• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kreppusáttmáli Verkalýðshreyfingin þarf að standa vörð um launakjör í landinu
26
Jun

Kreppusáttmáli

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá var í gær undirritaður stöðugleikasáttmáli milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins einnig gengið frá samkomulagi um breytingar á gildandi kjarasamningi sem felur í sér að launþegar á almenna vinnumarkaðinum fresti enn frekar umsömdum launahækkunum.

Í dag er talað um að helmingur hækkunarinnar, kr. 6.750, komi til framkvæmda 1. júlí n.k. Einnig komi til helmingur hækkunar á ákvæðisvinnutöxtum, kostnaðarliðum og fastákveðnum launabreytingum. Hinn helmingur hækkunarinnar komi til framkvæmda 1. nóvember 2009. Þessar hækkanir áttu að koma til framkvæmda 1. mars sl. auk verðbóta á laun þar sem forsendur kjarasamninga eru löngu brostnar.

Þá er talað um að 3,5% launaþróunartrygging komi til framkvæmda 1. nóvember 2009 í stað 1. mars sl. Þá frestist einnig launahækkanir sem koma áttu til framkvæmda 1. janúar 2010 til 1. júní 2010. Samkvæmt þessum hugmyndum, sem byggja á verulegri kjaraskerðingu launþega á almenna vinnumarkaðinum, er hækkunin 1. júlí sú eina sem er föst í hendi þar sem endurskoðunar- og framlengingarákvæðið samningsins frestast og ákvörðun um framlengingu skal lokið eigi síðar en 27. október 2009. Staðan er því ekki glæsileg fyrir verkafólk sem vænst hafði verulegra breytinga á sínum kjörum í sumar. 

Á formannafundi Starfsgreinasambandsins á sl. þriðjudag var rætt um svokallaðan Stöðugleikasáttmála. Töldu einstaka fundarmenn það mjög óeðlilegt að kalla samkomulag aðila Stöðugleikasáttmála, sáttmála sem byggði á því að launþegar þyrftu að taka á sig verulegar kjaraskerðingar, aukna skattbyrði, aukið atvinnuleysi og þá væri verðlag í sögulegu hámarki og boðaðar væru verulegar skerðingar á opinberri þjónustu.

Það sem verra væri að frekari skattahækkanir, niðurskurður og verðlagshækkanir væru í kortunum.  Voru margir formenn SGS sammála því að ekki væri við hæfi að tala um Stöðugleikasáttmála og að rétt væri að kalla sáttmálann Kreppusáttmála.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til þess samkomulags SA og ASÍ um að fresta enn einu sinni umsömdum launahækkunum hefur verið hvellskýr.  Samtök atvinnulífsins eiga að standa við hóflegan kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008 ella verði samningum sagt upp.  Þetta er afstaða VLFA og hefur hún ekkert breyst. 

Verði það hins vegar vilji meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að taka tilboði SA um frestun þá á að fara skýlaust með slíkt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra starfsmanna sem starfa eftir umræddum kjarasamningum.  Allt annað eru ólýðræðisleg vinnubrögð.  


 

Hægt er að lesa stöðugleikasáttmálann í heild sinni með því að smella hér.

Hægt er að lesa samning ASÍ og SA með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image