• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Mar

Skýlaus krafa um að íslensk stjórnvöld fresti frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkum EES um allt að þrjú ár í viðbót

Eftir rúman mánuð, nánar tiltekið 1.maí 2006, falla úr gildi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.  Það þýðir að ríkisborgarar frá Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu,Tékklandi og Ungverjalandi munu ekki þurfa að sækja um atvinnuleyfi hér á landi eins og verið hefur.

Eins og staðan er núna þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir ríkisborgara frá þessum löndum sem hingað koma til starfa.  Það tryggir að stéttarfélögin geta fylgst með að erlendum starfsmönnum séu tryggð lágmarkskjör sem eru í gildi samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Ef félagsmálaráðuneytið mun aflétta þessum takmörkunum 1. maí nk. þá munu stéttarfélögin ekki sjá neina ráðningarsamninga frá erlendu starfsmönnunum og munu þar af leiðandi eiga í töluverðum vandræðum með að tryggja að kjarasamningar séu virtir.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er afar undrandi á að félagsmálaráðuneytið hafi ekki ennþá tekið ákvörðun um hvað gera skuli eftir 1. maí nk. varðandi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá ofangreindum löndum.   Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa rétt til að framlengja aðlögunarfrestinn um allt að þrjú ár til viðbótar.  Það hafa t.d Þýskaland, Frakkland og Austurríki ákveðið að gera.

Það er  mat formanns félagsins að  íslensk stjórnvöld eigi skýlaust að fylgja fordæmi þessa þriggja landa og framlengja aðlögunartímann um þrjú ár.    Það er einnig mat formannsins að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum afnema þær takmarkanir sem nú eru í gildi varðandi frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkum EES.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft þurft að hafa afskipti af fyrirtækjum sem mismuna erlendum starfsmönnum gróflega bæði hvað varðar aðbúnað sem og launakjör.  Einnig hrinti ASÍ þann 1. maí 2005 af stað átaki undir nafninu Einn réttur ekkert svindl.  Það var gert vegna þess að mjög mörg dæmi voru um að gróflega væri verið að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna.   Hægt að lesa meira með því að smella á meira.

Sem dæmi þá er einungis einn mánuður síðan Vinnumálastofnun afturkallaði atvinnuleyfi hjá sex Litháum en verktaki hér á Akranesi hafði Litháana í sinni þjónustu.  Vinnumálastofnun afturkallaði atvinnuleyfin vegna margvíslegra brota verktakans. 

Því er afar mikilvægt að búið verði til sérstakt regluverk er varðar eftirlit með aðbúnaði og starfskjörum erlends verkafólks.  Það þarf einnig að veita stéttarfélögum mun víðtækari heimildir til gagnaöflunar leiki grunur á um að verið sé að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna, en oft hefur reynst erfitt að fá gögn frá atvinnurekendum þegar grunur leikur  á broti.   Einnig er mjög mikilvægt að haldin verði nákvæm skráning á öllu því erlenda vinnuafli sem hingað kemur til starfa.  Þessi atriði verða stjórnvöld að tryggja áður en takmörkunum verða aflétt.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur að reynslan hafi svo sannarlega sýnt okkur að stjórnvöld eru á engan hátt undir það búinn að hingað streymi erlent vinnuafl algjörlega án eftirlits. Myndi það  klárlega leiða til félagslegra undirboða og jafnvel auka á svarta atvinnustarfssemi.

Frjálst flæði verkafólks frá þessum löndum mun einnig skaða það markaðslaunakerfi sem víða gildir á íslenskum vinnumarkaði í dag.  Alla vega hræðist formaður VLFA það að atvinnurekendur muni í auknu mæli sækja í ódýrara vinnuafl og reynslan sýnir að erlent verkafólk hefur því miður oftar en ekki verið sett á lágmarkstaxta.  Það sjáum við í verkalýðshreyfingunni glögglega þegar atvinnurekendur sækja um atvinnuleyfi, meirihluti þeirra ráðningarsamninga sem fylgja atvinnuleyfunum sýna að erlendu starfsmönnum eru einungis greidd laun samkvæmt lágmarkstaxta.  

Vissulega vilja Samtök atvinnulífsins að stjórnvöld afnemi takmarkanir á nýjum aðildarríkjunum EES strax 1. maí nk.   Samtök atvinnulífsins vita að meirihluti erlends vinnuafls fer beint á lágmarkskjör og þannig komast atvinnurekendur hjá því að greiða þau markaðslaun sem eru í gildi á hinum ýmsu starfssvæðum.  

 

Eins og áður hefur komið fram þá má ekki undir neinum kringumstæðum afnema þær  takmarkanir sem nú er í gildi á frjálsu flæði verkafólks frá hinum nýju ríkum EES fyrr en búið verður að tryggja eftirfarandi:

  • Að bein ráðning sé meginregla vegna starfa á íslenskum vinnumarkaði.
  • Að erlent launafólk sem starfar hér á landi njóti sömu launa og starfskjara og annarra réttinda og þeir sem fyrir eru á vinnumarkaðnum.
  • Að fullnægjandi úrræði séu til staðar fyrir stéttarfélögin til að fylgjast með að kjarasamningar og lög séu virt og hægt sé að fylgja því eftir eins og nauðsyn krefur.
  • Að upplýsingar liggi fyrir um þá útlendinga sem hér eru að störfum, fjölda, hvaðan þeir koma, hverjir þeir eru, hvar þeir starfa og við hvað þeir starfa.

Þessi ofangreindu atriði eru grunnforsenda fyrir því að hægt sé að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks hingað til lands.

Það væri köld vatnsgusa framan í íslenskt verkafólk ef félagsmálaráðneytið myndi aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá nýjum ríkum ESS og það á baráttudegi launafólks, 1. maí.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image