• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Íhugar að skrifa ekki undir fyrirliggjandi kjarasamning Niðurskurðartillögu hafa verið samþykktar í bæjarráði
07
Jul

Íhugar að skrifa ekki undir fyrirliggjandi kjarasamning

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var fimmtudaginn 2. júlí 2009 voru samþykktar alls kyns sparnaðarleiðir fyrir bæjarsjóð. Það sem vakti sérstaka athygli formanns Verkalýðsfélags Akraness voru verulegar breytingar á vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja og skólaliða sem mun klárlega hafa umtalsverð áhrif á launakjör þessara hópa.

Í fundargerð bæjarráðs kemur m.a. fram að frá 1. október nk. verði breyting á opnunartíma íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum, íþróttahússins við Vesturgötu og Bjarnalaugar. Opnunartími verði styttur um eina klukkustund virka daga og tvær klukkustundir laugardaga og sunnudaga. Lokað verði alla stórhátíðardaga og sérstaka frídaga.

Þessi ákvörðun þýðir það að starfsmenn íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar eru að lækka frá rúmum 10% upp í rétt tæp 15%. Formaður hefur dæmi um einstaka starfsmenn sem eru við þetta að lækka um 365.000 til 800.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er algjörlega óviðunandi að starfsmaður sem er með 3.379.000 krónur í árslaun, eða 281.000 á mánuði skuli lækka í launum niður í 3.011.000 krónur á ársgrundvelli eða sem nemur 31.000 krónum á mánuði. Hér er um að ræða skerðingu á launum sem ekki ná 300.000 krónum á mánuði. Það er ljóst að skólaliðar grunnskólanna munu einnig verða fyrir umtalsverðri skerðingu.

Rétt er að geta þess að grunnlaun starfsmanns íþróttamannvirkja sem er 25 ára eru í dag 171.000 krónur.

Formaður átti í dag samtal við Gísla S. Einarsson bæjarstjóra Akraneskaupstaðar þar sem formaður gerði alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja og taldi formaður að það væri yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda og sveitastjórna að slá skjaldborg um þá starfsmenn sem ekki ná launum sem nema 300.000 krónum á mánuði.

Fram kom í máli bæjarstjóra að það væri hans persónulega mat að ekki ætti að hrófla við launum einstaklinga sem væru með undir 300.000 krónum á mánuði og tók hann undir með formanni að æskilegt hefði verið að launanefnd sveitarfélaga hefði mótað einhverja heildstæða stefnu fyrir öll sveitarfélög í landinu sem varðar niðurskurð á launakjörum starfsmanna.

Formaður tjáði bæjarstjóra að það væri grundvallaratriði að skipa vinnuhóp með þeim stéttarfélögum sem eiga aðild að kjarasamningum við Akraneskaupstað auk trúnaðarmanna, þar sem farið yrði yfir þessi mál. Því það er grundvallaratriði að víðtæk sátt náist á meðal starfsmanna Akraneskaupstaðar um þær sparnaðarleiðir sem fyrirhugaðar eru. Það er algjörlega ólíðandi að starfsfólk sem nær ekki 300.000 krónum í mánaðarlaun verði fyrir jafn mikilli skerðingu og raun ber vitni.

Formaður vill fá að sjá hvaða breytingum aðrir starfsmenn Akraneskaupstaðar taka á sínum launakjörum, t.d. forstöðumenn, starfsmenn í stjórnunarstöðum, kennarar og æðstu stjórnendur bæjarins.

Verkalýðsfélag Akraness hefur fullan skilning á því að sveitarfélög vítt og breitt þurfa að leita allra leiða til að vinna sig út úr því skelfingarástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Hins vegar gerir Verkalýðsfélag Akraness þá kröfu að slegin verði skjaldborg um þá starfsmenn sem eru undir 300.000 kr. í mánaðarlaun. Það er einfaldlega lítið sem ekkert hægt að taka af slíkum launum, þau rétt duga til lágmarksframfærslu miðað við þá gengdarlausu hækkun sem orðið hefur á greiðslubyrði fólks.

Því mun Verkalýðsfélag Akraness íhuga það sterklega að skrifa ekki undir kjarasamning sem nú liggur nánast klár fyrir við launanefnd sveitarfélaganna fyrr en þessi mál verða komin á hreint. Það hlýtur að vera skilningur á meðal allra að starfsmenn sem ná ekki 300.000 í mánaðarlaun geta á engan hátt tekið á sig skerðingu á sínum launum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image