• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Staðið verði við gerða kjarasamninga Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fundaði um nýgerðan stöðugleikasáttmála í gær
01
Jul

Staðið verði við gerða kjarasamninga

Í gær var haldinn stjórnarfundur þar sem hin ýmsu mál voru til umfjöllunar. Aðalmálið var nýgerður stöðugleikasáttmáli og afstaða félagsins til samkomulags samninganefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá 25. júní sl.

Afstaða félagsins hefur ætíð verið hvellskýr hvað varðar afslátt og frestun á kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008. Hún er sú sama og þegar umsömdum launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars sl. var frestað, það er að Samtök atvinnulífsins standi í einu og öllu við hóflega gerðan kjarasamning sem undirritaður var þann 17. febrúar 2008.

Verkafólk sem vinnur eftir launatöxtum hefur nú þegar orðið af 54.000 kr. því ef staðið hefði verið við kjarasamninginn frá 2008 þá hefði launataxtar hækkað um 13.500 kr. þann 1. mars sl. Verkafólk hefur því miður enga burði til að gefa af sínum launum í ljósi þess að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, olíufélög, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpa sínum vanda beint út í verðlagið. Greiðslubyrði verkafólks hefur aukist gríðarlega á undanförnum mánuðum og misserum.

Ef það verður hins vegar vilji meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að taka áðurnefndu samkomulagi við SA þá er það skýlaus krafa Verkalýðsfélags Akraness að slíkt verði lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem vinna eftir áðurnefndum kjarasamningum.

Því miður er margt sem bendir til þess að samninganefnd ASÍ hræðist að fara með samkomulagið frá 25. júní í allsherjaratkvæðagreiðslu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness trúir því ekki fyrr en hann tekur á því að samkomulagið frá 25. júní verðir ekki lagt fyrir þá félagsmenn sem starfa eftir þeim samningum sem gerðir voru 17. febrúar 2008. Því miður óttast formaður að nú þegar sé búið að ákveða að fara ekki með samkomulagið í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Verkalýðsfélag Akraness hefur einnig gert athugasemdir við að samninganefnd ASÍ hafi ekki heimild til að afgreiða endurskoðunarákvæði kjarasamninganna með þeim hætti sem hún hefur gert, þ.e.a.s. að fresta umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl. og síðan aftur 25. júní en í því samkomulagi er gert ráð fyrir að helmingur af 13.500 kr. komi til framkvæmda 1. júlí.

Þessa afstöðu byggir Verkalýðsfélag Akraness á lögfræðilegu áliti sem félagið lét gera. Lögfræðiálitið er hægt að lesa í heild sinni með því að smella hér

Rætt var við formann Verkalýðsfélags Akraness í Reykjavík síðdegis í gær um hin ýmsu atriði tengd réttindum launafólks. Hægt er að hlusta með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image