• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
May

Verkalýðsfélag Akraness hafnar tillögum Samtaka atvinnulífsins algerlega

Forsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar segir að fiskvinnslufyrirtæki geti staðið við launahækkanirForsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar segir að fiskvinnslufyrirtæki geti staðið við launahækkanirEins og flestir muna þá gekk samninganefnd ASÍ frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl. um frestun á endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Samkomulagið gekk út það að umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars yrði frestað til 1. júlí nk.  Þessar hækkanir hljóðuðu uppá 13.500 kr. hækkun á launatöxtum og 3,5% hækkun til handa þeim sem ekki tóku laun eftir taxtakerfi.

Frestunin sem gerð var 25. febrúar var gerð í algjörri óþökk sex stéttarfélaga á landsbyggðinni og var Verkalýðsfélag Akraness eitt þessara félaga.

Nú hafa Samtök atvinnulífsins lagt fram tillögu til samninganefndar ASÍ um enn frekari frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi fyrst 1. mars sl. og síðan 1. júlí nk.

Formaður hefur kynnt sér þær tillögur sem SA lagði fram í morgun og er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafnar þessum tillögum Samtaka atvinnulífsins algerlega. Í þessum tillögum frá SA eru m.a. hugmyndir um breytingar á 3,5% hækkuninni sem á að ná til þeirra sem ekki starfa eftir taxtakerfi.  Bara þannig að það sé á hreinu þá hefur Samninganefnd ASÍ ekki nokkra heimild til að breyta innihaldi þeirra kjarasamninga sem gengið var frá 17. febrúar 2008.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr, að þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008 taki tafarlaust gildi 1. júlí nk.

 

Afstaða félagsins byggist á því að gengið var frá afar hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 sem áttu að tryggja hér stöðugleika og aukinn kaupmátt til handa okkar fólki. Þar af leiðandi ber verkafólk á engan hátt ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og telur Verkalýðsfélag Akranes að fjölmörg fyrirtæki hafi borð fyrir báru til að standa við áður umsamdar launahækkanir eins og t.d. hefur gerst í fiskvinnslunni og hjá öðrum útflutningsfyrirtækjum. 

Forsvarsmaður Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum sagði t.d. á fundi í Vestmannaeyjum fyrir viku síðan með framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands að fiskvinnslan hefði fulla burði til að standa við gerða samninga.  Það liggur fyrir að fjölmörg fyrirtæki hafa burði til að standa við gerða samninga og atvinnurekendur hafa fengið frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars til 1. júlí og það nægir.  Verkafólk hefur ekki burði til að gefa meira eftir en orðið er.

Það gengur heldur ekki upp að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið á meðan verkafólk hefur þurft að fresta sínum umsömdu launahækkunum, tekið á sig tekjuskerðingar og horft upp á stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100%.

Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.  Á þeirri forsendu hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness allt verkafólk vítt og breitt um landið til að standa þétt saman og hvika ekki frá þeirri kröfu að atvinnurekendur standi við hóflegan kjarasamning sem undirritaður var 17. febrúar 2008.  Kjarasamning sem ráðamenn þjóðarinnar sögðu á sínum tíma væri hófstilltur og myndi tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi!

Hægt er að lesa tillögu Samtaka atvinnulífsins í heild sinni með því að smella á meira.

Tillagan í heild:

1. Hækkanir kauptaxta, ákvæðisvinnu og kostnaðarliða sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars 2009.

a. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 13.500 kr. hækki í stað þess um 6.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

b. Samningar sem kveða á um sérstaka hækkun kauptaxta um 17.500 kr. hækki í stað þess um 8.750 kr. frá 1. júlí 2009 og um sömu tölu 1. nóvember 2009.

c. Hækkun ákvæðisvinnutaxta og kostnaðarliða kjarasamninga færist til 1. nóvember 2009.

2. Í stað ákvæðis um launaþróunartryggingu 1. mars 2009 komi eftirfarandi breyting til framkvæmda 1. nóvember 2009:

Grunnhækkun lægri fastra mánaðarlauna, að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum, en 300.000 kr. er 3,5%. Frá henni dragast hækkanir á launum starfsmanns frá 1. janúar til 30. október 2009. Frádráttur getur þó ekki orðið hærri en grunnhækkun. Við samanburð launa skal miða við föst viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast.

 Greinargerð: Við mat á kjarasamningunum 17.2 2008 var þetta ákvæði metið til 1,1% kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Var þá talið að ákvæðið snerti einungis þriðjung launamanna þar sem launaskrið og hækkanir í launakerfum drægju úr áhrifum þess. Þróunin hefur orðið allt önnur en ráð var fyrir gert þar sem nánast ekkert launaskrið hefur átt sér stað frá gerð samninganna og laun víða lækkað. Samningsákvæðið er því mun kostnaðarsamara fyrir atvinnulifið en fyrirséð var. Af þeim ástæðum er gerð tillaga um að þetta samningsákvæði takmarkist við mánaðarlaun undir 300.000 kr.

3. Hækkun kauptaxta og almennar launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 færist til 1. september 2010.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image