• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
May

Hreinasta ósvífni

Enn og aftur á að höggva í launþega og krefja þá um að falla frá áður umsömdum launahækkunum á sama tíma og til stendur að greiða arð út úr fyrirtækinu, eins og nú hefur komið í ljós með Orkuveitu Reykjavíkur.

Verkalýðsfélag Akraness er með samning við Orkuveitu Reykjavíkur vegna nokkurra starfsmanna sem vinna hjá fyrirtækinu, en Akraneskaupstaður á 5,7% í Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er með hreinustu ólíkindum að til standi að greiða arð á sama tíma og starfsmenn hafa verið krafðir um að fresta áður umsömdum launahækkunum. Mun OR spara sér um 400 milljónir á því, en ætlar sér á sama tíma að greiða arð upp á 800 milljónir þó svo fyrirtækið hafi tapað 73 milljörðum á síðasta ári. Rétt er að minna á það að gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 10% í endaðan september á síðasta ári. Með öðrum orðum, fyrirtæki varpa sínum vanda stöðugt út í verðlagið á meðan íslenskir launþegar verða fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu og stóraukinni greiðslubyrði.

Svo eru menn að tala um þjóðarsátt og stöðugleikasáttmála á sama tíma og svona óréttlæti birtist íslenskum launþegum með jafn afgerandi hætti. Það gengur ekki upp að það sé ávalt íslenskir launþegar sem þurfi að herða sultarólina á sama tíma og eigendur stórfyrirtækja hyggist greiða sér út arð þó svo engar forsendur séu fyrir slíkum arðgreiðslum.

Vissulega er það rétt hjá Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR, að arðgreiðslurnar renna til eigenda OR sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, en það réttlætir hins vegar á engan hátt það að starfsmenn séu látnir taka á sig launalækkanir til þess eins að hægt sé að greiða út arðgreiðslur til eigenda.

Það er alveg ljóst að íslenskt verkafólk er búið að fá nóg af þeirri framkomu sem því er sýnt slag í slag af hinum ýmsu fyrirtækjum og það mun ekki koma til greina að fresta eða falla frá þeim umsömdu launahækkunum sem eiga að taka gildi 1. júlí nk. á hinum almenna vinnumarkaði. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslenskt verkafólk að rísa upp og láta óánægju sína yfir þeirri þróun sem nú er að eiga sér stað kröftuglega í ljós.

Krafan er skýr, að stjórn OR standi við þær launahækkanir sem samið hefur verið um við stéttarfélögin og láti þær taka tafarlaust gildi, því ef hægt er að greiða út arð þá er hægt að standa við áður umsamdar launahækkanir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image