• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Sep

Hvalsmálin flutt fyrir Landsrétti í gær

Í gær var stærsta hagsmunamál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur farið með fyrir dómstóla flutt í Landsrétti. En hér er formaður að sjálfsögðu að tala um mál er lúta að starfsmönnum Hvals sem störfuðu á hvalvertíðum 2013,2014 og 2015. Rétt er að geta þess að í Héraðsdómi Vesturlands var Hvalur hf. sýknaður af kröfum VLFA á grundvelli tómlætis starfsmanna við að sækja rétt sinn. Því var þessum stórundarlega dómi Héraðsdóms var að sjálfsögðu áfrýjað til Landsréttar.

Málið lýtur að því hvort dómstólar ætli að heimila atvinnurekendum að stela af launafólki launum á grundvelli svokallaðs tómlætis. Formaður VLFA trúir því ekki að dómstólar sýkni atvinnurekenda sem sannarlega hefur verið að hlunnfara sína starfsmenn í mörg ár, á grundvelli „tómlætis“ starfsmanna. Það er skýrt í huga formanns VLFA að það geti alls ekki verið tómlæti starfsmanna þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara þá í hverjum mánuði. Það er rétt að geta þess að það er mikil aðstöðu munur á milli atvinnurekandans og verkamannsins enda ætti verkamaður treysta því að atvinnurekendi greiði laun samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum.

Eins og áður hefur komið fram og margoft hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni þá komst Verkalýðsfélag Akraness að því árið 2015 að Hvalur hf. hafi ekki verið að greiða starfsmönnum sínum eins og ráðningarsamningur þeirra kvað á um, né svokallaðan vikulegan frídag. Eftir þessa uppgötun félagsins var reynt ná samkomulagi við forsvarsmann Hvals um að fyrirtækið myndi greiða eftir þeim athugasemdum sem Verkalýðsfélag Akraness hafði komist að, að væri verið að hlunnfara starfsmenn. En þau atriði sem félagið taldi að verið að hlunnfara starfsmenn um voru eftirfarandi:

 

  • Sérstök greiðsla að upphæð 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt sem getið var um í ráðningarsamningi vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.
  • Vangreiðsla vegna lágmarkshvíldar
  • Vangreiðsla vegna svokallaðs vikulegs frídags.

 

Þessum athugasemdum félagsins var algerlega hafnað að hálfu forsvarsmanns Hvals hf. og því var ekkert annað að gera en að fara með mál eins starsmanns fyrir dómstóla.  Skemmst er frá því að segja að bæði Héraðsdómur Vesturlands og Hæstiréttur Íslands tóku undir með Verkalýðsfélagi Akraness og var umræddum starfsmanni dæmdar uppundir 1 milljón vegna vangreiddra launa.

Eftir dóm Hæstaréttar vonaði Verkalýðsfélag Akraness að Kristján Loftsson myndi greiða öllum starfsmönnum þau vangreiddu laun sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hf. ætti að greiða. En eins og áður sagði eru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins og því alls ekki ágreiningur um að Hvalur hf. hafi brotið á öllum starfsmönnum sínum.

Það kom því verulega á óvart að Hvalur hf. neitaði að greiða öðrum starfsmönnum eftir dóm Hæstaréttar og því þarf að fara með málefni annarra starfsmanna fyrir dómstóla. En það er ekki ágreiningur um hvort Hvalur hf. hafi brotið á starfsmönnum heldur ætlar Hvalur hf. að beita fyrir sig tómlæti starfsmanna sem verður að segjast alveg eins og er að sé lágkúruleg málsvörn enda ekki hægt að saka starfsmenn um tómlæti þegar þeir vissu ekki að verið væri að brjóta á þeim fyrr en þeir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness árið 2015.

Aðalmeðferð í máli allra starfsmanna hófst þann 6. mars 2019. En eins og áður sagði þá var eina málsvörn Hvals hf. að beita fyrir sig tómlæti því ekki gat Hvalur hf. beitt öðrum málsvörnum fyrir sig þar sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta brot fyrirtækisins á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Formaður VLFA trúði ekki öðru en að Héraðsdómur Vesturlands myndi staðfesta dóm Hæstaréttar fyrir alla starfsmenn og hafna alfarið öllum málatilbúnaði er lýtur að tómlæti starfsmanna.

Það ótrúlega gerðist síðan að Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm í maí 2019 og tók undir með Hval hf. um að starfsmenn sem voru algerlega grandalausir fyrir því að verið væri að svíkja þá um kjarasamningsbundin laun hefðu sýnt tómlæti og var fyrirtækið sýknað af kröfu allra starfsmanna á þeim grundvelli.

Formaður félagsins undrast það að hægt sé að dæma starfsmenn fyrir tómlæti þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. væri að svína á réttindum þeirra samkvæmt ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga. Um leið og starfsmenn áttuðu sig á því að hugsanlega væri verið að brjóta á réttindum þeirra var farið með prófmál fyrir dómstóla. Takið eftir það var gert um leið og menn höfðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu við kjör starfsmanna.

Hvernig geta dómstólar talað um tómlæti hjá venjulegu verkafólki sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara það um þau laun sem þeim ber? Formaður getur skilið að tómlæti eigi að gilda ef starfsmaður veit að verið sé  að brjóta á réttindum hans og hann gerir ekkert með það árum saman.

En slíku er alls ekki til að dreifa í þessu máli enda var strax farið með prófmál fyrir dómstóla um leið og grunsemdir kviknuðu um brot á kjörum starfsmanna. Það vissi enginn að Hvalur hf. væri að svína á réttindum starfsmanna fyrir en í lok árs 2015 og þá strax var farið af fullum þunga í málið með áðurnefndu prófmáli.

Að sjálfsögðu var þessum fráleita dómi Héraðsdóms Vesturlands áfrýjað til Landsréttar og núna liggur fyrir að málin verða flutt fyrir Landsrétti 24. september nk. Formaður trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum ótrúlega dómi Héraðsdóms Vesturlands við enda var Hæstiréttur búinn að staðfesta í einu prófmáli að verið væri að brjóta á ráðningarkjörum starfsmanna gróflega. Það er aumkunarvert að einn ríkasti maður á Íslandi sem var dæmdur í Hæstarétti fyrir launaþjófnað skuli bera fyrir sig tómlæti starfsmanna til að koma sér hjá því að greiða laun eins og ráðningarsamningur kveður á um.

Ef starfsmaður stelur frá vinnuveitanda er starfsmaðurinn umsvifalaust rekinn þegar þjófnaðurinn kemst upp og honum jafnvel refsað af hinu opinbera. Þetta gildir þó ekki þegar málinu er snúið við. Ef vinnuveitandi stelur frá starfsmanni er vinnuveitanda ekki refsað. Öllu verra er þó að Héraðsdómur Vesturlands hafi lagt upp í þá furðulegu vegferð að hlífa vinnuveitandanum við því að borga þau laun og kjör sem ranglega voru höfð af starfsmönnum Hvals. Með öðrum orðum þá leggur dómstólinn blessun sína yfir að vinnuveitendur standi ekki við lágmarksréttindi.

Hvernig á launafólk sem veit ekki að verið sé að brjóta á réttindum sínum að geta sýnt af sér tómlæti? Hugsið ykkur allt erlenda fólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði og hefur ekki þekkingu né kunnáttu til að þekkja frumskóg kjarasamningsgreina. Það er þyngra en tárum taki að Héraðsdómur Vesturlands sé að blessa launaþjónað á grundvelli þess að launafólk átti sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara það, þetta er svo mikill skandall að það nær ekki nokkurri átt!

Formaður VLFA trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum dómi Héraðsdóms Vesturlands við og standi vörð um launafólk og komi í veg fyrir að stórir og öflugir vinnuveitendur komist upp með að stunda stórfelldan launaþjónað á grandalausum starfsmönnum sínum. Hvernig getur það verið tómlæti starfsmanna þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að einn ríkasti maður á Íslandi væri ekki að greiða þau laun sem ráðningarsamningar starfsmanna kveður á um.

Myndu dómstólar sýkna launafólk sem myndi stunda það að stela frá sínum vinnuveitenda á grundvelli tómlætis því atvinnurekendinn áttaði sig ekki á því fyrir en of seint? Að sjálfsögðu ekki og því er það ótrúlegt að dómstólar eigi það til að sýkna og blessa launaþjófnað vinnuveitenda á grundvelli tómlætis starfsmanna.

Eins og áður sagði þá voru Hvalsmálin flutt í Landsrétti í gær og í huga formanns VLFA er trúverðugleiki dómstólanna undir í þessu máli því í þessu máli mun koma í ljós hvort Landsréttur muni blessa launaþjónað og standa vörð um að lágmarksréttindi launafólks á íslenskum vinnumakaði séu virt af atvinnurekendum.

Þetta mál er eitt stærsta hagsmunamál sem launafólk hefur staðið frammi fyrir í áratugi því ef dómstólar ætla að blessa launaþjófnað atvinnurekenda og fótum troða lágmarksréttindi á íslenskum vinnumarkaði er illa komið fyrir launafólki.

Ef Landsréttur myndi staðfesta ítrustu launakröfu  Verkalýðsfélags Akraness vegna hvalvertíða fyrir árin 2013,2014 og 2015 má áætla að leiðréttingin nemi á bilinu 200 til 400 milljónir í heildina. Á þessu sést að hér er um gríðarlega mikinn launaþjófnað um að ræða og ótrúlegt ef einn ríkasti maður á Íslandi kæmist um með slíkan launaþjónað á grundvelli orðs eins og svokallað tómlæti sem hinn almenni verkamaður hefur oft á tímum ekki hugmynd um hvað það þýðir yfir höfuð.

Á sama tíma og ASÍ er að berjast fyrir því að launaþjófnaður verði gerður refsiverður eru dómstólar að sýkna og blessa launaþjófnað á lágmarksréttindum launafólks á grundvelli tómlætis starfsmanna.

Trúverðugleiki dómstóla er undir í þessu máli !

18
Sep

Starfsmönnum Norðuráls sýnd ótrúleg vanvirðing

Enn einn árangurslausi samningafundurinn milli Verkalýðsfélags Akraness og forsvarsmanna Norðuráls var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær. Núna hafa starfsmenn Norðuráls verið samningslausir í 262 daga eða sem nemur tæpum 9 mánuðum.

Það er soglegt og þyngra en tárum taki sú ofboðslega vanvirðing sem starfsmönnum Norðuráls er sýnd í þessum viðræðum. Af hverju segir formaður VLFA, jú það er vegna þess að launakröfur félagsins byggjast eingöngu út frá því sem lífskjarasamningurinn kveður á um. Það liggur fyrir að nánast allur vinnumarkaðurinn á Íslandi hefur undirgengist að fara eftir honum í hvívetna.

Það er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, stjórnvöld og Samband íslenskra sveitafélaga tóku öll höndum saman um að búa til það módel sem lífskjarasamningurinn byggir á. Allir þessir ofangreindu aðilar voru sammála um mikilvægi þess að allur vinnumarkaðurinn myndi virða það form sem lífskjarasamningurinn kveður á um.

Að þessu sögðu er alls ekki hægt að horfa framhjá ábyrgð Samtaka atvinnulífsins í þessari kjaradeilu en fulltrúi frá SA hefur verið með forsvarsmönnum Norðuráls í viðræðunum. Ábyrgðin lýtur að því að Samtök atvinnulífsins hafa staðið á öllum torgum eftir að lífskjarasamningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 og krafist að allur vinnumarkaðurinn í heildsinni fari alfarið eftir módelinu sem lífskjarasamningurinn byggir á. En núna þegar eitt að aðildarfélögum SA neitar og krefur sína starfsmenn um að semja með 40 til 70% minni grunnlaunahækkun en lífskjarasamningurinn kveður á um þá heyrist ekki eitt einasta orð frá SA. Formaður væri hræddur um að forysta Samtaka atvinnulífsins væri búin að æpa á formann VLFA á opinberum vettvangi ef VLFA væri að fara fram á tugprósentan hærri grunnlaunahækkun en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Það er ömurlegt að sjá svona gríðarlega stórt og öflugt alþjóðlegt fyrirtæki eins og Norðurál koma og fótum troða það samkomulag sem náðist á íslenskum vinnumarkaði og ef fyrirtækið heldur eina einustu mínútu að það komist upp með það ofbeldi gagnvart sínum starfsmönnum þá vaða forsvarsmenn fyrirtækisins svo sannarlega villu vegar hvað það varðar.

Sem dæmi þá liggur fyrir að á árunum 2020 til 2022 munu launataxtar þeirra sem taka laun eftir lífskjarasamningum hækka um 73.000 krónur og með starfsaldurshækkunum eins og t.d. hjá ríki og sveitafélögum, Faxaflóahöfnum og fleirum mun þessi hækkun geta numið allt að 88 þúsundum. Það sem Norðurál hefur lagt til er að á þriggja ára tímabili eigi launataxti hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu að hækka einungis um 51 þúsund krónur á meðan þeir sem taka laun eftir lífskjarasamningum eru að hækka frá 73 þúsundum uppí allt að 88 þúsund. Hérna biður Norðurál um afslátt sem nemur frá 21 þúsund uppí allt að 37 þúsund miðað við starfsmann á 10 ára taxta.

Það er einnig rétt að geta þess að ef Norðuráli tækist að beita slíku ofbeldi á sína starfsmenn að þvinga í gegn hugmyndir sínar að launahækkunum og að launahækkanir myndu ekki taka mið af lífskjarasamningum þá yrði hver verkamaður á 12 tíma vöktum af tæpri 1 milljón á ársgrundvelli í lok samningstímans.

Fjöldatakmarkanir sóttvarnaryfirvalda gera það að verkum að ekki er hægt að halda fjölmenna baráttufundi eins og afar nauðsynlegt væri nú að gera. Til að útskýra á mannamáli þá vanvirðingu sem forsvarsmenn Norðuráls eru að sína starfsmönnum sínum í þessum viðræðum, er formaður að skoða hvernig hann getur komið alvöru kynningu til skila til félagsmanna sinna sem starfa hjá Norðuráli og til að sýna almenningi um hvað þessi kjaradeila snýst um. Eitt af því sem nú er til skoðunar er að taka upp kynningarmyndband þar sem allar staðreyndir um kjaradeiluna verða útskýrðar á mannamáli og deila því kynningarmyndbandi á heimasíðu félagsins. Í þessu myndbandi formanns yrði farið yfir alla deiluna og einnig hver rekstrarstaða fyrirtækisins er um þessar mundir, en rétt er að geta þess að sá mannauður sem hefur unnið hjá Norðuráli hefur gert það að verkum að fyrirtækið hefur skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því það hóf starfsemi árið 1998.

Það er alla vega ljóst að núna stefnir í verkfall 1. desember því það mun aldrei gerast á vakt formanns VLFA að skrifað verði undir svona kjarasamning sem kveður á um langt um minni launabreytingar en allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera.

14
Sep

Vilja stjórnvöld ekki 14 milljarða fjárfestingu?

Formaður VLFA skilur ekki af hverju ekkert er að gerast í þessu máli sem lýtur að fjárfestingu Norðuráls við stækkun á steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga. En í byrjun mánaðarins kom fram hjá forstjóra Norðuráls að fyrirtækið sé reiðubúið að ráðast í fjárfestingu fyrir vel á annan tug milljarða, fáist nýr raforkusamningur hjá Landsvirkjun til mögulega allt að tuttugu ára þar sem kjörin yrðu sambærileg meðalverði til stóriðjunnar á síðasta ári.

Þessi framkvæmd Norðuráls myndi tryggja um 100 störf á byggingartímanum, 40 varanleg og ugglaust um 40 afleidd störf. Eina sem stendur í vegi fyrir þessari framkvæmd er að fyrirtækið óskar eftir langtíma raforkusamningi við Landsvirkjun og nefnir forstjóri Norðuráls að fyrirtækið sé tilbúið að greiða sama raforkuverð sem er 23 dollarar fyrir utan flutning, en það er meðalverð sem Landsvirkjun fékk fyrir MW frá stóriðjunni á árinu 2019.

En þetta meðalverð uppá 23 dollara tryggði Landsvirkjun á árinu 2019 hagnað sem nam um 14 milljörðum og niðurgreiðslu á skuldum fyrir 24,3 milljarða og ekki bara það heldur gat Landsvirkjun einnig greitt ríkinu 4 milljarða í arðgreiðslu.

Hörður Arnarson kom daginn eftir að forstjóri Norðuráls upplýsti að fyrirtækið væri tilbúið að ráðast í þessa gríðarlegu fjárfestingu og sagði að 23 dollarar væru undir kostnaðarverði. Formaður félagsins er algerlega sammála forstjóra Landsvirkjunar að LV eigi ekki að selja raforku undir kostnaðarverði, en hvað er kostnaðarverðið gagnvart þeim virkjunum sem Norðurál fær sína raforku frá? En raforkuna sem Norðurál fær frá LV er frá Sultartangavirkjun sem byggð var árið 1999 og árið 2001 byggði Landsvirkjun Vatnsfellsstöð, en þessar tvær virkjanir eru undirstaða raforkusölu LV til Norðuráls.

Formaður segir því það þarf að fá hlutlausa aðila til að finna út hvað kostnaðarverð Landsvirkjunar er á þessum virkjunum og inní það kostnaðarverð þarf að taka arðsemiskröfu sem LV gerir.

Það er hins vegar rétt að geta þess að Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar skrifaði grein í maí á þessu ári þar sem fram kom að kostnaðarverð Landsvirkjunar, sé á bilinu $28/MWst til $35/MWst eftir því til hvaða virkjana er horft. Það er hins vegar alveg ljóst að kostnaðarverð á 20 ára á gömlum virkjunum eins og þeim sem Norðurál fær sína raforku frá, er ekki sú sama og þegar um nýja virkjun er að ræða. Því má klárlega áætla að kostnaðarverðið með arðssemiskröfu Landsvirkjunar sé því aldrei hærra en 28 dollarar og því ber ekki mikið á milli Norðuráls og Landsvirkjunar.

Því spyr formaður VLFA, hví í ósköpunum er ekki gengið frá þessu máli þannig að hægt sé að ráðast í 14 milljarða framkvæmd sem skilar uppundir 100 störfum á byggingartímanum, 40 varanlegum störfum auk afleiddra starfa og aukningu á útflutningstekjum á bilinu 5 til 10 milljarðar á ári hverju.

Hvað með orð stjórnvalda um að við þurfum að framleiða meira og við þurfum kröftuga viðspyrnu til að vinna okkur úr þessari efnahagslægð sem við erum nú í vegna COVID.

Það vita allir sem vita vilja að til að hægt sé að reka íslenskt samfélag eins og t.d. góða heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntakerfi og öflugt almannatryggingarkerfi þurfum við öflug og kröftug gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar byggist á þremur megin stoðum, það er ferðaþjónustan, orkufrekur iðnaður og sjávarútvegurinn.

En nú stöndum við frammi fyrir því að ferðamannaiðnaðurinn er um þessar mundir í öndunarvél, enda hefur tekjufallið vegna COVID þurrkað tekjustofna fjölmargra fyrirtækja upp. Þessu til við viðbótar er PCC á Bakka í hjartastoppi, enda búið að slökkva á báðum ofnum fyrirtækisins. Álverið í Straumsvík er keyrt áfram á einungis 85% afköstum og yfirvofandi hótun eigenda fyrirtækisins um að álverinu verði lokað fyrir fullt og allt. Þessu til viðbótar eru rekstrarforsendur Elkem Ísland á Grundartanga afar erfiðar um þessar mundir eftir töluverða hækkun á nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun.

Á sama tíma og tvær af þremur grunnstoðum gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar er í verulegum vandræðum eins og hér að framan greinir, er öskrað úr öllum áttum, ríkið eigi að gera þetta og hitt og það vanti fjármagn allstaðar.

Hvernig eigum við sem þjóð að standa undir velferð þjóðarinnar þegar það er að molna undan tveimur af gjaldeyrisöflunargreinum þjóðarinnar? Annað er í vandræðum vegna COVID en hin grunnstoðin er af mannavöldum.

Að þessu öllu sögðu er óskiljanlegt að ekkert gerist í ljósi þess að fyrirtækið Norðurál er tilbúið að ráðast í 14 milljarða framkvæmd innan nokkurra vikna með öllum þeim jákvæðu margfeldisáhrifum á hagkerfið.

Hvar eru þingmenn norðvesturkjördæmis? Og hvar er Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra og þingmaður norðvesturkjördæmis? Eiga þessir kjörnu fulltrúar ekki að vera að gæta að hagsmunum kjördæmisins? en formaður ítrekar það að hann er alls ekki frekar en Norðurál að fara fram á að fyrirtækið fái orkuna undir kostnaðarverði með þeirri arðsemiskröfu sem LV settur upp.

Það þarf eitthvað að gerast og það þarf að fá hlutlausa aðila til að reikna út hvert þetta kostnaðarverðið er og ganga frá nýjum raforkusamningi þannig að hægt sé að hefja þessa kröftugu viðspyrnu sem okkar samfélag þarf svo sannarlega á að halda.

Við rekum ekki okkar samfélag á opinberum störfum með fullri virðingu fyrir þeim, við rekum okkar samfélag frá A til Ö á kröftugum gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum.

14
Sep

Greiðslur sjúkradagpeninga aukast um 83% miðað við sama tíma í fyrra

Greiðslur sjúkradagpeninga hjá Verkalýðsfélagi Akraness hafa aukist um 83% miðað við sama tímabil í fyrra og ljóst að um umtalsverða aukningu sjúkradagpeninga er að ræða.  Heildargreiðslur nema það sem af er þessu ári um 64 milljónum en á sama tíma í fyrra nam heildarupphæðin 44,6 milljónum.

Það er ekki gott að segja hvað veldur þessari miklu aukningu en ugglaust spilar Covid 19 eitthvað inní þessa aukningu. 

Það er einnig umtalverð aukning greiðslna á öðrum styrkjum sem félagið er með og nemur sú aukning um 43%.  En þeir styrkir eru t.d. fæðingarstyrkur að fjárhæð 150.000 á félagsmann sem eignast barn samtals 300.000 kr. ef báðir foreldrar eru félagsmenn en í heildina nemur greiðslna vegna fæðingarstyrks sem af er ári tæpum 9 milljónum.

Einnig eru félagsmenn duglegir að nýta sér heilsufarsskoðunar- og heilsueflingarstyrki sem og niðurgreiðslu hjá sálfræðingum.

Það er afar ánægjulegt hversu vel félagsmenn eru meðvitaðir um réttindi sín úr sjóðum félagsins enda leggur félagið mikið uppúr því að upplýsa félagsmenn hvað félagið hefur uppá að bjóða fyrir félagsmenn.  Rétt er að geta þess að um 800 félagsmenn hafa nýtt sér það sem af er árinu, réttindi úr sjúkrasjóði félagsins sem er um 30% félagsmanna sem greiða til félagsins.

Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna eru klárlega mikilvægt öryggisnet fyrir félagsmenn en þó er rétt að geta þess að réttindi úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna eru afar mismunandi en VLFA reynir í hvívetna að bjóða eins góð réttindi og kostur er og telur sig vera að veita réttindi á meðal þess sem best gerist.

04
Sep

Enn einn árángurslausi samningafundurinn við Norðurál

Í gær var enn einn árangurslausi samningafundurinn haldinn hjá ríkissáttasemjara til að leysa kjaradeiluna við Norðurál.

 

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru liðnir 9 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út og ljóst að það er byrjuð að byggjast upp gremja og reiði á meðal starfsmanna með það skilnings og virðingarleysi forsvarsmanna Norðuráls í garð starfsmanna.

 

Það er algjört virðingarleysi hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki að neita að semja við sína starfsmenn eins og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera, eða með öðrum orðum hafna að hækka laun sinna starfsmanna eins og gert var í lífskjarasamningum.

Það er sorgleg staðreynd að Norðurál sem hefur á að skipa miklum mannauði sem vinnur oft við erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður skuli voga sér að reyna með öllum tiltækum ráðum að komast hjá því að semja eins og öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði hafa undirgengist að gera. Rétt er að geta þess að Norðurál hefur skilað eigendum sínum um 100 milljörðum í hagnað frá því fyrirtækið hóf starfsemi og þessi hagnaður verður til fyrst og fremst vegna afar góðs starfsfólks.

Þessu til viðbótar eru rekstrarforsendur Norðuráls mjög góðar í dag þrátt fyrir covid en fyrirtækið hefur sjálft gefið út að það þurfi um 1400 dollara til að vera rekið á núlli. Hinsvegar er álverð núna í kringum 1800 dollara og gengið einnig afar hagstætt sem leiðir til þess að framlegð fyrirtækisins er afar góð eins og staðan er í dag.

Það er óskiljanlegt að þetta öfluga fyrirtæki skuli voga sér að neita að koma með sömu launabreytingar og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og sammælst um að gera. Formaður spyr af hverju ætti þetta öfluga fyrirtæki ekki að hækka laun starfsmanna eins og öll fyrirtæki hafa gert? Það eru ekki nokkrar ástæður til að krefja starfsfólkið að semja um miklu minni launahækkanir en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Þetta er ótrúleg staða sem upp er komin og að mati formanns er starfsmönnum sýnd yfirgripsleg vanvirðing að hafna að hækka laun eins og allir launamenn á Íslandi hafa fengið í gegnum lífskjarasamninginn. En eins og fram hefur komið þá kusu 97% starfsmanna sem tilheyra VLFA um verkfall sem hefst 1. desember ef ekki semst fyrir þann tíma.

Formaður biðlar til forsvarsmanna Norðuráls að sýna starfsfólki sínu ekki slíka vanvirðingu með því að krefja það um mun lakari launabreytingar en allur íslenskur vinnumarkaður hefur samþykkt að framkvæma.

Grundvallaratriðið er að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki að gera neina umframkröfu en um var samið í lífskjarasamningum, hins vegar eru forsvarsmenn Norðuráls að krefja starfsfólkið um mun lakari launahækkanir en lífskjarasamningurinn gefur.

Hugsið ykkur ef Norðurál væri að óska eftir að Verkalýðsfélag Akraness myndi semja með nákvæmlega sama hætti og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og við myndum neita og krefja um tugi prósenta til viðbótar. Við yrðum kölluð galin, óferjandi og ósanngjörn en málið er eins og áður hefur komið fram að við erum bara að fara fram á sömu launabreytingar og allir aðrir hafa samið um, ekkert meira né minna.

 

Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um lakari launahækkanir og allur vinnumarkaðurinn hefur sannmælst um að gera, enda ekki nokkrar forsendur til að gera slíkt.  Næsti formlegi samningafundur hefur ekki verið boðaður fyrr en eftir hálfanmánuð eins og lög kveða á um þegar um djúpstæðan ágreining er á milli deiluaðila.

27
Aug

Fundað hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu við Norðurál í gær

Í gær var haldinn samningafundur í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur þessi kjaradeila verið hörð enda félagið búið að kjósa um yfirvinnubann og verkfall sem mun skella á 1. desember ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

Á fundinum í gær gerðist ekki ýkja margt annað en að deiluaðilar eru sammála um mikilvægi þess að ná saman en það er ljóst að enn ber umtalsvert á milli deiluaðila. Það undarlega við þessa kjaradeilu er að forsvarsmenn Norðuráls hafna að hækka laun eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera eða nánar tilgetið að semja um sömu launahækkanir og gert var í svokölluðum lífskjarasamningi.

Formaður telur að hann sé búinn að koma því eins rækilega á framfæri við forsvarsmenn Norðuráls og hægt er að félagið mun ekki, getur ekki og vill ekki semja um lægri launabreytingar og nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist að gera. Enda eru ekki nokkrar forsendur fyrir því að alþjóðlegt stórfyrirtæki ætli að koma sér undan því að semja með sama hætti og allur vinnumarkaðurinn tók sig saman um að gera. Það liggur fyrir að rekstrarforsendur Norðuráls eru blessunarlega afar góðar um þessar mundir enda álverð á uppleið að nýju og gengi íslensku krónunnar afar hagstætt fyrir útflutningsfyrirtæki um þessar mundir.

Formaður vonar innilega að forsvarsmenn Norðuráls átti sig á því að VLFA mun ekki kvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að starfsfólk Norðuráls fái sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kveður á um. Munum að sá mannauður sem Norðurál hefur á að skipa hefur skilað eigendum Norðuráls uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því verksmiðjan hóf starfsemi og því mikilvægt að laun starfsmanna endurspegli góða afkomu fyrirtækisins.

Næsti fundur er boðaður á næsta fimmudag eftir viku og ljóst að ef ekkert nýtt gerist á þeim fundi er einsýnt að slitni endanlega uppúr þessum viðræðum og einungis verði fundað hálfsmánaðarlega eins og lög kveða á um. Það er einnig líklegt að ef forsvarsmenn Norðuráls sjái ekki að sér þá muni verkfall samkvæmt grein 8.11.2 skella á 1. desember nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image