• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jul

Uppbygging á Grundartangasvæðinu

Norðurál á GrundartangaEins og flestir vita þá eru erfiðleikar í atvinnulífinu víða þessa dagana, en það er skemmst frá því að segja að á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er útlitið nokkuð bjart miðað við mörg önnur landssvæði.

Nægir að nefna gríðarlega mikla vinnu að undanförnu í tengslum við hvalveiðar og sem dæmi þá hafa um 40 manns hér á Akranesi og um 80 manns í Hvalstöðinni í Hvalfirði unnið linnulaust á vöktum allan sólarhringinn frá því í byrjun júní. Reiknað er með að vertíðin standi eitthvað fram í ágúst til september.

Fleiri jákvæðar fréttir hafa borist af atvinnumálum svæðisins. Nýverið opnaði nýtt veitingahús hér á Akranesi á Kirkjubraut 11 og munu væntanlega þó nokkur störf skapast í kjölfarið þegar að starfsemin verður komin í fullan gang og hefur formaður átt í viðræðum við eigendur staðarins varðandi launakjör og annað slíkt.

Einnig tilkynnti stálsmiðjan Héðinn nú nýverið um að framkvæmdir séu hafnar við byggingu þjónustuverkstæðis Héðins á Grundartanga. Áætlað er að þjónustuverkstæðið verði tilbúið með haustinu. Fyrirtækið mun þjóna fyrirtækjum á Grundartangasvæðinu sem og öðrum verkefnum á Vesturlandi. Sjálft verkstæðishúsið verður um 400 fermetrar og skrifstofa og starfsmannaaðstaða verður um 184 fermetrar.

Þann 16. júlí síðastliðinn var tekin fyrsta skóflustungan að fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga. Áætlað er að verksmiðjan muni rísa á 6 mánuðum og er fyrirhugað að verksmiðjan hefji framleiðslu næsta vor. Framleiðsluhúsið verður um 1200 fermetrar og er gert ráð fyrir að á annan tug iðnaðarmanna verði að störfum á framkvæmdatímanum. Hjá Líflandi starfa vel á sjötta tug starfsmanna.

Það er ljóst að með tilkomu þessara öflugu fyrirtækja á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness munu atvinnumöguleikar til lengri tíma litið aukast töluvert þegar að starfsemi þessara fyrirtækja verður komin í fullan gang. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image