• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Landsbankinn á Akranesi verður viðskiptabanki Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert viðskiptasamning við Landsbankann á Akranesi til næstu þriggja ára. Samningurinn felur í sér að öll bankaviðskipti Verkalýðsfélagsins verða færð til Landsbankans.

Ákveðið var að leita tilboða í viðskipti félagsins hjá öllum bönkum á Akranesi, þar sem samningurinn við KB Banka rennur út um næstu áramót.

Samningar náðust við Landsbankann sem lagði fram virkilega hagstætt tilboð og eru bæði stjórnendur Verkalýðsfélagsins og bankans mjög ánægðir með samkomulagið.

Starfsfólk Landsbankans á Akranesi mun leitast við að þjónusta Verkalýðsfélagið og félagsmenn sjálfa sem allra best, ásamt því að bjóða félagsmönnum ávallt bestu mögulegu kjör í bankaviðskipti þeirra.

Landsbankinn mun hafa samband við félagsmenn á nýju ári og bjóða hverjum og einum að koma á fund hjá ráðgjafa þar sem farið verður yfir kjör, veitt ráðgjöf og svarað þeim spurningum sem kunna að brenna á vörum félagsmanna varðandi fjármál.

Starfsfólk Landsbankans á Akranesi hlakkar til að takast á við það verkefni að vera viðskiptabanki Verkalýðsfélags Akraness og vonar að samstarfið eigi eftir að vera ánægjulegt og árangursríkt.

13
Dec

Afar gagnlegur fundur var haldinn í morgun um málefni erlends vinnuafls á Akranesi

Í morgun var haldinn fundur um málefni erlends vinnuafls á Akranesi.  Þetta er í annað sinn sem þessir sömu aðilar koma saman til að funda um erlent vinnuafl. 

Á fyrri fundinum var ákveðið að koma á fót     samstarfvettvangi með það að markmiði að reyna átta sig á hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum á Akranesi og til að reyna að tryggja að þeir atvinnurekendur sem hafa erlenda starfsmenn fari eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði .  Þeir aðilar sem koma sameignlega að þessum verkefni eru Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri, Jón Pálmi Jónsson bæjarritari,  Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Stefán Skjaldarson skattstjóri Vesturlandsumdæmis Tryggvi Bjarnason lögfræðingur Skattstofu Vesturlandsumdæmis og Jón S Ólafsson lögreglustjóri

Fundurinn í dag var afar gagnlegur og  ljóst er að allir þeir aðilar sem sátu fundinn í dag eru að skoða málefni erlends vinnuafls, hver á sínu sviði.

Það er einnig alveg ljóst að samstarfsvettvangur þessara fjögurra aðila mun klárlega gagnast í baráttunni við þá atvinnurekendur sem ekki fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði hvað varðar erlent vinnuafl.  Ákveðið var að funda aftur fljótlega eftir áramót.

12
Dec

Bæjarstjórinn á Akranesi boðar til fundar um erlent vinnuafl

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar hefur boðað formann Verkalýðsfélags Akraness, sýslumanninn á Akranesi og skattstjóra Vesturlands til fundar.

Tilefni fundarins er að fara yfir málefni erlends vinnuafls  með það að markmiði  að reyna að fá einhverja heildaryfirsýn yfir hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum hér á Akranesi. 

Einnig mun Verkalýðsfélag Akraness upplýsa skattayfirvöld og sýslumanninn  um þá vinnustaði þar sem erlendir starfsmenn eru að störfum. 

Þetta samráðsverkefni bæjarstjórans á Akranesi er til mikillar fyrirmyndar og sýnir í verki að bæjaryfirvöld á Akranesi vilja taka á þeim vandamálum sem fylgt hafa komu erlends vinnuafls til starfa hér á Akranesi.

09
Dec

Fundað með starfsmönnum Geca hf.

Formaður félagsins hefur fundað stíft með starfsmönnum Geca hf. vegna gjaldþrots fyrirtækisins.  Félagið vinnur að því að fá launaseðla og önnur gögn þannig að hægt sé að gera kröfu í þrotabúið vegna vangreiddra launa.  Starfsmennirnir fengu ekki laun sín nú um mánaðarmótin eins þeir áttu rétt á.   Einnig hefur ekki  verið borgað inná orlofsreikninga mannanna eins og kjarasamningar kveða á um.   Það er mjög erfitt að horfa uppá sína félagsmenn missa vinnu sína við þessar aðstæður og þá óvissu sem fylgir í kjölfarið.   Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að vinna að, í samvinnu við Svæðisvinnumiðlun að útvega mönnunum aðra vinnu og lítur það bara nokkuð vel út þessa stundina. 

07
Dec

Formaður Verkalýðsfélags Akraness valinn Vestlendingur vikurnar !

Vesturlandsblaðið Skessuhorn hefur valið Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness sem Vestlending vikurnar.  Í blaðinu kemur fram að titilinn hljóti hann fyrir einarða baráttu fyrir kjörum og réttindum erlendra starfsmanna á félagssvæði VLFA.

Formaður félagsins vill þakka Skessuhorni kærlega fyrir að velja sig sem Vestlending vikurnar.  Þetta er mikil hvatning um halda áfram að verja kjör erlendra verkamanna og þeirri ógn sem steðjar að íslenskum vinnumarkaði.

Einnig vill formaður félagsins nefna þá miklu samstöðu sem ríkir í stjórn félagsins um að verja okkar félagssvæði gegn þeim undirboðum og misnotkun sem fylgt hefur erlendu vinnuafli.  Stjórnin hefur tekið ákvörðun um að verja félagsvæðið  með öllum tiltækum ráðum.

Fjölmiðlar þessa lands eiga hrós skilið fyrir að vekja athygli á þeim brotum sem erlent vinnuafl hefur orðið fyrir vítt og breytt um landið.  

05
Dec

Frumvarp um starfsmannaleigur alls ekki nógu gott að mati Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélag Akraness skilaði inn til félagsmálanefndar Alþingis tillögum um breytingar á lögum um starfsmannaleigur.  Verkalýðsfélag Akraness er undrandi á að Alþýðusamband Íslands skuli ekki vera tilbúið að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að þessar breytingatillögur verði að koma inní frumvarpið til að það nái þeim tilgangi sem til frumvarpsins er ætlast.

Það er t.b með ólíkindum að það eigi að festa það í lög (gr. 16 í frumvarpinu lög nr.54/2001) að kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði gildi ekki að fullu fyrir starfsmenn sem starfa hér tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja. (þjónustusamningum) Vantar þar töluvert uppá að þeim erlendu starfsmönnum sem munu starfa eftir lögum nr. 54/2001 séu tryggð lágmarkskjör.

Einnig vill félagið benda á að hendur stéttarfélaga eru algerlega bundnar hvað varðar eftirlit með kjörum þeirra sem koma á vegum starfsmannaleiga samkvæmt frumvarpinu. Það verður að veita stéttarfélögunum einhverja heimild til eftirlits með starfskjörum þessara starfsmanna sem koma á vegum starfsmannaleiga og þá í fullri samvinnu við Vinnumálastofnun.

Verkalýðsfélag Akraness hefur þó nokkra reynslu hvað varðar erlent vinnuafl og þeim vandamálum sem því hefur fylgt. Stéttarfélagið er ekki í neinum vafa að frumvarpið eins og það er nú, er alls ekki til þess fallið að leysa þann vanda sem stéttarfélögin hafa verið að glíma við á undanförnum mánuðum, því miður vantar meira til.

Breytingartillögur og greinargerð  Verkalýðsfélags Akraness við frumvarp til laga um starfsmannaleigur eru eftirfarandi:

1.       Á eftir 9.gr. frumvarpsins komi ný grein, 10. gr. ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytast greinatölur annarra greina samkvæmt því.

 

10.gr.

Ábyrgð og skyldur notendafyrirtækis.

 

Starfsmannaleiga skal afhenda notendafyrirtæki ráðningarsamninga þeirra starfsmanna sem leigðir eru. Er notendafyrirtæki óheimilt að nýta sér þjónustu viðkomandi starfsmanna nema ljóst sé af ráðningarsamningi að starfskjör séu í samræmi við kjarasamninga og íslenska löggjöf. Notendafyrirtæki getur leitað umsagnar viðkomandi stéttarfélags.

 

 

2.       Við 10.gr. er verður 11.gr.

    a.      Í upphafi greinarinnar bætist ný málsgrein svohljóðandi:

 

Stéttarfélag getur krafið notendafyrirtæki á félagssvæði sínu um ráðningarsamninga þeirra starfsmanna starfsmannaleiga sem þar starfa sem og önnur þau gögn sem notendafyrirtæki hefur undir höndum um vinnu starfsmanna svo sem tímaskýrslur. Ef stéttarfélag telur að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna ber því að senda Vinnumálastofnun rökstudda kvörtun.

 

                 b.      Í lok greinarinnar bætist við ný setning svohljóðandi:

Sama gildir um starfsmenn stéttarfélaga

 

3.          Við 16.gr. er verður 17.gr.  Liður a.i. orðist svo:

 

    1. Eftirfarandi breytingar verða á 3.gr. laganna:

i.               1.tölul. 1.mgr. hljóði þannig:

             Lög nr. 55/1980  um starfskjör launafólks og skyldutryggingu

             lífeyrisréttinda 1.gr., 6.gr. og 7.gr.

 

 

Athugasemdir við einstaka greinar breytingatillagna.

 

                                                            Um lið 1.

Telja verður eðlilegt að gera þá kröfu til notendafyrirtækja að þau hafi undir höndum ráðningarsamninga og ábyrgist að kjör starfsmanna séu í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga. Er lagt til að fyrirtækin geti leitað umsagnar viðkomandi stéttarfélags hvort svo sé.  Notendafyrirtækin hafa hingað til getað skýlt sér bak við ábyrgð starfsmannaleigunnar og hefur það að mati verkalýðshreyfingarinnar torveldað allar aðgerðir til að tryggja starfsmönnum starfsmannaleiga lögbundin starfskjör. Ætla verður einnig að notendafyrirtækin hafa  mun betri þekkingu á kjarasamningum og íslenskri löggjöf en starfsmannaleigur.  Má ætla að ábyrgð notendafyrirtækja skapi meiri festu í þessum málum og tilraunum til að komast hjá lögboðnum launagreiðslum fækki. Þessi ábyrgð ætti ekki að íþyngja notendafyrirtækjum og geta þau falið stéttarfélögum málið með því að leita umsagnar þeirra.   Samkomulag aðila vinnumarkaðarins um samráðsnefnd til að fjalla um málefni útlendinga nær almennt ekki til starfsmannaleiga þar sem þær eru í fæstum tilvikum aðilar að samtökum atvinnulífsins. Á grundvelli framangreindrar ábyrgðar notendafyrirtækis getur nefndin hins vegar kallað eftir gögnum frá þeim, m.a. ráðningarsamningi.

                                                            Um lið 2.

Telja verður að stéttarfélög á starfssvæði notendafyrirtækis sé hæfast til að hafa  eftirlit með því hvort brotið sé gegn ákvæðum laganna. Þekking þeirra á kjarasamningum, nálægð og samneyti almennra félagsmanna við starfsmenn starfsmannaleiganna auðveldar þetta eftirlit. Er eðlilegt að félögin geti kallað eftir ráðningarsamningum hjá notendafyrirtækjunum sem og önnur gögn sem fyrirtækin eru með um vinnu þessara starfsmanna, svo sem tímaskýrslur. Þessi eftirlitsheimild stéttarfélaga ætti að tryggja að mál komi fyrr til athugunar hjá Vinnumálastofnun og kvartanir samkvæmt 9.gr. verði færri og rökstuðningur betri. Má ætla að þetta fyrirkomulag leiði til minna álags á Vinnumálastofnun vegna þessara mála en ella.

                                                            Um lið 3.

Í frumvarpi til laga um útsenda starfsmenn sem síðar varð að lögum nr.54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja kemur fram að frumvarpið er sett fram til að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 96/71EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.  Kemur fram í frumvarpinu að lög bandalagsins útiloki ekki einstök aðildarríki frá því að beita löggjöf sinni eða kjarasamningum gagnvart hverjum þeim sem ráðinn er til starfa á yfirráðasvæði þeirra þótt vinnuveitandinn hafi staðfestu í öðru aðildarríki, jafnvel þótt ráðningin sé tímabundinn.   ( þetta kemur fram í tl. 10 og 19 í inngangi tilskipunarinnar.)    Er talið eðlilegt að erlendum starfsmönnum séu tryggð sömu lágmarksréttindi og íslenskt starfsfólk nýtur á grundvelli kjarasamninga og löggjafar.

Með því er einnig tryggt að notkun á þjónustu starfsmannaleiga skekki síður samkeppnisstöðuna á íslenskum vinnumarkaði. 

 

Fh.  Verkalýðsfélags Akraness

 

_____________________________________
Vilhjálmur Birgisson, formaður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image