• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jul

Mikil gremja á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar

Gremja á meðal starfsmanna AkraneskaupstaðarVerkalýðsfélag Akraness hélt í gær kynningarfund um nýgerðan kjarasamning við Launanefnd sveitarfélaga en hér er um að ræða kjarasamning fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og félagsmenn VLFA sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum.

Á fundinum var farið yfir helstu atriði í samningum en því miður var ekki um miklar hækkanir að ræða í þessum samningi frekar en öðrum samningum sem gerðir hafa verið við Launanefnd sveitafélaga, að undanförnu sökum afar slæmrar fjárhagsstöðu sveitafélaga vítt og breytt um landið.

Formaður fór einnig yfir þær sparnaðarleiðir sem bæjarráð hefur samþykkt og lítur að breytingu á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Formaður sagði á fundinum að það væri grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Hann greindi fundarmönnum einnig frá því að félagið hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessar breytingu á vinnutilhögun starfmanna sem mun leiða til tekjutaps frá 340.000 kr uppí tæpar 700.000 kr á ársgrundvelli.  Formaður upplýsti að félagið hafi  skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum, sem er afar miður. Hægt er að lesa bréfið hér.

Formaður sagði á fundinum að það væri skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.  Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.

Það ríkti mikil gremja á meðal fundarmanna með þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda um breytingu á vinnutilhögun sem skerðir laun starfsmanna jafn skelfilega raun ber vitni.  Starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vilja fá upplýsingar hvað aðrir hópar innan bæjarins þurfa að leggja af mörkum í þeim sparnaðaraðgerðum sem nú liggja fyrir og nægir að nefna þar forstöðumenn, kennara, starfsmenn í stjórnunarstöðum og æðstu stjórnendur bæjarins.  Það getur ekki verið eðlilegt að ráðast ætíð á þá tekjulægstu þegar kemur að sparnaðarleiðum eins og þessar tillögur klárlega gera.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að skerðing á launum starfsmanna sem ekki ná 400.000 kr. sé algjörlega ólíðandi og óviðunandi og Verkalýðsfélag Akraness getur alls ekki sætt sig við þessa fyrirætlan bæjaryfirvalda. 

Það færi betur ef bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar hefðu farið eins að eins og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ en þar er enginn bæjarstarfsmaður lækkaður í launum sem ekki nær 400.000 kr. í mánaðarlaun.  Sjá fundargerð Reykjanesbæjar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image