• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Aug

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu VLFA

Í morgun kom Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og átti formaður gott samtal við ríkissáttasemjara.

Það skiptir alla aðila sem koma að kjarasamningsgerð að eiga í góðu samstarfi við ríkissáttasemjara og hans fólk og telur formaður VLFA að núna eins og svo oft áður hafi tekist afar vel að velja nýjan ríkissáttasemjara.

Það er að mati formanns afar virðingarvert hjá ríkissáttasemjara að heimsækja stéttarfélögin til að afla sér upplýsinga um starfsemi stéttarfélaganna.

29
Jul

97% þeirra sem greiddu atkvæði um yfirvinnubann og verkfall í Norðuráli samþykktu

Rétt í þessu lauk kosningu í Norðuráli um ótímabundið yfirvinnubann sem hefst 1. september og verkfall sem hefst 1. desember. Kosningin náði til félagsmanna sem starfa hjá Norðuráli og er skemmst frá því að segja að 97% greiddu atkvæði með yfirvinnubanni og verkfalli.

Kosningin fór með eftirfarandi hætti:

Á kjörskrá: 361

Þeir sem kusu: 100 eða 27,7%

Já: 97 eða 97%

Nei: 2 eða 2%

Auðir: 1 eða 1%

Á þessu sést að kosningin var gjörsamlega afgerandi og vilji starfsmanna hvellskýr en þeir sætta sig ekki við að fyrirtækið ætli sér að bjóða hækkanir á grunnlaunum sem eru langt undir því sem samið var um í lífskjarasamningum.

Það liggur fyrir í hverju ágreiningurinn milli deiluaðila kristallast en það liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls hafni nánast eitt allra fyrirtækja á Íslandi að hækka laun eins og kveðið er á um í lífskjarasamningum. Miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði Norðuráls til stéttarfélaganna þá býður félagið eftirfarandi launahækkanir á byrjenda launataxtann næstu 3 árin:

1 janúar 2020    15.118 kr.

1 janúar 2021     17.829 kr.

1 janúar 2022     13.544 kr.

Samtals:              46.491 kr.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar að byrjenda launataxti starfsmanna hækki eins og gert var í lífskjarasamningum og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera án vandræða. En lífskjarasamningurinn tryggir eftirfarandi taxtahækkanir auk tryggingu fyrir svokölluðum hagvaxtarauka. En hækkanir lífskjarasamningsins eru eftirfarandi og eru kröfur VLFA og VR:

1 janúar 2020     24.000 kr.

1 janúar 2021     24.000 kr.

1 janúar 2022     25.000 kr.

Samtals:              73.000 kr.

Að hugsa sér að Norðurál skuli voga sé að hafna því að hækka launataxta sinna starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og bjóða þess í stað starfsmönnum að byrjendalaunataxti hækki um 26.509 kr. minna en hækkanir í lífskjarasamningum kveður á um eða sem nemur 57% lægri taxtahækkun, en allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera. Rétt er að upplýsa að rekstur Norðuráls gengur mjög vel um þessar mundir þrátt fyrir COVID 19.

Þessi afdráttarlausa niðurstaða um kosningu um yfirvinnubann og verkfall er gott veganesti fyrir Verkalýðsfélag Akraness í þeim átökum sem framundan eru við fyrirtækið.

Formaður VLFA hefur sent niðurstöðu úr kosningunni til forstjóra Norðuráls, fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara og ef ekki semst fyrir 1. september mun ótímabundið yfirvinnubann hefjast og í framhaldi af því mun verkfall hefjast 1. desember ef ekki verður enn búið að semja þá. En verkafallsaðgerðir byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi aðila.

27
Jul

Kosningu um yfirvinnubann og verkfall hjá Norðuráli lýkur á miðvikudaginn

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Norðuráli að kosningu um ótímabundið yfirvinnubann sem hefst á miðnætti 1. september og verkfalli sem hefst á miðnætti 1. desember lýkur á hádegi á næsta miðvikudag eða nánar tilgetið 29. júlí.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur starfsmanna út um síðustu áramót og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná samningi í þá rúma 6 mánuði frá því samningur rann út hefur það ekki tekist.

Krafa VLFA er að launahækkanir verði með sambærilegum hætti og um var samið í svokölluðum lífskjarasamningi en því hefur Norðurál alfarið hafnað og bjóða að byrjandalaunataxti hækki um 26.000 kr. minna en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Slíkt er eitthvað sem VLFA mun og ætlar sér alls ekki að sætta sig við enda ekki nokkur ástæða til þess að Norðurál hækki ekki sína grunnlaunataxta eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera. VLFA vill ítreka að félagið er ekki að fara fram á að launabreytingar á grunntöxtum hækki meira en það sem samið var um í lífskjarasamningum og því er það með öllu óskiljanlegt að þessari kröfu sé hafnað af þessu stórfyrirtæki sem er blessunarlega með nokkuð góða rekstrarstöðu um þessar mundir. En rétt er að geta þess að Norðurál hefur skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 1998.

Félagið vill hvetja starfsmenn til að kjósa og nýta kosningarrétt sinn, en rétt að geta þess að hægt er að kjósa á skrifstofu Verkalýðsfélagss Akraness. Formaður gerir sér grein fyrir að kosningar yfir hásumarið er ekki besti tíminn en vegna takmörkunar á verkfallsrétti starfsmanna er félagið nauðugur kostur einn að framkvæma kosningar núna enda þarf að tilkynna verkfall með þriggja mánaða fyrirvara samkvæmt grein 8.11.2 í kjarasamningi milli aðila.

21
Jul

Búið að greiða vangreidd laun vegna gjaldþrots Ísfisks

Eins og fram kom hér á heimsíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness vangreiddar launakröfur fyrir félagsmenn sína vegna gjaldþrots Ísfisks. En nú hefur Ábyrgðarsjóður launa afgreitt kröfu félagsins og nam heildarsamþykkt sjóðsins tæpum 25 milljónum.

Það er ánægjulegt að þessum hremmingum sem starfsmenn Ísfisks urðu fyrir vegna gjaldþrots fyrirtækisins sé á enda en VLFA hljóp undir bagga með starfsmönnum vegna þess tíma sem tekur að afgreiða vangreidd laun vegna gjaldþrota. En félagið lánaði hverjum starfsmanni 250 þúsund með veði í kröfu frá Ábyrgðarsjóði launa og núna hafa starfsmenn endurgreitt félaginu Þetta lán.

Það liggur umtalsverð vinna við að reikna út launakröfur og er þetta enn eitt dæmið sem sýnir hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að hafa aðgengi að stéttarfélögum til að verja sín réttindi.

16
Jul

Starfsmenn Norðuráls athugið, hægt að kjósa um yfirvinnubann og verkfall á skrifstofu VLFA

Seinni kjaramálafundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness og VR standa saman að var haldinn í gær á Gamla kaupfélaginu.

Á þessum fundum fór formaður VLFA ítarlega yfir í hverju ágreiningurinn milli deiluaðila kristallast og kom fram í máli hans að forsvarsmenn Norðuráls hafni nánast eitt allra fyrirtækja á Íslandi að hækka laun eins og kveðið er að um í lífskjarasamningum. Miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði Norðuráls til stéttarfélaganna þá býður félagið eftirfarandi launahækkanir á byrjanda launataxtann næstu 3 árin:

1 Janúar 2020    15.118 kr.

1 janúar 2021     17.829 kr.

1 janúar 2022     13.544 kr.

Samtals:              46.491 kr.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar að byrjanda launataxti starfsmanna hækki eins og gert var í lífskjarasamningum og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera á vandræða. En lífskjarasamningurinn tryggir eftirfarandi taxtahækkanir auk tryggingu fyrir svokölluðum hagvaxtarauka. En hækkanir lífskjarasamningsins eru eftirfarandi og eru kröfur VLFA og VR:

1 janúar 2020     24.000 kr.

1 janúar 2021     24.000 kr.

1 janúar 2022     25.000 kr.

Samtals:              73.000 kr.

Að hugsa sér að Norðurál skuli voga sé að hafna því að hækka launataxta sinna starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og bjóða þess í stað starfsmönnum að byrjendalaunataxti hækki um 26.509 kr. minna en hækkanir í lífskjarasamningum kveður á um eða sem nemur 57% lægri taxtahækkun, en allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera.

Þetta munu Verkalýðsfélag Akraness og VR aldrei samþykkja, enda ekki nokkrar forsendur til þess. Rekstrarforsendur Norðuráls eru blessunarlega mjög góðar um þessar mundir. Á þessum forsendum hafa áðurnefnd stéttarfélög hafið kosningu um yfirvinnubann og verkfall sem mun hefjast þann 1. desember en yfirvinnubannið þann 1. september nk..

Kosning stendur nú yfir og er hægt að kjósa á skrifstofu félagsins fram til hádegis 29. júlí og eru starfsmenn Norðuráls sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eindregið hvattir til að koma á skrifstofuna og kjósa.

Oft er þörf á samstöðu, en nú er nauðsyn!

14
Jul

Kosning um yfirvinnubann og verkfallsaðgerðir vegna kjarasamnings Norðuráls hafin

Í gær var fyrri fundur af tveimur sem Verkalýðsfélag Akraness og VR standa sameiginlega að vegna alvarlegrar stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félaganna við Norðurál. En um síðustu áramót rann kjarasamningur starfsmanna út og þrátt fyrir 22 samningafundi ber enn umtalsvert á milli deiluaðila.

Fundurinn var haldinn á Gamla kaupfélaginu og hófst hann klukkan 20:20 og stóð til að verða 22:30. Seinni fundurinn verður á morgun miðvikudaginn 15. júlí og hefst hann einnig kl 20:20  á Gamla kaupfélaginu.

Aðal ágreiningurinn lýtur að því að forsvarsmenn Norðuráls vilja ekki hækka grunnlaun starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist.

Krafa VLFA og VR er að byrjenda grunnlaun starfsmanna hækki frá og með 1. janúar 2020 um 24.000 kr. 1. janúar 2021 um 24.000 kr. og 1. janúar 2022 um 25.000 kr. en þetta eru sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kvað á um og nánast allur vinnumarkaður hefur undirgengist.

Norðurál býður hins vegar launahækkun frá 1. janúar 2020 um 15.118 kr. 1. janúar 2021 um 17.829 kr. og 1. janúar 2022  um 13.544 kr. En þessar forsendur miðast við að launavísitalan hækki um 4,80% á þessu ári og 4% árið 2021.

Það er með ólíkindum að Norðurál sem hefur skilað eigendum sínum hátt í  100 milljarða í hagnað skuli voga sér að bjóða sínum starfsmönnum hækkun á næstu þremur árum á grunnlaunum byrjanda um 46.491 á sama tíma og lífskjarasamningshækkarnar gefa hækkun sem nemur 73.000 kr. á sama tímabili. Hérna munar 26.509 kr. og er það morgunljóst að VLFA og VR munu alls ekki sætta sig við þessa niðurstöðu enda er félögin einungis að biðja um sömu launabreytingar á grunnlaunum byrjanda eins og langflestir aðilar á íslenskum vinnumarkaði hafa fengið.

Í ljósi alvarleika kjaradeilunnar hefur Verkalýðsfélag Akraness hafið kosningu um yfirvinnubann sem hefst 1. September og verkfallsaðgerðir sem hefjast 1. Desember ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. En verkafallsaðgerðirnar byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi samningsaðila.

Hægt verður að kjósa um verkafallsaðgerðir og yfirvinnubannið á fundinum á miðvikudaginn kemur  og á skrifstofu VLFA fram til kl. 12.00 miðvikudaginn 29. júlí.

Formanni VLFA er kunnugt um að VR sé einnig að hefja kosningu á meðal sinna félagsmanna um sömu verkfallsaðgerðir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image