• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jul

Laun hækka um 6.750,- en skerðast á móti um tugi þúsunda

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir samning um framlengingu og breytingar á kjarasamningi félagsins við Launanefnd sveitarfélaga.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá velti formaður félagsins því alvarlega fyrir sér hvort hann ætti yfir höfuð að skrifa undir þennan kjarasamning vegna þeirrar ákvörðunar bæjarráðs Akraneskaupstaðar að breyta vinnutilhögun skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja. Þessar breytingar hafa þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.

Verkalýðsfélag Akraness tók þá ákvörðun að skrifa undir þennan samning á þeirri forsendu að allflest stéttarfélög hafa þegar gengið frá framlengingu á kjarasamningi. Mun Verkalýðsfélag Akraness hins vegar reyna eftir fremsta megni að fá þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra VLFA breytt með einum eða öðrum hætti.

Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness skrifað bæjarráði og bæjarstjórn bréf þar sem óskað er eftir því að skipaður verði vinnuhópur sem muni fara yfir þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert svar borist frá bæjaryfirvöldum. Hægt er að lesa bréfið hér.

Það er í raun og veru grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði.

Það er skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að bæjaryfirvöld á Akranesi hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu.

Aðalatriði samningsins má sjá með því að smella á meira.

Samningurinn mun birtast í heild sinni hér á heimasíðunni á morgun.

Aðalatriði samningsins:

  • Gildistími samnings er 1. júlí 2009 – 30. nóvember 2010.
  • Ný launatafla tekur gildi frá 1. júlí 2009.
  • Launataxtar. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000 hækka 1. júlí 2009 og 1. nóvember 2009 um kr. 6.750.-  en hækka minna frá 180.000 kr. að 210.000. Laun umfram 210.000 kr í júlí og 220.000 kr. í nóvember 2009 taka ekki hækkunum.  Mánaðarlaun fyrir dagvinnu allt að kr. 180.000.-  hækka 1. júní 2010 um kr. 6.500.- en hækka minna að kr. 225.000. Mánaðarlaun fyrir dagvinnu umfram kr. 225.000.- eru óbreytt.
  • Starfsmenn í tímamældri ákvæðisvinnu og ræstingu samkvæmt fermetragjaldi hækka, sjá nánar meðfylgjandi skjal.
  • Lágmarkslaun fyrir fullt starf skulu vera kr. 157.000.- frá 1. júlí 2009, kr. 165.000.- frá 1. nóvember 2010 og kr. 170.000.-  frá 1. júní 2010, fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Orlofsuppbót árið 2010 verður kr. 25.800.- 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image