grein sem Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags skrifaði í Morgunblaðið á laugardaginn var fer hann yfir frestun umsaminna launahækkana upp á 13.500 krónur sem koma áttu til framkvæmda 1. mars sl. og andstöðu sex stéttarfélaga á landsbyggðinni við þá frestun.

Einnig kemur fram í grein Aðalsteins að Framsýn – stéttarfélag Þingeyinga hafi falið lögfræðingum félagsins að kanna lögmæti þess að launahækkunum var frestað. Félagið dregur í efa að frestun standist.

Formaður VLFA undrar sig ekki á því að Framsýn - stéttarfélag efist um að frestunin standist, einfaldlega vegna þess að stjórn Verkalýðsfélag Akraness fékk einnig álit síns lögfræðings á því hvort samninganefnd ASÍ hefði haft þá heimild að fresta áður umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.  Lögfræðingur Verkalýðsfélags Akraness telur að samninganefnd ASÍ hafi ekki haft heimild til að fresta umsömdum launahækkunum kjarasamningsins eða semja um lækkun samningsins. Orðrétt segir í lögfræðiáliti sem félagið lét gera 3. febrúar sl.:

Telur undirritaður að það hefði þurft að koma skýrt fram í samningnum ef ætlunin hafi verið að fela samninganefnd ASÍ heimild til að fresta umsömdum taxtahækkunum kjarasamningsins eða semja um þær til lækkunar.  Hafi nefndin því ekki umboð til slíkra ráðstafana jafnvel þótt hún teldi að með því móti væri verið að stuðla að framangreindum markmiðum kjarasamnings aðila.

Hægt er að lesa lögfræðiálitið í heild sinni með því að smella hér.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gerði grein fyrir þessu lögfræðiáliti á formannafundi aðildarfélaga ASÍ í febrúar og á sama fundi var lögð fram tillaga af sex landsbyggðarfélögum um að ef samið yrði um frestun á launhækkunum þá yrði það lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem taka laun eftir þeim kjarasamningum sem frestunin átti að ná til.  Ekki var hlustað á þessi sex landsbyggðafélög og gekk samninganefnd ASÍ frá frestun 25. febrúar eins og frægt er orðið. 

Á þessu sést að það eru töluverðar líkur á því að þessi gjörningur sem samninganefnd ASÍ gerði við Samtök atvinnulífsins standist ekki neina skoðun. 

Nú liggur fyrir að frestunin á að gilda til 1. júlí nk. og það mun ekki koma til greina af hálfu Verkalýðsfélags Akraness að gengið verði frá einhverju samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um viðbótar frestun á þeim launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí. en formaður félagsins hefur grun um að slíkt geti gerst og nægir að nefna viðtal við forseta ASÍ í Kastljósþætti frá 24. mars í því samhengi.

Það er alveg á hreinu að íslenskt verkfólk getur ekki tekið á sig þyngri byrðar en það hefur nú þegar gert og það verða fleiri en verkafólk að axla ábyrgð á stöðugleika í íslensku samfélagi.  Rétt er að minna á að eftir að verkafólk gekk frá kjarasamningum 2004 þá komu nánast allir aðrir launþegahópar og sömdu um umtalsvert meira en verkafólk fékk.  Einnig er rétt minna á að gengið var frá afar hófstilltum kjarasamningum fyrir verkafólk 17. febrúar 2008 og átti sá samningur að tryggja hér stöðugleika og aukin kaupmátt til handa verkafólki.  Með öðrum orðum þá hefur verkafólk ætíð lagt sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika hér á landi.

Það gengur alls ekki upp að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út verðlagið á meðan verkafólk getur ekkert gert vegna stóraukinnar greiðslubyrði og gríðarlegs tekjusamdráttar.

Þessu til viðbótar getur það alls ekki gengið upp að það sé nánast hagkvæmara að vera á atvinnuleysisbótum en að starfa á þeim lágmarkstöxtum sem nú eru í gildi.  Á þeirri forsendu kemur það ekki til greina að fresta þeim launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí nk.  Nú er afar þýðingarmikið að verkafólk vítt og breitt um landið standi þétt saman og berjist með kjafti og klóm fyrir því að áður umsamdar launahækkanir komi til framkvæmda eins og um hefur verið samið.

Aðalmálið nú er að ekki verði endurtekinn sá gjörningur sem ASÍ gekk frá við SA 25. febrúar, slíkan gjörning mun  íslenskt verkafólk ekki sætta sig við. 

08
May

Hækkandi álverð mun auðvelda kjarasamningsgerð

Gríðarlega jákvæðar fréttir berast nú um hækkun á heimsmarkaðsverði á áli en álverð hefur hækkað um 27% frá því í lok febrúar. Þá var álverðið í sögulegu lágmarki eða í 1.250 dollurum fyrir tonnið en í dag stendur tonnið í 1.585 dollurum.

Vissulega er mikil birgðasöfnun á óseldu áli og hafa þær birgðir verið að aukast á síðustu vikum og mánuðum. Er nú talið að um 4 milljónir tonna af áli séu óseld á heimsvísu. Stafar það fyrst og fremst af miklum samdrætti í bíla- og flugiðnaði.

Hins vegar er það mjög jákvætt að engin birgðasöfnun skuli hafa átt sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga sökum þess að þeir hafa gert langtímasamninga um sölu á sínu áli og ná þeir samningar til ársins 2016 og að hluta til ennþá lengra. Þetta tryggir að engin birgðasöfnun á að eiga sér stað hjá Norðuráli.

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu félagsins þá skiptir stóriðjan á Grundartanga okkur Akurnesinga alveg gríðarlega miklu máli hvað varðar atvinnuöryggi og tekjur sveitarfélaganna hér í nágrenninu og vill formaður ekki hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við.

Móðurfélag Norðuráls, Century Aluminium, lokaði t.a.m. nýverið verksmiðju sinni í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum. Hins vegar er staðan hér á landi mjög góð og endurspeglast af hagstæðum samningi við Landsvirkjun um raforku. Samningurinn byggist á því verði sem fæst fyrir álið hverju sinni. Með öðrum orðum, ef gott verð fæst fyrir álið þá greiðir Norðurál meira fyrir raforkuna, en þarf að sama skapi að greiða minna þegar verð dregst saman. Þessu til viðbótar er Norðurál skuldbundið til að greiða fyrir raforku í 20 ár, óháð því hvort þeir noti raforkuna eða ekki.

Þetta gerir það að verkum að atvinnuöryggi þeirra sem starfa hérlendis í stóriðjum, t.d. hjá Norðuráli er mun tryggara en hjá starfsmönnum sömu fyrirtækja erlendis. Sem dæmi þá greiddi Norðurál á fjórða milljarð í opinber gjöld á síðasta ári og er það formanni því hulin ráðgáta að einstaka stjórnmálamenn leggi stein í götu þessara fyrirtækja.

Nú er bara að vona að álverðið haldi áfram að hækka því kjarasamningur starfsmanna Norðuráls er laus um áramótin. Það skiptir gríðarlega miklu máli að álverðið haldi áfram að síga upp á við því það mun klárlega auðvelda samningsaðilum að ná saman. Enda eiga stóriðjufyrirtækin að láta starfsmenn sína njóta góðs af því þegar rekstur fyrirtækisins gengur vel.

07
May

7. bekkur Brekkubæjarskóla kíkti í heimsókn á skrifstofu félagsins

Rétt í þessu heimsóttu krakkar í 7. bekk Brekkubæjarskóla skrifstofu félagsins ásamt Jónu Adolfsdóttur, skólaliða. Jóna situr í trúnaðarráði Verkalýðsfélags Akraness.

Formaður félagsins fór stuttlega með þeim yfir starfsemi stéttarfélaga, hver helstu verkefni verkalýðshreyfingarinnar væri og er alltaf ánægjulegt að fá heimsóknir frá grunnskólum bæjarins.

Það er fastur liður í starfsemi Verkalýðsfélags Akraness að kynna starfsemina fyrir 16 ára unglingum sem starfa í vinnuskóla bæjarins ár hvert enda er það mjög mikilvægt að fræða komandi kynslóðir um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og mikilvægi stéttarfélaganna í hagsmunabaráttu fyrir sína félagsmenn.

06
May

Gríðarleg vonbrigði

Nú liggur fyrir að ekki verður unnið hrefnukjöt hér á Akranesi eins og til stóð en hrefnuvinnslan hefði skilað allt að 30 nýjum störfum ef af hefði orðið.

Félag hrefnuveiðimanna hefur hins vegar náð samkomulagi við kjötvinnsluna Esju í Reykjavík um að þar verði hrefnukjöt komandi vertíðar unnið, en veiðar hefjast eftir hálfan mánuð. Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna segir að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um endurskoðun hvalveiða eftir þessa vertíð og hugsanlega stöðvun þeirra hafi kippt stoðunum undan áformum um uppsetningu vinnslustöðvar á Akranesi. Þá hafi yfirvofandi lokun Faxaflóasvæðis vegna hvalaskoðunar þýtt að vinnslustöð á Akranesi væri óhagkvæm. Hér er um áfall að ræða fyrir atvinnulíf á Akranesi enda voru bundnar miklar vonir við að vinnslan myndi skapa fjölda starfa eins og áður hefur komið fram.

Þetta eru gríðarleg vonbrigði og er þar vægt til orða kveðið, en Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld hafa lagt mikla vinnu í að tryggja að þessi vinnsla yrði að veruleika hér á Akranesi.  Sem dæmi þá stóð VLFA og Akraneskaupstaður fyrir gríðarlega fjölmennum borgarafundi þann 5. febrúar sl.  En eins og flestir muna þá hafði núverandi sjávarútvegsráðherra í hyggju að afturkalla ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar að nýju.

Það er grafalvarlegt af það reynist rétt að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra um endurskoðun hvalveiða eftir þessa vertíð og hugsanlega stöðvun þeirra hafi kippt stoðunum undan áformum um uppsetningu vinnslustöðvar á Akranesi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness harmar þessa ákvörðun forsvarsmanna Félags hrefnuveiðimanna og átelur vinnubrögð sjávarútvegsráðherra ef það reynist rétt að yfirlýsingar hans hafi orðið þess valdandi að tugir starfa hér á Akranesi urðu að engu.

05
May

Þjóðarsátt í reykfylltum bakherbergjum?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherraJóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherraEins og fram kom í Morgunblaðinu í gær þá er lögð mikil áhersla á að gerð verði þjóðarsátt vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Það var einnig haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði kallað aðila vinnumarkaðarins til fundar í dag til að geta tekið mið af sjónarmiðum þeirra, enda leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á þjóðarsátt um þau verkefni sem framundan eru.

Fram kom í 1. maí ávarpi forseta Alþýðusambandsins að hann telji að gera verði nýjan sáttmála á milli vinnumarkaðarins og stjórnvalda um forsendur varanlegs stöðugleika. Einnig kom fram í 1. maí ávarpi Guðmundar Gunnarssonar formanns RSÍ að "við höfum lagt fram drög að stöðugleikasáttmála".

Það er alveg ljóst að formanni Verkalýðsfélags Akraness og fleiri formönnum aðildarfélaga ASÍ er ekki kunnugt um að verið sé að vinna að þjóðarsátt, eða stöðugleikasáttmála vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi. Það er hins vegar ljóst að það er ekki hægt að ganga frá neinni þjóðarsátt án þess að aðildarfélög ASÍ séu höfð með í ráðum enda liggur umboð kjarasamninga hjá stéttarfélögunum sjálfum. Ekki hefur verið kallað eftir neinum tillögum eða hugmyndum frá Verkalýðsfélagi Akraness varðandi hugsanlega þjóðarsátt. Það vekur vissulega furðu hjá formanni ef það reynist rétt að nú þegar liggi fyrir drög að einhvers konar þjóðarsátt eða stöðugleikasáttmála.

Það mun ekki ríkja sátt um að gengið verði frá einhvers konar stöðugleikasáttmála eða þjóðarsátt í reykfylltum bakherbergjum. Það er rétt að minna á að íslenskt verkafólk hefur í raun og veru þegar lagt sitt fram til þjóðarsáttar eins og fram kom í síðustu kjarasamningum sem voru afar hófstilltir og áttu að tryggja hér stöðugleika og aukinn kaupmátt til handa okkar fólki.

Það gengur alls ekki upp að það sé einungis íslenskt verkafólk sem tekur á sig byrðarnar í þessu landi en um þessar mundir hafa umframlaunakjör í ráðningarsamningum verið skorin verulega niður og eins og flestir muna eftir þá hefur þeim launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars skv. gildandi kjarasamningi verið frestað til 1. júlí.

Það gengur heldur ekki upp að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda út í verðlagið á meðan launþegar þurfa að sæta stórkostlegri kjaraskerðingu og þola stóraukna greiðslubyrði.

Bara þannig að það liggi fyrir, þá verður hvorki gengið frá stöðugleikasáttmála né þjóðarsátt án þess að tryggt sé að hagsmunir verkafólks verði hafðir að leiðarljósi í slíkum sáttmála því það er löngu orðið tímabært að fleiri en íslenskt verkafólk axli hér ábyrgð á stöðugleika. Þjóðarsátt verður aldrei að veruleika nema með aðild þeirra stéttarfélaga sem fara með samningsumboðið og slegin verði algjör skjaldborg um þá sem eru að starfa á lægstu töxtunum.

04
May

Fundað með forsvarsmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna

Forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna óskuðu eftir að funda með formanni félagsins um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna stóraukinnar skuldastöðu heimilanna í kjölfar bankahrunsins.

Að sjálfsögðu varð formaður félagsins við þessari ósk og fór fundurinn fram á skrifstofu félagsins síðastliðinn fimmtudag.

Fram kom í máli forsvarsmanna Hagsmunasamtakanna að samtökin hafa gríðarlega áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin vegna stóraukinnar skuldastöðu heimilanna í kjölfar bankahrunsins.  Samtökin krefjast þess að stjórnvöld komi tafarlaust með almennar aðgerðir er lúta að leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána. 

Fram kom í máli að forsvarsmanna samtakanna að þeir hafa verulegar áhyggjur af því að fólk gefist fljótlega upp á því að greiða af sínum skuldum sökum þess að forsendur verð- og gengistryggðra lána eru kolbrostnar. Þeim heimilum fjölgar ískyggilega hratt sem geta ekki staðið í skilum eða sjá hvorki tilgang né skynsemi í að greiða af lánum sem hækka stjórnlaust sökum þess ástands sem ríkir í íslensku efnahagslífi.  Um 42% heimila eru með bága eða neikvæða eiginfjárstöðu skv. gögnum frá Seðlabanka Íslands frá síðastu áramótum.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness samþykkti ályktun sem byggist að stórum hluta á sömu kröfu og Hagsmunasamtök heimilanna leggja upp með, þ.e.a.s að stjórnvöld verða að koma með róttækar aðgerðir til bjargar heimilunum og verða þær aðgerðir að byggjast á leiðréttingu og niðurfærslu á skuldum heimilanna.

Heimasíða Hagsmunasamtaka heimilanna er www.heimilin.is

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image