• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
May

Þrír kjarasamningar undirritaðir í dag

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraÞað er óhætt að segja að þetta hafi verið annasamur dagur varðandi kjarasamningsgerð en formaður félagsins undirritaði þrjá samninga hjá ríkissáttasemjara í dag við Samtök atvinnulífsins. Eins og áður hefur komið fram var það kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem gengið var frá. Einnig var gengið frá samningi vegna starfsmanna fiskimjölsverksmiðjunnar og síðast en ekki síst þá tókst loksins að ganga frá fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn ISS sem starfa í mötuneytinu og við ræstingar hjá Elkem Ísland á Grundartanga. 

Greint verður nánar frá innihaldi þessara samninga eftir helgi og samningarnir verða kynntir fyrir starfsmönnum alla næstu og þarnæstu viku.  

13
May

Sérhæfður fiskvinnslumaður hækkar um tæpar 20 þúsund krónur

Rétt í þessu undirritaði formaður félagsins nýjan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði hjá ríkissáttasemjara. Meginatriði samningsins eru eftirfarandi:

Launabreytingar verða með þeim hætti að frá 1. júní 2011 hækka laun um 4,25%, 1. febrúar 2012 hækka þau um 3,5% og 1. febrúar 2013 um 3,25%. Þeir sem eru að starfa eftir launatöxtum munu hækka um krónutölu með eftirfarandi hætti: 1. júní 2011 verður 12.000 kr. hækkun, 1, febrúar 2012 11.000 kr. hækkun og 1. febrúar 2013 11.000 kr. hækkun.

Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu mun hækka úr 165 þúsund krónum í 182 þúsund krónur 1. júní 2011, 1. febrúar 2012 í 193 þúsund og 1. febrúar 2013 í 204 þúsund. Það er helst þessi þáttur sem formaður félagsins er afar ósáttur með í þessum samningi  enda var krafa félagsins að lágmarkslaun myndu vera komin upp í 204 þúsund við undirritun samningsins en það náðist ekki í gegn.

Einnig mun koma eingreiðsla í júní að upphæð kr. 50.000 fyrir starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Álag mun koma á orlofsuppbótina sem nemur 10.000 kr. og á desemberuppbótina munu koma 15.000 kr. fyrir árið 2011.

Sem dæmi þá munu grunnlaun sérhæfðs fiskvinnslumanns hækka úr 174.500 kr. í 186.500 kr. og einnig munu bónusgreiðslur hækka um 16,25%. Þannig að starfsmaður í frystihúsi HB Granda á Akranesi sem er með fastan bónus upp á rétt rúmar 254 kr. mun hækka um 41 kr. og mun því bónusinn fara upp í 295 kr. Heildarhækkun sérhæfðs fiskvinnslumanns hjá HB Granda í 7 ára þrepi er því rúmar 19 þúsund krónur á mánuði eftir samning.

Formaður mun kynna samninginn af fullum krafti í næstu viku og verður væntanlega opinn kjörfundur á kynningarfundunum sem og á skrifstofu félagsins en það verður auglýst nánar síðar.

12
May

Árangurslaus fundur

Fundað var vegna launaliðar Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af þessum fundi var lítill sem enginn. Fram kom í máli Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, að fyrirtækið sé tilbúið til að koma með þær launahækkanir sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði en þar var samið til þriggja ára og nam heildarkostnaðarhækkun 11,4%.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lét það koma skýrt fram að þessu tilboði Norðuráls væri hafnað alfarið enda engar forsendur fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi sem hefur hagnast gríðarlega á gengisfalli íslensku krónunnar og einnig á stórhækkuðu afurðaverði, en nú er álverðið í 2.700 dollurum tæpum, skili ekki þeim ávinningi að einhverju leyti til sinna starfsmanna.

Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki undir nokkrum kringumstæðum skrifa undir kjarasamning sem ekki verður í anda þess sem gerðist á Grundartangasvæðinu, nánar tiltekið við Elkem Ísland. Þar var samið upp á 9,6% launahækkun á fyrsta ári ásamt eingreiðslu sem nam föstum mánaðarlaunum og var því heildarhækkun á fyrsta ári 17,6% en samningurinn gildir til þriggja ára og gefur starfsmönnum 25% launahækkun sé tekið tillit til eingreiðslunnar.

Eins og áður hefur komið fram þá mun félagið ekki ganga frá kjarasamningi undir þessum tölum og þessu til viðbótar vantar 3% til að jafna þann launamun sem ríkir á milli Elkem og Alcan í Straumsvík annars vegar og Norðuráls hins vegar.

Lagt var fram tilboð til forsvarsmanna Norðuráls í anda þess sem samið var um við Elkem Ísland ásamt þriggja prósenta viðbótinni sem nefnd var hér að ofan. Væntanlega mun svar koma við þessu tilboði eftir helgi en það skal segjast alveg eins og er að formaður er ekki ýkja bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu hvað það varðar.

11
May

Fundur vegna kjarasamnings Norðuráls

Fundur verður haldinn vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls klukkan 13 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Þetta er fyrsti fundurinn vegna Norðuráls í langan tíma og löngu orðið tímabært að fara að koma þeim samningaviðræðum á skrið enda var launaliðurinn laus nú um áramótin.

Kröfurnar eru skýrar og er algjört grundvallaratriði að sömu kjör náist og í nýgerðum kjarasamningi við Elkem Ísland auk þeirra þriggja prósenta sem skilja þessar tvær verksmiðjur að þegar kemur að launum starfsmanna þeirra. Annað sem lögð verður áhersla á er meðal annars hækkun grunnlauna sem og bónuskerfið. Álverð er nú í hæstu hæðum og því er ekki afsakanlegt að fyrirtækið láti starfsmenn sína ekki njóta þess góða ávinnings sem af því hefur hlotist.

10
May

Fundarhöld vegna Norðuráls og Klafa

Í gær var fundað um kjarasamning Klafa með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara. Á fundinum óskuðu fulltrúar fyrirtækisins og Sa-menn eftir því að gengið yrði frá launaliði starfsmanna Norðuráls áður en farið yrði í að ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa og féllst félagið og trúnaðarmaður á þessa aðferðafræði.

Ástæða þessa er sú að Klafi er í 50% eigu Norðuráls og 50% í eigu Elkem Ísland en Klafi er þjónustufyrirtæki á hafnarsvæðinu á Grundartanga og sjá starfsmenn fyrirtækisins um allar upp- og útskipanir á svæðinu ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum fyrir sína eigendur.

Formaður gerði fulltrúum SA það algerlega ljóst að krafa félagsins í komandi viðræðum bæði við Klafa sem og við Norðurál verður að lágmarki komi þær hækkanir sem um var samið við Elkem Ísland. Á það einnig við um þá eingreiðslu sem Verkalýðfélag Akraness eitt og sér samdi um við Elkem til að liðka um fyrir kjarasamningum.

Formaður hefur óskað eftir því við Samtök Atvinnulífsins að viðræður vegna Norðuráls hefjist án tafar og er jafnvel reiknað með því að fyrsti fundur verði á morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara.

10
May

Fundað hjá Ríkissáttasemjara

Formaður fundaði með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins vegna kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði hjá Ríkissáttasemjara í gær. Formaður lagði fram tillögu að breytingu á þeim kjarasamningi sem ASÍ undirritaði við SA fyrir síðustu helgi. Þær breytingar sem um ræðir er að lágmarkskauptrygging fari strax í 200.000 við undirritun samnings og einnig að fiskvinnslufólk færist upp um 2 launaflokka sökum góðrar stöðu þeirrar greinar um þessar mundir.

Það er skemmst frá því að segja að þessum tillögum var snarlega hafnað og er staða félagsins afar takmörkuð í ljósi þess sem áður hefur komið fram hér að 99% verkalýðshreyfingarinnar hefur nú gengið frá samningum á hinum almenna vinnumarkaði og því staðan lítil sem engin til sóknarfæra.

Formaður á von á því að gengið verði endanlega frá samningi á hinum almenna vinnumarkaði á fimmtudaginn en áður en af því getur orðið þarf að ganga frá fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn ISS sem rann út 31. desember 2007 og ekki hefur tekist að semja um þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í gær var einnig til umræðu kjarasamningur fiskimjölsverksmiðjunnar og verður væntanlega undirritaður samhliða kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image