• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær og er óhætt að segja að afkoma félagsins á síðasta ári hafi verið mjög góð en rekstrarafgangur var á félaginu sem nemur 73 milljónum króna. Félagstekjur jukust um tæp 7% á milli ára sem má að hluta til rekja til þess að fjöldi fólks vítt og breitt um landið hefur gengið í félagið á síðastliðnu ári. 

Formaður rifjaði það upp að þegar ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 þá var félagið fjárvana og í algjörri tilvistarkreppu. Sem dæmi var félagssjóður rekinn á 2,5 milljóna króna yfirdrætti eða með öðrum orðum, félagssjóður átti ekki fyrir daglegum rekstri. Sem betur fer hefur nýrri stjórn tekist að byggja félagið upp fjárhagslega sem félagslega því ekkert stéttarfélag getur veitt góða þjónustu nema vera fjárhagslega og félagslega sterkt.

Þessi góða afkoma hefur verið notuð í að bæta þjónustu við félagsmenn og auka hin ýmsu réttindi þeirra. Þetta birtist meðal annars í 9 nýjum styrkjum úr sjúkrasjóði frá því núverandi stjórn tók við ásamt fjölmörgum öðrum réttindum sem félagsmönnum nú býðst. Einnig fjárfesti félagið í nýjum og glæsilegum bústað í Kjós í Hvalfirði vegna fjölgunar félagsmanna og er óhætt að segja að þessi nýi bústaður hefur fallið vel í kramið hjá félagsmönnum enda afar glæsilegur eins og áður sagði.

Formaður gerði grein fyrir starfseminni á síðasta ári en óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið afar yfirgripsmikið enda voru allir kjarasamningar félagsins lausir á síðasta ári. Gríðarleg barátta var vegna margra þeirra samninga sem félagið var með og nægir að nefna í því samhengi að félagið lét kjósa um verkfallsheimild í tveimur þessara samninga en það var annars vegar í Síldarbræðslunni og hins vegar hjá starfsmönnum Klafa á Grundartanga. Einnig voru mikil átök við kjarasamningsgerðina fyrir starfsmenn Elkem Ísland og Norðurál. Formaður fór á fundinum yfir samræmdu launastefnuna sem mótuð hafði verið hjá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, launastefnu sem byggðist á því að samið yrði um sömu launahækkanir fyrir alla launþega, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það kom fram í máli formanns að vegna samræmdu launastefnunnar hafi félagið slitið sig alfarið frá kjarasamningsgerð með ASÍ með því að taka samningsumboðið til félagsins. Sem betur fer náðist að brjóta samræmdu launastefnuna á bak aftur hvað varðar stóriðjufyrirtækin á Grundartanga en hins vegar tókst það ekki á hinum almenna vinnumarkaði. Það kom einnig fram í máli formanns að það sé nöturlegt til þess að vita að ASÍ skuli hafa lagt stein í götu þess að lagfæra og leiðrétta laun fiskvinnslufólks á grundvelli sterkrar stöðu útgerðarinnar vegna gengisfalls íslensku krónunnar. En á þeim bænum vildu menn að fiskvinnslufólk yrði inni í svokallaðri samræmdri launastefnu.

Það var afar ánægjulegt fyrir starfsmenn og stjórn félagsins að heyra þau hlýju orð sem fundarmenn létu falla í garð félagsins enda gerir slíkt ekkert annað en að hvetja okkur enn frekar til dáða við að bæta réttindi og hagsmunagæslu fyrir okkar félagsmenn enda er það stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að vera það stéttarfélag sem býður félagsmönnum sínum upp á bestu þjónustu sem völ er á.

20
Apr

Aðalfundur 2012

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl kl. 18:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi, eins og áður hefur verið auglýst.

Dagskrá:

1.      Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. 

2.      Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu. 

3.      Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.

4.      Ákvörðun félagsgjalda.

5.      Breytingar á grein 12.4 í reglugerð sjúkrasjóðs.

6.      Breytingar á 1. og 2. gr. laga félagsins

7.      Önnur mál.

 

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. 

Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig  kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

18
Apr

Er atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og sjómanna stefnt í hættu?

Notum svigrúmið sem útgerðin hefur til að lagfæra launakjör fiskvinnslufólks.Notum svigrúmið sem útgerðin hefur til að lagfæra launakjör fiskvinnslufólks.Stjórn Verkalýðsfélags Akraness getur ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt lagafrumvörp um stjórn fiskveiða og um veiðileyfagjald á meðan ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á hvaða áhrif þessi frumvörp hafa á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks, sjómanna og síðast en ekki síst á byggðir þessa lands.

Rétt er geta þess að hundruð félagsmanna VLFA starfa í sjávarútvegsgreinum bæði til sjós og lands og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir félagsmenn VLFA að ekki sé verið að gera þannig breytingar á stjórnun fiskveiða að þær ógni atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni. 

Því ítrekar stjórn VLFA það að félagið getur ekki stutt þessi frumvörp og telur það í raun og veru ámælisvert að leggja þau fram án þess að kanna hver áhrifin eru á atvinnuöryggi og kjör þeirra sem starfa í greininni.

Það er mat félagsins að það svigrúm sem útgerðin hefur, verði notað til að lagfæra og leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, en þau eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og útgerðinni til ævarandi skammar.

Rétt er að upplýsa að heildarlaun sérhæfðs fiskvinnslumanns  eftir 15 ára starf eru einungis 230.000 kr.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér hvort fyrirhugað auðlindagjald sé af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti m.a að leggja á Elkem Ísland fyrir áramót, en sú skattlagning stefndi atvinnuöryggi þeirra sem þar störfuðu í algjöra óvissu eins og frægt var.

Að þessu sögðu þá krefst félagið þess að fram fari ítarleg óháð rannsókn á því hver áhrifin af þessum frumvörpum verða á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks og sjómanna í byggðum þessa lands.

16
Apr

Starfsmenn Elkem Ísland fá 150 þúsund króna eingreiðslu

Járnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem á GrundartangaElkem Ísland greiddi í dag fastráðnum starfsmönnum sínum 150 þúsund króna eingreiðslu, væntanlega vegna góðrar afkomu fyrirtækisins. Greiðslan miðast við þá starfsmenn sem hafa verið í starfi hjá Elkem frá 1. apríl 2011 til marsloka 2012 og greiðist í hlutfalli við starfstíma.  Rétt er að geta þess að greiðslan nær ekki til þeirra sem eru lausráðnir eins og t.d sumarafleysingamenn.

Rétt er einnig að geta þess að þegar gengið var frá kjarasamningi við Elkem Ísland í fyrra, 19. apríl 2011, þá ákváðu eigendur Elkem Ísland að greiða starfsmönnum sínum eingreiðslu sem nam föstum mánaðarlaunum hvers starfsmanns vegna góðrar afkomu. Er óhætt að segja að samningurinn sem gerður var við Elkem í fyrra hafi verið gríðarlega góður enda nam eingreiðslan og afturvirkni samningsins um 500 þúsund krónum fyrir hvern starfsmann. Núna hafa þeir eins og áður sagði komið með 150 þúsund króna eingreiðslu til viðbótar sem væntanlega miðast við góða afkomu fyrirtækisins á síðasta ári og verður þetta að teljast afar jákvætt fyrir starfsmennina.

Það er ánægjulegt að sjá þegar fyrirtæki taka þá ákvörðun að láta starfsmenn sína sem jú skapa velferð hvers fyrirtækis fyrir sig njóta ávinnings þegar vel árar í fyrirtækjum. Það hefur Elkem Ísland nú gert í tvígang og nema þessar eingreiðslur síðustu tveggja ára um 500 þúsund krónum hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu og ljóst að starfsmenn munar um minna. Þessar eingreiðslur eru svo sannarlega til eftirbreytni fyrir önnur fyrirtæki sem eru starfrækt í útflutningi og hafa verið að njóta góðs af gengisfalli íslensku krónunnar enda hefur launahlutfall fyrirtækja sem starfa í útflutningi hríðlækkað í kjölfar falls íslensku krónunnar.   

12
Apr

Frestur til að skila umsóknum um orlofshús rennur út á morgun

Á morgun rennur út frestur til að skila umsóknum um dvöl í orlofshúsum Verkalýðsfélags Akraness sumarið 2012 og strax eftir helgi verður úthlutað.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

04. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

04. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar

12
Apr

Útilegukortið 2012 er komið í sölu!

Útilegukortið 2012 er komið í sölu á skrifstofu félagsins. Orlofssjóður VLFA niðurgreiðir kortið til félagsmanna svo félagsmenn geta keypt kortið á kr. 8.000. Fullt verð á kortinu er kr. 14.900 svo afslátturinn er rétt tæp 50%.

Kortið veitir félagsmönnum aðgang að 44 tjaldsvæðum um allt land og gildir fyrir tvo fullorðna og allt að fjögur börn upp að 16 ára aldri. Eftirfarandi tjaldsvæði hafa bæst í hópinn frá því í fyrra: Mosfellsbær, Skagaströnd, Steingrímsstaðir, Lundur í Öxarfirði, Horn - Höfn í Hornafirði og Sandgerði. Athugið að gistináttaskattur er ekki innifalinn í Útilegukortinu og þurfa handhafar þess því að greiða aukalega kr. 100 fyrir gistinóttina. Aðeins er greitt eitt gjald fyrir hvert kort, en ekki gjald á hvern einstakling, svo fimm manna fjölskylda þarf aðeins að greiða kr. 100 fyrir gistinóttina.

Nánari upplýsingar um Útilegukortið, tjaldsvæðin og nánari reglur er að finna á heimasíðu Útilegukortsins: www.utilegukortid.is.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image