• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Sep

VLFA hefur innheimt yfir hálfan milljarð fyrir félagsmenn frá árinu 2003

Það er óhætt að segja að nóg hafi verið að gera við að verja réttindi félagsmanna þessari viku en í heildina hefur þessi réttindavarsla skilað sjö félagsmönnum sem um ræðir yfir einni milljón króna.

Málin eru margvísleg en eitt málið laut að því að félagsmanni var ekki greiddur uppsagnafrestur eins og kjarasamningar kveða á um. Annað málið laut að því að leiðrétta þurfti laun vegna vinnu í matartímum og einnig var þar leiðrétting vegna aksturs í þágu vinnuveitenda. Þriðja málið laut að leiðréttingu á greiðslu fyrir aðalhreingerningar og fjórða málið laut að því að það vantaði yfirvinnutíma hjá þremur starfsmönnum fimm mánuði aftur í tímann.

Það liggur fyrir að ef minnsti vafi er á að fyrirtæki séu ekki að uppfylla ákvæði kjarasamninga gagnvart félagsmönnum þá fer félagið af fullri einurð í slík mál. En jákvæð niðurstaða fékkst í öll þessi mál eftir að félagið hafði farið yfir þau með þeim aðilum sem þau tengdust og kom því ekki til kasta þess að vísa þessum málum til lögmanns félagsins.

Rétt er að geta þess að frá nóvember 2003 hefur Verkalýðsfélag Akranes náð að verja réttindi sinna félagsmanna um sem nemur um 540 milljónum og takið eftir, yfir hálfan milljarð króna. En þetta eru allt mál þar sem félagið hefur þurft að hafa aðkomu, bæði með aðstoð lögmanna félagsins sem og mál sem unnist hafa fyrir dómstólum.

Það er mat formanns að það skiptir gríðarlegu máli fyrir félagsmenn að hafa öflug stéttarfélög til að verja sín réttindi ef þeir telja að verið sé að brjóta á þeim enda er leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og því gott að geta leitað til síns stéttarfélags.

07
Sep

Trúnaðarmannanámskeið dagana 21.-22. september

Dagana 21. til 22. september verður haldið námskeið fyrir trúnaðarmenn félagsins. Um er að ræða Trúnaðarmannanámskeið I, 2. þrep, en efni námskeiðsins er: lestur launaseðla, kynning á kjarasamningum, sjóðum og starfsemi félagsins svo og fræðsla um einelti á vinnustað. Skráning stendur yfir og enn eru laus pláss. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu.

Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmönnum heimilt að sækja námskeið í eina viku á ári án skerðingar á launum. Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum.

Trúnaðarmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Vanti trúnaðarmann á vinnustaðinn þinn og viljir þú koma á kosningu veitir starfsfólk skrifstofu VLFA fúslega aðstoð við framkvæmdina. Athygli er vakin á því að eftir kosningu trúnaðarmanns þarf að tilkynna um kjörið til félagsins þar sem félagið þarf að tilnefna nýjan trúnaðarmann formlega.

01
Sep

Ferðalag eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness 2017

Miðvikudaginn 30. ágúst síðastliðinn var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Þessar ferðir eru ómissandi þáttur í starfi félagsins og margir bíða þeirra með eftirvæntingu. Björn Ingi Finsen sem hefur tekið að sér fararstjórn mörg undanfarin ár ákvað að stíga til hliðar og í hans stað kom Guðmundur Kristjánsson og sagði frá hinu og þessu sem fyrir augu bar í ferðinni.

Að þessu sinni lá leiðin vestur í Dali, til Hólmavíkur og farið var suðurstrandirnar heim á leið. Lagt var af stað stundvíslega kl. 8:30 og var veðrið með besta móti. Farið var í tveimur rútum og sáu bílstjórarnir Atli og Sigurbaldur um aksturinn eins og oft áður í þessum ferðum og stóðu sig með prýði. Fyrst lá leiðin að Erpsstöðum til hjónanna Þorgríms og Helgu þar sem hópurinn skoðaði svæðið og gæddi sér á ís beint frá býli. Í fjósinu var meðal annars nýfæddur kálfur og inni í versluninni var hægt að kaupa ýmsar mjólkurvörur sem framleiddar eru á Erpsstöðum. Eftir hálftíma stopp á Erpsstöðum var kominn tími til að halda áfram og næst var áð hjá minnismerki við Staðarhólskirkju í Saurbæ. Minnismerkið er reist til minningar um þrjú skáld, þá Stein Steinarr, Stefán frá Hvítadal og Sturlu Þórðarson. Margir gengu einnig upp að kirkjunni og um kirkjugarðinn en á meðan hópurinn stoppaði þarna sveif örn tignarlega yfir svæðinu og vakti mikla athygli.

Nú var farið að líða að hádegi og þá átti hópurinn pantaðan mat í Bjarkalundi í Reykhólasveit. Þangað var mætt á slaginu 12 og beið þar dýrindis lambalæri með meðlæti. Mörgum þótti gaman að koma í Bjarkalund og rifja upp góðar minningar, meðal annars af böllum sem haldin voru þar. Boðið var upp á kaffisopa eftir matinn og eftir að flestir höfðu notið þess að ganga um staðinn í rólegheitum var aftur haldið af stað. Farið var yfir Þröskulda og ýmsir voru að fara þá leið í fyrsta sinn og þótti mikil breyting. Komið var til Hólmavíkur kl. 14 og haldið beint í Hólmavíkurkirkju. Þar tók á móti hópnum sr. Sigríður Óladóttir sem er sóknarprestur þar en hún er einmitt frá Akranesi og þekkti marga í hópnum. Í anddyri kirkjunnar sátu tveir harmonikkuleikarar og tóku á móti hópnum með því að spila „Kátir voru karlar“ öllum til mikillar ánægju. Sigríður sagði hópnum svo frá starfi sínu, kirkjunni og bæjarfélaginu. Eftir þessa heimsókn var haldið af stað í átt að Sauðfjársetrinu að Sævangi þar sem hópsins beið kaffihlaðborð. Boðið var upp á ýmsar kræsingar og naut fólk þess að sitja og spjalla saman á meðan veitingunum voru gerð skil. Fyrir utan mátti svo bæði finna heimalninga og hænur sem margir spjölluðu aðeins við.

Nú var komið að síðasta hluta ferðarinnar þar sem ekið var um suðurstrandirnar. Skyggnið var mjög gott og sást til allra átta. Enn eru kaflar á þessari leið þar sem er malarvegur en þeim hefur þó farið fækkandi. Rétt fyrir kl. 18 var komið að Staðarskála þar sem gert var stutt stopp til að rétta úr sér. Aftur var haldið af stað og hringnum var formlega lokað þegar ekið var framhjá afleggjaranum að Bröttubrekku. Áfram hélt hópurinn heim á leið og komið var að Jaðarsbökkum rétt rúmlega 19:30. Ánægðir en þreyttir ferðalangar héldu þá heim á leið eftir góðan dag. Myndir úr ferðinni má sjá hér.

01
Sep

Spurning hvort miðstjórn ASÍ biðji Ragnar Þór Ingólfsson ekki afsökunar?

Miðstjórn ASÍ sá sig knúna í gær til að senda yfirlýsingu þar sem ummæli formanns VR á Facebook voru harðlega gagnrýnd. En yfirlýsingin gekk út að um órökrétt viðbrögð hans hafi verið að ræða um skýrslu ASÍ um skattamál. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp frétt á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness frá 2013 sem fjallar um tillögur ASÍ um skattamál samhliða kjarasamningsgerð.  En þau voru eilítið grátbrosleg viðbrögð miðstjórnar Alþýðusambands Íslands við þessari stöðuuppfærslu

En í þessari stöðuuppfærslu sagði formaður VR að forysta ASÍ hefði m.a. alið á uppgjöf og aumingjaskap í sinni hagsmunagæslu fyrir launafólk og bað líka forystu ASÍ að hætta þessum blekkingarleik hvað varðar kaupmáttaraukningu.

Undir þessi gagnrýnisatriði frá formanni VR get ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness svo sannarlega tekið undir enda eru þetta allt atriði sem ég hef margoft fjallað um á þingum ASÍ og gagnrýnt forystuna harðlega fyrir.

En eins og áður sagði þá sendi öll miðstjórn ASÍ frá sér tilkynningu þar sem Ragnar Þór var harðlega gagnrýndur fyrir skrif sín en í þessari yfirlýsingu frá miðstjórninni segir m.a. að um sé að ræða órökrétt viðbrögð formanns VR við skýrslu ASÍ um skattamál.

Í yfirlýsingunni segir líka að Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafi háð langa og erfiða baráttu við stjórnvöld um þróun skattkerfisins, með skýrum kröfum um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Það er dálítið undarlegt að forysta ASÍ skuli ýja að því í þessari yfirlýsingu að forystan hafi ætíð lagt fram skýrar kröfur um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Er miðstjórn ASÍ virkilega búin að gleyma fyrstu tillögum sínum til skattabreytinga sem hún lagði fram til ríkisstjórnar í nóvember 2013 samhliða kjarasamningsgerðinni og án þess að leita samþykkis hjá mörgum aðildarfélaga sinna? Rifjum þetta aðeins upp! Í fjárlagagerðinni sem lögð var fram 2013 voru lagðar fram skattabreytingar sem miðuðu að því að lækka miðþrepið í skattkerfinu úr 25,8% í 25% og var áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara tillaga sé um 5 milljarðar króna. Þessum hugmyndum mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega og taldi í raun og veru þessar tillögur algjörlega galnar.

Þessi tillaga ríkisstjórnarinnar var algjörlega galin og miðast fyrst og fremst að því að hygla þeim tekjuhæstu í íslensku samfélagi. Verkalýðsfélag Akraness sagðist árið 2013 aldrei geta tekið þátt í að styðja þessa skattabreytingar enda gengu þær út á að einstaklingar með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengju ekki neina skattalækkun. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness árið 2013 var hvellskýr og félagið mótmælti þessum fyrirhuguðu skattabreytingum harðlega.

Verkalýðsfélag Akraness lagði til að það 5 milljarða svigrúm sem væri til skattalækkana yrði notað til hækkunar á persónuafslætti, en skv. útreikningum fjármálaráðuneytisins árið 2013 þá lá fyrir að persónuafslátturinn gæti hækkað um 2.000 kr. á mánuði sem myndi gilda fyrir alla launþega óháð tekjum. Ef leið VLFA hefði verið farin þá hefði hún skilað öllu launafólki kr. 24.000 í auknar ráðstöfunartekjur á ári, en að sjálfsögðu kemur hækkun persónuafsláttar sér hlutfallslega best fyrir lágtekjufólkið.

En hvaða skattatillögur lagði forysta ASÍ í fyrstu fram til ríkisstjórnarinnar árið 2013? Var það að hækka persónuafsláttinn um 2.000 krónur á mánuði eins og VLFA hafði lagt til og hefði gilt fyrir alla, líka þá sem voru með tekjur undir 250 þúsund á mánuði? Nei, forysta ASÍ lagði til nýja leið sem þeir kölluðu „Betri leið til að lækka tekjuskatt á þorra launafólks“

en í þessum tillögum var áfram gert ráð fyrir að fólk með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengi ekki krónu í skattalækkun af þessu 5 milljarða svigrúmi. En tillögur forystu ASÍ gengu út á að hækka mörkin milli lægsta þrepsins og milliþrepsins úr ríflega 240 þúsund kr. í 350 þúsund kr. En eins og áður sagði þá voru þessar tillögur ASÍ þannig úr garði gerðar að áfram var gert ráð fyrir að þeir sem höllustum fæti stóðu í íslensku samfélagi áttu ekki að fá krónu af þessari 5 milljarða skattalækkun!

Þessari skattatillögu ASÍ mótmælti Verkalýðsfélag Akraness og nokkur önnur félög innan Starfsgreinasambands Íslands harðlega sem klárlega varð til þess að forysta ASÍ lagði fram aðra skattatillögu til ríkisstjórnarinnar á lokametrum í kjarasamningsgerðinni 2013 sem laut að því að færa mörkin í 295 þús.kr. og hækka persónuafsláttinn um kr. 1.000.

Mitt mat er að skattatillaga frá forystu ASÍ kom alltof seint og því miður held ég að hugur hafi ekki fylgt máli hjá forystu ASÍ um að hækka persónuafsláttinn, en ríkisstjórnin hafnaði að hækka persónuafsláttinn um þennan skitna 1000 kall sem ASÍ lagði til en samþykkti að færa mörkin í 295 þúsund.

Hvað þýddi þetta? Jú, lágtekjufólk, öryrkjar og atvinnulausir sem voru  með tekjur undir 250 þúsund á mánuði fengu ekki krónu af þessum 5 milljörðum í skattaafslátt en á sama tíma fékk launafólk sem var með yfir 800 þúsund í tekjur 42 þúsund í lækkun á sínum sköttum á ári!

Þessa tillögu samþykkti forysta ASÍ en rétt er að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness ásamt fjórum öðrum stéttarfélögum innan SGS neituðu að skrifa undir þessa kjarasamninga meðal annars vegna þess að skilja átti tekjulægsta fólkið eftir þegar kom að skattabreytingum.

Það er rétt að rifja upp að Verkalýðsfélag Akraness hvatti alla launamenn til að fella þennan kjarasamning og það var gert í fjölmörgum félögum en það skilaði síðan því að ríkissáttasemjari lagði fram sáttatillögu sem skilaði launafólki m.a. hækkun á orlofs-og desemberuppbótum.

Ég vildi bara rifja þessa sögu upp í ljósi þess að miðstjórn ASÍ sá sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem Ragnar Þór var harðlega gagnrýndur og sagt að ummæli hans hafi verið órökrétt og forysta ASÍ hafi ætíð lagt fram „skýrar“ kröfur um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa.

Semsagt það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til ársins 2013 þar sem fyrstu tillögur ASÍ til breytinga á skattatillögum gengu út á að skilja tekjulægsta fólkið eftir sem leiddi til þess að það fékk ekki eina krónu í skattalækkun!

Spurning hvort miðstjórn ASÍ biðji Ragnar Þór Ingólfsson ekki afsökunar á þessari yfirlýsingu því sagan sýnir að hann hefur töluvert til síns máls

31
Aug

Hundrað ára sögu vinnslu á bolfiski HB Granda á Akranesi lýkur í dag!

Eins og margir vita tók stjórn HB Granda ákvörðun um að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi frá og með 1. september en í þessum töluðu orðum eru síðustu fiskarnir að renna eftir flæðilínu HB Granda en áætlað er að hráefnið klárist um eða eftir hádegi.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að sveitarfélag sem hefur í aldanna rás byggt nánast alfarið á vinnslu á sjávarafurðum standi nú í þeim sporum að verið sé að slökkva ljósin hvað varðar vinnslu á bolfiski.

En rétt að geta þess að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson var stofnað árið 1906 og allt frá þeim tíma hafa vinnsla og veiðar verið fjöregg okkar Skagamanna og morgunljóst að samfélagið hér á Akranesi væri alls ekki með þeim hætti í dag ef veiðar og vinnsla á sjávarafurðum hefði ekki verið burðarstólpi í okkar afkomu.

En nú eru færiböndin í frystihúsi HB Granda að stoppa og því miður er alls óvíst hvort eða hvenær þau munu snúnast á nýjan leik.

Það er mikilvægt að rifja það upp að útgerðarfyrirtækið Haraldur Böðvarsson var áður en það sameinaðist Granda árið 2004 með 350 manns í vinnu  og greiddi 2 milljarða í laun og á Akranesi var landað um 170 þúsund tonnum.

Það er líka rétt að rifja upp að Akranes var einn af stærstu vertíðarstöðum á landinu þar sem allt snerist um veiðar og vinnslu á sjávarafurðum en núna er nánast allt horfið þökk sé því galna fyrirkomulagi við stjórnun á fiskveiðikerfinu sem við búum við. Enda er það galið og alls ekki líðandi að útgerðarmenn geti einhliða tekið ákvarðanir um að flytja aflaheimildir eða vinnslu sjávarafurða í burtu frá sveitarfélögunum og skilið fiskvinnslufólk og heilu byggðarlögin eftir með blæðandi sár.

Við höfum í gegnum árin og áratugina horft upp á fjölmörg byggðarlög skilin eftir í þvílíkum sárum eftir að útgerðarmenn hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir úr byggðarlögunum. Það er ólíðandi að fyrirkomulag við stjórnun á fiskveiðum geti í raun og veru slegið heilu byggðarlögin fast í kviðinn þannig að þau séu í keng og geti vart rétt úr sér á nýjan leik.

Ég tel fulla ástæðu til að hvetja stjórnvöld til að vera á tánum en ekki hnjánum þegar kemur að því að verja hagsmuni fiskvinnslufólks og tryggja atvinnu vítt og breitt um landið gagnvart þeim sem fara með tímabundinn umráðarétt yfir sjávarauðlindinni.

21
Aug

Kjarasamningur Klafa samþykktur með öllum greiddum atkvæðum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa við Samtök atvinnulífsins 14. ágúst síðastliðinn.  En á föstudaginn kynnti formaður samninginn fyrir starfsmönnum  og að aflokinni kynningu var kosið um samninginn.

Það var afar ánægjulegt að sjá og heyra að starfsmenn voru mjög ánægðir með nýja samninginn og nægir í því samhengi að nefna að hann var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Það er mat formanns félagsins að hér sé um afar góðan kjarasamning að ræða, enda taka laun Klafamanna alfarið mið af stóriðjusamningi Elkem Ísland en eins og flestir vita eru kjör í flestum stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Í þessum nýja kjarasamningi hækka mánaðarlaun frá 63 þúsundum upp í 73 þúsund á mánuði. Einnig munu orlofs- og desemberuppbætur hækka og verða þær samtals 404 þúsund á ári, eða 202 þúsund hvor um sig.

Einnig var samið um að starfsmenn Klafa hafi möguleika á að fara í stóriðjuskóla hjá Elkem Ísland en þegar starfsmenn hafa lokið námi þar mun það skila starfsmönnum 10% launahækkun að auki.

Um önnur kjör starfsmanna mun kjarasamningur Elkem Ísland gilda og eins og áður sagði er þetta mjög góður samningur en fyrir 156 tíma vaktarvinnu í kvöld og dagvinnu mun starfsmaður með 10 ára starfsreynslu vera með um 520 þúsund í heildarlaun.

Samningurinn er afturvirkur og gildir frá 1. febrúar 2017 sem þýðir að starfsmenn munu fá laun leiðrétt frá þeim tíma og getur sú upphæð numið allt að 300 þúsundum króna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image