• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
May

Verkalýðsfélag Akraness er sterkt fjárhagslega sem félagslega

Á stjórnarfundi í fyrradag fór endurskoðandi félagsins yfir reikninga félagsins og er óhægt að segja að afkoma félagsins sé bara góð þrátt fyrir Kórónufaraldurinn og áhrifa sem af honum hlutust.

En rekstrarafgangur samstæðunnar var 133 milljónir og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 2 milljörðum. Rekstrartekjur félagssjóðs lækkuðu um 6,12% en það gerðu einnig rekstrargjöldin en þau lækkuðu um 4,12%.

Sjúkrasjóður greiddi um 100 miljónir í styrki og sjúkradagpeninga sem er um 13% aukning á milli ára.

Nú liggur fyrir að aðalfundur félagsins verður miðvikudaginn 26. maí og verður hann haldinn á Gamla kaupfélaginu enda liggur nú fyrir að sóttvarnaryfirvöld eru að létta á takmörkunum.

Eins og sést á þessu þá er staða Verkalýðsfélags Akraness mjög góð og sterk ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega. Það liggur líka fyrir að stjórn félagsins reynir ávallt að þjónusta sína félagsmenn með eins góðri þjónustu og réttindi eins og kostur er.

Það liggur fyrir í samanburði t.d. á mörgum mikilvægum styrkjum úr sjúkrasjóði að VLFA er að standa sig mjög vel enda styrkir í sumum tilfellum töluvert hærri en hjá stærri stéttarfélögum innan SGS.

Eins og alltaf þá er það stefna stjórnar VLFA að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár er enginn undantekning þar á og eru bæði heilsueflingarstyrkur og heilsufarsskoðunarstyrkur hækkaðir. Heilsufarsskoðunarstyrkurinn hækkar um 40% og heilsueflingarstyrkurinn um 33%.

Þessu til viðbótar ákvað stjórn orlofssjóðs að félagsmenn muni eiga rétt á 10.000 kr. endurgreiðslu vegna hótelgistingar eða gistingar á tjaldsvæðum vítt og breitt um landið.

Í myndinni með þessari frétt er samburður á milli 4 stærstu stéttarfélaga og VLFA á þremur styrkjum milli félaganna og á mýndi má sjá að VLFA stendur vel að vígi í þeim samanburði.

01
May

1. maí ræða formanns Verkalýðsfélags Akraness

Ágætu félagar

Ég vil byrja á að óska félagsmönnum mínum sem og öllu launafólki innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins á þessum fordæmalausu tímum. En eins og allir vita þá hefur Kórónuveirufaraldurinn gert það að verkum að allri hátíðardagskrá verkalýðshreyfingarinnar hefur verið aflýst annað árið í röð og er það gert til að fylgja tilmælum frá Almannavörnum.

Það er klárt mál að þessi faraldur verður skráður á spjöld sögunnar enda eru áhrif hans á heilsu og hagkerfi heimsins með þeim hætti að slíkt á sér vart fordæmi.

Það er undarlegt að lifa þá tíma að í fyrsta sinn síðan 1923 geti íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar tvö ár í röð.

Ég held að það dyljist engum að það er farið að gæta óþols eða svokallaðrar sóttvarnaþreytu hjá almenningi vegna faraldursins, en það er hins vegar ekki annað hægt en að hrósa íslensku þjóðinni fyrir þá gríðarlegu samstöðu sem hefur hjálpað okkur við að ná tökum á faraldrinum. Það er líka ljóst að íslenskt launafólk og almenningur ætlar að vinna saman að því að kveða niður þessa óværu og halda áfram að standa saman og fylgja fyrirmælum frá sóttvarnarlækni og hans teymi allt til enda.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið okkur gríðarlegum búsifjum enda er áætlað að verðmætasköpun þjóðarbúskapsins hafi dregist saman um hundruð milljarða.

Okkar helstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar hafa hlotið mikinn skell og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna sem stöðvaðist nánast allfarið um tíma vegna þess að flugsamgöngur lögðust af um allan heim.

Það þarf heldur ekkert að fara í grafgötur með þau áhrif sem faraldurinn hefur haft á atvinnuöryggi á vinnumarkaðnum og það blasir við að almenni vinnumarkaðurinn á Íslandi var eins og blóðugur vígvöllur vegna faraldursins. Á almenna vinnumarkaðnum starfa um 140 þúsund manns, en uppundir 60 þúsund starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Af þessum 140 þúsund manns sem starfa á almenna vinnumarkaðnum voru í mars 25.205 manns sem höfðu misst vinnuna að fullu eða að hluta, sem er um 18% af þeim sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en sára fáir hafa hins vegar misst vinnuna hjá hinu opinbera.

Það er ljóst að faraldurinn hefur leikið fjölmarga gríðarlega illa og nægir að nefna alla þá sem misst hafa lífsviðurværi sitt en sem betur fer hafa sumar atvinnugreinar komið nokkuð vel frá faraldrinum. Nægir þar að nefna fjölmargar verslanir og þjónustuaðila sem og þá sem starfa við sjávarafurðir. Það má ekki gleyma því að eftir að faraldurinn skall á þá stöðvuðust ferðalög Íslendinga erlendis sem gerði það að verkum að uppundir 200 milljarðar sem landsmenn eyddu á erlendri grundu komu inn í íslenskt hagkerfi og hjálpaði það verslun og þjónustu hér á landi.

En nú sér fyrir endann á þessum faraldri enda ganga bólusetningar hér á landi vel þessa dagana og er áætlað að hægt verði að aflétta öllum takmörkunum um mánaðarmótin júní/júlí ef ekkert óvænt kemur upp á eins og sóttvarnaryfirvöld hafa sagt opinberlega. Það horfir því til betri vegar hér á landi sem og um hina víðu veröld.

Ég er sannfærður um að ef það raungerist að bólusetningar gangi upp eins og að er stefnt muni hagkerfi okkar Íslendinga verða gríðarlega fljótt að taka við sér og milljónir ferðamanna muni verða komnir til landsins á nýjan leik áður en langt um líður. Nægir að nefna þá landkynningu sem Ísland hefur fengið á liðnum vikum vegna eldgossins á Reykjanesi sem og hið margfræga Húsavíkurlag sem sýnt var á dögunum á Óskarsverðlaunahátíðinni. Við eigum ekki að kvíða framtíðinni hvað ferðamenn áhrærir ef allt gengur upp hvað bólusetningar varðar.

 

Ágætu félagsmenn

Það var afar fróðlegt og í raun staðfesting á því sem stór hluti þjóðarinnar hefur lengi vitað að heyra háttsettan embættismann eins og seðlabankastjóra segja að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af sérhagsmunahópum.

Nægir að nefna að fyrir hrunið var Viðskiptaráð að státa sig af því að Alþingi hefði í 90% tilfella farið eftir tillögum Viðskiptaráðs hvað lagasetningar varðar.

Það blasir við að fjársterku fjármálaöflin sem tilheyra sérhagsmunaöflunum hafa stjórnað hér á landi og á það klárlega jafnt við útgerðarelítuna sem og fjármálaelítuna.

Það muna allir eftir markaðsvæðingu fjármálakerfisins fyrir hrun þar sem fjárglæframenn einkavæddu  gróðann og skattgreiðendur sátu uppi með tapið. Þessa sögu þekkjum við öll allt of vel. Íslensk heimili muna vel hvernig slegin var skjaldborg um fjármálakerfið á meðan íslenskum heimilum var fórnað á altari fjármálakerfisins.

Við Akurnesingar vitum líka hvernig útgerðarelítan svífst einskis þegar kemur að því að svipta fólk og sveitarfélög lífsviðurværi sínu og það fólk og sveitarfélög sem hafa byggt upp sjávarútveginn. En árið 2017 var nánast öllum aflaheimildum okkar Akurnesinga rænt um hábjartan daginn með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem byggðu afkomu sína á veiðum og vinnslu hér á Akranesi. En fyrirtækið Haraldur Böðvarsson sem stofnað var 1904 og hafði lifað af tvær heimsstyrjaldir þurfti að lúta í lægra haldi fyrir handónýtu regluverki í kringum sjávarauðlindina. Á einni nóttu var fyrirtæki sem greiddi laun sem námu 5,4 milljörðum tekið frá okkur og fært suður til Reykjavíkur.

Verkalýðshreyfingin verður að standa vörð um atvinnuöryggi fólksins í landinu og vinna bug á svona skemmdarverkum þar sem sérhagsmunaaðilar geta nýtt sér í eigin þágu sameiginlega auðlind þjóðarinnar - í þessu tilfelli sjávarauðlindina.

Ágætu félagar

Munum að öll þau réttindi sem íslenskt verkafólk telur í dag vera algerlega sjálfsögð, áunnust vegna þrotlausrar baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Réttindi eins og veikindaréttur, orlofsréttur, fæðingarorlof, uppsagnarfrestur, lágmarkshvíld, orlofs- og desemberuppbætur og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta réttindi sem hafa áunnist á liðnum árum og áratugum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar.

Stéttarfélögin gegna líka mjög veigamiklu hlutverki við að verja réttindi sinna félagsmanna, enda er leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup, kjör og önnur réttindi.

Sem betur fer eru langflestir atvinnurekendur heiðarlegir en trúið mér, inn á milli eru til atvinnurekendur sem eru algerir drullusokkar og víla ekki fyrir sér að svína á sínum starfsmönnum eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég vil í þessu samhengi upplýsa ykkur um að frá því að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness árið 2004 hefur félagið innheimt um 1 milljarð vegna kjarasamningsbrota á okkar félagsmönnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki verið að taka tillit til þeirra margfeldisáhrifa sem sum málin héldu síðan áfram að skila okkar félagsmönnum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að verja réttindi okkar félagsmanna með kjafti og klóm ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum þeirra.

Hins vegar er rétt að geta þess að stundum koma upp ágreiningsmál þar sem félagið og fyrirtæki á okkar félagssvæði þurfa að láta dómstóla skera úr um ágreiningsmál.

Félagið hefur á liðnum árum margoft þurft að stefna fyrirtækjum á okkar félagssvæði fyrir dómstóla vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun ákvæða í kjarasamningum.

Á þessu sést að félagið vílar ekki fyrir sér að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna ef minnsti vafi leikur á að verið sé brjóta á þeim. Það er rétt að geta þess að við höfum unnið nánast öll mál sem við höfum farið með fyrir dómstóla.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera aðili að öflugu stéttarfélagi til að verja hagsmuni sína og trúið mér Verkalýðsfélag Akraness lætur ekkert fyrirtæki fótum troða réttindi hjá okkar félagsmönnum.

 

Kæra launafólk

Trúið mér að það eru aðilar í íslensku samfélagi sem vilja veikja stéttarfélögin hér á landi og nægir í því samhengi að nefna hugmyndafræðina í kringum Salek samkomulagið sem Verkalýðsfélag Akraness fór fremst í broddi fylkingar við að brjóta á bak aftur.

Þótt það hafi tekist á sínum tíma að koma í veg fyrir að Salek samkomulagið yrði að veruleika eru enn margir með drauma um að koma því aftur af stað. Enda gengur sú hugmyndafræði út á að veikja og draga úr mætti stéttarfélaganna og gera verkalýðshreyfinguna miðstýrða þar sem völd stéttarfélaganna yrðu meira færð yfir til ASÍ og SA.

Þessi vegferð að færa völd frá stéttarfélögum yfir til ASÍ er reyndar löngu byrjuð enda hefur ASÍ á undanförnum árum verið að taka sér völd þrátt fyrir að engin lagastoð sé til staðar. Nægir að nefna í því samhengi að VLFA hefur verið í samningaviðræðum við Elkem á Grundartanga og komst að samkomulagi við fyrirtækið um að starfsmenn hefðu frjálst val um ráðstöfun á 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu.

Forseti ASÍ og SA segja nei, þið megið ekki semja um ykkar lífeyrisréttindi í ykkar kjarasamningum því við sjáum um að semja um lífeyrismál. Rétt er að geta þess að forseti ASÍ vill alls ekki að launafólk hafi val um ráðstöfun á sínum lífeyri. VLFA hafnar algerlega slíkri forræðishyggju en aðalmálið er að ASÍ er að taka sér vald sem ekki nokkur lagastoð er fyrir enda skýrt kveðið á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum, ekki ASÍ.

Það er ömurlegt að örfáir aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar vilji ekki gefa launafólki val um að ráðstafa sínum lífeyri. Nei, frekar að ástunda forræðishyggju sem gerir ekkert annað en að flækja lífeyriskerfið enn frekar og er þetta allt gert á grundvelli þess hversu mikilvæg samtrygging í lífeyriskerfinu sé.

Málið er að launafólk vill að stórum hluta setja 12% í samtryggingu og hafa val um að setja 3,5% í t.d. frjálsan viðbótarsparnað en rétt er að geta þess að það sem VLFA vill gera þvingar ekki nokkurn mann sem vill frekar setja 3,5% í samtrygginguna að gera slíkt, það eina sem VLFA vill er að fólk hafi val.

Í dag fer um 98% af 15,5% iðgjöldum launafólks á hinum almenna vinnumarkaði í samtrygginguna og er það vegna þess að kerfið er svo flókið að fólk skilur oft ekki hvað er í boði. Sem dæmi um hversu flókið kerfið er þá er til innan þess samtrygging, bundin séreign, tilgreind séreign og frjáls viðbótarsparnaður.

Ef þessi fámenni hópur innan ASÍ fengi að ráða þá færi allt í samtrygginguna og það þrátt fyrir að allir útreikningar sýni að í 90% tilfella tapar launafólk stórum upphæðum á að setja ekki 3,5% í séreign. Ástæðan er meðal annars samspil skerðinga frá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslna. En hvað með allt erlenda verkafólkið okkar sem kemur til að starfa hér á landi, sumir tímabundið og aðrir lengur?

Jú, staðan er þannig að lífeyrissjóðurinn sem tilheyrir VLFA greiddi 10.658 manns lífeyri á árinu 2020 og er þá verið að tala um allan lífeyri, elli-örorku-maka-og barnalífeyri, rétt er að geta Þess af þessum 10.658 voru 6.622 sem fengu ellilífeyrir greiddan frá lífeyrissjóðnum.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að af þessum voru 472 sem búa erlendis núna sem eru orðnir 67 ára og hafa rétt til að hefja töku lífeyris hafa ekki sótt um hann. Þetta eru 7,13% af heildarfjölda þeirra sem taka ellilífeyri hjá lífeyrissjóðnum.

Hugsið ykkur að samtryggingarkerfið gerir það að verkum að erlenda fólkið okkar sem hingað kemur og starfar og greiðir í sjóðina virðist ekki vita um rétt sinn og sækir ekki um og er það þetta sem „samtryggingarfólkið“ vill að gerist, að fjármunir sem fólkið hefur sannarlega áunnið sér inn renni ekki til þeirra. Eitt er víst að ef fólkið hefði val þá væri alla vega á hreinu að 3,5% sem væri eyrnamerkt hverjum launamanni í formi séreignar myndi renna til erlendu starfsmannanna.

 

Ágætu félagar

Stéttarfélögin þurfa að halda áfram að stíga þétt og ákveðin skref í átt að því að tryggja að lágtekjufólk geti lifað af sínum mánaðarlaunum og framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. En eins og staðan er í dag þá er slíku ekki til að dreifa þrátt fyrir að lífskjarasamningurinn hafi verið sá innihaldsríkasti sem gerður hefur verið fyrir lágtekjufólk um áratugaskeið.

Við þurfum að halda áfram á sömu braut og lífskjarasamningurinn þ.e.a.s að semja með krónutölum en ekki prósentum eins og gert var í lífskjarasamningnum, enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði. Við þurfum einnig að halda áfram að tryggja lágt vaxtastig eins og okkur tókst að gera samhliða lífskjarasamningnum, enda nægir að nefna að þúsundir heimila hafa endurfjármagnað sig á liðnum árum og mánuðum og lækkað greiðslubyrði sína í sumum tilfellum um tugi þúsunda á mánuði.

Við verðum að halda áfram að berjast fyrir réttlæti, jöfnuði og gegn spillingu í íslensku samfélagi og í þeirri baráttu gegna stéttarfélögin og félagsmenn þeirra stóru hlutverki.

Að lokum þetta, félagsmenn stéttarfélaganna þurfa að standa vörð um sjálfstæði sitt því það eina sem við þurfum ekki á að halda er forræðishyggja og miðstýrð verkalýðshreyfing eins og þróunin hefur verið á Norðurlöndunum þar sem stéttarfélagsaðild er í frjálsu falli.

Enn og aftur innilega til hamingju með baráttudag verkafólks!

27
Apr

Félagsmenn munu eiga rétt á endurgreiðslu vegna hótel og dvalar á tjaldsvæðum í sumar!

Orlofsstjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað á fundi sínum að styðja félagsmenn í því að ferðast innanlands með því að niðurgreiða fyrir félagsmenn hótelgistingu og dvöl á tjaldsvæðum um 50% að hámarki 10.000 kr.

Þessi niðurgreiðsla gildir frá 27. maí til 1. september og er tímabundin aðgerð til að koma til móts við félagsmenn vegna áhrifa af Kórónuveirufaraldrinum.

Þessi réttindaaukning til handa félagsmönnum VLFA er ekki sú eina enda ákvað stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness að hækka hámarksstyrkina í heilsueflingu og heilsufarsskoðun frá og með 1. maí næstkomandi. Heilsueflingarstyrkurinn hækkar úr 30.000 kr. í 40.000 kr. og heilsufarsskoðunarstyrkurinn hækkar úr 25.000 kr. í 30.000 kr.

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að bjóða félagsmönnum sínum upp á eins góða þjónustu og réttindi og kostur er. Það er mat VLFA að styrkir úr sjúkrasjóði til handa félagsmönnum séu með því besta sem gerist meðal stéttarfélaga innan ASÍ.

23
Apr

VLFA skilar inn umsögn um lífeyrismál

Verkalýðsfélag Akraness skilaði inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur VLFA lagst alfarið gegn þessu frumvarpi enda með ólíkindum að verið sé að lögbinda iðgjald með þeim þvingunum sem í því er fólgið. Það er staðföst trú VLFA að sjóðsfélagar og launafólk eigi að hafa val til að ráðstafa sínum lífeyrissparnaði eins og kostur er og því engin ástæða til að flækja lífeyriskerfið enn frekar með því að búa til enn eitt formið sem nú ber nafnið tilgreind séreign.

Það er rétt að geta þess að meginreglan í dag er sú að allt iðgjaldið rennur til lífeyrissjóðanna og fer í samtrygginguna ef launafólk lætur ekki vita að það vilji að 3,5% renni í séreign. Það er rétt að geta þess að um 98% launafólks er að greiða allt iðgjaldið inn í samtrygginguna en einungis um 2% hafa valið að setja 3,5% í tilgreinda séreign. Þetta er ekki vegna þess að launafólk hafi meiri trú á samtryggingarkerfinu heldur er það vegna vanþekkingar á hvernig kerfið virkar. Og með þessari lagabreytingu er verið að flækja kerfið enn frekar.

Það er með ólíkindum að það skuli vera ASÍ sem stuðlar að því að valfrelsi launafólks sé takmörkunum háð enda er það undarlegt hvernig er hægt að vera á móti því að launafólk hafi val um að ráðstafa 3,5% annað hvort í samtryggingu, tilgreinda séreign eða í frjálsan viðbótarsparnað. Af hverju má fólk ekki hafa þetta val? Það liggur fyrir að tilgreind séreign verður með þrengri skorður heldur en frjáls viðbótarsparnaður sem eru meðal annars fólgnar í því að fólk má ekki byrja að taka hana út fyrr en 62 ára í stað 60 ára og það má ekki nota tilgreinda séreign til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána eins og hefðbundinn viðbótarsparnaður heimilar.

Það er líka umhugsunarefni í ljósi þess að samningsrétturinn liggur hjá stéttarfélögunum, enda eru það stéttarfélögin sem eru að véla með lífsviðurværi launafólks í sínum kjarasamningum, skuli ekki hafa verið höfð með í ráðum við gerð þessa frumvarps.

 

Hér má skoða umsögnina

13
Apr

Ótrúleg vinnubörgð varðandi breytingu á lögum um lífeyrissjóði

Á fimmtudaginn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Þetta frumvarp lýtur að því að því að hækka lögfestingu á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðanna úr 12% í 15,5%. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að iðgjaldið renni inn í samtrygginguna en launafólk hafi heimild til að setja 3,5% af 15,5% í svokallaða tilgreinda séreign en það þurfi þá að hafa samband við viðkomandi lífeyrissjóð kjósi það að gera svo.

Það er einnig kveðið á um í frumvarpinu að launafólk eigi ekki að byrja að greiða í lífeyrissjóð 16 ára eins og nú sé heldur verði það við 18 ára aldur. Formaður spyr: eiga þá laun þeirra sem eru á aldrinum 16 til 18 ára að hækka sem nemur 11,5% eða eiga atvinnurekendur að hagnast á þessari breytingu sem nemur gjaldfrjálsum iðgjöldum upp á 11,5% í 2 ár?

Þetta þýðir sparnað fyrir atvinnulífið upp á tæpar 800 milljónir á ári. Hugsið ykkur það á að taka 800 milljónir af unga fólkinu og færa yfir til atvinnurekenda.

Ekkert mál að fresta greiðslum í lífeyrissjóði úr 16 árum í 18 ár en látið þá unga fólkið fá þessar 800 milljónir annaðhvort í formi 11,5% launahækkunar eða sem inneign í séreignasjóði.

Ekki „stela“ 800 milljónum af unga fólkinu á ári með því að lauma svona frumvarpi í gegn!

Það er fleira sem er alveg ótrúlegt í þessu frumvarpi en eins og lífeyrisþegar vita er lífeyririnn verðtryggður ef þannig má að orði komast og hann tekur breytingum samkvæmt neysluvísitölu Hagstofunnar og koma þær breytingar fram mánaðarlega í núgildandi lögum. En í frumvarpinu er kveðið á um að hækkun á lífeyri launafólks komi ekki til framkvæmda nema einu sinni á ári. Þannig að lífeyrisþegar fá ekki verðbætur ofan á verðbætur mánaðarlega eins og nú er.

Þetta þýðir að einstaklingur sem er 67 ára og er með 350 þúsund í lífeyri verður af verðbótum sem nema tæpum 70 þúsundum á ári miðað við 4% verðbólgu.

Frá 67 ára töku lífeyris til 83 ára aldurs væri búið að hafa af þessum lífeyrisþega rétt tæpar 2 milljónir króna!

Ekki lauma fram frumvarpi sem „stelur“ af lífeyrisþegum 2 milljónum af lífeyri þeirra með þessum breytingum á 16 ára tímabili á töku lífeyris. Væri fróðlegt að vita sparnað lífeyrissjóðanna ef þessi breyting færi í gegn. Ugglaust er um marga milljarða að ræða!

Já, ekkert mál breyta lögum í þessa átt hjá lífeyrisþegum en að gera slíkt á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna nei, það kemur þessari ríkisstjórn ekki til hugar. Ekkert mál að leggja verðbætur ofan á skuldir heimilanna í hverjum mánuði en það þarf að stoppa af að lífeyrisþegar fái verðbætur ofan á verðbætur í hverjum mánuði.

Þetta er alls ekki það eina sem er algjört rugl í þessu frumvarpi því það er tryggt að t.d. sjómenn sem eru með 12% hámark í lífeyrissjóð fari ekki í 15,5%, þá á að undanskilja frá lögunum. Já, stjórnvöld vilja koma vel fram við útgerðamenn og ekki leggja frekari álögur á þá.

Verkalýðsfélag Akraness hefur lengi barist fyrir því að launafólk hafi aukið val og frelsi til að ákvarða hvar og hvernig það ráðstafar sínum lífeyri. VLFA hefur barist fyrir því að auka rétt fólks til að setja sinn lífeyri í svokallaða frjálsa séreign en í dag er lágmarks iðgjaldið 12% en flestir eru að greiða 15,5% í iðgjöld. VLFA hefur barist fyrir því að launafólk ráði sjálft hvert það setur 3,5% sem eru umfram lágmarks iðgjaldið eins og lögin kveða á um í dag. Það eigi að hafa val hvort það setur það í samtrygginguna eða frjálsa séreign.

Nei þetta má ekki, allt skal renna til lífeyrissjóðanna og síðan á að lögfesta og flækja lífeyriskerfið enn frekar með einhverjum viðbótar bastarði sem ber heitið tilgreind séreign.

Það sorglega í þessu er að ekkert samráð var haft við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni af því að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna. En lífeyrisréttindi eru klárlega hluti af kjarasamningum stéttarfélaganna og það er á þeirra valdsviði samkvæmt öllum gildandi lögum.

Málið er að VLFA var langt komið með að semja við Elkem Ísland á Grundartanga um að 12% af 15,5% iðgjaldinu færi í samtrygginguna og starfsmenn mættu velja að setja 3,5% í frjálsa séreign ef þeir vildu svo.

Samtök atvinnulífsins og forseti ASÍ segja nei, það eruð ekki þið sem sjáið um að semja um lífeyrismál, þau eru á forræði SA og ASÍ. En orðrétt sagði forseti ASÍ í pósti til formanns um daginn: „Lífeyrissjóðirnir hvíla á kjarasamningi á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands en samningsumboðið er ekki hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig eins og löngu er orðið ljóst.“

Já stéttarfélögunum kemur þetta bara ekkert við né félagsmönnum þeirra þrátt fyrir að öll lög kveði á um annað.

Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir launafólk og því hefur félagið falið lögmanni VLFA að stefna ASÍ og Samtökum atvinnulífsins sem segja að samningsumboð stéttarfélaganna nái ekki yfir lífeyrismál í kjarasamningum. Slíkt þvaður hefur enga lagastoð!

Formaður VLFA skal fúslega viðurkenna að þessi skefjalausa meðvirkni með lífeyrissjóðskerfinu af hálfu forystu ASÍ er með öllu óskiljanleg. Formaður vill að haft verði samráð við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni í þessum málum og að lágmarksiðgjald verði áfram 12% en launafólk fái heimild til að ráðstafa viðbótinni sem er 3,5% í frjálsa séreign kjósi það svo.

VLFA hafnar því að SA og ASÍ geti tekið yfir lögvarða hagsmuni félagsins við að gæta að lífeyrisréttindum félagsmanna VLFA og á þeirri forsendu verður þessum aðilum stefnt fyrir félagsdóm.

Formann langar að spyrja ykkur launafólk: Viljið þið hafa val um að ráðstafa 3,5% af 15,5% í frjálsa séreign? Það er mitt mat að launafólk verði að láta í sér heyra til að koma í veg fyrir að fámenn klíka ákveði og miðstýri rétti launafólks varðandi hvar og hvernig það vill ráðstafa sínum lífeyri.

07
Apr

Helstu atriði sem koma fram í Tíund blaði ríkisskattstjóra um skuldir og eignir einstaklinga fyrir árið 2019

Helstu atriði frá ríkisskattstjóra vegna tekna og skulda einstaklinga vegna ársins 2019.

 

  • Launatekjur einstaklinga árið 2019 námu 1330 milljörðum
  • Greiðslur frá Tryggingastofnun námu 150 milljörðum
  • Atvinnuleysisbætur námu 19 milljörðum
  • Greiðslur úr lífeyrissjóðum námu 150 milljörðum
  • Greiðslur úr séreignasjóðum námu 12 milljörðum

 

Opinber gjöld einstaklinga

  • Samtals nam tekjuskattur einstaklinga 466 milljörðum.
    • Tekjuskattur ríkisins 206 milljarðar
    • Útsvar sveitarfélaganna 244 milljarðar
    • Útvarpsgjald 4 milljarðar
    • Framkvæmdasjóður aldraðra 3 milljarðar

 

Barna- og vaxtabætur

  • Barnabætur námu 12 milljörðum
  • Vaxtabætur námu 3 milljörðum

 

Skuldir og eignir einstaklinga

  • Heildar skuldir námu 2266 milljörðum
  • Heildar eignir einstaklinga námu 7557 milljörðum
    • Rétt er að geta þess að vegna hækkunar fasteignaverðs hækkuðu eignir um 444 milljarða á milli ára og skuldir jukust um 117 milljarða
    • Einnig er rétt að geta þess að af heildar eignum upp á 7557 milljarða er eign vegna fasteigna 5619 milljarðar. Mismunurinn milli skulda og heildar eigna er vegna eigna í innistæðum í bönkum, hlutabréfum, ökutækjum og öðrum eignum.

 

Vaxtagjöld

  • Einstaklingar greiddu í heildina 113 milljarða í vaxtagjöld árið 2019
    • Þar af námu vextir vegna íbúðarhúsnæðis 77 milljörðum.

Það vekur óneitanlega athygli að vaxtabætur hafa lækkað gríðarlega eða úr 6 milljörðum 2015 í 3 milljarða 2019 þrátt fyrir að heildar upphæð vaxtagjalda sé svipuð og hún var 2015. Skýringin liggur í skerðingum á hækkun á fasteignaverði sem er að mínu mati galið.

 

Niðurstaða

Það er mat mitt að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir almennt launafólk að vera miklu meira vakandi yfir því í hvað er verið að eyða skatttekjum almennings enda eins og þarna kemur fram nema útsvarstekjur og tekjuskattur ríkissjóðs hátt í 500 milljörðum króna af launatekjum launafólks.

 

Vissulega er það líka afar athyglisvert að heildar eignir einstaklinga og heimila skuli nema 5291 milljarði meira heldur en skuldir og er það jákvætt svo langt sem það nær enda held ég að þarna endurspeglist umtalsverð misskipting, óréttlæti og ójöfnuður á milli hinna tekjulágu og tekjuháu.

 

Vissulega ber þó að nefna að sú gríðarlega hækkun fasteignaverðs sem orðið hefur á liðnum árum er í raun og veru ekkert annað heldur en bókhaldsleg hækkun enda liggur fyrir að ef fólk þarf að selja eina eign sem hefur hækkað mikið í verði þarf það væntanlega að kaupa nýja með sömu hækkun.

 

Það er einnig rétt að geta þess að þessi samantekt ríkisskattstjóra sem fram kemur í Tíund er fyrir árið 2019 og má ætla að vaxtagjöld almennings fyrir árið 2020 verði umtalsvert lægri heldur en þau voru fyrir árið 2019 enda hafa vaxtakjör lækkað mikið sem hefur gert það að verkum að ráðstöfunartekjur skuldsettra heimila hafa aukist töluvert í kjölfar endurfjármögnunar heimilanna á húsnæðislánum sínum.

 

En aðalmálið er að koma í veg fyrir misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuð og jafna byrðar þess sem lítið hafa og þeirra sem meira hafa.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image