• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Oct

Garðar Halldórsson heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness - minningarorð

Í dag verður jarðsunginn frá Akraneskirkju einn af heiðursfélögum Verkalýðsfélags Akraness, Garðar Halldórsson. Garðar var fæddur þann 8. september 1924 og lést 20. október síðastliðinn, 93 ára að aldri.

Garðar flutti ásamt eiginkonu sinni og börnum til Akraness frá Hríshóli í Reykhólasveit árið 1968 og hóf þá störf í sútunarverksmiðju. Hann komst fljótt í kynni við Skúla Þórðarson sem þá var formaður Verkalýðsfélags Akraness en Garðar gekk formlega í félagið þann 10. desember 1969.

Áður en langt um leið var Garðar orðinn formaður verkamannadeildarinnar og tók svo síðar við starfi ritara í aðalstjórn félagsins og var virkur í starfsemi félagsins allt til ársins 1990. Garðar skipti um starfsvettvang árið 1977 þegar sútunarverksmiðjunni var lokað og hóf þá störf hjá Lífeyrissjóði Vesturlands. Lífeyrismál voru honum afar hugleikin og mætti hann á ársfundi þar löngu eftir starfslok sín og ritaði fundargerðir ársfundarins fram að áttræðisaldri.

Þó svo að Garðar léti af formlegum störfum fyrir félagið um 1990 lét hann sig starfsemi þess alltaf varða, tók meðal annars þátt í ferðalögum eldri félagsmanna og sýndi áhuga á því sem fengist var við hverju sinni í kjarabaráttunni. Garðar fæddist einum mánuði áður en Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og því táknrænt að ævi hans hafi fléttast inn í starf félagsins og var hann gerður heiðursfélagi þess. Þegar Verkalýðsfélag Akraness varð 90 ára þann 14. október 2014 mætti hann að sjálfsögðu á skrifstofuna til að fanga þessum merku tímamótum, þá sjálfur nýbúinn að fagna sínu níræðisafmæli.

Garðar var hagmæltur og á félagið þónokkuð af kveðskap eftir hann, meðal annars 12 erinda afmæliskveðju til félagsins sem hann samdi árið 1974 þegar félagið varð 50 ára. Síðasta erindi þeirrar kveðju á vel við enn þann dag í dag:

Fögnum heilum huga
hálfrar aldar starfi.
Strengjum heit að standa
styrk á fengnum rétti.
Sókn til nýrra sigra,
sé vor leiðarstjarna.
Þá mun framtíð færa
farsæld öllum lýðum.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Garðars með hlýju og þakklæti og sendir öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

13
Oct

Þing Starfsgreinasambandsins haldið 11. og 12. október

6. þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Selfossi daganna 11. til 12. október lauk í gær.  Það má segja að það hafi verið hálfgerð lognmolla yfir þessu þingi að því undanskildu að hart var tekist á um svokallaða tilgreinda séreign.

Því miður hefur nánast engin kynning farið fram um þessa tilgreindu séreign enda var einungis fámennur hópur innan ASÍ sem samdi um hana við Samtök atvinnulífsins. En þessu til viðbótar þá liggur fyrir að ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum nr. 129/1997 breytt þannig að launafólki verði gert skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og einnig sem er gjörsamlega stórundarlegt að hún verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Með öðrum orðum ASÍ og SA hafa unnið að því að fá lögum breytt þannig að öllu launafólki sé skylt að leggja þessa tilgreindu séreign einungis inn hjá lífeyrissjóðunum og megi því ekki velja sér annan vörsluaðila.

Eins og áður sagði hefur engin kynning farið fram á meðal launafólks enda hefur fámenn klíka innan ASÍ deilt og drottnað í þessu máli án þess að bera neitt undir hinn almenna félagsmann.

Það var gjörsamlega óskiljanlegt að hlusta á suma forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar tala með því á þingi SGS á Selfossi að þessi svokallaða tilgreinda séreign ætti og þyrfti að vera skerðingarhæf frá Tryggingastofnun og einnig að allar þessar greiðslur yrðu að fara inn til lífeyrissjóðanna.

Formaður félagsins spurði á þinginu hagsmuni hverra forysta ASÍ sé að verja í þessu máli því það er morgunljóst að ekki er verið að verja hagsmuni launafólks með því að semja um nýja tegund af séreignarsparnaði sem mun leiða til þess að launafólk muni skerða greiðslur sínar frá Tryggingastofnun þegar það hefur töku lífeyris. En eins og allir vita þá eru það skerðingar frá TR sem hafa m.a. valdið því að ávinningur launafólks af því að greiða í lífeyrissjóð er því miður oft á tíðum sáralítill.

Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á þinginu og lagði fram ályktun sem kveður á um að þingið hafni öllum hugmyndum að lagabreytingum sem leiði til þess að svokölluð tilgreind séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun.

Miklar umræður urðu um þessa ályktun og voru nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sem fundu henni allt til foráttu en það kom fram breytingartillaga sem var á endanum samþykkt en hún hljóðar svona:

„6. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið 11. til 12. október 2017 hafnar alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.“

Þessa tillögu gátu þingfulltrúar Verkalýðsfélags Akraness stutt enda kemur hún algerlega í veg fyrir að forysta ASÍ geti unnið áfram að því að kalla eftir lagabreytingum sem leiða til þess að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf. 

Formaður telur þetta gríðarlegan sigur fyrir allt launafólk enda verkefni verkalýðshreyfingarinnar að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka þær skerðingar.

Nú liggur fyrir að SGS sem er stærsta landssamband innan ASÍ hefur ályktað að það hafni alfarið öllum hugmyndum að lagabreytingum á lögum nr. 129/1997 sem gera allar lífeyrisgreiðslur skerðingarhæfar frá greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.  Því er ljóst að ASÍ mun ekki geta haldið áfram að vinna að þessum lagabreytingum á þessum grunni, svo mikið er víst.

09
Oct

Fundur í Háskólabíói - Guð blessi heimilin

Síðastliðinn laugardag stóðu Verkalýðsfélag Akraness og VR fyrir opnum fundi í Háskólabíói sem bar yfirskriftina "Guð blessi heimilin -  okurvextir og verðtrygging, mesta böl þjóðarinnar". Framsögu á fundinum höfðu Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Ólafur Margeirsson doktor í hagfræði, Ásta Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Auk þess var fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis boðið að senda fulltrúa á fundinn til að kynna hvað þeirra flokkur ætlar að gera varðandi okurvextina og verðtrygginguna á lánum heimilanna.

Í sinni framsögu gagnrýndi Vilhjálmur, formaður VLFA, harðlega Seðlabankann og stjórnvöld og hvatti þau til að vera á tánum en ekki á hnjánum gagnvart fjármagnseigendum þegar kemur að því að verja heimili landsins gegn okurvöxtum og verðtryggingu. Hann benti meðal annars á það að verðtryggðir vextir á Íslandi eru hærri en óverðtryggðir vextir í löndunum í kringum okkur.

Einnig sagði Vilhjálmur að í raun ætti Seðlabankinn að vera fremstur í flokki í baráttunni fyrir afnámi verðtryggingar því þegar ókostir verðtrygginar á neytendalánum eru skoðaðir kemur í ljós að hún leiðir af sér aukið pen­inga­magn í um­ferð og verðbólguþrýst­ing, gengur gegn eðli­leg­um lög­mál­um og var­færni í lán­töku, hvet­ur til of mik­ill­ar skuld­setn­ing­ar og dreg­ur úr virkni pen­inga­mála­stefnu Seðlabank­ans.

Glærur Vilhjálms má skoða með því að smella hér.

Glærur Ólafs Margeirssonar má skoða með því að smella hér.

Fundinum var streymt beint á netinu og er hægt að hlusta og horfa hér.

25
Sep

Trúnaðarmannanámskeið haldið 21. og 22. september

Dagana 21. og 22. september fór fram námskeið fyrir trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness. Þátttaka var góð en námskeiðið sátu 13 trúnaðarmenn félagsins. Um var að ræða annað þrep þessa náms en trúnaðarmenn þurfa ekki að taka þrepin í ákveðinni röð og því voru sumir trúnaðarmennirnir að koma á sitt fyrsta námskeið en aðrir eru reyndari og hafa setið nokkur trúnaðarmannanámskeið. Trúnaðarmönnum er heimilt að sækja námskeið í eina viku á ári án skerðingar á launum. Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum en það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á slíkum námskeiðum.

Á fyrri degi námskeiðsins var fjallað um lestur launaseðla þar sem meðal annars var farið yfir helstu reiknitölur launaútreiknings, útreikning á staðgreiðslu og iðgjöldum og hvernig launaseðlar eru uppbyggðir frá grunni. Seinni dagurinn hófst á því að formaður félagsins fór yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness, kjarasamninga þess og sjóði. Eftir hádegi var svo fjallað um einelti á vinnustað og meðal annars farið yfir birtingarmyndir þess og viðbrögð við einelti. Námskeiðið heppnaðist vel og hér má sjá myndir frá því.  

 

20
Sep

Stjórnarkjör 2017

Samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2017, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 5. október nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

14
Sep

Taka þarf upp þrepaskiptan persónuafslátt

Formaður var í viðtali í þættinum Ísland í bítið í gær en til umræðu var fjárlagafrumvarpið og hvaða áhrif það hefur á þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Fram kom í máli formanns að það sé með öllu ólíðandi sú aukna skattbyrði sem fólk sem tekur laun eftir lágmarkslaunum hefur þurft að þola á undanförnum árum og áratugum.

Fram kom í máli formanns að skoða verði gaumgæfilega þann möguleika að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt þannig að ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu og millitekjufólks aukist.  Allavega er full ástæða til að skoða hvort eðlilegt sé að einstaklingar með lægstu og millitekjur séu með sama persónuafslátt og hátekjufólk.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að gera verði breytingar á skattkerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur milli- og lágtekjufólks. Þrepaskiptur persónuafsláttur getur svo sannarlega verið góð leið til þess enda má alveg láta persónuafsláttinn fjara út þegar launafólk hefur náð t.d. 2 milljóna króna launum á mánuði. Þann ávinning og sparnað má síðan nota til að hækka persónuafslátt hjá milli-og lágtekjufólki. Það er ólíðandi að launafólki sem er t.d. á lágmarkslaunum upp á 280.000 á mánuði sé gert að greiða yfir 46 þúsund á mánuði í skatt og það verður að vera forgangsverkefni hjá verkalýðshreyfingunni að berjast fyrir því að lágmarkslaun verði skattlaus.

Einnig nefndi formaður í þessu tiltekna viðtali að mikilvægt væri að breyta skattkerfinu þannig að ofurbónusar og kaupaukar verði skattlagðir með sérstökum hátekjuskatti.

Það er mat formanns að einn liður í komandi kjaraviðræðum á næsta ári sé að lagfæra persónuafsláttinn hjá milli-og lágtekjufólki enda morgunljóst að hækkun persónuafsláttar t.d. með því að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt myndi klárlega liðka vel fyrir því að hægt væri að ná sátt á íslenskum vinnumarkaði hvað þessa hópa varðar.

Það verður fróðlegt að sjá og heyra hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra verði tilbúnir til að skoða t.d. þessar leiðir til að auka ráðstöfunartekjur milli-og lágtekjufólks á kostnað hátekjufólks, en eins og áður sagði getur þrepaskiptur persónuafsláttur verið einn liður í að koma á sátt á vinnumarkaði en fleira þarf klárlega að koma til af hálfu stjórnvalda eins og veruleg lækkun á húsnæðisvöxtum til almennings. 

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélag Akraness mun fara yfir þessar hugmyndir um að gerð verði krafa um að taka upp þrepaskiptan persónuafslátt á næsta fundi sínum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image