• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Sep

Róttækar kerfisbreytingar- verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar!

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður verða gríðarlega erfiðar og allt eins líklegt að það muni koma til harðra átaka á íslenskum vinnumarkaði. Enda blasir það við að margt íslenskt verkafólk býr við afar kröpp kjör enda launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði með þeim hætti að útilokað er fyrir þá sem eru á slíkum töxtum að þeir nái endum saman frá mánuði til mánaðar.

Það verður að vera forgangskrafa í komandi kjarasamningum að launatöflur verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lagfærðar umtalsvert. Rétt er að geta þess að lægsti launataxtinn er einungis 266.735 krónur fyrir fulla vinnu og hæsti gildandi launataxtinn rétt slefar í 300.000 krónur.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að bilið á milli byrjanda og starfsmanns sem hefur unnið í til dæmis 15 ár hjá sama vinnuveitanda er einungis rétt rúm 2%. Einnig eru launabil á milli launaflokka einungis rúm 0,6%. Þetta er algjör skandall sem verður að leiðrétta umtalsvert í komandi kjarasamningum þannig að verkafólk fái starfsreynslu sína metna mun meira en nú er og einnig þarf að auka bilið á milli launaflokka.

En það er alls ekki það eina að lagfæra þurfi launatöflu verkafólks umtalsvert heldur verða stjórnvöld að létta verulega á skattbyrði lágtekjufólks t.d. með hækkun persónuafsláttar og einnig þarf að finna leið til að lágmarkslaun verði skattlaus.

Verkalýðsfélag Akraness vill að samið verði til þriggja ára og að allir sem taki ekki laun eftir launatöxtum fái sömu krónutöluna og ekki verði samið um prósentur á hinum almenna vinnumarkaði. Hví í ósköpunum eiga t.d. hátekjuhóparnir að þurfa að fá tugþúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda launahækkun umfram þá sem eru á lægri laununum? En slíkt gerist ætíð þegar samið er í prósentum og því verðum við að hætta því enda eru prósentu launahækkanir aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Róttækar kerfisbreytingar

Samhliða þessu þarf að knýja stjórnvöld til þess að koma á róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum sem lúta t.d. að því að hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. En eins og allir vita þurfa íslenskir neytendur að búa hér við okurvexti, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu. Íslensk heimili eru að greiða allt að 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við heimili á Norðurlöndunum miðað við 25 milljóna húsnæðislán. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fjögurra manna fjölskylda er að greiða allt að 150 þúsundum meira í vexti og matarinnkaup í hverjum mánuði miðað við sambærilega fjölskyldu á Norðurlöndunum. Við verðum að ná niður kostnaði við að lifa hér á landi og það gerum við m.a. með því að endurskipuleggja fjármálakerfið þannig að ekki sé einvörðungu horft á fjármálalegan stöðugleika fjármálakerfisins og að fjármálalegur stöðugleiki alþýðunnar og heimilanna sé ekki látinn víkja fyrir stöðugleika fjármálakerfisins, eins og ætíð er gert!

Við þurfum líka að ráðast í þjóðarátak í húsnæðismálum og það getum við gert með því að taka 1% af samtryggingarhlutanum sem við greiðum í lífeyrissjóðina eins og hugmyndir VR ganga út á. En með þeirri hugmynd væri hægt að endurreisa verkamannabústaðakerfið á nokkrum árum.

Við verðum að fara í þessa vinnu enda er leigumarkaðurinn orðinn eins og vígvöllur þar sem græðgi og aftur græðgi ráða ríkjum með skelfilegum afleiðingum fyrir lágtekjufólk og allt ungt fólk.

Við þurfum líka að snúa við af þeirri braut er lýtur að svokallaðri tilgreindri séreign og breyta henni í frjálsa séreign. Enda óskiljanlegt að forysta ASÍ hafi stuðlað að því að koma þessari tilgreindu séreign á vegna þess að hún er háð mun strangari skilyrðum en frjáls séreign. T.d. má ekki byrja að leysa tilgreinda séreign út 60 ára eins og frjálsu séreignina heldur 65 ára, því til viðbótar má ekki nota tilgreindu séreignina til niðurgreiðslu á fasteignalánum eða til uppsöfnunar á útborgun í fyrstu húseign. Rétt er hins vegar að vekja sérstaka athygli á því að þessi tilgreinda séreign á að verða skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun og ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli voga sér að koma slíku á í ljósi þess að eitt af mikilvægustu atriðum lífeyriskerfisins er að draga úr skerðingum frá greiðslum frá Tryggingastofnun en ekki auka á þær.

Verkalýðsfélag Akraness vill breyta þessari tilgreindu séreign í frjálsa séreign og gefa launafólki færi á að niðurgreiða húsnæðislán sín og safna fyrir útborgun á kaupum á fyrstu húseign.

Þetta eru nokkur atriði sem Verkalýðsfélag Akraness vill gera og nú er tækifæri til að knýja stjórnvöld til kerfisbreytinga þar sem hagsmunir alþýðunnar verði nú einu sinni hafðir að leiðarljósi. Við verðum að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með blandaðri leið launahækkana og kerfisbreytinga.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki tilbúið til að gefa neinn afslátt hvað það varðar og félagið trúir ekki öðru en að verkalýðshreyfingin í heild sinni standi saman í því að kalla eftir þessum róttæku kerfisbreytingum og það á vel við á 10 ára „afmæli“ hrunsins!

 

Hérna að neðan má sjá kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness á hendur stjórnvöldum:

 

Kröfugerð á stjórnvöld

  • Hækkun persónuafsláttar til handa þeim tekjulægstu
  • Lágmarkslaun verði skattlaus
  • Þjóðarátak í húsnæðismálum. (Verkamannabústaðakerfið verði endurreist, byggt á hugmyndum VR.)
  • Róttækar kerfisbreytingar verði gerðar á fjármálakerfinu þar sem hagsmunir almennings verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálakerfisins. Þessar kerfisbreytingar þurfa að leiða til mikillar lækkunar á kostnaði neytenda
  • Stjórnvöld komi á lægra vaxtastigi. (Raunvextir 3% hærri en í nágrannalöndunum)
  • Verðtrygging verði afnumin og þak sett á húsnæðisvexti. (Verðtrygging þekkist ekki í neinum löndum sem við viljum bera okkur saman við)
  • Húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. (Hefur hækkað um 118 milljarða frá 2013 til 2017)
  • Launafólk fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fasteignum.
  • Launafólk fái að ráðstafa 2,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða niðurgreiðslu fasteignalána.
  • Sjóðsfélagar geti valið sér lífeyrissjóð.
  • Félagsleg undirboð og gróf kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð og sektir verði lögfestar við slíkum brotum.
  • Skerðingarmörk barnabóta hækki í 350 þúsund.
  • Dregið verði stórlega úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu.
  • Stjórnvöld, sveitarfélög og verslunareigendur skuldbindi sig til að halda aftur af verðlagshækkunum.
  • Ójöfnunarstuðull/Öryggisventill á launahækkanir hálaunahópanna.
  • Afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun.

 

18
Sep

Þing ASÍ-UNG var haldið á föstudaginn

Þing ASÍ-UNG var haldið föstudaginn 14. september á Icelandair Hótel Reykjavík Natura en fulltrúi Verkalýðsfélags Akraness á þessu þingi ASÍ-UNG var Allan Freyr Vilhjálmsson.

Á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG mátti greina mikinn samhug og baráttuvilja hjá ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum bar einna hæst á þinginu.

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins en hún sýnir ágætlega hvar áherslur ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar liggja í komandi kjaraviðræðum.

 

  • Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum.
  • ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus.
  • ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess.
  • ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert.
  • Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum.

 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness forysta verkalýðshreyfingarinnar verði að hlusta vel á áherslur ungliðanna í komandi kjarasamningum, ekki bara í húsnæðismálunum heldur einnig hvað kjaramálin varðar. Það verður t.d. að vera forgangsmál að vinda ofan af því sem gert var í síðustu samningum þegar ungu fólki var fórnað á þann hátt að 18 og 19 ára ungmenni njóti ekki 100% launa fyrir fullt starf. Það atriði í samningunum 2015 var íslenskri verkalýðshreyfingu til skammar.

06
Sep

Ferð eldri félagsmanna 2018

Þriðjudaginn 4. september síðastliðinn var komið að hinni árlegu ferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Þessar ferðir eru ómissandi þáttur í starfi félagsins og margir bíða þeirra með eftirvæntingu. Þetta árið fórum við um suðurlandið.

Fararstjóri ferðarinnar var Gísli Einarsson og stóð hann sig einstaklega vel í því hlutverki. Hann hafi harmonikkuna með sér og spilaði og söng við góðar undirtekir félagsmanna ásamt því að segja skemmtilegar sögur og fróðleiksmola. Farið var í tveimur rútum og sáu bílstjórarnir Atli og Sigurbaldur um aksturinn eins og oft áður í þessum ferðum. Veðrið sem hópurinn fékk var mun betra en spár höfðu sagt til um og talaði Gísli um að Vilhjálmur hefði náð þessu í gegn með góðum samningum við veðurguðina. 

Fyrsta stoppið var í Skálholti, þar sem nýji vígslubiskupinn Kristján Björnsson tók á móti okkur. Hann sagði okkur frá kirkjunni, listaverkunum sem þar eru og aðeins frá sögu staðarins. Næst var ferðinni heitið í Lava center á Hvolsvelli. Þar tóku þau Arna og Helgi á móti hópnum sem byrjaði á því að fá sér hádegismat. Eftir matinn var safnið skoðað, hópurinn fór á stutta en áhrifamikla bíósýningu um eldgos á Íslandi og skoðaði mjög metnaðarfulla sýningu þar sem meðal annars  var hægt að prufa að finna fyrir jarðskjálfta í þremur styrkleikum, hvernig þróun Íslands hefur verið og hinar ýmsu tegundir af hrauni. 

Þá var ferðinni heitið á Forsæti í flóanum en þar heimsóttum við þau hjón Ólaf og Bergþóru sem reka safnið Tré og list.  Þetta safn er með gríðarlegt magn af fallegu handverki, bæði gömlu og nýju.  Einnig er þarna mikið af fallegum gömlum áhöldum sem tengjast handverki. Sigga á Grund var einnig á staðnum, en hún hefur gert ótrúlega mikið af fallegu tréverki sem er á safninu. Meðal þess sem sjá má á safninu er pípuorgelið sem var í Vestmannaeyjakirkju fyrir gos en eftir gosið var það dæmt ónýtt. Ólafur tók það þá allt saman í sundur og flutti það heim til sín þar sem hann hefur hreinsað, lagað og endurbætt hvern einasta hlut í því. Hann hefur nú sett það saman og er það eins og nýtt.  

Hótel Selfoss var svo næsti viðkomustaður þar sem hópurinn settist niður og fékk sér kaffi og kökur. Síðasta stoppið var svo á Veiðisafninu á Stokkseyri þar sem Páll Reynisson tók á móti okkur og fræddi okkur um það sem mátti sjá á safninu. Á Veiðisafninu er mikið að skoða en þar má meðal annars sjá gíraffa, sebrahesta, hvítabirni, krókódíl og margt fleira. Hann sagði  okkur m.a. frá því helsta um stærstu dýrin, hver veiddi þau, með hverju og hvernig kjötið bragðaðist. Það var alveg einstaklega skemmtilegt að hlusta á allar sögurnar sem hann sagði okkur, bæði þær sönnu og þessar sem voru minna sannar.  

Hér má skoða myndir úr ferðinni.

 

 

28
Aug

Krafan í komandi kjarasamningum verður m.a. róttækar kerfisbreytingar

Það verður nú að segjast alveg eins og er að það er eilítið grátbroslegt að forsætisráðherra Íslands skuli hafa kallað eftir því að Gylfi Zoega gerði skýrslu um þjóðhagslegt umhverfi kjarasamninga á komandi vetri.

Það er eins og við manninn mælt þegar kemur að því að semja fyrir íslenskt verkafólk að þá er svigrúmið til launabreytinga ætíð afar takmarkað, en í skýrslunni sem Gylfi Zoega gerði kemur fram að hann telji að svigrúm til launabreytinga sé 4%. Hefði ekki verið þjóðráð fyrir forsætisráðherrann okkar að kalla eftir skýrslu um hvaða áhrif það myndi hafa á vinnumarkaðinn í heild sinni þegar kjararáð hækkaði æðstu ráðmenn þjóðarinnar og forstjóra ríkisstofnanna um 45% eða þegar forstjóri Landsvirkjunar fékk launahækkun sem nam 1,2 milljónum á mánuði sem og bankastjóri Landsbankans.

Nei, núna eru margir lukkuritarar forréttindahópanna kallaðir fram og þeirra hlutverk er að vara við því að íslenskt láglaunafólk fái ekki meira en sem nemur 4% launahækkun því annars sé "stöðugleikanum" illilega ógnað. Það heyrðist ekkert í lukkuriturum forréttindahópsins þegar margir í efri lögum samfélagsins hækkuðu í mánaðarlaunum sem námu frá 250 þúsundum króna uppí allt að 1,2 milljón á mánuði. Það er einnig grátbroslegt að lukkuritarar forréttindahópsins hafa aldrei neinar áhyggjur að stöðugleikanum sé ógnað þegar efrilög samfélagsins taka sér launahækkanir sem nema hundruðum þúsunda á mánuði.  Það er rétt að geta þess að það liggur fyrir að meðallaun forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir eða sem nemur tæplega 18- földum lægsta launataxta verkafólks.

Bara þannig að því sé haldið til haga þá er og verður alls ekki samið um 4% launahækkun til handa íslensku verkafólki sem tekur laun sín eftir launatöxtum en rétt er að geta þess að lægsti launataxti verkafólks nemur rétt rúmum 266 þúsundum á mánuði og hæsti virki launataxti verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði slefar rétt rúmum 300 þúsundum á mánuði. En flestir verkamenn á hinum almenna markaði taka laun eftir launatöxtum sem nema frá 270 til 285 þúsund á mánuði.

Að halda það að samið verði um 4% til handa verkafólki sem tekur laun eftir lágmarkstöxtum er fásinna enda verður það aldrei samþykkt og verkafólk er tilbúið að láta kné fylgja kviði við að hækka launataxta sína þannig að þau dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og það geti haldið mannlegri reisn. Enda er það lýðheilsumál að lagfæra og leiðrétta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði lýðheilsumál að lagfæra kjör og auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert og það er hægt að gera það á fleiri vegu en með beinum launahækkunum.

Það var því ömurlegt að sjá einn af lukkuriturum forréttindahópsins skrifa að hann hefði bara haft það "skrambi gott" á lágmarkslaunum, en rétt er að geta þess að hér er um hagfræðing Viðskiptaráðs um að ræða.  Formaður félagins vill rifja það upp í þessu samhengi að hann átti orðið fjögur börn 27 ára og þurfti að framfleyta sér og sinni fjölskyldu á verkamannalaunum hér á árum áður og sá tími var svo sannarlega ekki „skrambi góður“ og það síður en svo enda kom það oft fyrir að mörgum dögum fyrir mánaðarmót að ekki voru til fjármunir fyrir nauðþurftum.  Þessi reynsla formanns hefur svo sannarlega hjálpað honum í því starfi sem hann gegnir í dag því það er mikilvægt að þekkja það af eigin raun að ná ekki endum saman frá mánuði til mánaðar.

Kerfisbreytingar

Verkalýðsfélag Akraness vill kalla eftir róttækum kerfisbreytingum. Kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði t.d. teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins. Það er hægt að gera með því að lækka vexti, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðinn út út lögum um vexti og verðtryggingu. Það er sorglegt að neytendur séu að greiða allt að 110 þúsund meira í vaxtakostnað á mánuði en í sumum af þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við.

Það verður líka að létta á skattbyrði á lág- og lægri millitekjuhópinn en rétt er að rifja upp að árið 1998 var t.d. ekki greiddur skattur af lágmarkslaunum en í dag þarf verkafólk á lágmarkslaunum að greiða um 52 þúsund krónur á mánuði í skatt. Það er verið að skattleggja fátækt á Íslandi sem er sorglegt.

Það er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því að uppundir 15 þúsund foreldrar hafa misst barnabæturnar sínar á liðnum árum, vegna þess að skerðingarmörk þeirra eru svo skammarlega lág en barnabætur hjá einstaklingi byrja að skerðast við 241 þúsund krónur sem er gjörsamlega galið. Þessu verður að breyta í komandi kjarasamningum þannig að skerðingarmörk barnabóta fari uppí allt að 350 þúsund hjá einstæðu foreldri eða 700 þúsund hjá sambúðarfólki.

Hins vegar blasir við að stærsta áskorun í komandi kjarasamningum verður að koma böndum á húsnæðismarkaðinn og nægir að nefna í því samhengi sú tryllta græðgisvæðing sem er að eiga sér stað á leigumarkaðnum sem hefur leikið lágtekjufólk gríðarlega illa. Enda liggur t.d. fyrir að leiguverð hefur hækkað um 86% frá árinu 2011 og núna er lágtekjufólki gert skylt að leiga tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði.

Það er ekki bara það að vaxtakostnaður og leigukostnaður hér á landi sé mörgum tugum þúsunda hærra en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í hverjum mánuði heldur liggur einnig fyrir að fjögurra manna fjölskylda þarf að greiða um 80 þúsundum meira í matarinnkaup en neytendur á Norðurlöndum. Það er einnig rétt að geta þess að frá árinu 2010 hefur Orkuveita Reykjavíkur hækkað gjaldskrár sínar á heitu vatni um 80%

Það er morgunljóst að kallað verður eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi og því þarf að kalla eftir róttækum aðgerðum við að draga úr kostnaði neytenda við að lifa í þessu landi.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta lukkuritara forréttindahópanna tala um að lágtekjufólk hafi hækkað mest í kaupmætti og dregið hafi úr ójöfnuði og misskiptingu. Það blasir við að allur þessi samanburður byggist á prósentuhagfræði en sú hagfræði stenst ekki nokkra skoðun enda fer lágtekjufólk ekki með prósentur og verslar í matinn né greiðir húsleigu með prósentum.  Það verður því að vera skýr krafa í komandi kjarasamningum að samið verði í krónum en ekki prósentum enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka ójöfnuð hér á landi.

Staðreyndin er sú að lægsti taxti launafólks er einungis 266 þúsund á mánuði sem er langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að tala um að það sé bullandi kaupmáttaraukning hjá þeim tekjulægstu er svo sorglegt rugl að það nær ekki nokkru tali.

Sem dæmi þá hafa lægstu launataxtar verkafólks hækkað um 57% frá 2011 en leiguverð hefur hækkað á sama tíma um 86%. En eins og allir vita þá er það tekjulægsta fólkið sem er að langstærstum hluta sem þarf nauðbeygt að vera á leigumarkaði vegna þess að það á hvorki fyrir útborgun til húsakaupa né stenst greiðslumat hjá fjármálastofnunum.

Það þarf að verða þjóðarsátt um að koma þessu fólki verulega til hjálpar í komandi kjarasamningu en eitt er víst að ekki verður nokkur afsláttur gefin í þeirri baráttu í komandi kjarasamningum.

Það liggur fyrir að ef stjórnvöld munu ekki sýna vilja til að taka þátt í því að ráðast í róttækar kerfisbreytingar íslenskum almenningi og lágtekjufólki til góða þá mun verkalýðshreyfingin þurfa að sækja af alefli á atvinnulífið í komandi kjarasamningum til að rétta hlut lágtekjufólks og millitekjufólks af. Núna er boltinn hjá stjórnvöldum og því hvílir hinn ímyndaði stöðugleiki og friður á vinnumarkaði á herðum stjórnvalda!

27
Aug

Nýtt sumarhús

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á bústað sem staðsettur er að Ásenda 9 í Húsafelli. Bústaðurinn er einstaklega vel skipulagður en hann var byggður árið 2009 og hefur verið í einkaeigu síðan þá.

23
Aug

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins og að sjálfsögðu var formaðurinn við þeirri ósk.

Ástæða þess að stjórn lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins var eins og kom fram á fundinum í gær að hann hefur verið mjög gagnrýnin á lífeyriskerfið á opinberum vettvangi.

Formaðurinn fór yfir með stjórn Landssambands lífeyrissjóða hvað það er sem hann er óánægður með og var af nægu að taka hvað það varðar. Hann byrjaði á því að tala um tekjuskerðingar af hálfu Tryggingarstofnunar en það má segja að ábyrgð lífeyrissjóðanna hvað skerðingar varðar er ekki á þeirra ábyrgð heldur stjórnvalda.

En það er morgunljóst að þær tekjuskerðingar hafa að hluta til grafið undan trausti almennings á lífeyrissjóðskerfinu enda var hugsun sú þegar lífeyrissjóðirnir voru settir á 1969 að þeir ættu að vera viðbót við almannatryggingarkerfið. Formaður fór yfir það að mjög brýnt sé að verkalýðshreyfingin taki af krafti á þessum tekjuskerðingum og geri skýlausa kröfu á stjórnvöld að dregið verði verulega úr þeim eða jafnvel afnumdar með öllu.

Formaður fór einnig yfir að hann teldi það gjörsamlega glórulaust að sjóðirnir væru með 3100 af 4100 milljörðum í íslensku hagkerfi. Hann nefndi að það gengi ekki upp að það þyrfti á annað hundrað milljarða til að fóðra ávöxtun á innlendum eignum lífeyrissjóðanna enda væru það almenningur sem þurfti að sjá um að greiða fyrir þessa ávöxtun. Hann sagði jafnfram að það væri ekki í þágu neytenda að lífeyrissjóðirnir ættu orðið yfir 50% af skráðum eignum í Kauphöllinni og það væri ekki eðlilegt að sjóðirnir væru með ráðandi hluti í verslunarkeðjum, fjarskiptafyrirtækjum, flugfélögum, tryggingarfélögum, olíufélögum og svona mætti lengi telja. Formaður sagði að það væri morgunljóst að rík krafa er gerð á þessi fyrirtæki sem lífeyrissjóðirnir eiga að þau skili góðum arði til eigenda sinna. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að vöruverði er haldið uppi sem og kaupgjaldi og því bitnar þetta illilega á sjóðsfélögunum sjálfum. Formaður nefndi að það gæti vart verið tilviljun að norski olíusjóðurinn fjárfesti nánast eingöngu erlendis.

Formaður kom einnig inná það við stjórn landsambandsins að það væri nöturlegt að sjóðirnir væru að fjárfesta í leigufélögum eins og t.d. Almenna leigufélaginu sem og Heimavöllum enda lægi fyrir að verið er að níðast illilega á leigjendum þessi misserin og það liggur einnig fyrir að leiguverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Mörg dæmi eru um að verið sé að leigja tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði. Formaður fór sérstaklega yfir það að þarna væri verið að níðast á þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, þar er að segja tekjulágt fólk, öryrkjar og aldraðir og því væri það sorglegt að verið sé að nota fjármuni sjóðsfélaga í fjárfestingar í slíkum leigufélögum.

Formaður fór einnig fyrir svokallaða tilgreinda séreign sem væri með ólíkindum að hafi verið sett á laggirnar enda var ekkert samið um tilgreinda séreign í kjarasamningum. Þessu til viðbótar væri grátbroslegt að þeir sem kvarta yfir tekjuskerðingum vilja að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun. Formaður sagði að hann ætlaði að beita sér af alefli í komandi kjarasamningum að þessu yrði breytt þannig launafólk hafi val um að setja 3,5% aukaframlagið sem samið var um í frjálsséreign.

Formaður fór ítarlega yfir með stjórn landsambandsins að það væri ömurlegt að horfa upp á lífeyrissjóðina horfa aðgerðalausa á þegar fyrirtæki sem sjóðirnir eiga stóra hluti í, skammta forstjórum og lykilstjórnendum gríðarlegar kauphækkanir, bónusa og kaupréttasamninga. Þetta aðgerðaleysi lífeyrissjóðanna hefur m.a. garfið undan trausti til þeirra eins og kom t.d. í ljós þegar forstjóri N1 fékk launahækkun sem nam 1 milljón á mánuði en þarna sátu lífeyrissjóðirnir með hendur í skauti og aðhöfðust ekkert. Formaður sagði afar mikilvægt væri að sjóðirnir létu hérna vel í sér þegar svona sjálftaka af hálfu stjórnenda fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna væru framkvæmdar og ekki bara að láta í sér heyra heldur nota afl sitt til að stöðva svona sjálftöku enda misbýður þetta siðferðisvitunda almennings.

Formaður fór einnig yfir það gríðarlega óréttlæti sem látið er átölulaust er viðkemur fjölda öryrkja í verkamannasjóðunum en þar er örorkubyrðin miklu hærri en í öðrum sjóðum og sem dæmi þá eru um 20% af virkum sjóðsfélögum í Festu lífeyrissjóði öryrkjar og um 32% allra greiðslna úr sjóðnum á síðasta ári var vegna örorku og það sama er upp á teningum hjá Gildi lífeyrissjóði. Hvaða samtrygging er fólgin í því að skerða þurfi réttindi í verkamannasjóðnum m.a. vegna þess að þar er örorkubyrðin mun meiri en í öðrum sjóðum. Það verður að tryggja að stjórnvöld komi með greiðslu til verkamannasjóðanna sem dekkar þessa umfram örorkubyrði.

Þessi fundur var bara nokkuð góður enda fór formaður félagsins yfir mikið af þeim atriðum sem hann hefur gagnrýnt lífeyriskerfið um á liðnum árum og það merkilega í þessu öllu saman var að stjórn landssambands lífeyrisjóða sagði að þau væru nánast sammála formanni í öllum atriðum.

Nú er bara að vona að lífeyrissjóðirnir fari eftir þessum ábendingum formanns, þannig að tiltrú almennings á kerfinu aukist, enda veitir ekki af.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image