• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
May

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir vantrausti á forseta ASÍ

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir vantrausti á forseta ASÍ og vill stjórn félagsins að það komi skýrt fram að hann hefur hvorki umboð né heimild til að halda áfram viðræðum við stjórnvöld um málefni er tengjast aðkomu stjórnvalda að komandi kjarasamningum fyrir hönd Verkalýðsfélag Akraness.  Einnig er rétt að árétta að félagið hafnar öllum afskiptum forseta ASÍ af viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamningagerðar.

Það er bjargföst skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að forseti ASÍ hafi á liðnum misserum og árum ítrekað unnið gegn hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og skuldsettum heimilum þessa lands. 

Það er ljóst að grasrótin innan Alþýðusambands Íslands hefur á liðnum misserum hafnað samræmdri láglaunastefnu sem stjórnað hefur verið af hugmyndafræði og undir forystu forseta ASÍ.  Kosningar í VR og Eflingu nýverið sýna og sanna að þessari hugmyndafræði hefur algerlega verið hafnað og kallað er eftir róttækari og herskárri verkalýðsbaráttu þar sem hagsmunir auðvaldsins og fjármálakerfisins verða látnir víkja fyrir hagsmunum almennings.

Það er ljóst að stjórn Verkalýðsfélags Akraness treystir forseta ASÍ alls ekki til að leiða þá kerfisbreytingu sem hinn almenni félagsmaður er að kalla eftir, kerfisbreytingum sem byggjast á að taka á okurvöxtum, okurleigu, verðtryggingu og endurskoða lífeyrissjóðakerfið þar sem hagsmunir launafólks verði hafðir að leiðarljósi.

Það er mat stjórnar VLFA að forseti ASÍ njóti alls ekki stuðnings og trausts hins almenna félagsmanns innan Alþýðusambands Íslands og því er óhjákvæmilegt annað en að lýsa þessu vantrausti yfir í ljósi þess að forseti ASÍ er í dag búinn að taka sér það vald að hefja viðræður við stjórnvöld um aðkomu stjórnvalda að komandi kjarasamningum.  Einnig er þetta vantraust til komið vegna þess að forsetinn hefur ítrekað unnið gegn hagsmunum félagsmanna VLFA og skuldsettra heimila og verið tilbúinn til að verja fjármálakerfið á kostnað félagsmanna sinna.

Einnig hefur ASÍ að undanförnu birt alveg fordæmalaus áróðursmyndbönd þar sem fram kemur að ekki skipti máli um hversu margar krónur samið sé um heldur sé það kaupmátturinn sem skipti öllu máli.

Vantraust stjórnar Verkalýðsfélags Akraness byggist m.a. á eftirfarandi forsendum:

  • Forseti ASÍ ber ábyrgð á hræðsluáróðursauglýsingaherferð sem birst hefur að undanförnu á samfélagsmiðlum.
  • Forseti ASÍ barðist gegn því í október 2008 að neysluvísitalan yrði tekin úr sambandi vegna verðbólguskotsins sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Ástæðan var sú að það myndi kosta fjármálakerfið 200 til 300 milljarða! Skítt með verðtryggðar skuldir heimilanna sem hækkuðu um 400 milljarða, þeim mátti fórna á blóðugu altari verðtryggingar.
  • Forseti ASÍ lagðist alfarið gegn því að forsendubrestur heimilanna yrði leiðréttur í kjölfar hrunsins.
  • Forseti ASÍ vildi að íslenskir skattgreiðendur myndu ábyrgjast og greiða Icesave.
  • Forseti ASÍ lagðist gegn ályktun sem VLFA lagði fram á þingi ASÍ um að ASÍ myndi beita sér fyrir afnámi verðtryggingar og þak yrði sett á óverðtryggða vexti.
  • Forseti ASÍ lagðist gegn tillögu VLFA á þingi ASÍ um að auka lýðræðið við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og að atvinnurekendur færu úr stjórnum sjóðanna.
  • Forseti ASÍ er hugmyndafræðingur samræmdrar láglaunastefnu enda liggur fyrir að honum fannst krafa samninganefndar SGS árið 2015 um að hækka lágmarkslaun í 300 þúsund á mánuði of há.
  • Forseti ASÍ gagnrýndi Samtök atvinnulífsins í ræðu á 1. maí árið 2011 um að hafa gengið frá of góðum kjarasamningi við Verkalýðsfélag Akraness vegna starfsmanna á Grundatanga.
  • Forseti ASÍ gekk frá Salek samkomulaginu án þess að bera það undir flest aðildarfélög innan SGS en í þessu samkomulagi var verið að takmarka samningsrétt stéttarfélaganna enda skýrt kveðið á um að aðildarfélögin máttu ekki semja um meira en 32% launahækkun á tímabilinu nóvember 2013 til ársloka 2018.
  • Forseti ASÍ samdi við Samtök atvinnulífsins um tilgreinda séreign þar sem reynt var að þvinga launafólk til að greiða eingöngu til lífeyrissjóðanna þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ítrekað bent á að launafólk hefði val um að velja sér vörsluaðila til að ávaxta sína séreign.

Þessi atriði eru alls ekki tæmandi þar sem stjórn VLFA telur að forseti ASÍ hafi unnið gegn hagsmunum félagsmanna VLFA en þessi atriði sýna og sanna að þetta vantraust á forseta ASÍ er alls ekki tilefnislaust.

22
May

Forysta ASÍ segir ekki skipta máli um hversu margar krónur sé samið!

Í ljósi þess að Alþýðusamband Íslands hefur hrundið ótrúlegri hræðsluáróðursauglýsingaherferð af stað vegna komandi kjarasamninga er mikilvægt leiðrétta rangfærslur sem koma fram í þessum auglýsingum.

Eitt af því sem skiptir miklu máli að útskýra fyrir launafólki en það er þessi grímulausa staðhæfing forystu ASÍ að það skipti alls engu máli hversu margar krónur sé samið um heldur hvað fáist fyrir þær krónur, eða eins og segir í auglýsingunni frá ASÍ: það kallast kaupmáttur.

En hvernig er kaupmáttur reiknaður út? Jú, það er gert með því að skoða hversu mikið laun hafa hækkað í prósentum og síðan er verðbólgan dregin frá. Sem dæmi ef laun hafa hækkað um 5% og verðbólgan er 4% þá hefur orðið 1% kaupmáttaraukning. Sem sagt ef laun hafa hækkað meira í prósentum en verðbólgan þá er kaupmáttaraukning. Ef laun hafa hækkað minna en sem nemur verðbólgu þá er kaupmáttarskerðing.

Takið eftir, það er bara horft á prósentur í þessu samhengi en ekki krónur og það er með svo miklum ólíkindum þegar forysta ASÍ segir það ekki skipta máli um hversu margar krónur sé samið um heldur skipti kaupmátturinn öllu máli.

Tökum dæmi ef laun hækka um 5% og verðbólgan er 4% þá hefur orðið 1% kaupmáttaraukning hjá fólki og þá er ekkert horft til þess hvort launamaður með 300.000 krónur í laun hækki um 15.000 krónur á mánuði, eða þá forstjóri Eimskips með 8,3 milljónir á mánuði sem fengi 415.000 króna launahækkun á mánuði. Bæði lágtekjumaðurinn og forstjóri Eimskips eiga að hafa fengið sömu 1% kaupmáttaraukninguna því báðir fengu sömu 5% launahækkunina og það þrátt fyrir að lágtekjumaðurinn hafi í krónum talið fengið 400.000 krónur minni hækkun en forstjóri Eimskips!

Það má líka taka dæmi þar sem verkamaður sem er með 500.000 krónur í mánaðarlaun og fær 5% launahækkun sem gerir 25.000 króna hækkun og forstjóra N1 sem er með 5 milljónir á mánuði hann fengi 250.000 króna launahækkun en báðir eiga að hafa fengið sömu kaupmáttaraukningu og sömu launahækkun þrátt fyrir að forstjórinn hafi fengið 200.000 krónum meiri launahækkun á sínum mánaðarlaunum.

Hugsið ykkur, þetta er fyrirkomulagið sem forysta ASÍ vil verja enda segja þeir að það skipti alls ekki neinu máli hversu margar krónur sé samið um, heldur sé kaupmátturinn í prósentum það sem skipti öllu máli. Forystu ASÍ finnst það allt í lagi að efri lög samfélagsins hrifsi til sín tugum ef ekki hundruðum þúsunda fleiri krónum í hvert sinn sem samið er með prósentur.

Af hverju þurfa þeir tekjuhærri ætíð að fá miklu fleiri krónur í hvert sinn sem samið er? Ég sé bara ekki nokkra ástæðu til þess.

Formaður félagsins hefur sagt að með því að semja ætíð í prósentum er verið að auka misskiptinguna, óréttlætið og auka ójöfnuð gríðarlega og prósentuhækkanir eru aflið sem knýr áfram tannhjól misskiptingar.

Hvað ef tekin yrði ákvörðun um að samið yrði um 25.000 króna launahækkun á hinum almenna vinnumarkaði? Það þýðir að 300.000 króna lágtekjumaðurinn fengi 8,3% launahækkun en forstjóri Eimskips fengi 0,31% launahækkun. En takið eftir, báðir fengju nákvæmlega sömu krónutöluhækkun sem er 25.000 krónur. Nei, forysta ASÍ segir að það skipti ekki máli hversu margar krónur þú færð heldur sé það kaupmátturinn sem skiptir öllu. Þetta þýðir að forysta ASÍ vill að forstjóri Eimskips fái meira en 0,31% launahækkun því það er bullandi kaupmáttarskerðing hjá honum og ef verðbólgan er 4% þá vill forysta ASÍ að hann fái 5% launahækkun til að verða ekki fyrir kaupmáttarskerðingu sem þýðir að hann þarf að fá 415.000 þúsund króna hækkun á sínum mánaðarlaunum.

Mat formanns er að blekkingin sem er í kringum kaupmátt og prósentuútreikninga almennt sé mjög villandi fyrir hinn almenna launamann og að forysta ASÍ skuli segja að það skipti ekki máli hversu margar krónur launafólk fær í launaumslagið sitt er með svo miklum ólíkindum að það nær ekki nokkurri átt. Einnig að þeir skuli vera talsmenn þess að þeir tekjuhærri skuli ætíð fá miklu fleiri krónur til að verja einhvern ímyndaðan kaupmátt er þeim til skammar.

Þessu til viðbótar er með ólíkindum þegar verið er að reikna út kaupmátt að þá er ekkert litið tillit tekið til skerðinga á barnabótum, hækkunar á leiguverði eða annarra þátta sem hafa mjög mismunandi áhrif á útreikning kaupmáttar og því getur hann orðið mjög villandi enda komið mjög mismunandi niður á þjóðfélagshópum. Einnig liggur fyrir að lágmarkslaunataxtar og lágmarkslaun duga alls ekki fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og því er stórundarlegt að forysta ASÍ skuli halda þeirri þvælu fram að þær krónur sem samið sé um skipti ekki máli!

Það liggur fyrir að Verkalýðsfélags Akraness metur það sem svo að í komandi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði verði samið eingöngu í formi krónutalna því það gengur ekki upp að aukið sé enn frekar á misskiptinguna og óréttlætið á íslenskum vinnumarkaði.

18
May

Bjarg íbúðafélag byggir 33 íbúðir á Akranesi

Akranesbær og Bjarg Íbúðafélag hafa gert samkomulag um uppbyggingu á 33 íbúðum að Asparskógum 12, 14 og 16.  Hönnun á íbúðunum er komin vel á veg og reiknað er með fyrstu skóflustungu á þessu ári.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, "Almene boliger". Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

 

Skilyrði fyrir úthlutun

Bjarg starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir. Í lögunum eru tilgreind tekju-og eignamörk ásamt viðmiði um greiðslubyrði leigu, skulu árstekjur leigjenda almennra íbúða ekki nema hærri fjárhæð en:
5.105.000 kr. ári (eða 425.417 kr. á mánuði) fyrir hvern einstakling
7.148.000 kr. á ári (eða 595.667 kr. á mánuði) fyrir hjón og sambúðarfólk
1.276.000 kr. á ári (eða 106.333 kr. á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.
Hámarks heildareign heimilis má ekki vera hærri en 5.510.000 kr.
Greiðslubyrði leigu skal að jafnaði ekki fara 25-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Annað skilyrði fyrir úthlutun er að hafa verið fullgildur félagsmaður aðildarfélaga ASÍ eða BSRB s.l. 24 mánuði miðað við úthlutun.

 

Sótt er um íbúð hjá Bjargi í tveimur skrefum

Umsókn um íbúð gerist í tveimur skrefum. Í fyrsta skrefi skráir umsækjandi sig inn á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Eingöngu er tekið við skráningum rafrænt í gegnum "mínar síður" á heimasíðu Bjargs, bjargibudafelag.is. Skráningum á biðlista hjá Bjargi er almennt raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds er frágengin. Undantekning er að þær skráningar sem berast fyrir 31. júlí 2018 fara í pott og verður þeim sem þá hafa skráð sig raðað í númeraröð með úrdrætti.


Í öðru skrefi sendir umsækjandi inn umsókn í ákveðna staðsetningu en í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsókna sendir Bjarg póst á alla á biðlista með nánari upplýsingum. Ef áhugi er á tiltekinni staðsetningu þarf að senda umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun hefur lægsta númer á biðlista og að teknu tilliti til forgangs. Sótt er um ákveðna íbúðartegund/íbúðarstærð sem hentar út frá fjölskyldustærð og í tilteknu húsi. Ekki er hægt að velja ákveðnar íbúðir sérstaklega.

Umsækjendur bera sjálfir ábyrgð á að þeir uppfylli öll skilyrði um úthlutun svo skoða þarf vel hver þau skilyrði eru í úthlutunarreglum Bjargs. Ekki er staðfest fyrr en við úthlutun hvort umsækjandi uppfylli í reynd öll skilyrði fyrir úthlutun.

 

Uppbygging íbúða Bjargs
Bjarg hefur þegar hafið framkvæmdir á 238 íbúðum á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, í Spönginni Grafarvogi og í Úlfarsárdal. Afhending fyrstu íbúða í Reykjavík er áætluð í júní 2019. Þá áformar félagið umfangsmiklar framkvæmdir á næstu misserum en reiknað er með að rúmlega 400 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok 2018 og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Íbúðir í fyrsta áfanga verða meðal annars í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði. Þá á félagið í viðræðum við sveitafélög víðar á landinu.

Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði niðri og er þar m.a. horft til fermetrafjölda. Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 70 fermetra þriggja herbergja íbúðir, 85 fermetra fjögurra herbergja íbúðir og 100 fermetra fimm herbergja íbúðir.

Nánari upplýsingar á heimsíðu félagsins, bjargibudafelag.is.

17
May

Laun forstjóra og embættismanna hækka á einu bretti um hundruð þúsunda

Það er óhætt að segja að enn og aftur hafi gripið um sig taumlaus og botnlaus græðgi hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja og hjá ríki og sveitafélögum á liðnum misserum eins og upplýst hefur verið í fréttum á liðnum dögum og vikum þar sem fram hafa komið upplýsingar um gríðarlegar launahækkanir stjórnenda, hækkanir sem nema oft á tíðum hundruðum þúsunda króna á mánuði.  

Það er nöturlegt og óþolandi að á sama tíma og launataxtar verkafólks eru að hækka um einungis 9.000 krónur á mánuði þá eru stjórnendur og embættismenn að hækka í mánaðarlaunum frá 156 þúsundum uppí eina milljón á mánuði. Svo koma þessir aðilar og tala um mikilvægi þess að almennt launafólk sýni hófsemd og stillingu í komandi kjarasamningum þannig að hinum margfræga stöðugleika verði ekki ógnað. Það er morgunljóst að þessi grímulausa græðgi stjórnenda íslenskra fyrirtækja og embættismanna mun klárlega leiða til þess að kröfugerð stéttarfélaganna mun endurspegla það svigrúm sem stjórnendur hafa sýnt að sé til staðar á íslenskum vinnumarkaði. Það er mikilvægt þegar þessar launahækkanir stjórnenda og embættismanna eru skoðaðar að hafa í huga að lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230 þúsund en eins og sjá má hér að neðan þá eru fjölmargir stjórnendur að taka slíka launahækkun og rúmlega það á einu bretti. 

  • Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
  • Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,7 milljónir.
  • Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
  • Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
  • Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
  • Forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón. 
  • Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir. 
  • Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir. 
  • Forstjóri Hörpu hækkaði um 267 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,6 milljónir.
  • Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,1 milljón.
  • Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 252 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,7 milljónir.
  • Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 156 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3 milljónir.

Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að kjararáð hefur hækkað æðstu embættismenn og ráðherra og þingfarakaup um sem nemur 200 til 400 þúsund á mánuði og var það afturvirkt í sumum tilfellum jafnvel 2 ár aftur í tímann.  

Að hugsa sér að á sama tíma og Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn og ráðmenn þjóðarinnar koma fram í fjölmiðlum og lýsa yfir gríðarlegum áhyggjum yfir komandi kjarasamningum launafólks á hinum almenna vinnumarkaði og kalla ítrekað eftir að stöðugleikanum verði ekki ógnað eru valdaelítan að raka til sín gríðarlegum launahækkunum og ætlast síðan til þess að almennt launafólk brosi og þegi yfir þessari misskiptingu í íslensku samfélagi.

Það virðist því miður vera fátt sem geti komið í veg fyrir að gríðarlega átök verði á vinnumarkaðnum þegar kjarasamningar renna út um næstu áramót á hinum almenna vinnumarkaði, enda er ekki nokkurn vilja að finna hjá stjórnvöldum né Samtökum atvinnulífsins um að hefja strax vinnu byggða á hugmyndum sem Verkalýðsfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn hafa kynnt fyrir forsætisráðherra og fulltrúum SA og byggist á að gerður sé samfélagssáttmáli til 3 - 4 ára með miklum kerfisbreytingum.  Kerfisbreytingum sem byggjast m.a. á því að taka hér á okurvöxtum,okurleigu, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.  Kerfisbreytingar þar sem hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og í þessum samfélagssáttmála yrði horft til þess að aukaráðstöfunartekjur lág-og millitekjuhópanna eins og kostur er. 

En eins og áður sagði er lítinn vilja að finna hjá stjórnvöldum og fulltrúum atvinnulífsins og því vill formaður VLFA að það komi skýrt fram að þessi félög munu og ætla að láta kné fylgja kviði við bætta og auka ráðstöfunartekjur okkar fólks og það verður gert með góðu eða illu!

16
May

Prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og ójafnaðar!

Eins og flestir vita þá gerði Alþýðusamband Íslands gjörsamlega óskiljanlega hræðsluáróðursauglýsingu fyrir nokkrum dögum síðan. Þar var varað við því að launafólki sækti fram með of miklar launakröfur því slíkt myndi einungis leiða til aukinnar verðbólgu, kollsteypna og annara óáran í íslensku efnhagslífi. Með öðrum orðum þá var forysta ASÍ að taka undir allar þær áróðursauglýsingar sem Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér í aðdraganda kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði, til að mynda á árin 2013 og 2015.

En það var svo sannarlega fleira í þessu áróðursmyndbandi frá ASÍ sem Verkalýðsfélag Akraness gerir mjög alvarlegar athugsemdir við en það er t.d. sú dæmalausa fullyrðing að kjarabætur snúist ekki um krónur heldur hvað fæst fyrir þær og það sé kaupmátturinn sem skipti öllu máli.  Þetta er með svo miklum ólíkindum enda er grundvallaratriði að þær krónur sem launafólk fær séu nógu margar til að duga í það minnsta fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út, en það liggur fyrir að slíku er alls ekki til að dreifa hjá þeim sem taka laun eftir lágmarkstöxtum.

Það er líka dapurlegt þegar forysta ASÍ heldur því fram að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að hækka lágmarkslaun umfram aðra hópa í íslensku samfélagi en það er gert með því að reyna að blekkja almenning og launafólk og vísa meðaltöl sem byggjast á prósentuhækkunum en ekki hversu margar krónur lágtekjufólk hefur fengið í vasann. Það vita það allir sem vita vilja að enginn brauðfæðir fjölskyldu sína með prósentum eða greiðir leigu eða aðra reikninga heimilsins með prósentum alltaf eru það krónurnar sem eru til í launaumslaginu sem ráða því hvort fólk nær endum saman frá mánuði til mánaðar.  

Það er svo mikil blekking þegar því er haldið að almenningi að lægstu laun hafi hækkað umfram aðra hópa í íslensku samfélagi og því er rétt að skoða það nánar. Árið 1998 eða fyrir 20 árum síðan voru lágmarkslaun 70.000 kr. en eru í dag 300.000 og hafa því hækkað um 230.000 á þessum 20 árum. En hvað skyldi forstjóri Eimskips hafa verið með í laun árið 1998, jú hann var með 2,3 milljónir en er með í dag 8,3 milljónir og hefur því hækkað á þessum 20 árum um 6 milljónir á mánuði. Það sama má segja um fjölmarga forstjóra íslenskra fyrirtækja, þeir hafa allir hækkað um margar milljónir á mánuði á þessum 20 árum á meðan lágmarkslaun hafa einunigs hækkað um 230.000 kr.

Það er líka rétt að geta þess að þingfarakaupið var 225.000 árið 1998 en er í dag 1,1 milljón og hefur því hækkað um 875.000 kr. á meðan lágmarkslaun hafa hækkað um 230.000 kr. Svo voga menn sér að segja að lágmarkslaun hafi hækkað sérstaklega umfram aðra hópa í íslensku samfélagi! Málið er að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að stórauka ójöfnuð í íslensku samfélagi og ef við ætlum að taka á þessari misskiptingu þá verðum við að hætta að semja í prósentum og semja þess í stað í krónutölum.

Formaður VLFA hefur sett upp sviðmynd 50 ár fram í tímann þar sem gert er ráð fyrir að samið yrði um 3,5% á hverju ári á þessum 50 árum, en þessi sviðmynd byggist á þremur dæmum, það eru lágmarkslaun, meðallaun ríkisforstjóra og meðallaun forstjóra á almenna markaðnum. En eins og flestir vita þá eru lágmarkslaunin 300.000, meðallaun ríkisforstjóra 1,7 milljón og meðallaun forstjóra er um 3 milljónir á mánuði. Það er afar ógnvænlegt að sjá hvernig krónutölumisskipting verður á þessum 50 árum en í dag er krónutölumunur á milli lágmarkslauna og ríkisforstjóra 1,4 milljónir á mánuði. Ef við höldum áfram að semja í prósentum og semjum að meðaltali um 3,5% hækkun á ári þá verður krónutölumunurinn orðin 7,8 milljónir eftir 50 ár, lágmarkslaun rétt tæpar 1,7 milljón á mánuði og takið eftir að árið 2068 verða lágmarkslaun ekki búin að ná þeim launum sem ríkisforstjórar eru með í dag. Takið líka eftir að mánaðarleg laun ríkisforstjóra verða orðin 9,5 milljónir á mánuði eftir 50 ár.  En ef við skoðum launaþróun forstjóra á almenna vinnumarkaðnum þá verða þeir komnir uppí 16,7 milljónir á mánuði ef samið verður um 3,5% næstu 50 árin.

Á þessu sést algerlega sú gríðarlega misskipting sem á sér stað þegar samið er um í prósentum enda hækka lágmarkslaun um einungis 1,4 milljónir á meðan ríkisforstjórar hækka um 7,8 milljónir og forstjórar á almenna vinnumarkaðnum hækka um 13,7 milljónir. Það er ekki nokkur vafi á að prósentuhækkanir eru knýja áfram þá skefjalausu misskiptingu á milli þeirra ríku og þeirra sem eru á lakari launum ef ekkert verður að gert og eina leiðin er að hætta alfarið að semja í prósentum og semja eingöngu í krónutölum. 

15
May

Skuldir heimilanna hækkað um 118 milljarða vegna húsnæðisliðarnis

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar innilega fyrirspurn þingmannsins Ólafs Ísleifssonar sem hann lagði fyrir á Alþingi um áhrif húsnæðisliðarins á verðtryggðar skuldir heimilinna frá árinu 2003 til 2017, en fyrirspurnin hljóðar svo:

    Hver er heildarfjárhæð verðbóta sem reiknast hafa á verðtryggð lán heimila á árabilinu 2013–2017 sundurliðuð eftir árum og hversu stór hluti verðbótanna er til kominn vegna áhrifa af hækkun húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs?

Það sem kemur fram í svari fjármálaráðneytisins staðfestir það sem formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ítrekað bent á, að á síðustu þremur árum hefur húsnæðisliðurinn í neysluvísitölunni keyrt verðtryggðar skuldir heimilanna upp. En í svari fjármálaráðherra segir að verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað frá árinu 2013 til 2017 um 133 milljarða en ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni í lögum um vexti og verðtryggingu þá hefðu verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað einungis um 15 milljarða eins og fram kemur í svarinu. Þetta þýðir að búið er að færa frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins 118 milljarða á síðustu fimm árum eða sem nemur að jafnaði 23,6 milljarða á ári.

Eins og áður sagði þá staðfestir þetta svar frá fjármálaráðneytinu allt það sem formaður félagsins hefur ítrekað bent á á liðnum árum um að húsnæðisliðurinn í vísitölunni valdi tilfærslu gríðarlegra fjármuna frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins og til að setja þessa 118 milljarða í einhvert samhengi þá er þessi upphæði svipað há og kostnaðurinn við að reisa nýtt háskólasjúkrahús.

Það er og verður skýlaus krafa í komandi kjarasamningum að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr lögum um vexti og verðtryggingu enda hefur hann keyrt verðbólguna áfram, ekki bara eftir efnahagshrunið heldur einnig fyrir hrun eins og fram kemur í þessu svari frá fjármálaráðneytinu. En það er ótrúlegt að lesa svarið frá fjármálaráðuneytinu enda reyna þeir að verja það að húsnæðisliðurinn sé inní lögum um vexti og verðtryggingu með því að nefna að í hruninu sjálfu hafi það komið sér vel að hafa húsnæðisliðinn inni lögum um vexti og verðtryggingu. Það er svo galið að reyna að réttlæta það að húsnæðisliðurinn sé inni með því að benda á árin 2008 til 2011 þegar allt efnahagslífið var botnfrosið m.a. vegna þess að um 10 þúsund fjölskyldur misstu heimili sín og þúsundir fjölskyldan fluttu af landi brott.  

Það er svo magnað að sjá hvernig embættismenn fjármálaráðneytisins standa vörð um það að húsnæðisliðurinn haldist inni með því að benda á hrunárin til að réttlæta áframhaldandi veru húsnæðisliðar í lögum um vexti og veðtryggingu. Þetta er grátbroslegt en þeir hins vegar komust ekki hjá því að viðurkenna að búið sé að hafa af skuldsettum heimilum 118 milljarða á síðustu 5 árum, einungis vegna þess að húsnæðisliðurinn er inni. Þetta verður ekki gefið eftir í komandi kjarasamningum enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir heimilin og alþýðu þessa lands að hann fari út.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image