• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Álverð hækkar verulega

Það er óhætt að segja að það séu mjög jákvæðar fréttir sem berast úr áliðnaðnum þessa daganna, en verð á áli hefur verið að hækka allverulega að undanförnu.  Álverð náði sögulegu lágmarki í byrjun febrúar á þessu ári, en þá fór álverð niður fyrir 1300 dollara tonnið, núna er álverðið komið yfir 1.700 dollara tonnið sem er hækkun uppá 36%.

Það skiptir okkur Akurnesinga og reyndar allt þjóðarbúið gríðarlega miklu máli að álverð haldi áfram að hækka einfaldlega vegna þess að það eru lausir kjarasamningar starfsmanna Norðuráls um áramótin og hátt álverð mun klárlega auðvelda Verkalýðsfélagi Akraness að ná góðum kjarasamningi fyrir okkar félagsmenn.

Það liggur fyrir núna samkvæmt frétt frá greiningardeild Íslandsbanka að álútflutningur er að skila þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu.  Einnig er rétt að geta þess að allur hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna.  Á þeirri forsendu er það skylda Verkalýðfélags Akraness að reyna ná sem allra mestu úr þeim samningum sem framundan eru fyrir okkar félagsmenn og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð.

Álverð hækkar verulega

Álverð hefur hækkað verulega frá lokum 1. fjórðungs ársins og er nú á svipuðum slóðum og fyrir fjórum árum síðan. Í millitíðinni þandist út verðbóla á hrávörumörkuðum sem síðan sprakk með nokkrum hvelli á haustdögum í fyrra. Áltonnið var selt í London á 1.711 Bandaríkjadali í lok gærdags. Frá mánaðarmótum hefur verð á áli hækkað um 5%, en það sem af er ári nemur hækkunin ríflega 11%. Jákvæðir straumar frá hækkandi hlutabréfaverði og aukinn áhugi hrávörusjóða eru meðal helstu ástæðna hækkunarinnar síðustu daga, en á sama tíma lækkuðu flestir iðnaðarmálmar í verði.

Þróunin það sem af er ári er hins vegar nokkurn veginn í takti við almenna þróun hrávöruverðs, sem hefur farið hækkandi frá miðjum maí. Þó hefur verðhækkun áls undanfarna mánuði verið töluvert yfir meðallagi hvað hrávörur varðar. Orsakast það ekki síst af því að spurn eftir áli er býsna nátengd hagsveiflu vegna þess hvað mikið það er notað í hagsveiflutengdum geirum á borð við bílaiðnað, flugvélasmíði og byggingaiðnað svo nokkuð sé nefnt. Skánandi horfur á heimsvísu, ekki síst væntingar um að hagvöxtur reynist viðunandi í Kína næstu misserin, hafa því að öllum líkindum töluverð áhrif á álverðið.

Líkur á frekari hækkun 
Þótt sérfræðinga á hrávörumarkaði greini á um hvort slegið geti í bakseglin hvað álverð varðar á næstu mánuðum virðast þeir flestir sammála um að horfur séu allgóðar næstu árin. Samantekt spáa á Bloomberg hljóðar til að mynda á þann veg að álverð muni að meðaltali verða tæpir 1.800 Bandaríkjadalir fyrir tonnið á næsta ári og tonnið fari upp undir 2.900 dali að þremur árum liðnum. Framvirkt álverð gefur ekki jafn mikla ástæðu til bjartsýni, en þó hljóðar það upp á að áltonnið verði komið í tæplega 2.000 dali árið 2012.

Mikilvægt fyrir viðskiptajöfnuð
Þróun álverðs hefur talsvert mikið að segja fyrir viðskiptajöfnuð Íslands á komandi árum. Álútflutningur skilar þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða. Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu, auk þess sem hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna. Nettóinnflæði gjaldeyris vegna álframleiðslu er því umtalsvert minni en raunin er með sjávarútveg. Þar sem raforkuverð til álveranna er tengt við álverð getur þróun þess síðarnefnda þó gert gæfumuninn um arðsemi og ekki síður lausafjárstöðu orkufyrirtækjanna í erlendum gjaldeyri. Á tímum þar sem aðgangur að erlendu lánsfé er afar takmarkaður hér á landi er gríðarlega mikilvægt að orkufyrirtækin þurfi sem minnst að leita á innlenda markaði eftir gjaldeyri og að rekstur þeirra sé arðbær, og því getur hagstæð þróun álverðs létt íslensku efnahagslífi róðurinn talsvert á næstu misserum. 

Heimild Greiningardeild Íslandsbanka

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image