• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jul

Ný spá hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum

Nú stendur yfir mesta samdráttarskeið í íslensku efnahagslífi á síðari tímum. Framundan eru tvö erfið ár þar sem landsframleiðsla dregst mikið saman og lífskjör rýrna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá Hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum til ársins 2012. Hagdeildin spáir ríflega 10% samdrætti í landsframleiðslu í ár og áframhaldandi samdrætti á fyrri hluta næsta árs, en að botninum verði náð á öðrum ársfjórðungi það ár og efnahagslífið byrji að rétta úr kútnum í framhaldinu.

Staða heimilanna er þröng, ráðstöfunartekjur lækka og atvinnuástand er afar slæmt. Útlit er fyrir að atvinnuleysi verði 9-10% næstu misserin þótt heldur dragi úr þegar líða tekur á spátímabilið. Háir vextir, veik króna, takmarkað aðgengi að lánsfé og minnkandi eftirspurn gerir rekstrarskilyrði fyrirtækja erfið. Þungar vaxtagreiðslur, vaxandi útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í tekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera á næstu árum.

Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera. Verðbólga hjaðnar og verður komin í 4% í árslok og gengi krónunnar verður stöðugra en helst áfram hátt. Í spánni er gert ráð fyrir að Seðlabankinn haldi áfram að lækka stýrivexti þegar skýr merki sjást um að tekist hafi að endurvekja traust á íslenskt efnahagslíf og þá mun hann jafnframt létta á gjaldeyrishöftum í áföngum.

Það eru ekki til neinar töfralausnir á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir en það skiptir miklu máli að takast strax á við erfiðleikana og vinna sig út úr þeim með markvissum hætti til þess að grafa ekki undan velferðarkerfinu og rýra lífskjör til framtíðar. Við megum ekki gleyma því að þótt á móti blási um stund, þá búum við yfir miklum mannauði og auðlindum sem standa óhögguð. Við eigum fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum og jarðvarmann og síðast en ekki síst vel menntaða, unga þjóð. Við höfum því alla burði til að vinna okkur út úr vandanum á skömmum tíma.

Takist okkur að auka trúverðugleika hagkerfisins eins og að er stefnt í nýgerðum stöðugleikasáttmála stjórnvald og aðila vinnumarkaðarins mun endurreisnin ganga hraðar en spáin gerir ráð fyrir. Áhrifin munu þá birtast í jákvæðari horfum á síðari hluta spátímans.

Hagspána má sjá í heild sinni hér.

Heimild ASÍ

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image