• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Apr

Fimmtán starfsmönnum hjá Vigni G. Jónssyni sagt upp störfum

Rétt í þessu var Verkalýðsfélagi Akraness tilkynnt um hópuppsögn hjá fyrirtækinu Vignir G. Jónsson ehf. En 15 manns var sagt upp sem eru um 35% af öllum starfsmönnum fyrirtækisins.

Fyrirtækið Vignir G. Jónsson hefur unnið við vinnslu á ýmsum hrognum en vegna markaðsaðstæðna og loðnubrests síðustu tvö ár eru ástæður þessara uppsagna.

Rétt er að rifja upp að fyrirtækið Skaginn3X sagði upp 43 starfsmönnum fyrir síðustu mánaðarmót.

Þessi uppsögn hjá Vigni G. Jónssyni eru enn eitt risahöggið sem við Akurnesingar verðum fyrir hvað varðar atvinnumissi tengdum vinnslu sjávarafurða en formanni reiknast til að uppundir 300 fiskvinnslustörf hafi tapast í byggðarlaginu á síðustu tveimur og hálfa ári eða svo.

En eins og flestir vita töpuðust öll störf þegar HB Grandi ákvað að hætta vinnslu hér á Akranesi, á svipuðum tíma misstu allir vinnuna hjá hausaþurrkunarfyrirtækinu Laugafiski og fyrir tveimur mánuðum varð fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur gjaldþrota og núna ofan á þetta allt missa 35% starfsmanna hjá Vigni G. Jónssyni vinnuna.

Það er óhægt að fullyrða að staðan á íslenskum vinnumarkaði sé vægast sagt hrollvekjandi, en uppundir 56 þúsund manns eru búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta til. Formaður viðurkennir að hann hefur svo sannarlega áhyggjur af komandi mánuðum í ljósi þess gríðarlega tekjufalls sem launafólk er og á eftir að verða fyrir á næstu mánuðum.

Formaður er ekki í neinum vafa um að það verður að finna leiðir til að verja þau störf sem eftir eru á íslenskum vinnumarkaði með öllum tiltækum ráðum sem og réttindi sem Lífskjarasamningurinn tryggði. En núna eru eins og áður sagði um 56 þúsund manns af 140 þúsundum sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta eða sem nemur um 40%

28
Apr

Sjómenn athugið- skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi.

20
Apr

Félagsmenn athugið- frítt að veiða í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði

Eins og undanfarin ár þá býður Verkalýðsfélag Akraness öllum sínum félagsmönnum að veiða frítt í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði allt sumarið 2020 eða nánar tiltekið frá og með 1. apríl til og með 25. september. Um er að ræða norðanvert Eyrarvatn, allt Þórisstaðavatn og allt Geitabergsvatn. Leyfið gildir fyrir 1 félagsmann með 1 veiðistöng, en hann má bjóða með sér frítt 3 börnum sem eru 15 ára eða yngri.

Félagsskírteini hjá Verkalýðsfélagi Akraness gildir sem sumarkort fyrir hann og skal hann framvísa því ef þess er óskað hjá veiðivörðum. Veiðitímabilið er frá og með 1. apríl til og með 25. september. Daglegur veiðitími er kl. 7-23 en eftir 20. ágúst kl. 7-21

Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn.

16
Apr

Ertu búin að sækja um orlofshús í sumar ?

 

- Umsóknarfrestur er framlengdur til 26. apríl -

- Úthlutun fer fram mánudaginn 27.apríl -

 

Opið er fyrir umsóknir til 23. apríl.

 

Bæklingur um orlofshúsin er hér

Umsóknareyðublað er hér

Félagavefurinn okkar er hér  

 

Helstu dagssetningar 2020:

23. apríl - 26. apríl  Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

24. apríl -  27. apríl  Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)

6. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

7. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

7. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

14. maí  - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá eldri úthlutað. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á Félagavefnum og á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

15
Apr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk vegna óvissunnar sem nú ríkir vegna Kórónufaraldursins.

 

  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill að þak verði sett á vísitölu neysluverðs við útreikning á verðtryggðum húsnæðislánum, í ljósi þess að samfélagið er hugsanlega að sigla inní eina dýpstu efnahagslægð síðustu 100 ára.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja að íslensk heimili eigi kost á að sækja um greiðsluhlé, bæði hvað varðar afborganir af lánum, sem og leigu húsnæðis í allt að eitt ár.
  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness skorar á að stjórnvöld að standa við loforð sín sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum er lúta að nýjum hlutdeildarlánum, sem og bann á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að þau beiti sér af fullum þunga fyrir því að fjármálakerfið skili stýrivaxtalækkun Seðlabankans að fullu til neytenda og fyrirtækja.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu launafólks sem t.d. eru með undirliggjandi sjúkdóma og falla ekki undir lög um hlutabætur eða um laun í sóttkví.

Greinargerð:

Óvissan í íslensku efnahagslífi sem og óvissan á íslenskum vinnumarkaði kallar á að heimilin verði varin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti. Það er ekki bara að óvissa um þessa þætti heldur liggur einnig fyrir að grunnur neysluvísitölunnar er svo bjagaður að vart er mark á neysluvísitölunni takandi, enda fjöldinn allur af undirvísitölum neysluvísitölunnar orðin óvirkur vegna gjörbreytts neyslumynstur almennings. Íslensk heimili eiga að njóta vafans við þessar fordæmalausu aðstæður og því á að festa neysluvísitöluna við neðrivik mörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Það er mat stjórnar VLFA að hér fari ekki saman hljóð og mynd hjá stjórnvöldum og Seðlabankanum, enda lítið mál að setja slíkt þak á neysluvísitöluna til varnar heimilunum ef ekki sé gert ráð fyrir að á slíkt þak muni reyna á. Stjórn VLFA trúir ekki öðru en að núverandi stjórnvöld tryggi að fortíðarvandi verðtryggingar eins og gerðist í hruninu verði ekki látið raungerast með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk heimili.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Nú liggur fyrir að uppundir 50 þúsund einstaklingar eru komnir að fullu eða að hluta á atvinnuleysisbætur með tilheyrandi tekjuskerðingum og á þeirri forsendu er afar mikilvægt að heimilum sem þess þurfa verði boðið uppá að taka greiðsluhlé í allt að 12 mánuði til að forða fólki frá því að missa húsnæði sín. Hægt er að setja afborganir sem safnast upp á umræddu tímabili ofan á höfuðstólinn og lengja í lánum þeirra til jafns við greiðsluhléið sem viðkomandi nýtir sér.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Í Lífskjarasamningunum skuldbundu stjórnvöld sig með aðgerðapakka þar sem m.a. var loforð um að koma til móts við fyrstukaupendur með svokölluðum hlutdeildarlánum. Það er afar mikilvægt að koma þessu frumvarpi í gegn enda mun það örva byggingarmarkaðinn og hjálpa fyrstukaupendum eða eignast þak yfir höfuðið. Það var líka loforð um að banna hinn baneitraða kokteill sem 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulán en núna er tækifærið að stíga þau skerf samhliða frumvarpinu um hlutdeildarlánin.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Eitt af aðalmarkmiðum Lífskjarasamningsins var að semja með þeim hætti að hægt yrði að ná niður vaxtastiginu til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og fyrirtækja. Það tókst en stýrivextir Seðlabankans voru 4,5% þegar Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir en eru í dag 1,75% og hafa því lækkað um 2,75%. Það sorglega í þessu er að bæði viðskiptabankarnir og lífeyrissjóðirnir hafa því miður einungis skilað litlum hluta af þessari vaxtalækkun til neytenda og fyrirtækja og því mikilvægt að stjórnvöld grípi inní og krefji fjármálageirann að skila vaxtalækkuninni í meira mæli til heimila og fyrirtækja.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Það eru mjög margir sem eiga hvorki rétt á launum vegna þess að þau falla ekki undir lög um hlutabætur né lög um laun í sóttkví, vegna þess að það er með undirliggjandi sjúkdóma, eða eru með langveik börn og framvegis að fara í sjálfskipaða sóttkví. Þessum hópi mega stjórnvöld alls ekki gleyma í þeim úrræðum sem á eftir að kynna.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

15
Apr

Breytingar á kjörum iðnaðarmanna 1. apríl

Samkvæmt kjarasamningum fyrir iðnaðarmenn sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins í fyrravor verður tekinn upp virkur vinnutími 1. apríl næstkomandi. Starfsmaður í fullu starfi fær greiddar 37 vinnustundir á viku fyrir fullt starf. Deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33 tímar. Jafnframt er í samningum heimild til að semja um 36 stunda vinnuviku. 

Við upptöku virks vinnutíma eru 37 klst. greiddar að jafnaði á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst. og deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu  hækkar því um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma, kaffitímar verða áfram teknir með sama fyrirkomulagi og áður, 35 mínútur á hverjum virkum degi. Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. Þar sem starfsmaður nýtur aukagreiðslna m.v. 40 klst. á viku (t.d. verkfæra- eða fatagjalds) taka þær hækkun 8,33% til samræmis.

Engar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi kaffihléa í yfirvinnu, þau verða áfram greiddur tími og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri tími sem unninn er.

Sjá nánar hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image