• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Mar

Orlofshús - Sumar 2007

Þessa dagana stendur undirbúningur fyrir sumarorlofstímann sem hæst á skrifstofu félagsins og ættu félagsmenn að fá umsóknareyðublað og bækling um sumarleiguna inn um lúgu sína í kringum 20. mars. 

  Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og í þremur íbúðum á Akureyri. Einnig er félagið með í leigu íbúð í Stykkishólmi (nánari upplýsingar hér), bústað að Eiðum (nánari upplýsingar hér) og nýr möguleiki í sumar er bústaðurinn Bláfell í Koðrabúðum á landi Heiðar í Biskupstungum (nánari upplýsingar hér).

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús í sumar

20. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

10. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

16. maí  - Eindagi endurúthlutunar

18. maí  - Fyrstur kemur, fyrstur fær! Lausum vikum er úthlutað til þeirra sem fyrstir koma

  Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

  Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að sækja um þær á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

06
Mar

Stóraukin þjónusta við félagsmenn

Stjórnir orlofs- og sjúkrasjóðs funduðu í gærkveldi.  Það liggur þónokkuð fyrir hjá orlofsstjórn þar sem töluverðar endurbætur eru framundan á orlofshúsum félagsins.

Ákveðið hefur verið að stækka svalir á þremur íbúðum sem félagið á að Furulundi 8 á Akureyri og hefjast þær framkvæmdir í haust.  Einnig var ákveðið að mála sumarhúsin í Húsafelli og í Svínadal og stefnt er að þeim framkvæmdum verði lokið fyrir sumarúthlutun 15. maí.

Þessu til viðbótar hefur verið ákveðið að skipta um eldúsinnréttingar í Hraunborgum og Svínadal og stefnt er að því að þeim framkvæmdum verði einnig lokið fyrir 15. maí.

Eins og áður sagði þá fundaði stjórn sjúkrasjóðs einnig í gærkveldi og liggur ljóst fyrir að félagið mun taka inn allavega þrjá nýja styrki á næsta aðalfundi, sem verður um miðjan apríl.

Það er alveg ljóst að gríðarleg umskipti hafa orðið á rekstri félagsins á þeim þremur árum sem ný stjórn tók við og sést það best á þeirri stórauknu þjónustu nú er verið að veita félagsmönnum. 

Markmið núverandi stjórnar hefur ávallt verið skýrt, það er að þjóna okkar félagsmönnum eins vel og kostur er.

05
Mar

Fiskvinnslufólk vill bónusinn inní launataxtana

Starfsgreinasamband Íslands hélt ráðstefnu um “kaupaukakerfi í fiskvinnslu” á Íslandi, kosti og galla launakerfisins og vinnuverndarsjónmarmið með tilliti til aukinnar tækni og hraða vinnslunnar. Ráðstefnan var notuð til að móta hugmyndir að kröfugerð fyrir næstu kjarasamninga.

Það var alveg ljóst að fiskvinnslufólk gerir miklar væntingar til næstu kjarasamninga enda telur það sig hafa borið skarðan hlut frá síðustu kjarasamningum.

Það virðist vera nokkuð víðtæk sátt hjá fiskvinnslufólki að færa hina ýmsu kaupaukagreiðslur fiskvinnslufólks inní launataxtanna.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem VLFA hefur er meðaltalsbónus hjá fiskvinnslufólki í kringum 200 til 230 kr. á tímann. 

Einnig kom fram á ráðstefnunni að það verður að vera eitt af forgangskröfum í næstu samningum að verja markaðslaunakerfið.  Voru ráðstefnugestir sammála um það verði gert með því að færa launataxtana upp að markaðslaunum.

02
Mar

Orlofshús Verkalýðsfélags Akraness – Páskar 2007

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins yfir páskana. Tekið verður á móti umsóknum til og með 9. mars 2007 á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, sími 4309900.

Dregið verður úr umsóknum 12. mars og haft samband við þá sem fá úthlutað. Eins og með aðra vetrarleigu hefur páskaúthlutun ekki áhrif á punktastöðu félagsmanna.

Orlofshús til útleigu um páska 2007:

Bláskógar 12, Svínadal

Ásendi 10, Húsafelli

Húsasund 15, Hraunborgum

Hús nr.11, Ölfusborgum

Laufásvegur 31, Stykkishólmi

Furulundur 8a, Akureyri

01
Mar

Framtalsaðstoð félagsins hefst í næstu viku

Framtalsaðstoð félagsins hefst mánudaginn 5. mars nk. Takmarkaður fjöldi tíma er í boði svo félagsmenn eru beðnir að panta sem fyrst. Nauðsynlegt er að hafa öll gögn og veflykil meðferðis, starfsfólk skrifstofu getur aðstoðað við að útvega nýjan veflykil hafi hann glatast.

Hægt er að bóka tíma á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, sími 4309900

28
Feb

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sent formönnum stjórnmálaflokkanna bréf

Formaður félagsins hefur sent öllum formönnum stjórnmálaflokkanna bréf þar sem er óskað er eftir því að formennirnir beiti sér innan síns þingflokks fyrir því að þeir forvarnarstyrkir sem stéttarfélögin veita sínum félagsmönnum verði undanþegnir skatti.

Hér er afar brýnt mál á ferðinni þar sem forvarnarstyrkir stéttarfélaganna geta skipt gríðarlega miklu máli fyrir félagsmenn okkar.  Það er vitað að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna hafa hjálpað okkar félagsmönnum til að sækja þá þjónustu sem boðið er upp á í heilbrigðiskerfinu varðandi forvarnir t.d krabbameinsskoðanir og áhættumat varðandi hjarta- og æðasjúkdóma.   

Það er einnig vitað að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna hafa sparað ríkinu umtalsverðar upphæðir þar sem náðst hefur að greina alvarlega sjúkdóma á byrjunarstigi s.s krabbamein og hjarta- og kransæðarsjúkdóma.

Það er mat formanns félagsins að það sé með öllu óeðlilegt að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna skulu vera skattskyldir eins og raunin er.  Sérstaklega í ljósi þess að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna gerir þeim sem eru með lægstu tekjurnar auðveldar með að sækja þá þjónustu er lýtur að forvörnum.  

Einnig má ekki gleyma því að forvarnarstyrkir stéttarfélaganna stuðla að bættri heilsu okkar félagsmanna, öllu samfélaginu til heilla. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image