• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Apr

1. maí á Akranesi!

Eins og venjulega verður 1. maí haldinn hátíðlegur á Akranesi á morgun.

Dagskráin er á þá leið að safnast verður saman kl. 14:00 við Kirkjubraut 40 þaðan sem farið verður í kröfugöngu um neðri Skaga. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

Ræðumaður dagsins er Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Kvennakórinn Ymur og Grundartangakórinn munu syngja nokkur lög og að dagskrá lokinni verður boðið upp á veglegar kaffiveitingar.

Athygli er vakin á því að frítt er í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15:00

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna.

29
Apr

Fréttablað Verkalýðsfélag Akraness borið út á morgun

Fréttablað Verkalýðsfélag Akraness er nú tilbúið og verður borið í hús á morgun. Það er ánægjulegt að geta lagt kvennaknattspyrnunni á Akranesi lið en 3. flokkur kvenna mun sjá um útburð blaðsins.

Blaðið er hægt að lesa hér á síðunni með því að smella hér.

27
Apr

Vinnu við fréttablað Verkalýðsfélags Akraness að ljúka

Vinnu við fréttablað Verkalýðsfélags Akraness er nú að ljúka og er áætlað að hægt verði að koma því í dreifingu fimmtudaginn 30. apríl.

Fréttablað VLFA hefur verið gefið út tvisvar á ári síðan ný stjórn tók við, fyrir 1. maí og aftur í desember. Hægt er að lesa áður útgefin fréttablöð með því að smella hér.

24
Apr

Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, í heimsókn á skrifstofu félagsins

Í dag leit Guðbjartur Hannesson, frambjóðandi Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi og forseti Alþingis við á skrifstofu félagsins. Gerði Guðbjartur formanni grein fyrir helstu stefnumálum flokksins í komandi kosningabaráttu og átti formaður gott spjall við hann.

Formaður greindi Guðbjarti frá því að aðalfundur Verkalýðsfélag Akraness hefði samþykkt ályktun þar sem fram kemur að fundurinn teldi afar brýnt að til kæmi einhvers konar niðurfærsla eða leiðrétting á skuldum heimilanna. Það liggur fyrir að í dag eru um 40.000 einstaklingar með neikvæða eiginfjárstöðu þannig að með öðrum orðum þá skulda þessir einstaklingar meira en þeir eiga.

Það bendir margt til þess að þetta eigi einungis eftir að versna þar sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir að fasteignaverð eigi eftir að falla um allt að 50% á næstu misserum. Á þeirri forsendu óttast VLFA að skuldsett heimili taki einfaldlega þá ákvörðun að hætta að greiða af sínum skuldum með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið.

Það var ánægjulegt að heyra hjá forseta Alþingis að Samfylkingin hyggist breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi með svokallaðri fyrningarleið, en í þessu kjördæmi hefur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi leikið marga grátt. Það er með öllu óþolandi að til séu útgerðarmenn sem sýna ekki samfélagslega ábyrgð og geti selt sínar aflaheimildir og skilið sjómenn og fiskvinnslufólk eftir atvinnulaust í átthagafjötrum.

Það er alltaf ánægjulegt þegar frambjóðendur og þingmenn í kjördæminu sjá sér fært að kíkja í heimsókn á skrifstofu félagsins og er ávalt tekið vel á móti öllum.

24
Apr

Fréttatilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér fréttatilkynningu á miðvikudaginn var um þá ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness á þriðudaginn sl.  Heimasíða samtakanna er www.heimilin.is

Forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna hafa jafnframt óskað eftir fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness og er fundurinn fyrirhugaður í næstu viku.

Fréttatilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skuli fyrst verkalýðsfélaga taka undir sjónarmið samtakanna um nauðsyn þess að leiðrétta beri skuldir heimilanna. Enn fremur kalla Hagsmunasamtök heimilanna eftir frekari stuðningi annarra aðildarfélaga ASÍ.

22
Apr

Ályktun aðalfundar um vanda heimilanna vakið jákvæð viðbrögð

Ályktun sem aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í gær um vanda heimilanna hefur vakið gríðarlega jákvæða athygli.  Sem dæmi þá hafði forsvarsmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna samband við formann og lýsti yfir gríðarlegri ánægju með ályktun aðalfundarins en samtökin hafa lengi beðið eftir viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar vegna bráðs vanda skuldsettra heimila. 

Ályktunin er með eftirfarandi hætti:

Ályktun

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn 21. apríl 2009 skorar á íslensk stjórnvöld að grípa til tafarlausra aðgerða vegna gríðarlegs vanda heimilanna.  Í dag eru um 40 þúsund einstaklingar með neikvæða eiginfjárstöðu sem nær til um þriðjungs allra heimila í landinu.  Það er ljóst að neikvæð eiginfjárstaða heimilanna á einungis eftir að versna til muna því Seðlabankinn gerir ráð fyrir að fasteignaverð eigi eftir að falla um allt 50% að raungildi.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að koma í veg fyrir að einstaklingar taki þá ákvörðun að hætta að greiða af sínum skuldum sökum þess að skuldir hafi vaxið langt umfram eignir vegna þeirra hamfara sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf.

Á þeirri forsendu skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að grípa til róttækrar niðurfærslu  og leiðréttingar á skuldum íslenskra heimila. Það er mat aðalfundarins að stór hætta sé á að einstaklingar sjái ekki hag í því að greiða sínar skuldir lengur með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið.

Einnig skorar aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness á stjórnvöld að þau finni tafarlaust lausn á vanda um 50 þúsund einstaklinga sem tekið hafa svokölluð myntkörfulán vegna bílakaupa. Fjölmargar fjölskyldur endurnýjuðu bíla sína á undangengnum þensluárum, og oftar en ekki með lánsfé sem þá var auðfengið hjá bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum. Erlend myntkörfulán voru algengust og gjarnan tryggð með sérstöku veði í heimilum lántakenda og ábyrgðarmanna.  Þessir einstaklingar eru nú í bráðri hættu á að missa heimili sín vegna gríðarlegrar hækkunar þessara lána.  Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um vanda þessa fólks.

Aðalfundurinn gerir sér fulla grein fyrir því að stjórnvöld munu grípa til niðurskurðar vegna þess 150 milljarða króna fjárlagahalla sem nú blasir við.  Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að slá skjaldborg um þá tekjulægstu þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image