• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Mar

Aðalfundur deilda VLFA var haldinn um daginn

Á fimmtudaginn í síðustu viku var sameiginlegur aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness haldinn þar sem farið var, auk venjubundinna aðalfundastarfa. yfir starfsemi félagsins og þau áherslumál sem félagið stendur fyrir. Kosið var í trúnaðaráð félagsins en undir linknum stjórn og trúnaðaráð er hægt að sjá hverjir skipa þau sæti fram að næsta aðalfundi deildanna. 

Formaður fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að jafnt félagslega sem fjárhagslega sé Verkalýðsfélag Akraness mjög sterkt enda byggir félagið á sterku félagsvæði þar sem atvinnulífið er öflugt enda drifið áfram af stórum og öflugum útflutningsfyrirtækjum. Formaður fór einnig yfir að félagið hafi ætíð lagt sig í líma við að verja og bæta kjör sinna félagsmann eins og kostur er og nefndi hann sérstaklega árangur félagsins við síðasta kjarasaming við Norðurál þar sem samið var um að laun starfsmanna tæki hækkunum launavístitölu. Slíkt hefur ekki þekkst áður í kjarasamningum verkafólks svo vitað sé. Það er klárt mál að þetta mun skila starfsmönnum góðum ávinningi og nefndi formaður þar að byrjandi í Norðuráli á vöktum sé kominn upp í 575 þúsund krónur með öllu, sem verður að teljast ásættanlegt miðað við launakjör víða á íslenskum vinnumarkaði. En að sjálfsgöðu er baráttunni fyrir bættum kjörum aldrei lokið.

Formaður fór einnig ítarlega yfir eina erfiðustu kjaradeilu sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði sem er hið margfræða sjómannaverkfall sem stóð yfir í 10 vikur. Verkalýðsfélag Akraness tók virkan þátt við þá kjarasamningsgerð en félagsmenn VLFA í sjómannadeild eru tæplega eitt hundrað talsins. Kom fram í máli formanns í þessu samhengi að félagið hafi greitt út um 30 milljónir króna í verkfallsbætur á meðan á verkfalli stóð. Hann greindi líka frá því að mörg ágreinismál væru nú fyrir dómsmálum en nýlega vann félagið mál við Norðurál sem skilaði félagsmönnum um 30 milljónum króna. Nokkur mál til viðbótar eru nú eins og áður sagði fyrir dómsmálum og verða tekin fyrir á næstu mánuðum. 

Að lokum fór formaður yfir að það er stefna stjórnar VLFA að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og berjast af alefni fyrir bættum kjörum og réttindum sinna félagsmanna og verður hvergi kvikað frá í þeirri baráttu og ljóst að þeirri baráttu líkur aldrei eins og áður sagði.

06
Mar

Átta sjómenn fá leiðréttingu sem nemur um 12 milljónum!

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert samkomulag við HB Granda vegna leiðréttingar á netamannshlut til 8 skipverja á Höfrungi AK og náði leiðréttingin tvö ár aftur í tímann.  

Málið laut að því að fyrir nokkrum árum tók fyrrverandi skipstjóri á skipinu ákvörðun um að skipta netmannshlutnum á milli tveggja netamanna en að mati félagsins samræmist slíkt ekki ákvæðum kjarasamnings félagsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, enda skýrt kveðið á um að netamaður um borð í frystitogurum fái 1 og 1/8 í sinn hlut.

Eftir að Verkalýðsfélag Akraness hafði gert athugsemdir vegna þessa við fyrirtækið var ákveðið að gera samkomulag um þessa leiðréttingu til umræddra sjómanna og nam leiðréttingin í heildina um 12 milljónum króna. Það var mjög ánægjulegt að sátt náðist um þessa leiðréttingu án þess að koma þurfti til þess að setja málið í lögfræðilega meðferð.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá reynir VLFA ætíð að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna og á síðustu tveimur mánuðum hefur félagið náð að leiðrétta laun sinna félagsmanna um tæpar 40 milljónir króna, og það eingöngu vegna ágreinings um það hvort verið sé að greiða eftir gildandi kjarasamningum.  

Það hefur ætíð verið stefna stjórnar félagsins að standa fast fyrir ef um kjarasamningsbrot á okkar félagsmönnum er að ræða. Í dag er félagið með þrjú mál fyrir dómstólum þar sem verið er að krefjast leiðréttingar kjarasamningsbundnum réttindum okkar félagsmanna.

03
Mar

Gjaldeyristekjur skapaðar af fullum krafti á Akranesi

Engey og Víkingur liggja bundin við bryggju á Akranesi

Víkingur AK100

Engey, nýr ísfisktogari í eigu HB Granda

Frystihús HB Granda á Akranesi

Það er óhætt að segja að tannhjól sjávarútvegsins séu komin á fulla ferð eftir hið langa 10 vikna verkfall sjómanna, en hér á Akranesi er starfsemin svo sannarlega komin á fulla ferð bæði hvað varðar veiðar og vinnslu. Í dag er aflaskipið Víkingur AK100 að landa loðnufarmi, en stór hluti aflans fer til hrognatöku. Það unnið á fullum afköstum í frystihúsinu við hrognatöku og í loðnubræðslunni og nokkuð hundruð manns eru nú á fullu við að skapa íslenskri þjóð auknar gjaldeyristekjur.

Það er alveg ljóst að íslenskur sjávarútvegur skiptir þjóðarbúið gríðarlegu máli, enda ljóst að Íslendingar byggju ekki við þau lífsgæði sem þeir búa nú við og telja sjálfsögð ef ekki væri fyrir sjávarútveginn með íslenska sjómenn og fiskvinnslufólk í broddi fylkingar. Með þessari frétt fylgja nokkrar myndir af tveimur af flaggskipum HB Granda við höfnina á Akranesi, annars vegar hinu glæsilega uppsjávarskipi Víkingi og nýja ísfisktogaranum Engey RE. 

Formaður telur mikilvægt að hrósa líka þegar vel er gert og það er full ástæða til að hrósa forsvarsmönnum HB Granda í fyrsta lagi fyrir að hafa haldið fullu ráðningarsambandi við allt fiskvinnslufólkið sitt allar 10 vikur verkfallins, en slíku var ekki til að dreifa hjá öllum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi. Í öðru lagi er öll starfsemin hér á Akranesi til mikillar fyrirmyndar, enda hefur fyrirtækið ráðist í miklar endurbætur og viðhald á öllum eignum sínum hér á Akranesi. 

03
Mar

Aðalfundur deilda VLFA í næstu viku

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið!

Sameiginlegur aðalfundur Almennrar deildar, Stóriðjudeildar, Opinberrar deildar, Iðnsveinadeildar og Matvæladeildar verður haldinn á Gamla kaupfélaginu fimmtudaginn 9. mars kl. 17:00.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Staða kjaramála
3. Farið yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi
4. Önnur mál

Boðið verður upp á súpu og brauð að afloknum fundi.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness

28
Feb

Á þriðja tug milljóna greiddar vegna verkfalls sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og flestir landsmenn vita þá lauk rúmlega 10 vikna verkfalli sjómanna sunnudaginn 19. febrúar síðastliðinn.

Þessi kjaradeila sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er ein erfiðasta kjaradeila sem háð hefur verið á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugina eða svo, enda liggur t.d. fyrir núna að þessi deila er sú lengsta í 37 ára sögu ríkissáttasemjara.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga þegar það á í erfiðum vinnudeilum við atvinnurekendur sem leiða tilverkfalls er að standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum og koma þá verkfallsjóðir félaganna til sögunnar.

Það skiptir því miklu máli að stéttarfélögin séu fjárhagslega sterk og með góða og öfluga verkfallssjóði þegar farið er í erfiðar vinnudeilur við atvinnurekendur. Sem betur fer stendur Verkalýðsfélag Akraness vel fjárhagslega og gat því stutt sína félagsmenn sem tilheyrðu sjómannadeild félagsins allan tímann sem verkfallið stóð.

Verkfallsbætur voru greiddar út hálfsmánaðarlega og síðast þann 15. febrúar. Á morgun fer fram lokauppgjör til þeirra sjómanna sem áttu rétt á verkfallsstyrk frá félaginu en þá verða greiddir út síðustu dagar verkfallsins. Í heildina greiddi verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness á þriðja tug milljóna úr verkfallssjóðnum.

Formaður vill koma á framfæri þakklæti fyrir hönd stjórnar félagsins til sjómanna fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessari erfiðu kjaradeilu, en baráttunni fyrir bættum réttindum og kjörum sjómanna og launafólks lýkur aldrei.

21
Feb

Starfsmenn Norðuráls fá tæplega 30 milljóna króna leiðréttingu greidda á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli fyrir Félagsdóm vegna ágreinings um túlkun á kjarasamningi vegna tveggja atriða í kjarasamningnum. Annað atriðið laut að útreikningi til ávinnslu orlofs- og desemberuppbóta. Hitt atriðið var ávinnsla á starfsaldri hjá fyrirtækinu, en VLFA hafði gert athugsemdir við fyrirtækið vegna þessa tveggja atriða án árangurs og voru aðilar sammála um að vera ósammála og því fór málið til Félagsdóms til úrlausnar.

Það er skemmst frá því að segja að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í báðum málunum, en dómur féll í Félagsdómi 1. desember á síðasta ári. Á morgun mun koma til greiðslu vegna þessa dóms og mun sú endurgreiðsla, eða leiðrétting, ná til 260 starfsmanna sem hafa starfað hjá fyrirtækinu við  og ná fjögur ár aftur í tímann, eða nánar til getið frá 1. janúar 2013.

Eins og áður sagði mun leiðréttingin vegna orlofs- og desemberuppbóta ná til 260 starfsmenn sem unnið hafa tímbundið og/eða við sumarafleysingar og nemur hún samkvæmt upplýsingum formanns um 26 milljónum króna með dráttarvöxtum. Og vegna seinna málsins sem laut að starfsaldurshækkunum nær sú leiðrétting í það minnsta til fjögurra starfsmanna og nemur á þriðju milljón króna.

Þannig að þessi hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness er að skila félagsmönnum tæpum 30 milljónum og er félagið stolt af því hvernig þetta mál fór, enda var félagið sannfært um að það hefði rétt fyrir sér í þessu máli. Það er stefna félagsins að standa ætíð fast fyrir þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir félagsmenn, enda er félagið óhrætt við að láta á slík mál reyna fyrir dómsstólum ef félagið telur minnsta vafa leika á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image