• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
May

Endurúthlutun orlofshúsa er lokið

Endurúthlutun orlofshúsa er nú lokið. Af þeim 53 vikum sem lausar voru eftir fyrri úthlutun, gengu 33 vikur út í endurúthlutun. Sömu úthlutunarreglur gilda í báðum úthlutunum, ef fleiri en einn sækja um sömu vikuna fær sá úthlutað sem á fleiri punkta.

Það eru því 20 vikur eftir í pottinum og um þær gildir hér eftir reglan: Fyrstur kemur, fyrstur fær. Eindagi endurúthlutunar er 15. maí. Eftir þann tíma verða ógreiddar bókanir felldar niður og bætast í pottinn.

Hægt er að bóka lausar vikur á skrifstofu félagsins og á FÉLAGAVEFNUM.

02
May

Frábær þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Akranesi

Um 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær. Dagskráin hófst með kröfugöngu kl. 14:00, og annaðist Skólahljómsveit Akraness hljóðfæraleik í göngunni af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Ræðumaður dagsins, Vilhjálmur Birgisson, kom víða við í sinni ræðu og féll hún vel í kramið hjá fundargestum. Kvennatríóið Stúkurnar sá um tónlistarflutning og sungu nokkur lög. Að venju sameinuðust fundargestir í fjöldasöng í lok dagskrár og sungu Maístjörnuna og Internasjónalinn. Það var Lionsklúbburinn Eðna sem sá um glæsilegar kaffiveitingar sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni.

Hægt er að lesa ræðu Vilhjálms Birgissonar með því að smella hér.

30
Apr

1. maí hátíðarhöld á Akranesi

Hátíðarhöld á Akranesi vegna 1. maí verða með hefðbundnum hætti.

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40 kl. 14:00 og genginn hringur á neðri-Skaga. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40. Ræðumaður dagsins er Vilhjálmur Birgisson. Kvennatríóið Stúkurnar munu syngja nokkur lög og boðið verður upp á veglegar kaffiveitingar.

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í dagskránni.

27
Apr

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út og verður því dreift á öll heimili á Akranesi og í nágrenni í dag og á mánudaginn. Þeir félagsmenn sem búa utan póstnúmera 300 og 301 fá fréttabréfið sent heim til sín.

Meðal efni blaðsins er viðtal við Sigurð Guðjónsson, formann Iðnsveinadeildar VLFA, pistill um sögu 1. maí og ýmsar upplýsingar um þjónustu og starfsemi félagsins.

Hægt er að lesa fréttabréfið með því að smella hér. Undir hnappinum "Fréttabréf" hér hægra megin á síðunni má sjá öll Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness frá upphafi.

26
Apr

Félagsmanni dæmdar 320.000 vegna kjarasamningsbrots

Í dag féll dómur í Héraðsdómi Vesturlands í máli félagsmanns Verkalýðsfélags Akraness vegna brota á hvíldarákvæði í kjarasamningi. Málavextir voru þeir að starfsmaður sem var að vinna á veitingastað hér í bæ árið 2009 leitaði til félagsins vegna brota á hvíldarákvæðum. Eftir að félagið hafði farið yfir málið og reynt að ná niðurstöðu við eiganda veitingastaðarins án árangurs var málinu vísað til lögmanns félagsins.

Krafa lögmannsins fyrir hönd starfsmannsins var að hún fengi greidda hvíldartímana eins og kjarasamningar kveða á um og nam sú krafa rúmum 256 þúsund krónum. Það er skemmst frá því að segja að dómurinn tók kröfur lögmanns félagsins allar til greina og voru starfsmanninum dæmdar rúmar 256 þúsund krónur auk dráttarvaxta sem þýðir að starfsmaðurinn mun fá rúmar 320 þúsund krónur greiddar vegna þessa brota fyrirtækisins. Einnig var rekstraraðili veitingastaðarins dæmdur til að greiða málskostnað starfsmannsins að fjárhæð 650 þúsund krónur.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að fara í öll mál af fullri hörku þegar um kjarasamningsbrot er að ræða gagnvart okkar félagsmönnum. Og það var gert í þessu máli, eftir að búið var að leita allra leiða til að ná sátt við viðkomandi atvinnurekanda án árangurs eins og áður sagði. Það er líka morgunljóst að félagið mun ekki horfa í krónur og aura þegar réttindi okkar félagsmanna eru í húfi.

Hægt er að lesa dóminn með því að smella hér.

26
Apr

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akranesi

Nú um helgina, 27. til 29. apríl, fer fram svokölluð Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akranesi í húsnæði Fjölbrautaskóla Vesturlands. Tilgangurinn með þessum viðburði er að hjálpa hugmyndum fólks að verða að veruleika. Umsjónaraðili verkefnisins er Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur og er viðburðurinn haldinn í samstarfi við Akraneskaupstað.

Viðburðurinn er að erlendri fyrirmynd sem reynst hefur vel og eru viðlíka helgar haldnar um allan heim. Markmið helganna er að virkja fólk til athafna og er hver helgi hugsuð sem vettvangur fyrir þá sem langar að koma eigin viðskiptahugmynd í framkvæmd eða taka þátt í uppbyggingu hugmynda annarra. Viðburðirnir standa yfir frá föstudegi til sunnudags og þar fá þátttakendur tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum og njóta leiðsagnar og innblásturs frá sérfróðum aðilum.  

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir bestu verkefnin,  enginn kostnaður er við þátttöku og  aldurstakmark er 18 ára. Á viðburðunum fá þátttakendur tækifæri til þess að vinna saman að frumgerð vöru eða þjónustu sem síðar getur orðið að fullvaxta fyrirtæki. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir þá sem langar að koma hugmynd sinni í framkvæmd og fá til þess aðstoð sér að kostnaðarlausu.

Hér má sjá auglýsingu um atvinnu- og nýsköpunarhelgina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image