• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Aug

Nýtt sumarhús

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á bústað sem staðsettur er að Ásenda 9 í Húsafelli. Bústaðurinn er einstaklega vel skipulagður en hann var byggður árið 2009 og hefur verið í einkaeigu síðan þá.

23
Aug

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins

Stjórn Landssambands lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins og að sjálfsögðu var formaðurinn við þeirri ósk.

Ástæða þess að stjórn lífeyrissjóða óskuðu eftir að funda með formanni félagsins var eins og kom fram á fundinum í gær að hann hefur verið mjög gagnrýnin á lífeyriskerfið á opinberum vettvangi.

Formaðurinn fór yfir með stjórn Landssambands lífeyrissjóða hvað það er sem hann er óánægður með og var af nægu að taka hvað það varðar. Hann byrjaði á því að tala um tekjuskerðingar af hálfu Tryggingarstofnunar en það má segja að ábyrgð lífeyrissjóðanna hvað skerðingar varðar er ekki á þeirra ábyrgð heldur stjórnvalda.

En það er morgunljóst að þær tekjuskerðingar hafa að hluta til grafið undan trausti almennings á lífeyrissjóðskerfinu enda var hugsun sú þegar lífeyrissjóðirnir voru settir á 1969 að þeir ættu að vera viðbót við almannatryggingarkerfið. Formaður fór yfir það að mjög brýnt sé að verkalýðshreyfingin taki af krafti á þessum tekjuskerðingum og geri skýlausa kröfu á stjórnvöld að dregið verði verulega úr þeim eða jafnvel afnumdar með öllu.

Formaður fór einnig yfir að hann teldi það gjörsamlega glórulaust að sjóðirnir væru með 3100 af 4100 milljörðum í íslensku hagkerfi. Hann nefndi að það gengi ekki upp að það þyrfti á annað hundrað milljarða til að fóðra ávöxtun á innlendum eignum lífeyrissjóðanna enda væru það almenningur sem þurfti að sjá um að greiða fyrir þessa ávöxtun. Hann sagði jafnfram að það væri ekki í þágu neytenda að lífeyrissjóðirnir ættu orðið yfir 50% af skráðum eignum í Kauphöllinni og það væri ekki eðlilegt að sjóðirnir væru með ráðandi hluti í verslunarkeðjum, fjarskiptafyrirtækjum, flugfélögum, tryggingarfélögum, olíufélögum og svona mætti lengi telja. Formaður sagði að það væri morgunljóst að rík krafa er gerð á þessi fyrirtæki sem lífeyrissjóðirnir eiga að þau skili góðum arði til eigenda sinna. Það verður ekki gert með öðrum hætti en að vöruverði er haldið uppi sem og kaupgjaldi og því bitnar þetta illilega á sjóðsfélögunum sjálfum. Formaður nefndi að það gæti vart verið tilviljun að norski olíusjóðurinn fjárfesti nánast eingöngu erlendis.

Formaður kom einnig inná það við stjórn landsambandsins að það væri nöturlegt að sjóðirnir væru að fjárfesta í leigufélögum eins og t.d. Almenna leigufélaginu sem og Heimavöllum enda lægi fyrir að verið er að níðast illilega á leigjendum þessi misserin og það liggur einnig fyrir að leiguverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Mörg dæmi eru um að verið sé að leigja tveggja til þriggja herbergja íbúðir á 200 til 300 þúsund á mánuði. Formaður fór sérstaklega yfir það að þarna væri verið að níðast á þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, þar er að segja tekjulágt fólk, öryrkjar og aldraðir og því væri það sorglegt að verið sé að nota fjármuni sjóðsfélaga í fjárfestingar í slíkum leigufélögum.

Formaður fór einnig fyrir svokallaða tilgreinda séreign sem væri með ólíkindum að hafi verið sett á laggirnar enda var ekkert samið um tilgreinda séreign í kjarasamningum. Þessu til viðbótar væri grátbroslegt að þeir sem kvarta yfir tekjuskerðingum vilja að tilgreinda séreignin verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun. Formaður sagði að hann ætlaði að beita sér af alefli í komandi kjarasamningum að þessu yrði breytt þannig launafólk hafi val um að setja 3,5% aukaframlagið sem samið var um í frjálsséreign.

Formaður fór ítarlega yfir með stjórn landsambandsins að það væri ömurlegt að horfa upp á lífeyrissjóðina horfa aðgerðalausa á þegar fyrirtæki sem sjóðirnir eiga stóra hluti í, skammta forstjórum og lykilstjórnendum gríðarlegar kauphækkanir, bónusa og kaupréttasamninga. Þetta aðgerðaleysi lífeyrissjóðanna hefur m.a. garfið undan trausti til þeirra eins og kom t.d. í ljós þegar forstjóri N1 fékk launahækkun sem nam 1 milljón á mánuði en þarna sátu lífeyrissjóðirnir með hendur í skauti og aðhöfðust ekkert. Formaður sagði afar mikilvægt væri að sjóðirnir létu hérna vel í sér þegar svona sjálftaka af hálfu stjórnenda fyrirtækja í eigu lífeyrissjóðanna væru framkvæmdar og ekki bara að láta í sér heyra heldur nota afl sitt til að stöðva svona sjálftöku enda misbýður þetta siðferðisvitunda almennings.

Formaður fór einnig yfir það gríðarlega óréttlæti sem látið er átölulaust er viðkemur fjölda öryrkja í verkamannasjóðunum en þar er örorkubyrðin miklu hærri en í öðrum sjóðum og sem dæmi þá eru um 20% af virkum sjóðsfélögum í Festu lífeyrissjóði öryrkjar og um 32% allra greiðslna úr sjóðnum á síðasta ári var vegna örorku og það sama er upp á teningum hjá Gildi lífeyrissjóði. Hvaða samtrygging er fólgin í því að skerða þurfi réttindi í verkamannasjóðnum m.a. vegna þess að þar er örorkubyrðin mun meiri en í öðrum sjóðum. Það verður að tryggja að stjórnvöld komi með greiðslu til verkamannasjóðanna sem dekkar þessa umfram örorkubyrði.

Þessi fundur var bara nokkuð góður enda fór formaður félagsins yfir mikið af þeim atriðum sem hann hefur gagnrýnt lífeyriskerfið um á liðnum árum og það merkilega í þessu öllu saman var að stjórn landssambands lífeyrisjóða sagði að þau væru nánast sammála formanni í öllum atriðum.

Nú er bara að vona að lífeyrissjóðirnir fari eftir þessum ábendingum formanns, þannig að tiltrú almennings á kerfinu aukist, enda veitir ekki af.

17
Aug

Samanburður á óverðtryggðum húsnæðisvöxtum

Það er sorglegt hvernig níðst er á íslenskum neytendum þegar kemur að okurvöxtum, verðtryggingu og þeim þjónustugjöldum sem neytendum er gert að greiða í þeirri fákeppni sem ríkir á íslenskum fjármálamarkaði.

Formaður félagsins hefur verið að kanna þau vaxtakjör sem eru í boði í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þá kemur í ljós eins og margoft hefur komið fram að gríðarlegur munur er á þeim vaxtakjörum sem íslenskum heimilum er gert að greiða í húsnæðisvexti miðað við þau lönd sem við berum okkur oft við þegar kemur að lífgæðum.

Á Íslandi eru breytilegir óverðtryggðir húsnæðisvextir í dag 6,2% en það þýðir að íslensk heimili sem eru með 25 milljóna húsnæðislán þurfa að greiða rúma 1,5 miljón í vexti á ári eða sem nemur rúmum 129 þúsundum á mánuði.

Ef íslenskum heimilum stæði til boða sambærilegir vextir og eru t.d. Danmörku þá væri vaxtakostnaður á ári 550 þúsund eða sem nemur tæpum 46 þúsundum á mánuði. Þetta þýðir að íslensk heimili greiða miðað við 25 milljóna húsnæðislán 83 þúsundum kr. meira í vaxtagreiðslur í hverjum mánuði eða sem nemur tæpri 1 milljón á ársgrundvelli.

Munurinn væri enn meiri ef íslenskum heimilum væri boðið upp á sömu vaxtakjör og eru í Finnlandi, en þá væru íslensk heimili að greiða 1,3 milljónum minna á ári eða sem nemur 106 þúsundum í hverjum mánuði.

Það er morgunljóst að það er verið að níðast í íslenskum neytendum eins og enginn sé morgundagurinn og því verður íslensk verkalýðshreyfing að taka á þessu skefjalausa ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola af fullri hörku í komandi kjarasamningum.

Svo eru atvinnurekendur og stjórnvöld hissa á að verkalýðshreyfingin þurfi að sækja af alefli fram í launakröfum þegar það blasir við að neytendur eru að greiða allt að 106 þúsundum meira í vaxtakostnað á mánuði miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við!

Hérna að neðan má sjá samanburð á óverðtryggðum húsnæðisvöxtum og vaxtakostnaði miðað við 25 milljóna húsnæðislán:

 

Húsnæðislán óverðtryggt

Vaxtakostnaður á ári

Vaxtakostnaður á mánuði.

Ísland

25.000.000 kr

1.550.000

129.167 kr

Bandaríkin

25.000.000 kr

                     925.000

77.083 kr

Kanada

25.000.000 kr

                     875.000 

72.917 kr

Tékkland

25.000.000 kr

                     750.000 

62.500 kr

Noregur

25.000.000 kr

                    600.000 

50.000 kr

Danmörk

25.000.000 kr

                     550.000 

45.833 kr

Bretland

25.000.000 kr

                     550.000 

45.833 kr

Þýskaland

25.000.000 kr

                     525.000 

43.750 kr

Svíþjóð

25.000.000 kr

                     475.000 

39.583 kr

Spán

25.000.000 kr

                     400.000 

33.333 kr

Austurríki

25.000.000 kr

                     375.000 

31.250 kr

Ítalía

25.000.000 kr

                      375.000 

31.250 kr

Finnland

25.000.000 kr

                     225.000 

18.750 kr

15
Aug

Meðallaun hæst í Norðuráli

Það er nokkuð athyglisvert að skoða meðallaun nokkurra fyrirtækja sem félagsmenn VLFA starfa hjá en félagið skoðaði meðallaun hjá 16 launagreiðendum fyrir febrúar mánuð og það þarf ekki að koma á óvart að meðallaun hjá Norðuráli eru hæst.

Hins vegar er rétt að geta þess að hér er um heildar meðallaun að ræða þar sem ekki er tekið tillit til vinnustundafjölda, vaktafyrirkomulags, né hvort um skert starfshlutfall sé að ræða.

Meðal heildarlaun hjá starfsmönnum Norðuráls sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness voru í febrúarmánuði rétt tæp 660 þúsund á mánuði og hjá starfsmönnum Skagans voru meðallaunin rétt tæp 650 þúsund á mánuði. En meðallaun hjá Norðuráli, Skaganum, Þoreir og Ellert og Elkem Ísland voru öll frá 640 þúsundum í tæp 650 þúsund á mánuði.

Lægst voru meðallaunin hjá starfsmönnum á Sjúkrahúsi Akraness og Akraneskaupstað en rétt er að vekja sérstaka athygli á að fjölmargir sem starfa á þessum stöðum eru í skertu starfshlutfalli og því gefa meðallaunin á þessum stöðum ekki rétta mynd af launum fyrir 100% starf.

Hins vegar liggur fyrir að langflestir eru í 100% störfum hjá öllum hinum fyrirtækjunum og því eiga meðal heildarlaunin að gefa rétta mynd þar en að sjálfsögðu er vinnustundafjöldin misjafn á milli fyrirtækja.

 

Hérna eru meðallaun þessara 16 fyrirtækja og stofnanna:

 

Norðurál

       659.832  

Skaginn

       647.713  

Þ&E

       641.415  

Elkem

       640.754  

Smellinn

       603.282  

Snókur

       592.885  

Akraborg

       584.538  

Klafi

       554.113  

Spölur/Gjaldskýli

       472.192  

ÞÞÞ

       451.940  

Norðanfiskur

       431.739  

Kynnisferðir

       404.133  

Vignir G Jónsson

       372.252  

N1

       298.996  

Akraneskaupstaður

       251.941  

Sjúkrahúsið

       217.042  

Meðaltal

       489.048  

27
Jul

VLFA mun stefna Norðuráli fyrir Félagsdóm

Í gær fundaði formaður með framkvæmdastjóra og mannauðsstjóra Norðuráls þar sem farið var yfir hin ýmsu mál. Þau kynntu fyrir formanni átak fyrirtækisins í öryggismálum sem ber heitið „Öll saman“ en það gengur út á að gera vinnustaðinn eins öruggan og kostur er og að allir komi ætíð heilir heim.

Einnig fóru þau yfir hugsanlega stækkun á Steypuskálanum en það er framkvæmd sem mun kosta allt að 12 milljarða króna en ef af stækkuninni verður þá mun hún taka allt að tvö ár í framkvæmd. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir enda mun stækkun á Steypuskálanum leiða til fjölgunar á starfsmönnum og getur sú fjölgun numið allt að 30 til 40 starfsmönnum.

Formaður tók einnig upp mál á fundinum sem lýtur að ágreiningi sem félagið hefur átt við forsvarsmenn fyrirtækisins um túlkun á grein 2.13.5 í kjarasamningi félagsins við Norðurál en þetta er grein sem lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi eða með öðrum orðum að ef starfsmenn vinna samfellt í 7 daga þá eigi þeir rétt frítöku sem nemur 8 tímum á dagvinnulaunum.

Um þetta mál hefur verið ágreiningur en fyrirtækið telur að þessi grein kveði ekki á um skyldu fyrirtækisins til greiðslu með þeim hætti sem VLFA telur að eigi að vera ef menn vinna meira en 7 daga samfellt.

Formaður fór yfir með framkvæmdastjóra og mannauðstjóra Norðuráls að nýlega hafi VLFA unnið svona mál fyrir Hæstarétti þar sem viðurkennt væri að ef starfsmenn vinna meira en 7 daga samfellt og starfsmenn fá ekki vikulegan frídag þá beri að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir það.

En stjórnendur og lögmenn Norðuráls telja hins vegar að grein í samningi Norðuráls sé ekki eins og í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði og því eigi þessi dómur ekki við hvað starfsmenn Norðuráls varðar. Þessu er Verkalýðsfélag Akraness algerlega ósammála og því var það niðurstaðan að VLFA og Norðurál eru sammála um að vera ósammála um túlkun á þessari grein og fá dómstóla til að skera úr um hvort VLFA eða Norðurál hafi rétt fyrir sér í þessu máli.

Því mun VLFA stefna Norðuráli fyrir félagsdóm vegna þessa ágreinings í haust til að fá niðurstöðu í málið og er það gert í fullri sátt við forsvarsmenn Norðuráls enda eru dómstólar til þess að skera úr ágreiningi um túlkun á kjarasamningum ef aðilar koma sér ekki saman um túlkun.

27
Jul

Starfsmenn Hvals hf. geta valið á milli Verkalýðsfélags Akraness og Stéttarfélags Vesturlands

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá meinaði Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðfélagi Akraness á yfirstandandi hvalvertíð.

Ástæða fyrir því að forsvarsmenn Hvals hf. meinuðu starfsmönnum um að vera í VLFA liggur fyrir að mati formanns VLFA en það liggur í því að félagið stefndi Hval hf. vegna brota á kjörum starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi sem og vegna brota á greinum í gildandi kjarasamningi.

En eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness þetta mál bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti og þurfti Hvalur hf. að greiða starfsmanni um 700 þúsund krónur með dráttarvöxtum. En rétt er að geta þess að fordæmisgildi dómsins er gríðarlegt enda allir ráðningarsamningar starfsmanna nákvæmlega eins og því mun þessi dómur getað kostað Hval hf. allt að 300 milljónir.

Til að reyna að ná sér niður á Verkalýðsfélagi Akraness þá vildi Hvalur hf. meina öllum starfsmönnum að vera í VLFA og tjáðu forsvarsmenn Hvals hf. starfsmönnum að þeir yrðu að vera í Stéttarfélagi Vesturlands. Rétt er að vekja athygli á því enn og aftur að Hvalstöðin í Hvalfirði er að félagssvæði beggja stéttarfélaganna þ.e.a.s VLFA og Stéttarfélags Vesturlands, einnig eru bæði stéttarfélögin með gildandi kjarasamning um þau störf sem innt eru að hendi í Hvalstöðinni.

Rök Hvals hf. fyrir því að starfsmenn mættu ekki vera í VLFA var sú að fyrirtækið reyndi að telja starfsmönnum í trú um að í gildi væri kjarasamningur frá árinu 1977 þar sem kveðið væri á um að forgangur að störfum í Hvalstöðinni tilheyrði Verkalýðsfélaginu Herði sem sameinaðist Stéttarfélagi Vesturlands árið 2006.

Að sjálfsögðu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness þessu harðlega, enda ekkert annað en dulbúnar hefndaraðgerðir vegna þess að VLFA stóð sína vakt við að verja réttindi sinna félagsmanna með því að höfða dómsmál vegna vangoldina launa eins og áður sagði sem vannst fyrir Hæstarétti.

Þessu grófa ofbeldi forsvarsmanna Hvals hf. mætti Verkalýðfélag Akraness af fullri hörku og stefndi Hval hf. fyrir félagsdóm en málið verður tekið þar fyrir í ágúst. En núna berast fréttir af því að forsvarsmenn Hvals hf. séu að bakka í þessu máli vegna þess að VLFA lætur ekki vaða yfir sig þegar kemur að réttindum sinna félagsmanna.

En samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur fengið frá starfsmönnum þá eiga starfsmenn núna að skrifa á blað sem forsvarsmenn Hvals hf. hafa dreift, í hvoru stéttarfélaginu starfsmenn vilja vera. En rétt er að geta þess að yfir 50 starfsmenn Hvals hf.  höfðu undirritað beiðni sem VLFA útbjó fyrir þá, þar sem þeir óskuðu eftir að vera í Verkalýðsfélagi Akraness.

Formaður hefur t.d. fundað með starfsmönnum vegna þessa máls og það var gríðarlega ánægjulegt að verða vitni að þeirri miklu samstöðu starfsmanna í þessu máli enda neituðu þeir að skrifa undir ráðningarsamninga þar sem kveðið var á um að þeim væri hafnað að greiða til VLFA.

Það lítur allt út fyrir að núna muni starfsmenn geti valið á milli VLFA og Stéttarfélags Vesturlands og því ljóst að festa starfsmanna og Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli hefur sett þetta mál í þennan farveg sem nú virðist liggja fyrir. Það er mikilvægt fyrir atvinnurekendur að átta sig á því að VLFA lætur ekki vaða yfir sig og félagið vílar ekki fyrir sér að mæta slíku ofbeldi atvinnurekenda að fullri hörku

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image