• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Mar

Formenn VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness funda í dag

Það má klárlega halda því fram að straumhvörf hafi orðið í íslenskri verkalýðsbaráttu þegar kom í ljós að B-listi undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafi borið sannfærandi sigur í stjórnarkjöri í stéttarfélaginu Eflingu. En sigur Sólveigar var gríðarlega stór þar sem hennar listi fékk 80,17% greiddra atkvæða og því liggur algerlega fyrir að umboð hennar getur vart verið skýrara.

Um leið og það lá fyrir að B-listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur ætlaði að bjóða fram til stjórnarkjörs í Eflingu og það lá fyrir að áherslur B-listans samræmdust algjörlega áherslum Verkalýðsfélags Akraness ákvað formaður að styðja B-listafólk opinberlega enda mikilvægt að fólk sem hefði sömu sýn og við í VLFA næði kjöri þar. Það var ekki bara að formaður lýsti opinberlega yfir stuðningi við Sólveigu Önnu og hennar fólk heldur fór formaður einnig með henni á þrjá vinnustaði til að fara yfir þá miklu baráttu sem þarf til að ná árangri við að lagfæra kjör íslensks verkafólks.  

Það má segja að við sem höfum stjórnað Verkalýðsfélagi Akraness frá árinu 2004 höfum beðið eftir þessum degi lengi enda liggur fyrir núna að nýr meirihluti hafi náð yfirhöndinni innan ASÍ.  Meirihluti þar sem formenn þeirra stéttarfélaga hafa sömu sýn, áherslur og stefnur þegar kemur að því að lagfæra kjör lágtekjufólks og kröfur á hendur stjórnvöldum. Þessi meirihluti samanstendur af VR, Eflingu, Framsýn og Verkalýðsfélagi Akraness en þessi fjögur stéttarfélög hafa 53% vægi innan ASÍ. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fleiri stéttarfélög, sérstaklega innan Starfsgreinasambands Íslands, munu að öllum líkindum taka undir þessar nýju áherslur og stefnubreytingar sem þessi félög munu leggja áherslu á. 

Hver hefði trúað því að þessar gríðarlegu breytingar myndu eiga sér stað á forystu tveggja stærstu stéttarfélaga innan ASÍ? Í fyrra vann Ragnar Þór Ingólfsson glæsilegan sigur til formennsku í VR en vinátta og sameiginleg sýn á stéttarfélagsbaráttu formanns VLFA og VR hefur verið til staðar frá því hann tók við formennsku. Eftir þennan mikla sigur Sólveigar Önnu til formennsku í Eflingu styrkist staða þessa bandalags til mikilla muna enda hefur Sólveig Anna sömu sýn á hvernig heyja á verkalýðsbaráttu eins og formenn VR og VLFA.

Það er morgunljóst að með þessum glæsilegu sigrum Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu til formanns í tveimur af stærstu stéttarfélögum á Íslandi hafa verið send skýr skilboð um að svokallaðri samræmdri láglaunastefnu verði algjörlega hafnað og krafa um markvissari og róttækari  verkalýðsbaráttu verði tekin upp þar sem unnið verði af alefli að því að lagfæra kjör lágtekjufólks.

Það er líka ljóst að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld verða að opna augun fyrir þeim staðreyndum að þessi meirihluti mun ekki og ætlar sér ekki að sætta sig við þá misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuð sem hefur fengið að viðgangast í íslensku samfélagi í marga áratugi.

Krafan verður skýr. Lagfæra þarf lægstu tekjur þannig að ráðstöfunartekjur þeirra hækki umtalsvert.  Það er hægt að gera bæði með krónutöluhækkunum sem og breytingu á skattkerfinu þar sem horft verður á að létta á skattbyrði þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er líka mikilvægt fyrir stjórnvöld að átta sig á því að meirihluti innan ASÍ mun ekki láta þetta skefjalausa dekur við fjármálaöflin átölulaust lengur. Dekur sem byggist á okurvöxtum, verðtryggingu og því að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu.  Einnig er morgunljóst að taka verður á hinum tryllta leigumarkaði þar sem græðgivæðingin hefur svo sannarlega tekið sér bólfestu enda nægir að nefna í þessu samhengi að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 75% frá árinu 2011 á meðan lægstu laun hafa einungis hækkað um 52% á sama tíma. Svo tala menn um fordæmalausa kaupmáttaraukningu hjá þeim tekjulægstu!

Já það er af nægu að taka en eitt af því sem þessi meirihluti mun klárlega leggja áherslu á er að samið verði um krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og eykur á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Í dag ætla formenn VLFA, VR og nýkjörinn formaður Eflingar að funda og fara yfir stöðuna og stilla saman strengi sína en það er ljóst að þessir formenn hafa sömu sýn á hvernig eigi að fara í næstu kjarasamningsgerð en kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir um áramótin næstu.

En eitt er víst að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld skulu átta sig á því að þessi hópur mun taka upp ný vinnubrögð þar sem ekki verður liðið að byrja kjarasamningsviðræður í nóvember og ljúka þeim mörgum mánuðum eftir að kjarasamningar runnu út. Slík vinnubrögð og eftirgjöf er liðin og núna verður aldrei liðið að kjarasamningar verði ekki klárir um leið og nýr samningur rennur út.

05
Mar

Stoðar lítt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum ef ekki á að nýta þau þegar forsendur eru brostnar

Formannafundur ASÍ sem haldinn var fimmtudaginn 28. febrúar 2018, samþykkti í atkvæðagreiðslu að segja ekki upp kjarasamningum. Alls greiddu 49 atkvæði en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig.

 

Niðurstaða formanna: 

Já, vil segja upp 21 (42,9%)

Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)

 

Vægiskosning:

Já 52.890 (66,9%)

Nei 26.172 (33,1%)

Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka.

 

Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verið mjög hugsi eftir þennan formannafund. Hann er hugsi yfir því af hverju myndaðist ekki breið samstaða um uppsögn kjarasamninga. Sérstaklega í ljósi þess að degi fyrir formannafundinn fékk almenningur í þessu landi fréttir af því að laun forstjóra Landsvirkjunar hafi verið hækkuð um 800 þúsund á mánuði. Það má líka segja að það stoði lítt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum og fara síðan ekkert eftir þeim þegar forsendur eru brostnar.

Þessu til viðbótar kom líka frétt í gær sem kvað á um að launakostnaður 26 lykilstjórnenda viðskiptabankanna þriggja hafi numið rúmum 1 milljarði í fyrra. Þessu öllu til viðbótar hefur legið fyrir að kjararáð hefur hækkað embættismenn og æðstu ráðamenn þjóðarinnar í launum frá árinu 2013 frá 500 þúsundum á mánuði upp í allt að 750 þúsund eða sem nemur 64% uppí tæp 75%

Á sama tíma hafa lágmarkslaunataxtar verkafólks hækkað um 65 þúsund á mánuði eða sem nemur 34%. Þetta þýðir að ef lágmarkslaun hefðu tekið sömu breytingum og kjararáð gaf æðstu ráðamönnum þjóðarinnar frá árinu 2013 þá væru lágmarkslaun ekki 280 þúsund á mánuði heldur 356 þúsund í dag, hér munar 76 þúsundum á mánuði.

Atburðir síðustu daga voru því svo sannarlega kornið sem fyllti mælirinn hjá okkur í Verkalýðsfélagi Akraness og því töldum við ekkert annað í stöðunni en að segja þessum kjarasamningum upp enda fordæmalaus forsendubrestur búinn að eiga sér stað.

Það voru því gríðarleg vonbrigði að ekki skyldi nást meirihluti hjá formönnum fyrir uppsögn þótt rétt sé að geta þess að þeir formenn sem vildu segja samningum upp voru með um 70% félagsmanna að baki sér.

Formaður VLFA gerði grein fyrir  afstöðu stjórnar á formannafundinum og færði góð og gild rök fyrir því af hverju ætti að segja kjarasamningum upp og rakti m.a. allt þetta sem hér kemur fram á fundinum í dag.

Formaðurinn kom líka inn á þann skefjalausa blekkingarleik sem stundaður er þegar talað er um að það sé búin að eiga sér stað fordæmalaus kaupmáttaraukning og þá sérstaklega hjá þeim tekjulægstu.Hann benti á þá bláköldu staðreynd að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu og víðar hefur samkvæmt opinberum gögnum hækkað um 75% frá árinu 2011, en á sama tíma hafa lágmarks launataxtar hækkað um 64%. Semsagt bullandi kaupmáttarskerðing hjá lágtekjufólki sem er á leigumarkaði en ekki kaupmáttaraukning eins reynt er að halda fram af Samtökum atvinnulífsins og fleirum.

Formaðurinn sagði líka hátt og skýrt á fundinum að Verkalýðsfélag Akraness muni aldrei taka þátt í nýju vinnumarkaðsmódeli að norrænni fyrirmynd sem gengur út á að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélaga og beisla möguleika launafólks að sækja sér alvöru kjarabætur. Hann sagðist vita að Samtök atvinnulífsins, hluti af forystu ASÍ og stjórnvalda hafi verið og muni halda áfram að reyna að koma þessu „fjandans“ vinnumarkaðsmódeli á.

Á þessari forsendu m.a. er formaður afar hugsi og gríðarlega svekktur yfir því að formannafundurinn hafi ekki sameinast um að segja samningum upp og krefja atvinnurekendur um leiðréttingar á forsendubrestinum og einnig krafið stjórnvöld um aðgerðir vegna okurvaxta, afnáms verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn færi úr lögum um vexti og verðtryggingu sem og að hækka persónuafsláttinn sem kemur þeim tekjulægstu best. Öll Þessi atriði sem formaður kom inn á í sinni ræðu á formannafundinum, skipta öll miklu máli fyrir launafólk og heimili þessa lands.

Núna þarf að hugsa hvaða leikir eru í stöðunni og formaður ætlar rétt að vona að menn fari ekki að vinna bakvið tjöldin að nýju vinnumarkaðsmódeli en því miður grunar formanni VLFA að svo verði. En eitt er víst að VLFA mun beita sér af alefli gegn öllum slíkum hugmyndum er lúta að nýju Salek samkomulagi!

27
Feb

Stjórn og trúnaðarráð VLFA vill segja upp kjarasamningum

Stjórn- og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur samþykkt að segja upp kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði ef atvinnurekendur og stjórnvöld leiðrétta ekki þann forsendubrest sem orðið hefur.

 Það er morgunljóst að umtalsverður forsendubrestur hefur orðið á kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði og það stoðar lítt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum ef þau eiga ekki að virkjast þegar forsendubrestur hefur átt sér stað.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að það er alltaf ánægjuefni þegar fólk hækkar í launum og stjórn og trúnaðarráð horfir ekki á forsenduákvæði kjarasamninga eins og æðsta forysta ASÍ sem virðist horfa á það með þeim hætti að ákvæðin eigi að halda niðri öðrum launahópum. Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness horfir á forsenduákvæðið með þeim hætti að ef aðrir hópar semja um meira en samið var um á hinum almenna vinnumarkaði þá beri að leiðrétta það til samræmis við þær hækkanir sem um ræðir í hvert skipti.

 Eins og áður sagði er það alltaf ánægjulegt þegar launahópar ná fram góðum samningum og það liggur til dæmis fyrir að grunnskólakennarar sömdu um meira en um var getið í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði árið 2016. Nú liggur fyrir að flugvirkjar hafa samið um töluvert meira og einnig eru umtalsverðar líkur á að flugstjórar hjá Icelandair Group hafi samið um meira en launabreytingar á hinum almenna vinnumarkaði kváðu á um. Allt er þetta ánægjulegt eins og áður hefur komið fram en krafan er skýr, almennt launafólk vill að forsendubrestur samkvæmt ákvæðum kjarasamnings verði leiðréttur þannig að ekki þurfi að koma til uppsagnar.

Síðan má ekki gleyma kjararáði og æðstu stjórnendum ríkisins en nú liggur fyrir að þingfararkaupið hafi hækkað um rúm 74% frá árinu 2013 til dagsins í dag en á sama tíma hafa lágmarkslaun einungis hækkað um 37%. Ráðherrar hafa hækkað um 64% í launum á meðan verkafólk hefur hækkað um 37% eins og áður sagði.

Því má segja ef kjarasamningi verði sagt upp þá er krafan skýr, að lágmarkslaun á Íslandi taki sömu hækkunum og kjararáð hefur hækkað æðstu stjórnendur ríkisins um frá árinu 2013 sem þýðir að lágmarkslaun þurfa að hækka úr 280.000 kr. í 356.000 kr. til að dekka þá hækkun sem kjararáð veitti vegna hækkunar á þingfararkaupi þingmanna.

Bara í dag kom síðan frétt um ofurlaun æðstu stjórnenda í viðskiptabönkunum þremur, að ógleymdum miklum hækkunum til stjórnenda Landsvirkjunar en þar kom fram að forstjóri Landsvirkjunar hafi hækkað um 45% í launum á síðasta ári eða sem nemur 800 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum hans.

 Að þessu sögðu er morgunljóst og hvellskýrt að íslensk verkalýðshreyfing getur ekki undir nokkrum kringumstæðum látið það átölulaust að enn og aftur eigi almennt lágtekjufólk, almenn verkafólk að sitja eftir án þess að fá neinar leiðréttingar eða breytingar á sínum kjörum en eins og allir vita eru lægstu laun og taxtar langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og lífsins ómögulegt fyrir verkafólk að láta enda ná saman frá mánuði til mánaðar og halda mannlegri reisn. Íslenskt verkafólk vill stöðugleika og sá stöðugleiki á að vera fyrir alla, ekki bara suma.

16
Feb

Ísfiskur hefur starfsemi á Akranesi - 24 ný fiskvinnslustörf

Það er virkilega ánægjulegt að Ísfiskur er í dag að hefja starfsemi hér á Akranesi en Ísfiskur keypti fiskvinnsluhús HB Granda eftir að þeir tóku ákvörðun um að hætta vinnslu á bolfiski á Akranesi.

Í dag hafa verið ráðnir 24 fiskvinnslumenn og -konur en vonir standa til að Ísfiskur muni jafnvel fjölga starfsmönnum enn frekar eftir að starfsemin verður komin á fullt skrið.

Eins og áður sagði eru þetta gríðarlega jákvæðar fréttir að líf sé að færast í þetta merka fiskvinnsluhús að nýju eftir nokkurra mánaða stopp, enda hafa veiðar og vinnsla á sjávarafurðum skipt okkur Akurnesinga mjög miklu máli.

Verkalýðsfélag Akraness vill óska eigendum og starfsmönnum Ísfisks innilega til hamingju með að hafa hafið starfsemi hér á Akranesi og er félagið ekki í neinum vafa um að eiga gott samstarf við fyrirtækið í náinni framtíð.

15
Feb

Félags- og jafnréttismálaráðherra í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra kom í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness rétt í þessu og átti formaður gott samtal við hann um málefni er lúta að íslenska vinnumarkaðnum.

Eðli málsins samkvæmt barst í tal sú alvarlega staða sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði en umtalsverðar líkur eru á að kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði verði jafnvel sagt upp um næstu mánaðarmót.

Formaður félagsins fór yfir þau atriði með ráðherranum sem Verklýðsfélag Akraness telur mikilvægust til að hægt sé að ná sátt á vinnumarkaðnum allavega hvað lýtur að íslensku verkafólki.

Þau atriði sem formaður nefndi voru að hækka þurfi lágmarkslaun og lágmarkstaxta verkafólks umtalsvert enda liggur fyrir að þau lágmarkslaun sem nú eru í gildi duga engan veginn fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það kom fram í máli formanns að það blasi við að stéttarfélög sem eru með félagsmenn á þessum launatöxtum muni taka harðan slag til að leiðrétta laun þessa fólks enda eru launakjör lágtekjufólks samfélagslegt mein sem nauðsynlegt er að taka á af fullri hörku ef með þarf.

Formaður fór einnig yfir að aðkoma stjórnvalda sé nauðsynleg til að skapa sátt á vinnumarkaði og nefndi formaður að stjórnvöld verði að sjá til þess að vextir lækki verulega sem og að afnema þurfi verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Formaður fór líka yfir að það er ólíðandi með öllu að íslenskur almenningur sé að greiða tugi þúsunda meira í vexti í hverjum einasta mánuði miðað við neytendur í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Einnig nefndi formaður að létta þurfi verulega á skattbyrði þeirra tekjulægstu og er hægt að gera það t.d. með því að hækka persónuafsláttinn og taka upp þrepaskiptan persónuafslátt.

Formaður nefndi einnig að setja verði lög sem leiði til fækkunar á lífeyrissjóðunum sem og lýðræðisaukningu við stjórnun sjóðanna.

Einnig nefndi formaður við ráðherrann að launafólk ætti að fá að nýta sér 3,5% af samtryggingarhluta iðgjaldsins til niðurgreiðslu á húsnæðislánum og eða til söfnunar í útborgun á fasteignakaupum enda er það mat formanns að skuldlítil eða skuldlaus fasteign sé einn besti lífeyrir sem fólk getur átt þegar það kemst á eftirlaun. 

Formaður nefndi líka mikilvægi þess að koma hér á lítt hagnaðardrifnum leigufélögum til að ná niður þeirri trylltu græðgivæðingu sem er að eiga sér stað hjá leigufélögum eins og t.d. Heimavöllum.

Að sjálfsögðu var staðan innan verkalýðshreyfingarinnar rædd og tjáði formaður félagsmálaráðherra að æði margt bendi til þess að miklar stefnu- og áherslubreytingar geti átt sé stað ef hið nýja framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur nær kjöri.

Já, það blasir við að það verða umtalsverðar breytingar á íslenskri verkalýðshreyfingu og Alþýðusambandi Íslands ef fer sem horfir því þá hefur skapast nýr meirihluti innan ASÍ sem klárlega hefur allt aðra sýn hvað varðar stefnur og áherslur er lúta að hagsmunum íslenskrar alþýðu. Áherslur sem lúta ekki að því að slá ætíð skjaldborg um fjármálakerfið á kostnað alþýðunnar eins og nú er.

Það er alltaf gott og gagnlegt þegar ráðherrann kemur í heimsókn til að taka púlsinn á stöðunni á vinnumarkaðnum. Þessi fundur var vonandi gagnlegur enda var formaður ófeiminn við að segja sína skoðun um hvað þurfi að koma til, til að hægt sé að ná sátt á vinnumarkaði og var af nægu að taka þar eins og áður hefur komið fram.

 

06
Feb

Formenn VR og VLFA funduðu með Sólveigu Önnu, formannsefni Eflingar

Í dag áttu formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR afar góðan og ánægjulegan þriggja tíma fund með Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem býður sig fram sem formannsefni í kjöri til stjórnar í stéttarfélaginu Eflingu sem er stærsta stéttarfélagið innan Starfsgreinasambands Íslands.

Umræðan á fundinum snerist um mörg hagsmunamál alþýðunnar eins og mikilvægi þess að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin láti til sín taka hvað varðar hið tryllta umhverfi sem nú ríkir á húsnæðis-og leigumarkaðnum sem og það okurvaxta- og verðtryggingar umhverfi sem íslenskur almenningur þarf að búa við. Einnig var rætt um lífeyrissjóðskerfið en það er ljóst að verkalýðshreyfingin getur látið margt jákvætt til sín taka hvað það varðar eins og til dæmis að beita sér fyrir aukinni lýðræðisvæðingu innan sjóðanna sem og að fá lífeyrissjóðina til að taka þátt í fjármögnun á lítt hagnaðardrifnum leigufélögum.

Eins og áður sagði var þetta virkilega ánægjulegur fundur enda virðist vera ótrúlegur samhljómur í áherslum í framboði Sólveigar í mjög mörgum hagsmunamálum er lúta að hagsmunum launafólks og formanna VR og Verkalýðsfélags Akraness.

Formaður VLFA skynjaði gríðarlegan kraft, vilja og þor hjá Sólveigu Önnu til að láta virkilega gott af sér leiða nái hún kjöri sem formaður Eflingar og er formaður ekki í neinum vafa um að nái framboð hennar kjöri mun það hafa gríðarlega jákvæð áhrif á íslenska verkalýðshreyfingu.

Það mun svo sannarlega geta skipt sköpum fyrir þær hugsjónir og þau baráttumál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur staðið fyrir á liðnum árum ef ný forysta með þann nýja kraft sem þau hafa boðað verður að veruleika innan Eflingar.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan í íslenskri verkalýðsbaráttu þegar og ef Efling verður komin með nýja forystu eins og VR, forystu sem tekur undir með Verkalýðsfélagi Akraness að hafna þessari brauðmolahagfræði sem æðsta forysta ASÍ hefur reynt að innleiða undir forystu forseta ASÍ.

Það er morgunljóst í huga formanns VLFA að það verður að skipta um skipstjóra í brúnni á ASÍ skútunni því skipstjóri sem fiskar ekkert og nýtur ekki trausts áhafnar, er með allt í skrúfunni með þeim afleiðingum að skútan rekur nánast stjórnlaus upp í brimgarðinn, verður að víkja.

Með breytingu á forystu Eflingar í takt við breytingarnar hjá VR ásamt nokkrum stéttarfélögum á landsbyggðinni sem eru mótfallin brauðmolakenningunni mun skapast gríðarlegt tækifæri til sóknar þar sem brauðmolakenningunni verður sturtað niður!  Teknar verða upp nýjar og kröftugar baráttuaðferðir við að lagfæra lágmarkskjör, skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks ásamt því að berjast gegn græðgivæðingu á húsnæðis-og leigumarkaði sem og okurvöxtum og afnámi verðtryggingar.

Já mitt mat er að það eru virkilega bjartir tímar fyrir alþýðu þessa lands ef framboð Sólveigar nær kjöri enda er það mat formanns VLFA að ef hún nær kjöri þá muni hún jafnvel eftir að leiða íslenska verkalýðsbaráttu á komandi árum. Það er ljóst að ef þessi félög sem hafa sömu hugsjónir og áherslur taka höndum saman þá munu umtalsverðar jákvæðar breytingar eiga sér stað í íslenskri verkalýðsbaráttu og já þá kemur vor í verkó!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image