• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Dec

Launabreytingar 1. janúar 2006

Samkvæmt kjarasamningum sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að eiga lágmarks launahækkanir frá og með 1. janúar 2006 að verða sem hér segir:

Samningur SGS og SA á almennum markaði 2,5%.
Samningur SGS og ríkisins 2,5%,
Samningur SGS og launanefndar sveitarfélaganna 3,0%.
Samningur Samiðnar við SA v/iðnaðarmanna 2,5%.
Samningur Íslenska Járnblendið, Klafi og Fang 2,5%
Samningur við Norðurál 3,0%

Samningur Sjómanna við LÍÚ 3,5% 

Verkalýðsfélag Akraness vekur þó athygli á því að lágmarkskauptaxtar í kjarasamningi Samiðnar hækka meira, eða um 5%. Einnig er vakin athygli á því að röðun í launaflokka í kjarasamningi SGS og SA breytist frá og með 1. janúar 2006.


Kynnið ykkur þessar breytingar hjá félaginu og skoðið kjarasamningana. Þeir eru fáanlegir á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness.

24
Dec

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Verkalýðsfélag Akraness óskar félagsmönnum sínum sem og öllum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Einnig vill stjórn og starfsmenn félagsins þakka félagsmönnum fyrir frábært samstarf á árinu sem nú er senn á enda.

23
Dec

Áttu í erfiðleikum með lestur, skrift eða stærðfræði? - Kynningarfundur fyrir félagsmenn fljótlega á nýju ári.

Fyrirhugað er að halda kynningarfund fyrir félagsmenn um árangursríka aðferð til að takast á við lesblinduna. Notast er við aðferðafræði Ron Davis, sem sjálfur var mjög lesblindur en náði sjálfur miklum árangri með þessum aðferðum. Mörg þúsund manns um heim allan, hafa notað þessa aðferð með góðum árangri.

Erla S. Olgeirsdóttir og Ásta Valdís Guðmundsdóttir, Davis leiðbeinendur/ráðgjafar, munu á fundinum kynna þessar aðferðir og svara spurningum. Þær hafa báðar töluverða reynslu við að þjálfa lesblinda einstaklinga á öllum aldri.

Hægt er að bóka greiningarviðtal að fundi loknum. Í greiningarviðtölum er fundið út hvort Davis aðferðin henti einstaklingnum.

Nánari upplýsingar má fá hjá Erlu Olgeirsdóttur  eða Ástu Valdísi Guðmundsdóttur og einnig hjá formanni félagsins sími 865-1294 

Nánar auglýst síðar.

21
Dec

Breytingar verða hugsanlega gerðar á rekstri Fangs ehf.

Formaður félagsins sat fund með starfsmönnum Fangs ehf. sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins boðaði til.  Starfsmenn Fangs sjá um ræstingu, mötuneyti, þvott, og launaútreikninga fyrir Íslenska járnblendifélagið. 

Tilefni fundarins var að tilkynna starfsmönnum Fangs að Íslenska járnblendifélagið sem á Fang ehf. hefur í hyggju að gera einhverjar breytingar á rekstrinum, jafnvel eru hugmyndir um að selja Fang.

Verkalýðsfélag Akraness hefur nýverið gengið frá mjög góðum fyrirtækjasamningi við Fang ehf. sem hefur tryggt starfsmönnum afar góð launakjör, sem eru mun betri en gerast í sambærilegum störfum.  Því mun Verkalýðsfélag Akraness fylgjast mjög vel með framvindu þessa máls með hagsmuni starfsmanna Fangs að leiðarljósi. 

16
Dec

Fréttabréfið kemur út eftir helgi

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness kemur út á mánudaginn nk.  Blaðinu verður dreift í öll hús á Akranesi og nágreni. 

Í blaðinu eru fjölmargar fréttir og ýmsar upplýsingar um starfssemi félagsins sem gagnast geta okkar félagsmönnum.  Hægt verður að nálgast fréttabréfið hér á heimasíðunni fljótlega eftir helgi.

Það var núverandi stjórn sem tók ákvörðun um að gefa út tvö vegleg fréttabréf á ári, en það hafði ekki þekkst áður hjá Verkalýðsfélagi Akraness. 

15
Dec

Flestir starfsmenn Geca hf. hafa fengið nýja atvinnu

Það er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að fjórir af þeim sex félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem misstu vinnu við gjaldþrot Geca hf. hafa fengið nýja vinnu eða vilyrði um nýtt starf.

Verkalýðsfélags Akraness hefur verið sínum félagsmönnum innan handar við að fylla út atvinnuumsóknir og fleira í þeim dúr.  Vonandi greiðist úr málum hina tveggja sem ekki hafa fengið vinnu mjög  fljótlega.

Að lenda í því að missa atvinnuna við þessar aðstæður og það  í sjálfum jólamánuðunum er afar erfitt og skilja bara þeir sem í því lenda.  Því er afar mikilvægt að stéttarfélögin reyni eins og kostur er að koma félagsmönnum sínum til hjálpar eins og hægt er.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image