• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
May

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn í morgun

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands funduðu í morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Fundarefnið var komandi endurskoðun á kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði, en eins og flestir vita þá var endurskoðun kjarasamninga frestað í febrúar sl. fram í júní ásamt þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars.

Einnig var til umræðu kjarasamningur við Ríkið og voru með formanni í för trúnaðarmenn á Sjúkrahúsi Akraness. Formaður félagsins gerði grein fyrir afstöðu Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi endurskoðunar og hefur afstaða félagsins ekkert breyst frá því í febrúar en félagið gerir þá skýlausu kröfu að atvinnurekendur standi við þann samning sem gerður var 17. febrúar 2008 og þær launahækkanir sem eiga að taka gildi 1. júlí taki allar gildi þá. Þær hækkanir sem um ræðir eru 13.500 kr. hækkun á þá sem vinna eftir launatöxtum og 3,5% handa þeim sem ekki starfa eftir taxtakerfi.

Afstaða félagsins byggist á því að gengið var frá afar hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 sem áttu að tryggja hér stöðugleika og aukinn kaupmátt til handa okkar fólki. Þar af leiðandi ber verkafólk á engan hátt ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og telur félagið að fjölmörg fyrirtæki hafi borð fyrir báru til að standa við áður umsamdar launahækkanir eins og t.d. hefur gerst í fiskvinnslunni og hjá öðrum útflutningsfyrirtækjum.

Það gengur heldur ekki upp að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið á meðan verkafólk hefur þurft að fresta sínum umsömdu launahækkunum, tekið á sig tekjuskerðingar og horft upp á stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100%.

Eins og áður hefur komið fram þá talaði formaður félagsins skýrt á þessum fundi um að staðið yrði fast í lappirnar hvað varðar þær hækkanir sem taka eiga gildi 1. júlí og er það mat Verkalýðsfélags Akraness að hvergi eigi að hvika frá þeirri kröfu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image