• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jun

Kristjáni Loftssyni forstjóra fyrir hönd Hvals hf. stefnt fyrir félagsdóm!

Þessa stundina er lögmaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja lokahönd á stefnu á Kristján Loftsson forstjóra Hvals hf. fyrir að meina öllum starfsmönnum að vera í Verkalýðsfélags Akraness á þeirri vertíð sem nú er nýhafin. Málinu verður stefnt fyrir félagsdóm og mun það gerast annað hvort í dag eða strax eftir helgi.

Eins og fram hefur komið í nánast öllum fjölmiðlum landsins þá hefur Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. meinað starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness og segist muni greiða öll iðgjöld til Stéttarfélags Vesturlands.

Eins og einnig hefur komið fram þá er þessi aðgerð forstjórans gróf hefndaraðgerð vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness stefndi Hval hf. árið 2016 fyrir dómstóla vegna brota á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Bæði Héraðsdómur Vesturlands og Hæstiréttur tóku undir kröfur Verkalýðsfélags Akraness og var Hvalur hf. dæmdur til að greiða starfsmanni 700 þúsund kr. með dráttarvöxtum en dómur Hæstaréttar mun klárlega hafa gríðarlegt fordæmisgildi og getur náð til á annað hundrað starfsmanna sem störfuðu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015. En á þessum vertíðum voru rétt tæpir hundrað félagsmenn VLFA sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Rétt er að geta þess sérstaklega að aldrei var neitt vandamál fyrir starfsmenn fyrirtækisins á þessum vertíðum að fá að greiða iðgjöld til VLFA og vera þannig félagsmenn VLFA.

Nú við upphaf hvalvertíðar 2018 var hins vegar öllum starfsmönnum Hvals hf. tilkynnt að fyrirtækið krefjist þess af starfsmönnum sínum að þeir eigi ekki aðild að Verkalýðsfélagi Akraness vegna starfa sinna hjá fyrirtækinu á yfirstandandi vertíð og öllum iðgjöldum verði skilað til Stéttarfélags Vesturlands.

Það er morgunljóst að þetta er ekki bara gróf hefndaraðgerð af hálfu forstjóra Hvals hf. heldur er þessi krafa Kristjáns Loftssonar kolólögleg. Nægir að nefna í því samhengi að Verkalýðsfélag Akraness ásamt Stéttarfélagi Vesturlands eru með kjarasamning um þau störf sem gilda við vinnslu á Hvalaafurðum í Hvalfirði, einnig er rétt að geta þess að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Það liggur fyrir að þessi krafa Hvals hf. er skýrt brot á 4.gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Rétt er að ítreka enn og aftur að Hvalur hf. tapaði nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti sem Verkalýðsfélag Akraness rak fyrir félagsmann sinn, blasir því við að um grófa og alvarlega hefndarráðstöfun atvinnurekanda er að ræða gagnvart Verkalýðsfélagi Akraness og félagsmönnum þess eins og ASÍ hefur m.a. bent á.

Starfsgreinasamband Íslands hefur einnig bent á að Verkalýðsfélag Akraness og Stéttarfélag Vesturlands hafa í gildi kjarasamning um störf starfsmanna Hvals hf. sem gerður var sameiginlega undir merkjum Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins og sem Hvalur hf. er bundinn af.

Það er því hvellskýrt að starfsmenn hafa fullt frelsi til að velja hvoru félaginu þeir kjósa að eiga aðild að.

Atvinnurekendur hafa ekki heimild til þess að ákveða stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna eða hvert iðgjöldum skv. kjarasamningum og lögum er skilað. Þegar tvö félög eða fleiri eru með kjarasamning um sömu störf á sama svæði er það alveg ljóst að starfsfólkið sjálft getur valið til hvaða félags iðgjöldum skal skilað og þar með hvaða félag ver hagsmuni þess.

Ef atvinnurekendur ætla sér að hlutast til um það og beina starfsfólki í eitt félag frekar en annað er verið að vega að réttindum launafólks og frjálsrar verkalýðshreyfingar með ósvífnum hætti. Rétt er að geta þess að Alþýðusamband Íslands hefur í yfirlýsingu fordæmt afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki vaða yfir sína félagsmenn á skítugum skónum og verður öllum slíkum aðgerðum mætt af fullri hörku!

22
Jun

ASÍ tekur undir með VLFA að um hefndaraðgerð forstjóra Hvals hf. sé að ræða!

Alþýðusamband Íslands tekur undir með Verkalýðsfélagi Akraness í málinu með yfirlýsingu er lýtur að því að forstjóri Hvals hf. skuli skilyrða að starfsmenn séu ekki í Verkalýðsfélagi Akraness. Einnig fordæmir Alþýðusamband Íslands afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Einnig kemur einnig fram í yfirlýsingu frá ASÍ sú staðreynd að að Hvalur hf. tapaði nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti sem Verkalýðsfélag Akraness rak fyrir félagsmann sinn. ASÍ tekur líka undir með VLFA að það blasi við að um grófa og alvarlega hefndarráðstöfun atvinnurekanda sé að ræða gagnvart tilteknu stéttarfélagi og félagsmönnum þess.

Það er rétt að geta þess að vænta má yfirlýsingar frá formönnum VR og Eflingar þar sem þessum grófu og kolólöglegu afskiptum forstjóra Hvals hf. verði harðlega mótmælt.

22
Jun

Skrifstofan lokar kl 14:00 í dag

Í dag, föstudaginn 22. júní lokar skrifstofa VLFA kl. 14:00

Þeir sem eiga bókaðan bústað verða að sækja leigusamning fyrir þann tíma.  

Ef erindið er mjög brýnt eftir kl 14, er hægt að hafa samband við formann í síma 865-1294.

Áfram Ísland 

21
Jun

Hvalur hf. reynir að refsa VLFA fyrir að hafa unnið mál gegn fyrirtækinu í Hæstarétti

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness dómsmál fyrir Hæstarétti gegn Hvali hf. þar sem starfsmanni sem starfaði á hvalvertíðinni 2015 voru dæmdar tæpar 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum.  En málið laut að því að Verkalýðsfélag Akraness taldi að Hvalur væri ekki að greiða samkvæmt fyrirliggjandi ráðningasamningi og svokallaðan vikulegan frídag vantaði þegar starfsmenn ynnu meira en samfellt í sjö daga. Þessa kröfu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness staðfesti síðan Hæstiréttur í dómi sem féll 14. Júní síðastliðinn.

Í ljósi þess að ráðningarsamningar allra starfsmanna voru nákvæmlega eins þá liggur fyrir að fordæmisgildi dóms Hæstaréttar getur klárlega verðið umtalsverður og skilað öllum starfsmönnum umtalverði leiðréttingu vegna vertíða sem voru 2013, 2014 og 2015. Hæglega getur þessi leiðrétting numið allt að 300 milljónum ef fordæmisgildið nær til allra starfsmanna.

Eins og hefur komið fram í fréttum er þessa daganna að hefjast hvalvertíð eftir 2 ára hlé og núna virðist fyrirtækið ætla að grípa til hefndaraðgerða vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness vogaði sér að standa þétt með sínum félagsmönnum við að leita réttar síns fyrir dómstólum og uppfylla þannig lögbundnar skyldur sínar sem eru m.a. að tryggja að atvinnurekendur fari eftir gildandi ráðningar- og kjarasamningum.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því að með dómi Hæstaréttar hefur Verkalýðsfélag Akraness tryggt að laun starfsmanna á komandi hvalvertíð hækkar um allt að 250 þúsund á mánuði eða sem nemur 750 þúsundum yfir alla vertíðina sem stendur yfirleitt í 3 mánuði. Já dómurinn tryggði starfsmönnum á vertíðinni sem nú er að hefjast launahækkun sem nemur allt 750 þúsundum. En starfsmaður á 5 ára launataxta mun hafa allt að 1,3 milljón á mánuði. Vissulega er umtalsvert vinnuframlag að baki slíkum launum.

Eins eins og áður sagði að þegar starfsmenn komu til fundar með forsvarsmönnum Hvals í gær, var þeim tilkynnt að enginn mætti vera í Verkalýðsfélagi Akraness heldur yrðu allir að vera í Stéttarfélagi Vesturlands þrátt fyrir að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé einnig á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness,

Forsvarsmenn Hvals héldu þeirri rakalausu þvælu fram við starfsmenn sína að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit heyrði ekki undir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness en orðrétt segir í 1. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness:   „Félagið heitir Verkalýðsfélag Akraness. Félagssvæði þess er Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit. Félagið og deildir þess eru aðilar að viðkomandi sérsamböndum, sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands".  Enda óumdeilt að Hvalfjarðasveit er hluti af félagssvæði VLFA.

Í ljósi þess að forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að blekkja starfsmenn sína með þessum ósannindum í gær til að koma höggi á Verkalýðsfélag Akraness, óskaði VLFA eftir staðfestingu frá yfirlögfræðingi ASÍ um að Hvalstöðin í Hvalfjarðasveit væri á félagssvæði VLFA til að hrekja þessa rakalausu þvælu frá forsvarsmönnum Hvals hf.. Enda stenst þetta ekki nokkra skoðun, því starfsmenn Hvals hf. hafa allt frá því að vertíð hófst árið 2009 verið að stórum hluta félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en núna eftir að félagið fór í mál gegn Hvali fyrir hönd síns félagsmanns á að meina öllum starfsmönnum aðild að félaginu.

Það er morgunljóst að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. ætlar að reyna að refsa Verkalýðsfélagi Akraness með því að meina starfsmönnum að vera í VLFA vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna gagnvart fyrirtækinu.

Formaður er afar stoltur af tugum félagsmanna sem eru nú að hefja störf hjá Hval hf. sem neituðu að skrifa undir ráðningarsamning í gær með þessum ólöglegu þvingunaraðgerðum sem forsvarsmenn Hvals hf. reyndu að knýja í gegn á fundinum í gær.

Það er rétt að geta þess að lögmaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sent forsvarsmönnum Hvals hf. bréf þar sem þessum kolólöglegum aðgerðum er harðlega mótmælt. „Þetta ofbeldi Kristjáns Loftssonar er gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og andstætt öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði og svona gera atvinnurekendur ekki sem vilja láta taka sig alvarlega á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því aðgerðin er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti þessum hætti og refsa stéttarfélaginu fyrir að uppfylla sínar lagalegu skyldur sem hvíla á öllum stéttarfélögum um að verja réttindi sinna félagsmanna gegn kjarasamningsbrotum.

15
Jun

Hæstaréttadómurinn frá því í gær hefur mikið fordæmisgildi fyrir allan vinnumarkaðinn!

Það er óhætt að segja að hæstaréttardómurinn sem féll í gær í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. hafi skýrt réttaróvissu launafólks á hinum almenna vinnumarkaði er lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi.

Ein af kröfum félagsins var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti dagvinnu aukalega fyrir þó vikulegur frídagur væri ekki tekin. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umdræddir frídagar séu launaðair er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta er tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa átt þátt í því að eyða þessari réttaróvissu sem hefur verið vegna þessa vikulega frídags sem getið er um í nánast öllum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði.

14
Jun

Hæstiréttur dæmdi Hval hf. til að greiða starfsmanni 512 þúsund kr.

Rétt í þessu staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Vesturlands þar sem starfsmanni sem starfaði hjá Hval hf. á vertíðinni 2013. En Hvalur hf. var dæmdur í Héraðsdómi til að greiða starfsmanninum vegna brota á kjörum sem fram komu í ráðningarsamningi upphæð sem nam rétt rúmum 455 þúsund krónum.

Það var ekki bara að Hæstiréttur hafi staðfest dóm Héraðsdóms heldur tók hann einnig tillit til annarrar kröfu sem laut að svokölluðum vikulegum frídeigi og námu því vangöldin laun starfsmannsins 512.947 kr. en einnig var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum dráttarvexti frá 19. janúar 2016.

Allan málareksturinn sá Verkalýðsfélag Akraness um, málið flutti lögmaður félagsins, en félagið hafði gert kröfu á Hval hf. í fjórum liðum en aðalkröfuliðurinn var staðfestur af Hæstarétti auk þess sem vikulegi frídagurinn vannst einnig eins og áður sagði.

Þetta er í raun langstærsta mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur farið með fyrir dómstóla en það endurspeglast af því að fordæmisgildi dómsins getur verið gríðarlegt og jafnvel náð til allt að 200 starfsmanna sem hafa starfað á hvalvertíðum á árunum 2009, 2010, 2013 og 2015. Má því áætla ef fordæmisgildið haldi alla leið fyrir þá sem hafa starfað á þessum vertíðum að heildarupphæð sem Hvalur hf. þyrfti að greiða starfsmönum næmi á þriðja hundrað milljónir.

Einnig var Hvalur hf. dæmdur til að greiða 800 þúsund í málskostnað til viðbótar 500 þúsundum sem Héraðsdómur Vesturlands var búinn að dæma Hval til að greiða í málskostnað.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að berjast ætíð fyrir réttindum sinna félagsmanna og gefast ekki upp þegar minnsti vafi leikur á því að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.  Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar í heild.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image