• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Opið fyrir orlofshúsaumsóknir sumarið 2021

Nú er búið að opna fyrir umsóknir í orlofshúsin okkar í sumar.

Á sumrin er boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, Kjós og öllum þremur íbúðunum á Akureyri.

Alls á félagið 11 íbúðir/sumarhús.   Við höfum einnig verið með á leigu sumaríbúð í Vestmannaeyjum. 

Vegna fjölda ábendinga munu skiptidagar verða miðvikudagar.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins.

Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli.

Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá eldri úthlutað. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar.

Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á Félagavefnum og á skrifstofu félagsins.

Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Hér eru helstu dagssetningarnar varðandi sumarið: 

26. mars - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

29.mars - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)

12. apríl  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

13.apríl  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

 - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

21.apríl - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

Hér er hægt að skrá sig inn á félagavefinn

Hér er bæklingurinn um sumarhúsin 

Hér er umsóknareyðublað sem hægt er að prenta út.

10
Mar

Fundað í kjaradeilu VLFA og Elkem Ísland

Samningafundur var haldinn vegna kjarasamnings félagsins við Elkem Ísland í gær. Ágætis gangur var í viðræðunum í gær en búið er að samlesa kjarasamninginn og taka út þau ákvæði og bókanir sem ekki eiga við lengur.

Einnig var launaliðurinn og atriði honum tengd til umræðu á fundinum og miðað við ganginn í viðræðunum og þann árangur sem náðist í gær þá telur formaður allt eins líklegt að það takist að klára samninginn í næstu viku.

En rétt er að geta þess að samningurinn rann út um síðustu áramót og eru því liðnir rúmir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út en að sjálfsögðu mun samningurinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út.

Næsti fundur verður í næstu viku en enn standa örfá atriði útaf og því getur alveg brugðið til beggja vona um að það takist að klára nýjan kjarasamning í næstu viku. En formaður eygir þá von að þau atriði sem útaf standa leysist einnig farsællega.

Eins og áður hefur komið fram þá byggist kjarasamningurinn upp á sambærilegum launabreytingum og samið var um hjá Norðuráli en sá samningur gaf rúm 7% í upphafshækkun í heildina.

04
Mar

Víkingur Ak 100 landaði fullfermi af loðnu til vinnslu á Akranesi

Í morgun kom aflaskipið Víkingur Ak 100 með fullfermi af loðnu til löndunar hér á Akranesi en skipið tekur um 2000 tonn. Stórhluti skipverja tilheyra sjómannadeild VLFA og fór formaður niður á bryggju og tók þá tali en fram kom í máli þeirra að ánægjulegt sé að loðnuveiðar hafi verið heimilaðar á nýjan leik eftir tveggja ára stopp.

Loðnan sem Víkingur Ak 100 kom með í morgun er flokkuð, hrygnan skorin, hrognin skilin frá og þau fryst. Hratið sem þá verður eftir og hængurinn, er brætt og þurrkað í mjöl í verksmiðjunni hér á Akranesi.

Þessi vinnsla skilar jafnan mestri framlegð á hverri vertíð. En hrognin fara ekki öll beint út fyrir bæjarmörkin. Vignir G. Jónsson er dótturfélag Brims á Akranesi sem vinnur ýmiss konar afurðir úr hrognum. Hluti þessara loðnuhrogna fer því í áframvinnslu hjá Vigni þar sem Masago er helsta afurðin - lituð hrogn sem notuð eru í sushi.

04
Mar

Skipverjar á Víking Ak 100, Akurey Ak 10 og Venus NS 150 fá endurgreiðslu vegna nýsmíðaálags

Nú er búið að yfirfara þau nýju skip sem gátu nýtt sér ákvæði kjarasamnings sjómanna um lækkun skiptaprósentu vegna nýsmíði.

 

Sú yfirferð leiddi í ljós að fjölmargir sjómenn sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og eru á Venusi, Víkingi og Akurey eiga rétt á endurgreiðslu vegna svokallaðs nýsmíðaálags.

 

En á Venusi og Víkingi Ak 100 þarf útgerð þeirra skipa að greiða 11,11% bætur til skipverja vegna ársins 2020. Einnig þarf útgerð Akureyjar Ak 10 að greiða skipverjum 9,4% bætur vegna ársins 2020.

 

Samkvæmt skoðun formanns þá er ljóst að sjómaður t.d. á Venusi og Víkingi sem voru með heildarlaun á árinu 2020 í kringum 16 milljónir gætu átt von á leiðréttingu sem nemur tæpum 2 milljónum króna.

 

Reiknar formaður með því að þessi leiðrétting verði greidd til umræddra skipverja á næstu dögum.

02
Mar

Félagsmenn athugið- frítt að veiða í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði

Eins og undanfarin ár þá býður Verkalýðsfélag Akraness öllum sínum félagsmönnum að veiða frítt í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði allt sumarið 2021 eða nánar tiltekið frá og með 1. apríl til og með 25. september. Um er að ræða norðanvert Eyrarvatn, allt Þórisstaðavatn og allt Geitabergsvatn. Leyfið gildir fyrir 1 félagsmann með 1 veiðistöng, en hann má bjóða með sér frítt 3 börnum sem eru 15 ára eða yngri.

Félagsskírteini hjá Verkalýðsfélagi Akraness gildir og skal hann framvísa því ef þess er óskað hjá veiðivörðum. Veiðitímabilið er frá og með 1. apríl til og með 25. september. Daglegur veiðitími er kl. 7-23 en eftir 20. ágúst kl. 7-21

Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn.

25
Feb

Nám fyrir fólk í atvinnuleit, örfá sæti laus

NTV skólinn í samstarfi við Vinnumálstofnun býður einstaklingum í atvinnuleit uppá sérstakt námskeið í „Sölu-, markaðs- og rekstrarmálum“ sem byrja nú í vikulok og standa yfir fram í byrjun júnímánaðar.

Námskeiðin eru tvö aðskilin námskeið þar sem annað er á íslensku og hitt er kennt á ensku.

Námskeiðin verða keyrð sem staðarnám og fjarnám.

Námskeiðin byggja á námsbrautinni „Sölu-, markaðs- og rekstrarnám“ sem NTV skólinn hefur boðið í mörg ár.

VMST niðurgreiðir námskeiðin þannig að hlutur þátttakenda er 28.000,- kr. Þátttakendur eiga möguleika á að sækja sinn hluta í starfsmenntasjóði.

VMST þarf að samþykkja hvern og einn umsækjanda inn á námskeiðin.

 

Námskeiðin byrja strax – Örfá sæti laus.

Almennt um námið
Sölu-, markaðs- og rekstrarnám NTV og Mímis-símenntunar hentar sérstaklega þeim sem hafa áhuga á að vinna við viðskipta-, sölu- og markaðsmál og þeim sem vilja stofna til eigin reksturs. Eftir námið hefur nemandinn öðlast nægjanlega innsýn og færni í viðskipta-, markaðs- og sölumálum til að undirbúa eigin rekstur eða til að starfa sem sölu- og markaðsfulltrúi stærri fyrirtækja.

Námið samanstendur af kennslu og verklegum æfingum og eru próf í helstu námsgreinum. Rétt er að gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu. Í lok náms fá nemendur viðurkenningarskjal og prófskírteini.

Öll fög í náminu eru kennd frá grunni. Námið er haldið í samvinnu við Mími - símenntun.

Kennt er eftir vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er námið á 2. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Mögulega er hægt að meta námið til allt að 22 eininga á framhaldsskólastigi en það fer eftir mati þess skóla sem nemendur sækja um, hve margar einingar eru samþykktar. Ekki er tryggt að námsmaður geti nýtt allar einingar til styttingar á námi í framhaldsskóla, það fer eftir tegund náms og námsferli viðkomandi námsmanns.

Hér er linkur á námskeiðsupplýsingar á íslensku

Here are more information in english

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image