• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

03
May

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Boðað hefur verið til fundar vegna kjarasamnings starfsmanna sem vinna í síldarbræðslu Haraldar Böðvarssonar á miðvikudaginn kl:09:00, fundurinn verður haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Til fundarins fara formaður félagsins og trúnaðarmaður síldarverksmiðjunnar Björgólfur Einarsson.

03
May

Fundað vegna stofnanasamnings

Fyrsti fundur vegna stofnanasamnings við Sjúkrahús Akraness verður á morgun KL 13:00. Samninganefndin er skipuð núverandi og fyrrverandi trúnaðarmönnum, Sjúkrahúss Akraness, ásamt formanni félagsins. Starfsmenn binda miklar vonir við að vel takist til við gerð þessa fyrsta stofnanasamnings sem gerður hefur verið við Sjúkrahús Akraness. Formaður félagsins átti samtal við framkvæmdastjóra SHA um komandi samning í dag og því miður er hann ekkert allt of bjartsýnn á framhaldið, miðað við þær upplýsingar sem komu fram á þeim fundi. En það skýrist allt mun betur á morgun, því að öllum líkindum mun samninganefndin fá eitthvað í hendurnar frá forsvarsmönnum SHA.

03
May

1. maí ræða Eiríks Jónssonar formanns KÍ

Hún er löng leiðin til stjarnanna.

 
Hún er löng leiðin til stjarnanna
Eæða Eiríks Jónssonar formanns KÍ á 1. maí á Akranesi
Ágætu samkomugestir – til hamingju með daginn. 

Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til að ávarpa samkomu ykkar hér á Akranesi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. 

Það má með sanni segja að hún sé löng leiðin til stjarnanna og hið sama á við um baráttu stéttarfélaga hún er óendanleg. 

Sumir halda því fram að barátta stéttarfélaga fyrir bættum kjörum og auknum réttindum sé barn síns tíma og eigi ekki við lengur. Þeir eru líka til sem halda því fram að kröfugöngur 1. maí séu tímaskekkja. Ég gef lítið fyrir þessar skoðanir og tel þær fyrst og fremst settar fram af þeim sem óttast styrk stéttarfélaga og vilja þar af leiðandi veg þeirra sem minnstan. 

Ég held að öllum sé hollt að rifja af og til upp sögu verkalýðshreyfingarinnar og minnast þeirra sem ruddu brautina snemma í síðustu öld. Margar frásagnir eru til um harðvítuga baráttu forvera okkar fyrir því sem við teljum sjálfsögð mannréttindi í dag. Og við skulum heldur ekki gleyma því að í hópi stjórnvalda og atvinnurekenda er að finna fjölmarga sem sjá ofsjónum yfir þeim réttindum sem almennt launafólk hefur í dag og eru tilbúnir til að skerða þau ef þeir hefðu möguleika á.  Hér má til dæmis benda á að nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem afnemur starfsöryggi ríkisstarfsmanna verði það að lögum. Nánar um það síðar. Við megum því aldrei sofna á verðinum en verum samt raunsæ og  munum að stjörnurnar eru í órafjarlægð og hæpið að við komumst alla leið þangað.

Á undanförnum vikum hafa nokkur verkalýðsfélög gengið frá samningum um kaup og kjör næstu árin. Ég veit satt að segja ekki hvaða áhrif þeir samningar hafa á raunkaup þeirra aðila sem eiga að taka laun samkvæmt þeim. Ég veit það þó að samningarnir eru lágmarkssamningar og þar af leiðandi er ekkert sem bannar að greitt sé meira en taxtar segja til um. Þátttaka í atkvæðagreiðslu hjá VR segir mér að fáir taki laun samkvæmt lágmarkssamningi.

Þessu er öðruvísi farið í þeim samningum sem gilda fyrir leik- grunn og tónlistarskólakennara sem verið er að ræða þessa daganna. Þeir samningar eru hámarkssamningar. M.ö.o. það er bannað að greiða hærri laun er samningar kveða á um að viðlagðri harðri refsingu. Sumir hér inni gætu haldið að hér væri um einhvern gálgahúmor að ræða en svo er alls ekki. Til að útskýra þetta aðeins nánar langar mig að lesa upp úr því umboði sem sveitarfélögin veita Launanefnd sveitarfélaga, en þar segir m.a..

“Sveitarfélagið skuldbindur sig til að hlíta samþykktum Launanefndar sveitarfélaga og þeim kjarasamningum sem nefndin gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum og eru breytingar, viðbætur og frávik, s.s. kerfisbundnar yfirborganir sem byggja á launategundum kjarasamnings á gildistíma hans, óheimilar án samþykkis launanefndar (tilv. lýkur).

Þessu er síðan fylgt eftir með skilgreiningum á þeim refsingum sem launanefndin grípur til ef sveitarfélag grípur til þess hræðilega glæps að greiða meira en lágmarkið segir til um. Eins og sjá má hafa sveitarfélögin bundist samtökum um að greiða ekki hærri laun en taxtar samninga segja til um. Það er því ekkert að hafa til viðbótar við þá upphæð sem samið er um við hið miðlæga samningsborð. 

Refsiramminn er líka skýr og minnir um margt á refsingar á miðöldum þegar bannfæringinn var og hét eða þegar menn voru hýddir eins og rakkar rétt eins og Jón Hreggviðsson forðum. 

Það að borga betur en samningar segja til um jafngildir því að sveitarfélag verið gert brottrækt úr samfélagi sveitrarfélagnna. Ef einhver heldur að þetta séu aðeins stafir á blaði er um misskilning að ræða þar sem launanefndin gerir úttektir á launagreiðslum og grípur inn í af hörku ef góðmennskan hefur tekið völdin einhversstaðar í keisaradæmi hennar. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar fjallað er um launakröfur kennara. Þessar staðreyndir valda því m.a. að grunnskólakennarar íhuga nú sterklega að grípa til verkfallsaðgerða í upphafi næsta skólaárs. Ég hef ítrekað sagt að mér finnist óeðlilegt að þeir sem fyrstir gera kjarasamninga hverju sinni skuli um leið skipa sér á bekk meðal dómara sem ákveða hvað aðrir eiga að fá í laun. Ég hafna því að við séum endilega að biðja um meira en aðrir þar sem aðrir hafa ekki haft fyrir því að kynna okkur samninga sína hvað þá heldur að þeir hafi sýnt okkur kröfurnar áður en þær voru lagðar fram. 

Félög kennara og stjórnenda í leik- grunn- framhalds og tónlistarskólum sem starfa innan Kennarasambands Íslands lögðu mikla vinnu í að samræma kröfur sínar fyrir yfirstandandi samningalotu. Sú vinna tók heilt ár. Vinnan leiddi til þess að til urðu sameiginlegar kröfur í 25 liðum sem öll félögin munu fylgja eftir. Enginn krafa var sett inn án þess að allir væru sammála. Rauði þráðurinn í þessum kröfum er krafan um bætt laun en ekki síður betra vinnuumhverfi með bætta líðan kennara og nemenda að leiðarljósi. Með þessu viljum við leggja okkar að mörkum til að gera kennslu að aðlaðandi ævistarfi. Svona tel ég að eigi að vinna ef allir vilja ná svipuðum markmiðum. Mér finnst óeðlilegt að gera þá kröfu til stéttarfélags að það lýsi sig samþykka kröfum sem það hefur ekki séð. Þetta er svipað og að allir sem fara á blint stefnumót undirgangist að úr því verði hjónaband.

Í nýjasta hefti tímaritsins Birtu er að finna viðtal við Gunnar Pál Pálsson formann VR. Í viðtalinu er hann spurður hver séu meðallaun þeirra sem vinna skrifstofuvinnu. Gunnar Páll segir orðrétt:

“Þau voru í síðustu launakönnun 260.000 á mánuði fyrir bæði kynin. Sú launatala er miðuð við heildarlaun og á skrifstofum er yfirleitt ekki unnin mikil yfirvinna”. (tilv. lýkur) 
Ef þetta er borið saman við síðustu könnun um laun grunnskólakennara kemur fram að meðallaun þeirra fyrir dagvinnu eru nú nálægt  215.000 á mánuði. Hér er ekki meðtalin yfirvinna en á móti kemur að allir stjórnendur eru taldir með og hækkar það meðaltalið töluvert. Ef laun kennara hækka í takt við þær kröfur sem fram hafa verið lagðar má gera ráð fyrir að laun fyrir kennslu verði svipuð launum skrifstofufólks í árslok 2007. Þetta eru nú öll ósköpin. Svipuð niðurstaða fæst ef kennaralaun eru borin saman við laun annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum.

Ég get ekki neitað því að mér finnst stundum eins og vinnuveitendur og stjórnvöld líti á fólk sem gerir kröfur um mannsæmandi laun sem hálfgerða glæpamenn. Stöðugt er tönglast á því að ekki megi raska stöðugleikanum. Ég spyr, - hvað stöðugleika? Eru menn að tala hér um að varðveita stöðugleika hinna ríku -  það er eini stöðugleikinn sem ég þekki. Nærtækasta dæmið er samþjöppun valds á fjármálamarkaði, t.d. innan bankakerfisins. Hafa stjórnvöld eingar áhyggjur af því. Ég vil undirstirka að þeir sem mest tala um að varðveita meintan stöðugleka eru um leið að segja að skiptingin í þjóðfélaginu sé rétt eins og hún er í dag og hana eigi að festa um aldur og ævi. Þeir sem eru ríkir í dag eiga að vera það áfram og þeir sem minna mega sín eiga að halda því áfram – þetta er stefnan  þó menn þori ekki að segja þetta hreint út. 

Til að benda á jákvæða hluti sem náð hafa fram við samningaborðið vil ég nefna það skref sem stigið var við jöfnun lífeyrisréttinda í landinu þegar opinberir sarfsmenn innan ASÍ fengu inn í samninga ákvæði um bætt lífeyriskjör. Hér er um að ræða skref í rétta átt þar sem um er að ræða jöfnun upp á við. Margir hafa sagt að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu einhver ofurréttindi en slíkt er auðvitað algjör fyrra. Sem dæmi má taka að kennari sem kennt hefur í 40 ár, og lætur af störfum 68 ára getur búist við að fá í úborgaðan lífeyri um 125 þúsund krónur á mánuði. Meðaltalsgreiðslur úr sjóðnum eru um 88.000 kr. á mánuði eftir skatta.Það segir sig sjálft að hér er ekki um ofurréttindi að ræða enda hafnaði meirihluti alþingismanna því fyrir stuttu að þessi kjör væru samboðin þingmönnum og ráðherrum.
Atvinnurekendur halda því stöðugt fram að ekkert svigrúm sé til launahækkana. Ég varð því satt að segja nokkuð hugsi á síðasta ári þegar Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gerði úttekt á því hve mikinn hagnað sjóðurinn hefði innleyst vegna sölu hlutabréfa í fyrirtækum sem barist var um á markaði. Þessi hagnaður nam um 1.300.000 króna þegar dæmið var gert upp. Frá mínum bæjardyrum séð var meginskýringin á þessu sú að ákveðnir aðilar þurftu að tryggja sér og sínum sæti í stjórnum akveðinna fyrirtækja. Þetta væri allt saman gott og blessað ef þessir sömu aðilar börmuðu sér ekki eilíft yfir launum þeirra sem vinna á gólfinu.

Ég er ekki í hópi þeirra sem leggja höfuðáherslu á flatar skattalækkanir með þeim hætti sem lofað var fyrir síðustu kosningar. Þær koma helst til tekna þeim sem hæst hafa launin og bitna harðast á velferðarkerfinu en þar held ég að nóg sé að þrengt. Höfum í huga að fjögurra prósentustiga lækkun á skatti skilar milljónkróna manninum 480.000 króna tekjuauka á ári, 250.000 króna manninum 120.000 krónum en sumum ekki krónu. Tillögur mínar eru frekar þær að skattaeftirlit verði hert, allri launaleynd verði aflétt og ráðist verði af alvöru gegn neðanjarðarhagkerfinu. Þá finnst mér ótækt að fólk geti komið sér undan eðlilegum skattgreiðslum með því einu að stofna svokölluð einkahlutafélög. Ég veit ekki betur en að sveitarfélögin hafi orðið fyrir gífurlegu tekjutapi vegna þessa skipulags á undanförnum árum. Ég teldi eðlilegra að viðhalda núverandi skattprósentu og styrkja velferðarkerfið frekar en að veikja það. Hvaða áhrif hefði það til dæmis að bjóða barnafólki ókeypis leikskóla fyrir börnin. Ætli það væri ekki ein besta kjarbót sem hægt væri að hugsa sér fyrir þá sem eru að koma sér fyrir í lífinu. Það að vinna gegn auknum þjónustugjöldum í heilbrigðiskerfinu held ég að sé meiri kjarabót fyrir þá eldri og reyndar marga aðra, heldur en að lækka skatta á tekjur sem í mörgum tilfellum eru ekki nema rétt um og yfir skattleysismörkum. Hvað með hækkun barna- og vaxtabóta ef svigrúmið er á annað borð fyrir hendi. Látum þá njóta sem þurfa – ekki aðra.

Kjörorð dagsins er atvinna fyrir alla. Atvinna telst til grundvallarmannréttinda og þess vegna hlýtur það að vekja upp spurningar hvort eðlilegt sé að stjórnvöld ýti með aðgerðum sínum undir að verkefni hér á landi séu leyst með aðkomu erlendra starfsmannaleiga eins og nú er verið að gera. Miðað við það sem fulltrúar stéttarfélaga starfsfólks við Kárahnjúka hafa kynnt er ástæða til að fylgjast vel með gangi mála þar um slóðir og nauðsynlegt að allir taki höndum saman til að tryggja að ekki sé brotinn réttur á fólki. 

Það að flagga út skipum og horfa til erlendra starfsmannaleiga sem lausna er árás á íslenskt atvinnulíf og um leið á íslenskt efnahagslíf.

Fyrir ári gerði ég að umtalsefni í fyrsta maíávarpi afkomu bankanna og það sem ég kallaði misnotkunn á almannafé þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir langt undir eðlilegu verði að mínu mati.  Það sem liggur nú fyrir í þessum efnum er að hagnaður bankanna mun á örfáum árum greiða upp þann kostnað sem út var lagður. Ríkið seldi sinn hlut í Landsbankanum fyrir 11 til 12 milljarða. Bankinn skilaði 4 milljörðum í hagnað á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þegar búið verður að selja Símann sem mér skilst að sé næst á dagskrá verður lítið eftir til að selja. Það eru því allar líkur á því að núvernandi sjórnarflokkar nái að selja allt það sem þjóðinn hafði byggt upp alla síðustu öld. Það verða því engar mjólkurkýr í fjósinu lengur enda fjósameistarinn á leið í frí.

Í þessum orðum mínum felst engin skoðun á því hvort ríkið eigi að stunda atvinnurekstur af því tagi sem nú hefur verið seldur heldur eingungis það að mér þykir að margt hafi verið selt við vægu verði – ekki síst bankarnir.

Það verður ekki hjá því komist þegar minnst er á bankana að ræða aðeins um vexti á húsnæðislánum. Nú virðast bankarnir róa lífróður til að fá núverandi húsnæðislánakerfi dæmt ólögmætt. Því er líka haldið fram að bankarnir geti verið fyllilega samkeppnisfærir í vaxtamálum við núverandi kerfi. Ég hlýt því að spyrja: Af hverju get ég þá ekki farið í bankann og fengið lán á 5% vöxtum í dag. Auðvitað er það svo að núverandi íbúðalánalerfi er fyrir og bankarnir vilja það burt til að hafa sjálfdæmi um vaxtastigið í framhaldinu.

Jafnréttismál hafa verið mikið til umræðu á undanförnum vikum bæði hvað varðar stöðuveitingar og launajafnrétti. Samtök opinberra starfsmanna eru nú að undirbúa launa- og viðhorfskönnun meðal félagsmanna þar sem sérstök áhersla verður lögð á að kanna launajafnrétti. Með könnuninni á að afla upplýsinga um stöðu þessara mála í dag og um leið að búa til viðmið sem nota má  þegar sambærileg könnun verður gerð eftir svona tvö til fjögur ár eins og stefnt er að.

Það væri að bera í bakkafullan lækin að ræða hér mikið um stöðuveitingar og jafnrétti en þó verð ég að segja að mér finnst lítið til um stuðning kvenna í ríkisstjórnarflokkunum koma þegar karlráðherrar sýna konum lítilsvirðingu varðandi stöðuveitingar. Það er sorglegt í upphafi 21. aldarinnar að hlusta á gamla pirraða karlráðherra tjá sig um jafnréttismál af jafnmikilli vanþekkingu og fyrirlitningu og raun ber vitni.Þegar minnst er á pirraða ráðherra kemur líka ósjálfrátt upp í hugann umræðan um eingarhald á fjölmiðlum. Mér finnst þessi umræða vægast sagt fáranleg. Hún er fáranleg vegna þess að eins og hún er lögð upp snýst hún um menn en ekki málefni. Til að kóróna vitleysuna þætti mér ekki óeðlilegt að ríkisstjórnin einfaldaði lagasetninguna með því að setja inn í lagafurmvarpið ákvæði þess efnis að eigendur fjölmiðla mættu hvorki heita Jóhannes eða Jón Ásgeir.  Með því móti segðu menn að minnsta kosti það sem þeir meina og þannig tel ég rétt að vinna. Það er mín skoðun að hér sé á ferðinni mál sem rökrétt sé að fari í þjóðaratkvæði og tel ég upplagt að forsetinn prófi nú ákvæðið þar um fari svo að þingið samþykki þetta mál. Mér sýnist að búa eigi svo um hnútana að skipta verði Norðurljósum upp og um leið á að tryggja að enginn sem hefur til þess burði megi kaupa. Með öðrum orðum sá sem má getur ekki og sá sem getur má ekki.

Vel á minnst. - Hvernig fannst ykkur annars að hlusta á tilvonandi forsætisráðherra þjóðarinnar játa, í Kastljósþætti sl. þriðjudag, á sig og samráðherra sína tvöfalt brot á stjórnarskránni án þess að sýna önnur iðrunarmerki en þau að hann vonaðist til að gera þetta ekki aftur. Þetta væri nú ekkert gamanmál. Er þetta eðlilegt?

Ráðherrar halda því fram að hvegi nema hér hafi önnur eins samþjöppun á valdi innan fjölmiðlageirans átt sér stað.  - Ekki veit ég það en ég tel ólíklegt að ríkisstjórn sem margbrýtur stjónarskrá gæti setið nokkurs staðar nema hér.

Þegar búið verður að koma Norðurljósum á hausinn og tryggja þar með einokun ríkissjónvarpsins og fréttastofu útvarps sem ég “nota bene” ber mikið traust til, er gott fyrir stjórnvöld að vera búinn að afnema ráðningarfestu ríkisstarfsmanna. Þá verður hægt að reka útvarpsstjóra og fréttamenn skýringalaust ef þeir fylgja ekki stefnu stjórnvalda. Þá verður hægt að sýna þjóðinni myndir frá ræðuhöldum forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í stað  lokunnar deilda á sjúkrahúsum að hætti Norður Kóreu með Ítölsku ívafi úr smiðju Berlusconi.

Fyrir ári  varð mér og reyndar fleirum tíðrætt um Íraksstríðið og einnig um átök Ísrales-  og Palestínumanna. Þá höfðu stjórnvöld nýlega  lýst velþóknun sinni á hernaðaraðgerðum Breta og Bandaríkjamanna í Írak og sú velþóknun varir enn.   Við erum jú staðföst – ekki satt.
Engann bilbug er að finna á stuðningi íslenskra stjórnvalda þótt engin hafi fundist gjöreyðingarvopnin, saklausir borgarar séu stráfelldir og fangar pyntaðir. Ekki er að finna neitt bakslag í stuðningnum við Bush og stefnu hans í málefnum Ísraela gegn Palestínumönnum þrátt fyrir viðbjóðsleg morð sem framin eru þar nær daglega.

Íslensk verkalýðshreyfing gegnir mikilvægu hlutverki. Hún á að veita atvinnurekendum og stjórnvöldum aðhald – hún á að berjast fyrir bættum hag hinna vinnandi stétta – hún á að standa vörð um þá sem minna mega sín. Ég tel að við öll sem tilheyrum  forystu verkalýðshreyfingarinnar þurfum að stefna enn hærra en gert hefur verið og gera ríkari kröfur jafnt til sjálfra okkar og annarra.  Forysta verkalýðshreyfingarinnar á að setja sér háleit markmið um bætt kjör og betra vinnuumhverfi félögum sínum til handa. Hún á að standa vörð um velferðarkerfið og hún á að veita pólitískum flokkum aðhald og þá meina ég öllum flokkum. Hún á að setja verkalýðspólitík ofar flokkspólitík. Á það hefur að mínu viti stundum skort. Forystan á líka að vera ófeimin við að setja markmiðin fram og standa og falla með þeim. Verum óhrædd við að berjast gegn fordómum og flokksvaldi sem og  áróðri þeirra sem vilja halda launum niðri. 

Ágætu félagar: Gamalt spakmæli segir.
“Sá sem mænir til stjarnanna nær að vísu ekki takmarkinu. Hins vegar á hann víst að komast hærra en sá sem miðar allt við kjarrið”. 
                
Þakka ykkur fyrir.

01
May

Frábær skemmtun á 1. maí

Um þrjú hundruð manns tóku þátt í hátíðarhöldunum á Akranesi í dag enda frábær skemmtun í boði . Eftirtaldir komu fram: Gísli Einarsson var með upplestur og stjórnaði fjöldasöng, Lúðrasveit Akraness kom fram , Jóhannes Kristjánsson eftirherma fór á kostum. Hátíðarræðu dagsins flutti Eiríkur Jónsson formaður K.Í. Gísli Einarsson fyrrverandi alþingismaður sagðist hafa tekið þátt í 1. maí hátíðarhöldum í mörg ár og sú ræða sem Eiríkur Jónsson flutti hafi verið einn sú besta sem hann hefur heyrt flutta á 1. maí. Ræðan verður birt hér á síðunni í heild sinni eftir helgi. Að síðustu var öllum boðið upp á kaffiveitingar. Verkalýðsfélag Akraness þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína í sal félagsins að Kirkjubraut.40,sem og þeim börnum sem fóru á kvikmyndasýningar í boði félaganna.

01
May

Til hamingju með daginn

Til hamingju með daginn. 1. maí 2004 Verkalýðsfélag Akraness  óskar félagsmönnum sínum og öðrum launþegum til hamingju með daginn.

30
Apr

Aðalfundur félagsins tókst vel

Aðalfundur félagsins fór fram í gær.  Fundurinn hófst kl. 19 og var lokið 00:15.  Þetta var fyrsti aðalfundur nýkjörinnar stjórnar og þótti takast vel.  Ársreikningar fyrir árin 2002 og 2003 voru samþykktir, kosið var í stjórn orlofs- og sjúkrasjóðs, kjörstjórn og skoðunarmenn reikninga.  Nöfn þessara aðila má sjá hér á heimasíðunni undir liðnum "Stjórn og trúnaðarráð".  Munu stjórnir orlofs- og sjúkrasjóðs væntanlega koma saman til fundar strax í næstu viku.  Skýrslur stjórnar og framkvæmdastjóra sem lagðar voru fram á aðalfundinum í gær fylgja hér á eftir.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness 29. apríl 2004.

 

 

Skýrsla stjórnar

 

Eins og mönnum er eflaust í fersku minni tók ný stjórn Verkalýðsfélags Akraness við þann 19. nóvember 2003.  Aðkoman að félaginu var ekki betri en menn reiknuðu með nema síður væri.  Það hefur farið mikil orka og tími í að koma starfsemi félagsins í viðunandi horf.

  

Starfsmannamál

Stjórn félagsins ákvað að segja báðum starfsmönnum á skrifstofu félagsins upp störfum, og voru ráðningarslit Elínar Kjartansdóttur 1. mars 2004 en starfslok Elínborgar Magnúsdóttir voru 1. apríl.  Þeir félagsmenn sem fylgst hafa með málefnum VLFA á undaförnum árum þurfa ekki að láta þessa ákvörðun stjórnar VLFA koma sér á óvart..

 Formaður félagsins hóf störf hjá félaginu 19. nóvember 2003.  Upphaflega var meiningin að hann yrði í hlutastarfi, en fljótlega varð ljóst að það fyrirkomulag myndi ekki ganga upp.  Gríðarlegar annir við samningagerð og þjónustu við félagsmenn gerðu stjórninni ljóst að ekki væri verjandi að formaðurinn þyrfti sífellt að vera að biðja um frí úr annarri vinnu og svo hitt að mikil verkefni voru til staðar sem þurfti að leysa úr.  Stjórnin gekk frá ráðningarsamningi við formann félagsins 23. mars 2004, í fullt starf fyrir félagið.

 15. desember sl. réð stjórn félagsins Harald Ingólfsson viðskiptafræðing sem framkvæmdastjóra, eftir að staðan hafði verið auglýst og var hann valinn úr hópi 19 umsækjenda.  Haraldur tilkynnti stjórn félagsins 9. mars sl. að hann hefði fengið tilboð frá KB banka  Því miður er það tilboð eitthvað sem stjórn VLFA getur ekki keppt við.  Hvenær ráðningarslit við framkvæmdastjórann verða er ekki alveg komið á hreint en verður að öllum líkindum í næsta mánuði.  Það verður mjög mikil eftirsjá í Haraldi því mikið og gott starf liggur eftir hann á þeim stutta tíma sem hann hefur verið framkvæmdastjóri.

 Hugrún Olga Guðjónsdóttir var ráðin sem starfsmaður á skrifstofu félagsins 15. janúar sl.  Alls bárust 29 umsóknir þegar það starf var auglýst.  Starfið felur í sér öll almenn skrifstofustörf s.s svara í síma, skrá iðgjöld, orlofshúsaúthlutun, rita fundargerðir, sem og önnur tilfallandi verkefni.

 Þegar ljóst var að Haraldur myndi hætta störfum fyrir félagið var ákveðið á stjórnarfundi 23. mars að bjóða Hugrúnu Olgu Guðjónsdóttur að taka við stöðu Haraldar sem framkvæmdastjóri félagsins.  Á þeim stutta tíma sem hún hefur starfað fyrir félagið hefur hún margsannað að hún er hæfileikaríkur og duglegur starfskraftur og í ljósi þess og þeirrar menntunar og reynslu sem hún hefur treystir stjórn VLFA Hugrúnu fullkomlega til að taka við starfi sem framkvæmdastjóri félagsins.  Innan tíðar mun stjórn félagsins því fara að huga að ráðningu skrifstofumanns.

 

Lögfræðiþjónusta við félagsmenn.

Stjórn VLFA gekk frá samningi við Ingólf Hjartarson, hrl 11. desember 2003, um að vera lögfræðingur félagsins.  Boðið er upp á viðtalstíma við lögmann félagsins einu sinni í mánuði á skrifstofu félagsins.  Öll almenn ráðgjöf í viðtalstímum lögmannsins er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Það er vilji stjórnarinnar að taka öll mál er varða réttindi og stöðu félagsmanna föstum tökum og í því skyni hefur stjórn félagsins ákveðið að nýta sér í auknum mæli þá góðu þjónustu sem lögmaður félagsins býður upp á.  Þau mál sem lögmaður félagsins er þessa stundina að vinna fyrir félagið eru málefni er lúta að túlkun kjarasamnings starfsmanna síldarverksmiðjunnar, mál er snú að undirverktakastarfsemi á Grundartangasvæðinu, túlkun á kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa, arðgreiðslur til starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.  Þá vann lögmaðurinn álitsgerð fyrir félagið sem skilaði fullum sigri í ágreiningi félagsins vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar.  Auk þessa er hann að vinna að ýmsum álitamálum er snúa að fyrrverandi formanni félagsins og mun hann gera grein fyrir því starfi hér á eftir.

 

Kjarasamningar

Samningur milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands var undirritaður 7. mars sl.  Nokkur félög skrifuðu ekki undir samninginn, þar með talið Verkalýðsfélag Akraness.  Það sem við vorum óánægð með var að almennar prósentuhækkanir á samningstímabilinu eru of lágar að okkar mati og vildum við sjá þær hækka.  Ekki náðist samstaða um það innan Starfsgreinasambandsins og því er ljóst að ekki yrði lengra náð nema með átökum sem væntanlega myndu litlu skila.

Margt jákvætt er þó í samningnum og meðal mikilvægustu atriðanna er ný launatafla, lífeyrisframlag atvinnurekenda fer í 8% á samningstímanum og fræðslugjald festir fræðslusjóði í sessi til framtíðar með 0,15% fræðslusjóðsgjaldi.  Slysatryggingar hækka um 40% að lágmarki í upphafi samningstímans.  Stjórnin lagðist því ekki gegn samningnum.  Samningur var síðan borinn upp til atkvæðagreiðslu og var hann samþykktur í félaginu í póstatkvæðagreiðslu 29. mars 2004.

Þegar farið var að ræða við samninganefnd ríkisins vegna samninga starfsfólks á sjúkrahúsum kom í ljós að það var skýlaus krafa ríkisins að ef VLFA ætlaði sér að vera með í þeim heildarkjarasamningi sem gera átti við öll félögin, þá yrði félagið að afsala sér þeim sérákvæðum sem kjarasamningur þeirra hafði umfram aðra.  Stjórn félagsins lét hagfræðing ASÍ meta sérákvæðin og hversu stór hluti þau væru af heildarkjörum starfsmanna SHA.  Í ljós kom að um 5% til 6% var að ræða og kom því aldrei til greina að félagið afsalaði sér þessum sérkjörum.  Það ríkti afar góð samstaða meðal starfsmanna SHA um þetta mál og með einbeittum vilja og ákveðni tókst að halda þeim öllum inni og skrifa undir samkomulag við samninganefnd ríkisins 4. apríl um þau sérmál sem starfsmenn sem vinna á Sjúkrahúsi Akraness hafa.  Stjórn félagsins er afar þakklát fyrir þann mikla og góða stuðning sem starfsfólkið sýndi, en vill nefna sérstaklega framlag þeirra Jónu Birnu Bjarnadóttur og Önnu Signýjar Árnadóttur trúnaðarmanns, við gerð á þessum samningum og einnig þátt þeirra við gerð heildarsamnings við ríkið.  Kann stjórnin þeim bestu þakkir fyrir.

Nýr heildarkjarasamningur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands við ríkið, var undirritaður á miðnætti 8. apríl 2004.  Samningurinn sem gildir til 31. mars 2008, kemur í stað 14 mismunandi samninga einstakra félaga, sem áður giltu.  Markmið samningsins er að færa kjaraumhverfi félagsmanna aðildarfélaga SGS nær því sem gildir um aðra starfsmenn ríkisins.  Meginatriði í kröfugerð aðildarfélaganna gagnvart ríkinu eru í höfn. Mótframlag ríkisins í lífeyrissjóð hækkar til jafns við framlag til starfsmanna ríkisins, úr 6% í 11,5% á samningstímanum.  Auk framlags starfsmanna verður framlag í lífeyrissjóð því alls 15,5%.  Ný launatafla tók gildi 1. mars 2004 og stofnanasamningar verða gerðir á hverri stofnun fyrir sig.  Kosið verður um samninginn eigi síðar en 15. maí.  Undirbúningur að stofnanasamningi við SHA er í fullum gangi og hefur formaður félagsins fundað með trúnaðarmönnum að undanförnu.  Binda starfsmenn sem vinna eftir ríkissamningnum miklar vonir við að leiðrétting á þeirra launakjörum náist í þetta sinn.

Töluvert hefur verið fundað með starfsmönnum síldarbræðslunnar að undaförnu en kjarasamningur þeirra er laus 1. maí.  Ákveðið hefur verið að semja við allar fiskimjölsverksmiðjur í einu lagi.  Funduðu starfsmenn sem vinna í verksmiðjunni með formanni félagsins og fóru menn yfir þau sérákvæði sem starfsmenn síldarverksmiðjunnar hafa í sínum kjarasamningi, og gerð verður krafa um að halda í nýjum heildarsamningi.  Ekki hefur verið boðað til fundar um heildarsamning fiski og síldarmjölsverksmiðjanna þegar þetta er skrifað, en búist er við að það verði gert von bráðar.

Starfsmenn Spalar eru að leggja lokahönd á sinn kjarasamning og verður því verki vonandi lokið fljótlega.  Hafa starfsmenn ásamt formanni fundað með forsvarsmönnum Spalar nokkrum sinnum við gerð þessa samnings.

Varðandi aðra kjarasamninga sem verða lausir hjá félaginu er um þá að segja að kjarasamningur hjá ÍJ verður laus 1. desember 2004.  Undirbúningur fyrir þann samning er að hefjast.  Formaður hefur verið í sambandi við aðaltrúnaðarmann ÍJ vegna mála er snú að bónusgreiðslum vegna ofnar 3 en samningi við starfsmenn átti að vera lokið í byrjun árs 2003.  Hefur félagið óskað eftir viðræðum við stjórnendur ÍJ um það mál.  Annað mál sem félagið er að kanna eru arðgreiðslur til starfsmanna en aðstoðarframkvæmdastjóra Íslenska járnblendifélagsins hefur verið skrifað bréf þar sem óskað hefur verið skýringa á því hvers vegna ÍJ fari ekki eftir eigin stjórnarsamþykkt og greiði þessa greiðslu.  Ef ekki verður staðið við stjórnarsamþykktina um arðgreiðslur mun stjórn VLFA vísa þessu máli til lögmanns til skoðunar og frekari aðgerða.

Kjarasamningur Sementverksmiðjunnar er einnig laus 1. desember.  Undirbúningur að kröfugerð er ekki hafinn.

Kjarasamningur við Norðurál er laus um áramótin og er undirbúningur þegar hafinn að fullu.  Formenn þeirra félaga sem eiga aðild að þessum kjarasamningi hittust 12. mars sl. með trúnaðarmönnum NA þar sem aðaltrúnaðarmaður NA kynnti launasamanburð á milli Ísal og Norðuráls.  Verkalýðsfélag Akraness gerði það að tillögu á þessum fundi að hagfræðingi ASÍ yrði falið að gera launasamanburð milli Norðuráls, ÍJ og Ísal.  Áttum við fund með hagfræðingi ASÍ 17. mars, þar sem við báðum hann um að gera þennan samanburð fyrir okkur, ætlaði hagfræðingur ASÍ að reyna að fara eins fljótt í þessa vinnu og kostur væri.  Var hagfræðingur ASÍ sammála því að nauðsynlegt væri að sjá hver raunverulegur launamunur væri miðað við sama vinnustundafjölda hjá þessum þremur verksmiðjum, því ef einhver launamunur er getur hann nýst vel í komandi kjarasamningum við Norðurál.  Ljóst er að starfsmenn Norðuráls vænta mikils af komandi samningum og mun VLFA ekki láta sitt eftir liggja við samningsgerðina.

 Viðræðunefnd Samiðnar hefur setið á fundum undanfarna mánuði en því miður ber töluvert ennþá þar í milli og eftir samninga Rafiðnaðarsambandsins hefur allt staðið í stað eða þokast afturábak.

 Samninganefnd sjómanna hefur verið að funda undanfarna mánuði en mikið ber á milli.  Formaður sjómannadeildar Hjörtur Júlíusson fór á fund með stóru samninganefndinni hjá SSÍ 30. mars þar sem farið var yfir stöðu mála.  Eins og staðan er í dag er útlitið ekki bjart um að samningur við sjómenn verði gerður í bráð.

 

Atvinnuhorfur

Það verður að segjast alveg eins og er að framtíðarhorfur í atvinnumálum eru mjög góðar á okkar félagssvæði.  Framkvæmdir vegna stækkunar Norðuráls munu hefjast von bráðar, og er gert ráð fyrir að stækkunin verði tekin í notkun vorið 2006.  Munu yfir 100 ný störf skapast til frambúðar vegna þessa.  Norðurál hefur nú óskað eftir viðræðum um enn frekari stækkun sem fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við þegar lokið er byggingu Fjarðaráls.  Það var afar jákvætt að Grandi og HB fjölskyldan skyldu hafa náð samkomulagi, og keypt fyrirtækið saman.  Stjórn VLFA telur að þessi kaup hafi verið það besta í stöðunni, og vonandi tryggir þetta störf fiskvinnslufólks og sjómanna hér á Akranesi til frambúðar.

 

Fundahöld ofl.

Á þeim 5 mánuðum sem liðnir eru frá því að núverandi stjórn tók við, hafa verið haldnir 22 stjórnarfundir, 3 stjórnar- og trúnaðarráðsfundir, 3 í stjórn sjúkrasjóðs, 2 félagsfundir, 6 aðalfundir deilda og 2 námskeið fyrir trúnaðarmenn.  Auk þessa hafa vinnustaðir verið heimsóttir og rætt við félagsmenn.

Skrifstofa félagsins er að hefja undirbúning að fiskvinnslunámskeiði, og verður það auglýst von bráðar.  Framhaldstrúnaðarmannanámskeið er fyrirhugað að halda í haust.  Stjórn félagsins mun leggja mikið kapp á að gera trúnaðarmenn félagsins eins hæfa og virka eins og kostur er.  Höfum við verið í sambandi við Félagsmálaskóla Alþýðu sem mun sjá um þessi námskeið fyrir okkur.

 

Fréttabréf

Stjórn félagsins hefur rætt um að gefa út tvö fréttabréf á ári til upplýsingagjafar fyrir félagsmenn, og er stefnt að því að fyrsta blaðið komi út í sumar eða haust.

 

80 ára afmæli félagsins 14. október 2004

Gerður hefur verið samningur við Kristján Kristjánsson rithöfund um gefa út afmælisrit fyrir félagið.  Þar verður farið yfir sögu félagsins og m.a tekin viðtöl við gamla félagsmenn, blaðið mun koma út í október og verður dreift í öll hús á Akranesi.  Stjórn félagsins hefur ákveðið að minnast þessara merku tímamóta og halda upp á daginn.  Nánari tilhögun um útfærslu verður auglýst þegar nær dregur.

 

Það sem stjórn og starfsmenn hafa áorkað

Þegar núverandi stjórn tók við voru útistandandi kröfur félagsins yfir 20 milljónir króna og áttu sumar skuldir rætur sínar að rekja til ársins 1997.  Stjórn og starfsmönnum félagsins tókst að innheimta 5,6 milljónir af þeim kröfum fyrir áramót, eins og reikningar félagsins sýna glögglega og hefur auk þess tekist að innheimta um 4,5 milljónir það sem af er þessu ári.  Allar skilagreinar fram til þessa dags hafa nú verið færðar.  Í undanfara kosninganna sl. haust gáfum við ýmis loforð um meiri og betri þjónustu við félagsmenn.  Þessi loforð hafa flest verið uppfyllt nú þegar og má þar nefna að jólatrésskemmtun var haldin í desember fyrir börn félagsmanna og heimasíða félagsins hefur verið tekin í notkun og er uppfærð nánast daglega.  Stjórn félagsins beitti sér fyrir því að fá bæjaryfirvöld til að opna leikskólann Vallarsel fyrr á morgnana eða kl. 6:45, var það gert að ósk starfsfólks sem vinnur í stóriðjunum á Grundartangasvæðinu.  Hér á eftir, undir liðnum um reglugerðabreytingar mun verða lögð fram tillaga um greiðslur úr sjúkrasjóði vegna krabbameinsskoðunar.  Þessu til viðbótar var félagsmönnum boðið upp á ókeypis framtalsaðstoð sem tugir manna nýttu sér.  Stjórnin hefur þegar ákveðið að framhald verði þar á og að þetta verði að föstum lið í starfi félagsins.  Mikið hefur mætt á stjórn og starfsmönnum félagsins vegna ýmissa ágreiningsmála félagsmanna við atvinnurekendur.  Öllum málum hefur verið sinnt og hafa margir fengið góða úrlausn.  Ber þar hæst sá árangur sem náðist fyrir tímakaupsfólk sem starfar hjá Akraneskaupstað.  Leiðrétting til þeirra starfsmanna nam hundruðum þúsunda króna.  Nokkur mál eru enn í vinnslu sem ekki er hægt að tíunda hér.

 

Málefni fyrrverandi formanns

Stjórn félagsins tók þá ákvörðun að vísa máli Hervars Gunnarssonar fyrrverandi formanns félagsins, varðandi óútskýrða reikninga og óuppgerðar kröfur, til lögmanns VLFA.  Hann mun hér á fundinum gera nokkra grein fyrir stöðu þess máls og hvert stefnir.  Hefur hann gert greinargerð til stjórnar Verkalýðsfélags Akraness sem dreift verður hér til félagsmanna ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins því það er stefna stjórnar VLFA að félagsmenn séu vel upplýstir um málefni félagsins.

 

Lokaorð

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness tók við 19. nóvember 2003.  Nýkjörin stjórn félagsins er einungis búin að vera fimm mánuði við stjórnartaumanna en á þeim stutta tíma hefur félagið tekið algjörum stakkaskiptum, innheimtumálin eru að verða komin í lag, heimasíðan er farin að virka, iðgjaldaskráningin er færð jafnóðum og boðið er upp á framtalsaðstoð fyrir félagsmenn.  Síðan lagði varaformaður ásamt framkvæmdastjóra félagsins fram tillögur að reglugerðabreytingum fyrir sjúkrasjóð, og verður gerð tillaga um að krabbameinsransóknir verði greiddar að hluta úr sjúkrasjóði.  Er það gert í samræmi við kosningaloforð sem við gáfum fyrir kosningarnar.

Sú vítaverða vanræksla og sjálftaka sem viðhöfð hefur verið á skrifstofu félagsins um langt árabil og það sinnu- og eftirlitsleysi þeirra sem stjórnað hafa félaginu á liðnum árum eru hlutir sem mega aldrei endurtaka sig.

Það hefur gustað verulega um Verkalýðsfélag Akraness undanfarin ár.  Ástæðurnar þekkja allir og þarf ekki að tíunda hér.  Ég vil þó benda mönnum á, að sá sem hér talar og harðast hefur barist, hefur alla tíð verið málefnalegur í sinni gagnrýni.  Aldrei voru settar fram órökstuddar eða ósannar fullyrðingar.  Þvert á móti hefur allt sem ég hef sagt, staðist.  Það er þó mikilvægt að sýna aðhald og halda uppi gagnrýni og hvet ég menn til að gera það, en við skulum muna að sú gagnrýni þarf að vera málefnaleg og sett fram með rökum.  Sú yfirlýsing sem Lárus Ingibergsson kom með á síðasta framhaldsaðalfundi um að gefa stjórn félagsins algjöran frið í þau tvö ár sem hún var kjörin til að koma félaginu á lappirnar að nýju til þess að það gæti unnið að hagsmunum félagsmanna, var mikils virði fyrir þessa stjórn og gott væri að fleiri fylgdu fordæmi hans.  Stjórn félagins vill að lokum þakka félagsmönnum fyrir allan þann stuðning sem við höfum fundið fyrir eftir að við tókum við stjórnartaumunum.

Skýrsla framkvæmdastjóra

 

Ég kom til starfa þann 15. desember 2003 og hef því starfað hjá félaginu í fjóra og hálfan mánuð.  Á þessum stutta tíma hefur heilmikið gerst og í þeim störfum sem mér var falið hefur ýmislegt áunnist.  Það var erfið aðkoma fyrir mig, um miðjan desember, að koma að tómri skrifstofu og reyna að setja sig inn í öll þau margvíslegu verkefni sem tengjast rekstri félagsins.  Fyrstu vikurnar fóru í að kynna sér starfsemi félagsins, læra á tölvukerfið, læra hvernig iðgjöld og sjúkrabætur eru skráð og hvernig ýmsar skýrslur eru keyrðar út úr kerfinu.  Eftir að Elínbjörgu Magnúsdóttur var sagt upp um áramótin þá fóru fyrstu 3 vikur janúarmánaðar í að sjá um daglegan rekstur félagsins.  Þann 20. janúar var Hugrún Olga Guðjónsdóttir ráðin til starfa á skrifstofu félagsins og hefur hún verið fljót að setja sig inn í hin ýmsu verkefni skrifstofunnar.  Verkaskipting okkar á skrifstofunni frá því að Hugrún kom til starfa hefur verið með þeim hætti að ég hef séð um fjármálin, þar með talið innheimtu iðgjalda, greiðslu reikninga og sjúkrabóta, uppsetningu heimasíðu og fleira.  Vilhjálmur hefur séð um félagslega þáttinn, þ.e. kjarasamningamál og ýmis önnur mál sem snúa að félagsmönnum og má þá sérstaklega nefna fjölmörg mál þar sem brotið hefur verið á réttindum félagsmanna.  Þessi mál hafa verið óhemju tímafrek hjá honum en sú vinna hefur líka skilað árangri.  Hugrún hefur síðan séð um hin daglegu verkefni á skrifstofunni, svo sem svara í síma, bóka orlofshús, selja miða í göngin, skrá iðgjöld og svara fyrirspurnum um kjarasamninga.  Við höfum að sjálfsögðu gengið í störf hvers annars þegar það hefur átt við og upplýst hvert annað um þau verkefni sem við erum að sinna hverju sinni.  Rétt er að taka fram að við erum öll ný á skrifstofu félagsins og erum langt frá því fullnuma í þeim verkefnum sem liggja fyrir á vegum félagsins.

Varðandi iðgjaldaskráninguna í félaginu þá komst ég að því á öðrum degi í starfi að það var óskráð iðgjaldamappa vegna maí 2003 uppi á skáp á skrifstofunni.  Þetta þurfti að slá inn í kerfið og var Anna Jóna Gísladóttir hjá Lífeyrissjóði Vesturlands fengin til þess í byrjun janúar enda þekkir hún iðgjaldakerfið mjög vel.  Verður það að teljast gagnrýnisvert að ekki hafi verið hugsað um skráninguna betur en svo að það gleymdist að skrá heilan mánuð af iðgjöldum.  Iðgjöldin eru jú undirstaða félagsins og skráning þeirra sjálfsagður hluti af daglegum rekstri félagsins.  Ekki var hægt að loka bókhaldinu fyrr en í lok febrúar þegar búið var að gera margvíslegar leiðréttingar og uppfærslur með hjálp Lilju Harðardóttur hjá Streng.  Hefur hún verið ómetanleg hjálp í þessum efnum.  Þá fyrst var hægt að sjá raunverulega stöðu skuldara og senda út aðallaunagreiðandayfirlit, en það hefur ekki verið gert áður.  Enda kom í ljós að margir launagreiðendur sátu inni í kerfinu með skuld, sem má rekja til dráttarvaxta mörg ár aftur í tímann.  Vakti það misjafna hrifningu hjá þeim að greiða þessar skuldir enda höfðu þeir staðið í þeirri meiningu að þeir væru skuldlausir við félagið.  Töluvert margir launagreiðendur eru enn með skekkju í kerfinu og á það eftir að taka töluverðan tíma að leiðrétta þá.  En fyrsta skrefið er stigið með því að senda út þessi yfirlit og er stefnt að því að það verði gert a.m.k. á 3ja mánaða fresti í framtíðinni. 

Varðandi innheimtumál, þá voru iðgjaldakröfur félags-, sjúkra- og orlofssjóðs samtals 17.500.000 um síðustu áramót samkvæmt ársreikningi félagsins.  Við þetta má bæta skuldajöfnunun upp á kr. 5.600.000 sem eru inni í ársreikningum 2002 og  2003 en var gengið frá af minni hálfu og fyrir milligöngu endurskoðanda félagsins í mars sl.  Ekki er heldur búið að taka tillit til þeirra skilagreina sem ekki höfðu borist félaginu.  Það liggur ljóst fyrir að þau iðgjöld eru a.m.k. á aðra milljón króna.  Samanlagðar iðgjaldakröfur með áföllnum dráttarvöxtum voru því yfir 23 milljónir um síðustu áramót.  Kallað hefur verið eftir töluvert af skilagreinum og skrifuð innheimtubréf til fjölmargra aðila og höfum við náð að innheimta 4,5 milljónir króna frá því að við hófum innheimtuaðgerðir í byrjun mars, eða alls yfir 10 milljónir að skuldajöfnunum meðtöldum.  Nokkrir aðilar hafa enn ekki sýnt viðbrögð við innheimtuaðgerðum okkar og eru þeir til alvarlegrar skoðunar um harðari innheimtuaðgerðir.  Það verður að teljast ámælisvert að iðgjaldakröfur hjá félaginu séu svo háar og að elstu kröfur eigi rætur sínar að rekja allt til ársins 1997.

Lausafjárstaða félagssjóðs er ekki góð um þessar mundir og hefur ekki verið það síðustu þrjú árin eða allt frá því húsnæðið að Sunnubraut 13 var keypt.  Bankainnistæður félagssjóðs um síðustu áramót voru um 6,7 milljónir þegar tekið hefur verið tillit til þeirra millifærslna sem átti eftir að gera milli sjóða, en á móti kemur að skammtímaskuldir voru um 8,5 milljónir, auk þess sem nýframfærð krafa frá HB hf. vegna endurgreiðslu á sjúkra- og orlofssjóðsgjöldum hefur áhrif á umsýslugjald félagssjóðs um kr. 1.500.000 og með tilliti til þess var handbært fé því neikvætt um 3,3 milljónir um áramótin.  Vonandi tekst að snúa við þessari þróun síðustu ára með betri innheimtu á iðgjöldum félagsins og aðhaldi í rekstri.  Einnig má velta upp þeirri spurningu hvort kanna eigi þann möguleika að selja 3ju hæðina á Kirkjubraut 40.  Þar liggur bundið fjármagn upp á tugi milljóna króna sem hægt væri að nýta til að bæta lausafjárstöðuna og auðveldlega væri hægt að ávaxta þetta fjármagn betur en þá húsaleigu sem nú er greidd af húsnæðinu.

Töluverð vinna er í kringum sjúkrasjóð félagsins.  Umsóknir virðast koma í hálfgerðum hriðjum, einn mánuðinn eru þær margar og annan fáar.  Oft er um viðkvæm mál að ræða og því mikilvægt að gæta fyllsta trúnaðar við meðferð umsóknanna.  Vinnan felst aðallega í því að kanna rétt félagsmanna og hvort öll gögn fylgi með.  Eigi félagsmaður rétt þarf að skrá inn upplýsingar á fjórum stöðum í kerfinu áður en hægt er að borga út bætur.  Sjúkrasjóðurinn hefur verið rekinn með töluverðum hagnaði undanfarin ár, þrátt fyrir nýframkomna kröfu HB hf., og hefur hann því vaxið vel á undanförnum árum.  Spurningin er hversu mikill hagnaður á að vera af sjóðnum og hvort taka eigi upp fleiri bótaflokka í framtíðinni sem komi félagsmönnum til góða.  Fullar bætur úr sjóðnum eru nú kr. 78.900 á mánuði og spurning um hvort hækka eigi bæturnar og miða þær við lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur.   En ég legg áherslu á að það þarf að fara varlega út í slíkar breytingar og áætla nákvæmlega þann kostnað sem felst í slíkum breytingum.  Það verður verkefni nýrrar stjórnar sjúkrasjóðs að kanna þessi mál.

Umsjón og bókun orlofshúsa félagsins er í okkar höndum á skrifstofunni.  Nýtingin á húsunum hefur verið 75% frá áramótum.  Því miður hefur verið nokkuð um það að félagsmenn gangi illa um orlofshúsin og þrífi ekki eftir sig og höfum við þurft að gera fjárkröfu á tvo félagsmenn frá áramótum vegna skemmda og óþrifnaðar á orlofshúsunum.  Ekki er hægt að hafa eftirlit með orlofshúsunum í Húsafelli, Svínadal og Hraunborgum og fáum við því ekki fréttir af ástandi húsanna fyrr en næsti félagsmaður hefur verið þar.  Það er því rétt að brýna fyrir félagsmönnum að ganga vel um orlofshúsin enda eru þau sameign okkar allra.  Varðandi rekstur orlofshúsanna þá liggur fyrir, eftir að nýja krafan frá HB kom í ljós, að handbært fé orlofssjóðs var neikvætt um 1,3 milljónir um síðustu áramót.  Það er því ekki til fjármagn til að nota í viðhald og endurbætur á þeim 8 orlofshúsum í eigu félagsins að svo stöddu.  Reyndar liggur töluvert fé bundið í eignum orlofssjóðs og stóra spurningin er sú hvort selja eigi eitt eða fleiri orlofshús til að losa fjármagn til viðhalds og endurbóta á öðrum eignum sjóðsins og leigja ný orlofshús í staðinn yfir sumartímann.  Það verður því að verk nýrrar stjórnar orlofssjóðs að kanna þessi mál ásamt því að láta taka út öll orlofshúsin af óháðum aðilum og tel ég að best fari á að einn eða fleiri trésmiðir úr iðnsveinadeild félagsins verði fengnir í þá vinnu. 

Kosningar um nýjan kjarasamning milli SA og SGS fóru fram í mars og voru félagsmenn í almennu deild og matvæladeild á kjörskrá.  Fram fór póstkostning og var samningurinn samþykktur með 62% atkvæða en þáttaka var aðeins rúmlega 22%.  Margir félagsmenn höfðu samband og sögðust ekki hafa fengið kjörseðil og þegar að var gáð þá voru þeir einhverja hluta vegna skráðir í opinberu deild félagsins.  Margir kærðu sig inn á kjörskrá en a.m.k. nokkrir tugir félagsmanna eru ennþá skráðir í ranga deild.  Félagatalið er því að nokkrum hluta gallað en vinna er hafin við að leiðrétta það.  Í byrjun apríl fór fram kosning um verkfallsheimild hjá félagsmönnum sem vinna á Heilbrigðisstofnun Akraness.  Atkvæðin voru talin en ekki kom til þess að úrslitin yrðu tilkynnt opinberlega þar sem verkfalli var frestað. 

Ný heimasíða félagsins var tekin í notkun í janúar.  Samið var við Nepal í Borgarnesi um að búa til nýtt útlit á síðuna og kostaði sú vinna 130.000 kr.  Þjónustusamningur var þegar til milli Nepal og Starfsgreinasambandsins og gengum við inn í hann sem aðildarfélag og greiðum því kr. 6.225 á mánuði í þjónustugjöld.  Sambærileg þjónusta kostar á bilinu 13-17 þúsund á mánuði hjá öðrum aðilum.  Talsverður tími hjá mér hefur farið í uppsetningu síðunnar og innsetningu á upplýsingum á síðuna.  Það mesta er komið inn en ekki hefur enn gefist tími til að koma upplýsingum og myndum af orlofshúsum félagsins á síðuna.  Það verður gert síðar á árinu og er góður möguleiki á því að hægt verði að senda inn umsóknareyðublað um orlofshús beint af heimasíðunni á næsta ári.  Við höfum einnig verið dugleg við að setja inn fréttir af því helsta sem er að gerast í félaginu inn á síðuna.  Í byrjun apríl var settur upp teljari á heimasíðuna og hafa heimsóknir á síðuna verið um 10 á dag nú í apríl, eftir að teljari var settur á síðuna.  Við höfum einnig fengið nokkrar fyrirspurnir af heimasíðunni og höfum við reynt að svara þeim öllum af bestu getu.  Ég hvet félagsmenn eindregið til að kynna sér og nota heimasíðu félagsins og allar ábendingar um hvað betur megi fara á síðunni eru vel þegnar.

Eins og mörgum er kunnugt um þá hef ég sagt upp störfum hjá félaginu og hætti í kringum 15. maí næstkomandi.  Ástæða þessa er sú að haft var sambandi við mig frá KB banka og mér boðið nýtt starf.  Eftir að hafa hugsað málið vel og vandlega þá fannst mér starfið vera þess eðlis að ég gæti ekki hafnað því.  Því miður kemur þetta á óheppilegum tíma fyrir félagið en ég tel að ég sé búinn að koma flestum málum sem mér var falið í ákveðinn farveg og óttast því ekki að skilja við félagið á þessum tímapunkti.  Stjórn félagsins hefur ákveðið að ráða Hugrúnu Olgu Guðjónsdóttur í starf framkvæmdastjóra í minn stað og treysti ég henni fullkomlega fyrir því, enda er hún heiðarleg, samviskusöm, staðföst og ákveðin í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur.  Þetta hefur verið lærdómsríkur og skemmtilegur tími hjá félaginu en jafnframt erfiður þar sem félagið er að ganga í gegnum miklar breytingar á þessum mánuðum.  Ég hef starfað af heilindum fyrir félagið í þennan stutta tíma og vona að ég hafi gert félaginu einhvert gagn.  Ég þakka stjórn og samstarfsmönnum fyrir samstarfið og óska félaginu og félagsmönnum þess bjartrar framtíðar.

 

Með kveðju,

Haraldur Ingólfsson.

30
Apr

Samiðn samdi í gær

Samiðn og Samtök atvinnulífsins gengu frá nýjum kjarasamningi í kvöld. Iðnaðarmenn í Verkalýðsfélagi Akraness geta fengið samninginn á Skrifstofu félagsins. Nánar verður fjallað um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann á Heimasíðu félagsins á næstunni.

29
Apr

Samningum að ljúka hjá Samiðn

Eftir fund með viðsemjendum okkar sem lauk um miðnætti, kynnti viðræðunefnd Samiðnar samninganefndinni drög að samningi.  Eftir ítarlega umfjöllun heimilaði hún viðræðunefndinni að ljúka samningum á þeim megin forsendum sem drögin kváðu á um. 
 
Sjá nánar vef Samiðnar www.samidn.is
28
Apr

Samningaviðræður við Samiðn

Í gær kl. 13 hófust viðræður að nýju við SA og stóðu þær fram til kl. 2 í nótt.  Á fundinum var farið yfir flest þau mál sem ágreininngur hefur verið um og eru komin drög að texta varðandi flesta þá þætti.  Engin niðurstaða liggur fyrir varðandi kauptaxtana.
 
Sjá nánar á vef Samiðnar www.samidn.is
23
Apr

Úrslitatilraun um helgina

Viðræðunefnd Samiðnar hefur setið á fundum með Samtökum atvinnulífsins undanfarna tvo daga. Rætt hefur verið um nýja kauptaxta en ekkert samkomulag liggur fyrir og seinni partinn í gær var ákveðið að gera hlé á viðræðum og skoða í dag hvort forsendur væru til að halda áfram. Ákveðið hefur verið að kalla samninganefnd Samiðnar saman kl. 15 í dag til að fara yfir stöðuna og meta framhaldið. Gert er ráð fyrir að nefndin verði tiltæk eitthvað fram í helgina. Það er sameiginlegur áhugi samningsaðila að gera nú úrslitatilraun en töluvert skilur enn á milli. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image