• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Apr

VLFA skilar inn umsögn um lífeyrismál

Verkalýðsfélag Akraness skilaði inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur VLFA lagst alfarið gegn þessu frumvarpi enda með ólíkindum að verið sé að lögbinda iðgjald með þeim þvingunum sem í því er fólgið. Það er staðföst trú VLFA að sjóðsfélagar og launafólk eigi að hafa val til að ráðstafa sínum lífeyrissparnaði eins og kostur er og því engin ástæða til að flækja lífeyriskerfið enn frekar með því að búa til enn eitt formið sem nú ber nafnið tilgreind séreign.

Það er rétt að geta þess að meginreglan í dag er sú að allt iðgjaldið rennur til lífeyrissjóðanna og fer í samtrygginguna ef launafólk lætur ekki vita að það vilji að 3,5% renni í séreign. Það er rétt að geta þess að um 98% launafólks er að greiða allt iðgjaldið inn í samtrygginguna en einungis um 2% hafa valið að setja 3,5% í tilgreinda séreign. Þetta er ekki vegna þess að launafólk hafi meiri trú á samtryggingarkerfinu heldur er það vegna vanþekkingar á hvernig kerfið virkar. Og með þessari lagabreytingu er verið að flækja kerfið enn frekar.

Það er með ólíkindum að það skuli vera ASÍ sem stuðlar að því að valfrelsi launafólks sé takmörkunum háð enda er það undarlegt hvernig er hægt að vera á móti því að launafólk hafi val um að ráðstafa 3,5% annað hvort í samtryggingu, tilgreinda séreign eða í frjálsan viðbótarsparnað. Af hverju má fólk ekki hafa þetta val? Það liggur fyrir að tilgreind séreign verður með þrengri skorður heldur en frjáls viðbótarsparnaður sem eru meðal annars fólgnar í því að fólk má ekki byrja að taka hana út fyrr en 62 ára í stað 60 ára og það má ekki nota tilgreinda séreign til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána eins og hefðbundinn viðbótarsparnaður heimilar.

Það er líka umhugsunarefni í ljósi þess að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum, enda eru það stéttarfélögin sem eru að véla með lífsviðurværi launafólks í sínum kjarasamningum, skuli ekki hafa verið höfð með í ráðum við gerð þessa frumvarps.

 

Hér má skoða umsögnina

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image