• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Apr

Afkoma félagsins mjög góð

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gærkvöldi og var góð mæting á fundinn. Það er skemmst frá því að segja að afkoma félagsins var mjög góð á síðasta ári en rekstrarafgangur félagsins nam 121 milljón. 

Fram kom í skýrslu stjórnar félagsins að félagið hafi ekki tapað einni einustu krónu vegna þeirra hamfara sem riðu yfir fjármálakerfið í október. Allir fjármunir félagsins hafa ávalt verið ávaxtaðir með besta og tryggasta hætti sem mögulegt er hverju sinni.

Formaður fór yfir í skýrslu stjórnar hversu gríðarlegum breytingum Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið á undanförnum árum. Ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega. Félagsmönnum hefur t.a.m. fjölgað mjög ört undanfarin ár og eru núna tæplega 3.000 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness en voru rúmlega 1.600 þegar ný stjórn tók við árið 2003.

Endurskoðendur félagsins fóru yfir ársreikninga félagsins. Fjárhagur félagsins tekið algerum stakkaskiptum frá því ný stjórn tók við en sem dæmi þá var félagssjóður félagsins rekinn á yfirdrætti þegar ný stjórn tók við 19. nóvember 2003 og halli félagssjóðs nam tæpum 2 milljónum. En í dag voru allir sjóðir félagsins reknir með rekstrarafgangi og eins og áður kom fram var heildarrekstrarafgangur 121 milljón króna.

Vegna góðrar afkomu félagsins undanfarin ár hafa stjórnir sjóða félagsins verið að auka réttindi félagsmanna jafnt og þétt og sem dæmi þá hafa verið teknir inn níu nýir bótaflokkar hjá sjúkrasjóði félagsins og er þetta einungis gert vegna góðrar afkomu félagsins.

Tvær nýjungar í þjónustu félagsins voru kynntar á fundinum í gær. Stjórn orlofssjóðs hefur ákveðið að endurgreiða félagsmönnum 5.000 kr. á ári vegna gistingar á tjaldstæðum eða kaupa á svokölluðum útilegukortum. Framvísa þarf kvittun á skrifstofu. 

Einnig hefur stjórn sjúkrasjóðs ákveðið að endurgreiða vegna kaupa á gleraugum barna félagsmanna 50% af reikningi að hámarki kr. 10.000 á hverju 12 mánaða tímabili.

Að sjálfsögðu var vandi heimilanna til umræðu á aðalfundinum og lagði formaður félagsins fram ályktun sem lýtur að greiðsluvanda heimilanna og var hún samþykkt með meginþorra atkvæða. Hægt er að lesa ályktunina í heild sinni hér.

Það var afar ánægjulegt að heyra hversu ánægðir fundarmenn voru með starfsemi félagsins og gerir slíkt ekkert annað en að efla stjórnir og starfsmenn félagsins enn frekar til dáða.

21
Apr

Aðalfundur 2009 - Félagsmenn munið fundinn í kvöld

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill minna félagsmenn sína á að aðalfundur félagsins verður haldinn í kvöld kl. 18:00 í matsal Sementsverksmiðjunnar (Fortuna).

Að loknum venjubundnum aðalfundarstörfum verður fundargestum boðið upp á kvöldverð.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Ítarlega verður greint frá fundinum á morgun.

20
Apr

Góður framboðsfundur vegna alþingiskosningana

Rúmlega eitthundrað manns mættu á opinn fund með fulltrúum allra þeirra stjórnmálaflokka sem taka þátt í komandi alþingiskosningum.  Það var Verkalýðsfélag Akraness sem stóð fyrir fundinum.

Fundurinn þótti takast mjög vel en hann hófst kl 15:00 og lauk ekki fyrir en kl 18:00.  Fyrirkomulagið á fundinum var með þeim hætti að formaður Verkalýðsfélags Akraness hélt ræðu og opnaði fundinn.  Í kjölfarið fluttu frambjóðendur með framsögu.  Að framsögum loknum var opnað fyrir spurningar úr sal. Fundarmenn nýttu sér það óspart og fjölmargar spurningar um hin ýmsu mál voru bornar fram.

Formaður sagði í sinni ræðu að það væri alveg morgun ljóst að ekki væri við íslenskt verkafólk að sakast hvernig komið væri fyrir íslensku atvinnu- og efnahagslífi eftir hrun fjármálakerfisins, heldur mætti rekja ábyrgðina til aðila sem stjórnuðust af græðgisvæðingunni einni saman og þeirra aðila sem áttu að sinna eftirliti með fjármálakerfinu. Hægt er að lesa ræðu formanns í heild sinni hér.

Allir frambjóðendur þökkuðu Verkalýðsfélagi Akraness kærlega fyrir það frumkvæði sem félagið hefði tekið með því að boða til þessa fundar og gefa kjósendum á Akranesi færi á að hlusta og spyrja frambjóðendur um helstu stefnumál flokkanna.

Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis vildi þakka Verkalýðsfélagi Akraness sérstaklega fyrir það frumkvæði sem félagið hefði haft í mörgum málum, ekki bara hvað verðar þennan fund heldur mörg önnur hagsmunamál félagsmanna og reyndar bæjarbúa allra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vonar að þessi fundur hafi hjálpað þeim sem á hann mættu til að ákveða sig hvað þeir hyggjast kjósa í komandi kosningum og hvetur félagið kjósendur eindregið til að nýta kosningarétt sinn.  Það fer ekki á milli mála að þessar kosningar eru einar þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið á síðustu áratugum og á þeirri forsendu skiptir máli að kjósendur nýti sinn kosningarrétt.

17
Apr

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í heimsókn

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðvestur kjördæmi þau Einar K. Guðfinnsson og Birna Lárusdóttir kíktu í heimsókn á skrifstofu félagsins í dag.

Gestirnir gerðu formanni grein fyrir helstu stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningabaráttu og átti formaður gott spjall við þau.

Formaður greindi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra m.a. frá því að hann teldi að skýlaust ætti að auka þorskkvóta enn frekar í allt að 200.000 tonn enda bendir allt til þess að þorskstofninn hér við land hafi fulla burði til að þola þá veiði og grundvallaratriði er að hér verði skapaðar auknar útflutningstekjur og fleiri störf. Formaður greindi þeim einnig frá því að það væri algerlega ólíðandi þegar útgerðarmenn sýndu ekki samfélagslega ábyrgð og tækju einhliða ákvarðanir um að selja sína aflaheimildir og skilja fólkið eftir í átthagafjötrum eins og gerst hefur vítt og breitt um landið.

Það er alltaf ánægjulegt þegar frambjóðendur og þingmenn í kjördæminu sjá sér fært að kíkja í heimsókn á skrifstofu félagsins og er ávalt tekið vel á móti öllum.

16
Apr

Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir opnum stjórnmálafundi með frambjóðendum

Það vakti mikla furðu hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness þegar hann komst að því að ekki var fyrirhugað að halda opinn borgarafund hér á Akranesi fyrir einar mikilvægustu alþingiskosningar sem haldnar hafa verið hér síðustu áratugi.

Vel á fimmta þúsund kjósendur í Norðvestur kjördæmi eru búsettir á Akranesi, eða sem nemur 21% allra kjósenda kjördæmisins.

Á þeirri forsendu hversu gríðarlega mikilvægar þessar kosningar eru fyrir heimilin og fyrirtækin í þessu landi ákvað Verkalýðsfélag Akraness að standa fyrir opnum borgarafundi á sunnudaginn kemur. Fundurinn verður haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi og hefst klukkan 15:00.

Verkalýðsfélag Akraness vill fá skýr svör frá frambjóðendum flokkanna um hver úrræði þeirra séu fyrir fólkið og fyrirtækin í þessu landi en um þessar mundir blæðir íslenskum heimilum illilega vegna þess efnahagshruns sem hefur orðið í kjölfar bankahrunsins.

Fundurinn er fyrirhugaður með þeim hætti að einn frambjóðandi frá hverjum flokki fyrir sig mun sitja í pallborði og gefst frambjóðendum kostur á framsögu og í kjölfarið munu verða leyfðar fyrirspurnir úr sal. Einnig mun formaður Verkalýðsfélags Akraness mun flytja stutt ávarp í upphafi fundar.

Fundarstjóri verður Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns.

Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla til að fjölmenna á fundinn og krefja frambjóðendur um skýr svör varðandi þeirra stefnumál og hvernig þeir hyggjast leysa vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.

15
Apr

20% aukning á umsóknum um orlofshús sumarið 2009

Það er æði margt sem bendir til þess að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ætli að ferðast meira innanlands í ár ef marka má þá miklu aukningu sem orðið hefur í umsóknum um sumardvöl í orlofshúsum félagsins. Aukningin nemur 20% frá því í fyrra.

Úthlutunin stendur nú yfir og fer þannig fram að eftir að allar umsóknir hafa verið skráðar inn í tölvukerfi orlofssjóðs raðar það öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og í þremur íbúðum á Akureyri. Að auki er félagið með í leigu bústað að Eiðum (nánari upplýsingar hér) eins og undanfarin sumur. Nýir orlofshúsamöguleikar eru bústaður í Stóru Skógum (nánari upplýsingar hér) og bústaður í Flókalundi í Vatnsfirði (nánari upplýsingar hér).

Helstu dagssetningar:

14. apríl kl. 16:00 - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús í sumar rennur út

16. apríl - Fyrri úthlutun lokið, allir umsækjendur fá sent bréf um úthlutun

04. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

07. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

18. maí  - Eindagi endurúthlutunar

19. maí  - Fyrstur kemur, fyrstur fær! Lausum vikum er úthlutað til þeirra sem fyrstir koma

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image