• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Feb

Yfirgnæfandi meirihluti vill aukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum

Á ársfundi ASÍ í október sl. lagði stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness fram tillögu um breytingu á fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðum. Tillagan gekk út á að stórauka lýðræðið við stjórnarval þar sem allir stjórnarmenn yrðu kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að atvinnurekendur skipa helming stjórnarmanna og verkalýðshreyfingin kýs hinn helminginn.

Það er skemmst frá því að segja að tillaga Verkalýðsfélags Akraness á ársfundi ASÍ í október var kolfelld með atkvæðum 79,3% fundargesta. Hins vegar var samþykkt að efna til stefnumótunarfundar ASÍ um lífeyrismál þar sem stefna ASÍ yrði yfirfarin og endurskoðuð og skilgreind hver skuli vera samningsmarkmið ASÍ við Sa um lífeyrismál. Nú hefur verið ákveðið að þessi fundur verði haldinn 18. og 19. febrúar nk. á Hótel Selfossi.

Af því tilefni ákvað Verkalýðsfélag Akraness að láta Capacent Gallup gera könnun á því hvort vilji væri til að breyta fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðunum. Þessi könnun var framkvæmd dagana 3. til 10. febrúar og var úrtakið 1175 manns. Spurt var: “Ert þú hlynnt(ur) því eða andvíg(ur) að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum þannig að stjórnarmenn verði að vera sjóðsfélagar og sjóðsfélagar sjálfir kjósi alla stjórnarmenn beinni kosningu?”

Fjöldi svarenda var 836 sem er svarhlutfall upp á 71,1%. Það er skemmst frá því að segja að yfirgnæfandi meirihluti er hlynntur því að tekið verði upp nýtt fyrirkomulagi við stjórnarval í lífeyrissjóðum eða sem nemur 71,5% en einungis 7,8% voru því andvígir. 20,6% sögðust hvorki vera hlynntir né andvígir.

Það er augljóst að afgreiðsla ársfundar Alþýðusambands Íslands á tillögu Verkalýðsfélags Akraness er í algjörri andstöðu við niðurstöðu könnunar Capacent Gallup.  79% ársfundarmanna voru andvígir tillögunni sem Verkalýðsfélag Akraness lagði fram á ársfundinum. 71,5% svarenda könnunar Capacent Gallup eru fylgjandi breytingum á stjórnarvali í lífeyrissjóðum.

Það hlýtur því að vera augljóst að þessi niðurstaða mun vekja forystu Alþýðusambands Íslands til umhugsunar um að vilji hins almenns sjóðsfélaga er að stóraukið verði lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum og hætt verði með svokölluð helmingaskipti sæta í stjórnum lífeyrissjóða á milli launaþega og atvinnurekenda.

Hægt er að lesa könnunina í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image