• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Feb

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund bæjarráðs

Formaður félagsins hefur verið boðaður á fund hjá bæjarráði í dag kl. 16:45.  Tilefni fundarins er væntanlega ósk félagsins um að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað verði samræmd við kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar.  Eins og flestir vita þá hefur launanefnd sveitarfélaga gefið heimild fyrir því að kjör þeirra sem hafa lægstu launin verði hækkuð um allt að 12%.  Fróðlegt verður að heyra hvað bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur um málið að segja og hvernig þeir ætla að bregðast við heimild launanefndarinnar

31
Jan

Nefnd skipuð til að fara yfir einstaka þætti í bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Í gær var haldinn fundur vegna bónuskerfis starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  En nýtt bónuskerfi var tekið upp samhliða nýjum kjarasamningi á síðastliðnu ári.  Nokkur vonbrigði hafa verið með hið nýja bónuskerfi og hefur bónusinn alls ekki verið að skila þeim ávinningi sem samningsaðilar vonuðust til.

Reiknað var með að í janúar 2006 væri bónuskerfið  farið að gefa um 80% af því sem bónusinn getur gefið, en hámarkið er 7%.  Því miður hefur það ekki gengið eftir. 

Þeir sem sátu þennan fund í gær voru Ingimundur Birnir forstjóri, aðaltrúnaðarmaður, trúnaðartengiliðir, og formaður Verkalýðsfélags Akraness. 

Ákveðið var að skipa nefnd sem verður skipuð að stæðustum hluta af starfsmönnum og verður hlutverk  nefndarinnar að skoða hvað veldur því að bónuskerfið er ekki að virka sem skildi.

Því er ei að neita að Verkalýðsfélag Akraness hefur vissar áhyggjur af því að mælistikurnar í einum þættum í nýtingarbónusnum séu einfaldlega of háar og meðan svo sé mun sá þáttur ekki skila þeim ávinningi til starfsmanna eins og reiknað var með.  Væntanlega mun nefndin skoða það mál alveg sérstaklega.  Áætlað er að nefndin skili niðurstöðum fyrir febrúarlok.

30
Jan

Ætla Samtök atvinnulífsins virkilega ekki að fylgja fordæmi launanefndar sveitafélaga og hækka lægstu launin?

Launanefnd sveitarfélaga hefur gefið sveitarfélögunum heimild  um að hækka laun þeirra sem lægstu hafa launin.  Hér er verið að tala um allt að 12% hækkun fyrir umrædda hópa. 

Verkalýðsfélag Akraness fagnar innilega þessari ákvörðun launanefndarinnar og margir telja að nú sé að verða þjóðarsátt um að hækka laun þeirra sem hvað lægstu launin hafa.

Nei því miður virðist alls ekki vera svo ef marka má viðbrögð Hannesar G Sigurðssonar aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í fjölmiðlum í dag.  En þar segir hann að það sé ekkert tilefni til að endurskoða kjarasamninga á almenna markaðinum með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga gerði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að benda á undanförnum vikum hvernig verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fór skelfilega illa útúr sínum kjarasamningi og fékk langtum minna   úr sínum samningi heldur en allir aðrir hópar.

Skoðum muninn á milli kjarasamningsins á almenna vinnumarkaðnum og kjarasamningum sem gerður var við sveitafélögin.  En hér er um töluverðan mun að ræða

Kostnaðarmat á kjarasamningum sem Starfsgreinasambandið gerði við launanefnd sveitarfélagana var 24% á samningstímanum og nú hefur verið bætt í samning fyrir þá lægst launuðu sem nemur allt að 12%. 

Kjarasamningurinn sem Starfsgreinasambandið gerði við  Samtök atvinnulífsins og gildir fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði gaf einungis 15,8%

Með öðrum orðum þá er ófaglært verkafólk sem er á lægstu töxtunum og starfar hjá sveitarfélögunum að fá 20% hærri kauphækkanir á samningstímanum heldur en verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Tökum eitt dæmi um þau skelfilegu kjör sem fiskvinnslufólk býr við.  Sérhæfður fiskvinnslumaður sem er með 7 ára starfsreynslu hjá sama atvinnurekanda fær í grunlaun 117.653 á mánuði.  Það eru þessu láglaunastörf á almenna vinnumarkaðinum sem verður að lagfæra með sambærilegum hætti og launanefnd sveitarfélaga er að gera hjá sveitarfélögunum.  Verkalýðshreyfingin getur alls ekki sætt sig við neitt annað.

28
Jan

Aðalfundum deildanna er lokið

Aðalfundur almennu deildar var haldinn í gær og var stjórn deildarinnar endurkjörin.  Formaður félagsins fór yfir starfsemina hjá félaginu með sama hætti og hann hafði gert á aðalfundum hina deildanna.  Þar með hafa allar deildirnar haldið sína aðalfundi eins og lög  félagsins kveða á um.  Engin breyting var á stjórnum deildanna nema hjá iðnsveinadeildinni þar var einn breyting Arnar Erlingsson fór út úr stjórninni og inn kom Guðni Ragnarsson.

26
Jan

Síðasti aðalfundur deildanna verður haldinn á morgun

kvöld var haldinn aðalfundur stóriðjudeildar.  Í gær var það Iðnsveinadeildin sem hélt sinn aðalfund.  Einn breyting varð á stjórn Iðnsveinadeildar Arnar Þór Erlingsson hætti og í hans stað kom Guðni Ragnarsson en hann er trúnaðarmaður hjá Smellinn.  Á báðum þessum aðalfundum fór formaður félagsins yfir  helstu atriði í starfsemi félagsins frá síðasta ári.  Einnig var mikið rædd um þá þróun sem er að eiga sér stað hjá HB Granda og þeirri fækkun á störfum sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu á liðnu ári.  Á morgun verður haldinn aðalfundur almennu deildar og er það síðasti aðalfundur deildanna.  Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það í lögum félagsins að aðalfundir deildanna skulu haldnir fyrir janúarlok og eftir því fer stjórn félagsins í hvívetna

25
Jan

Frá því að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda hf hafa tapast hér á Akranesi á milli 55 og 65 störf á einu ári

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að skoða á undanförnum dögum hvernig sameining Haraldar Böðvarssonar við Granda hefur komið út fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Það er skemmst frá því að segja að það er skelfilegt að sjá hvernig Akurnesingar hafa farið út úr þessari sameiningu.   

Í lok árs 2004 eða rétt fyrir sameiningu voru 125 starfsmenn sem störfuðu við landvinnslu hjá HB Granda á Akranesi.  Í dag eru 80 starfsmenn sem starfa við landvinnsluna, sem er fækkun uppá 45 starfsmenn eða 31% á rétt rúmu ári.   Hafa skal það í huga að hér er bara verið að tala um landvinnslufólk. 

Sjómönnum hér á Akranesi hefur einnig fækkað vegna þessarar sameiningar.  Það voru 85 sjómenn sem voru í Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Haraldi Böðvarssyni fyrir sameiningu.  Í  dag eru 77 sjómenn og hefur  fækkað um 8 skipverja. 

Síðan verður einnig að hafa í huga að 11 skipverjum á aflaskipinu Víkingi Ak 100 hefur nýverið verið sagt upp störfum.  Þegar búið verður að leggja Víkingi Ak þá hafa 19 sjómenn misst vinnuna hjá HB Granda frá sameiningu eða 22%

Rétt er að það komi fram að forsvarsmenn HB Granda leggja áherslu á að skipverjar á Víkingi Ak fá pláss á öðrum skipum hjá útgerðinni.  En ekkert er fast í hendi hvað það varðar.

Stöðugildum á skrifstofu félagsins hefur einnig fækkað eða sem nemur 4 stöðugildum.  Þar á meðal er störf þeirra bræðra Sturlaugs og Haraldar.

Þetta eru blákaldar staðreyndir um þá þróun sem átt hefur sér stað eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Vissulega má segja að hluti af þessum samdrætti hér á Akranesi sé vegna aflasamdráttur og hagræðingar innan fyrirtækisins.  En klárlega skýrir það ekki allan þennan samdrátt sem orðin er hér á Akranesi. 

Það sem Verkalýðsfélag Akraness vill sjá er sanngirni á milli þeirra starfstöðva sem eru í eigu HB Granda.  En það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að við Akurnesingar höfum verið niðurlægðir í þessari sameiningu.

 Það verður ekki með tárum tekið hvernig samfélagið á Akranesi hefur farið út úr þessari sameiningu.  En fyrirtækið Haraldur Böðvarsson & co hefði orðið 100 ára 17. nóvember 2006

Nú verða allir að leggjast á eitt og reyna að koma í veg fyrir að fjöregg okkar skagamanna blæði endanlega út.  Við verðum að verja þann nýtingarrétt sem HB fjölskyldan og við skagamenn höfum áunnið okkur inn á síðustu 100 árum.  Við getum ekki horft aðgerðalaus á nýtingaréttin og einnig störfin okkar hverfa héðan í burtu eins og ekkert sé.  Gerum eitthvað !

Verkalýðsfélag Akraness er einnig að skoða svarið sem sjávarútvegsráðherra gerði við fyrirspurn Magnúsar þ Hafsteinssonar um landaðan afla hér á Akranesi.  Í því svari sést nokkuð vel hvernig fjarað hefur undan okkur hér á Akranesi hvað varðar þessa sameiningu.  En verulegur samdráttur er á lönduðum afla hér á Akranesi eftir að fyrirtækin sameinuðust.

Sem dæmi má nefna að 37.824 þús tonn var landað í bræðslu hér á Akranesi af Kolmuna á árinu 2004.  Árið 2005 var ekki einu kílói landað hér á skaganum.  Öllum kolmuna var landað á Vopnafirði eða öðrum höfnum fyrir austan.  Nánar verður fjallað um svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Magnúsar hér á heimasíðunni fljótlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image