• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Feb

Ekki á leið í framboð

Að gefnu tilefni vill formaður Verkalýðsfélags Akraness taka það skýrt fram að hann er ekki á leið í framboð vegna komandi sveitarstjórnakosninga, en vill samt sem áður þakka þeim fjölmörgu sem hafa að undanförnu skorað á hann m.a. á Facebook og víðar fyrir það traust.

Formaður vill upplýsa að hann tilheyrir ekki neinum stjórnmálaflokki, enda er það hans skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki. Enda eru forystumenn í verkalýðshreyfingunni að vinna fyrir félagsmenn sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin sé hafin yfir allan vafa hvað varðar traust og trúverðugleika. En það gerir hún alls ekki með því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni séu yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjórnmálaafla og noti verkalýðshreyfinguna til að koma sínum flokkspólítísku málum á framfæri. Þetta hefur því miður verið allt of algengt.

Með öðrum orðum, verkalýðshreyfingin á að vinna að málefnum er lúta að hagsmunum launafólks algerlega óháð því frá hvaða stjórnmálaöflum slík málefni koma.

Formaður vill líka upplýsa um það að það eru ærin verkefni framundan hjá Verkalýðsfélagi Akraness við að bæta kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, t.a.m. stendur nú yfir samningagerð við forsvarsmenn Norðuráls og að auki eru allir aðrir kjarasamningar lausir á árinu. Mun formaður ekki hvika frá þeirri baráttu sem framundan er, en vill ítreka þakklæti til þeirra sem hafa verið að skora á hann að undanförnu.

04
Feb

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun

Klukkan 9 í fyrramálið mun hefjast fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna nýs kjarasamnings fyrir starfsmenn Norðuráls, en þetta mun verða áttundi fundurinn. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá hefur vinnan hingað til aðallega falið í sér lagfæringar á texta í kjarasamningnum og er sú vinna nú langt komin.

Hugsanlega getur textavinnan klárast á morgun eða á næsta fundi og þá verður hægt að fara af fullum krafti í það sem skiptir starfsmenn langmestu máli en það eru launaliðirnir sjálfir. Formanni leiðist ekki að ítreka það að í þessum viðræðum mun Verkalýðsfélag Akraness sýna fulla hörku við að knýja fram sömu kjör og gilda í öðrum verksmiðjum.  

03
Feb

Kjaraviðræður Norðuráls komnar á fullt skrið

Í gær var haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara samningafundur um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Norðuráls. Þetta var áttundi fundurinn sem haldinn hefur verið í þessari samningalotu. En eins og áður hefur komið fram þá hefur vinna við samningagerðina hingað til lotið að textabreytingu í kjarasamningi og er lítið byrjað að ræða það sem skiptir starfsmenn hvað mestu máli, það er launaliðina.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kynnti fyrir samninganefnd Norðuráls, þ.e. stéttarfélögunum og trúnaðarmönnum, launasamanburð sem hann hefur gert og lýtur að samanburði á launum Norðuráls, Elkem Ísland og Alcan.

Á grundvelli þessa launasamanburðar mun Verkalýðsfélag Akraness berjast af alefli fyrir því að sá launamunur sem birtist í þessum samanburði verði leiðréttur að fullu við undirskrift nýs samnings. Formaður hefur tjáð forsvarsmönnum Norðuráls að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki skrifa undir nýjan kjarasamning fyrr en leiðrétting hefur farið fram á launakjörum starfsmanna Norðuráls til samræmis við launakjör áðurnefndra verksmiðja. Frá þessari kröfu mun félagið ekki hvika.

Næsti fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn næstkomandi.

03
Feb

Tveir aðalfundir deilda hafa verið haldnir

Í þessari viku hafa þegar verið haldnir tveir af aðalfundum deildanna, á mánudaginn var aðalfundur almennrar deildar og í gær var iðnsveinadeildin. Í kvöld mun Matvæladeildin halda sinn aðalfund.

Auk venjubundinna aðalfundarstarfa hafa á fundunum spunnist heilmiklar umræður um atvinnuástandið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar að lútandi. Ber öllum fundarmönnum saman um að atvinnuástandið sé mjög alvarlegt, enda eru yfir 300 manns á Akranesi án atvinnu. Á landinu öllu eru yfir 17.000 manns atvinnulausir.

Einnig eru fundarmenn sammála um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við vanda skuldsettra heimila séu alls ekki nægilegar, enda virðast flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðast að því að heimilin greiði sínar stökkbreyttu skuldir upp í rjáfur á sama tíma og slegin hefur verið skjaldborg utan um fjármagnseigendur.

01
Feb

Aðalfundur Almennrar deildar í kvöld

Eins og lög félagsins gera ráð fyrir verða aðalfundir allra deilda Verkalýðsfélags Akraness haldnir næstu daga. Nú í kvöld munu félagsmenn Almennrar deildar funda. Félagsmenn Iðnsveinadeildar munu funda annað kvöld og á miðvikudagskvöld 3. febrúar er aðalfundur Matvæladeildar. Stóriðjudeildin mun funda mánudaginn 8. febrúar og Opinbera deildin fundar síðust þann 9. febrúar. Allir fundirnir verða haldnir í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 og hefjast kl. 18:00.

Dagskrá fundanna:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kynning á stöðu kjaramála
  3. Önnur mál

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta á fund sinnar deildar og taka þannig þátt í mótun starfsemi félagsins. Kaffiveitingar verða í boði.

29
Jan

Kjaraviðræður hafnar af fullum krafti

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá var fundur vegna nýs kjarasamnings Norðuráls haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag og var þetta fyrsti fundurinn frá því að viðræðum var frestað um miðjan desember á síðasta ári.

Það er afar ánægjulegt að viðræðurnar séu nú farnar af stað aftur og nú mun það liggja fyrir að lagður verður kraftur í þessar viðræður og boðað hefur verið til næsta fundar á þriðjudaginn næstkomandi.

Formaður talaði tæpitungulaust á þessum fundi og kom fram í máli hans að Verkalýðsfélag Akraness muni klárlega standa fast á þeirri kröfu að launakjör starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð að fullu við stóriðjur í sambærilegum iðnaði og verður hvergi hvikað í þeim efnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image